Dagur - 05.09.1992, Blaðsíða 11

Dagur - 05.09.1992, Blaðsíða 11
10 - DAGUR - Laugardagur 5. september 1992 Aður en núverandi kvótakerfí var tekið upp í sjávarútveginum var það draumur allflestra ungra manna í sjávarplássum víðs vegar um landið að komast sem fyrst á sjó, og litu margir ungir menn á sína fyrstu sjóferð sem eins konar manndómsvígslu. Eftir því sem þeir voru yngri því meiri hetjur voru þeir í augum félaga sinna enda voru þeir ósparir að segja af sér hreystisögur af sjónum. Þorvaldur Baldvinsson er fæddur og uppalinn á Arskógsströnd og hafði eins og fleiri unglingar sem alast upp við sjávarsíðuna farið sína fyrstu sjóferð um ferm- ingaraldurinn á átta tonna báti með föðurbróður sínum og síðan lögboðinni skólagöngu lauk hefur Þorvaldur, eða Lalli eins og hann er kallaður, verið á sjó, þó mis- jafnlega mikið. Þegar skólagöngunni lauk var stefnan tekinn á sjóin og þar með var ævistarfíð ákveðið, a.m.k. þar til þorskinum fór að fækka óhæfílega í hafínu að mati fískifræðinga og stjórnvöld fóru að stjórna físk- veiðum í formi kvóta. Lalli í Sœlandi í helgarviðtali: „Með minnkandi fiskveiðikvóta fer kaupgeta almennings þverrandi" Fyrsti báturinn sem Þorvaldur var á hét Sverrir og var róið á hefðbundin mið út við Grímsey, við Gjögrana, á Fljótagrunnið eða austur í Fjörðu, en þangað róa bátarnir enn þann dag í dag. 8 tonna bátur þótti stórt skip í þá tíð og mikill fengur að fá að róa á slíku fleyi. Ekki byrjaði sjómennskan vel því hann braut báða fæturna í spili á bátnum Draupni sem föðurbróðir hans átti þá og átti hann lengi í þeim meiðslum og á reyndar í þeim enn. Framtíðin bundin sjósókn - En var ekkert í huga hans annað en að gerast sjómaður? „Jú, mér var búið að detta ýmislegt í hug en það var bara ekkert tækifæri til að gera neitt annað á Árskógsströnd og ég vildi ekki flytja burt. Ég flutti svo til Dalvíkur þegar ég gifti mig og hélt áfram sjómennsku þar enda var ég orðinn svo ánetjaður sjó- mennsku að ég hugsaði ekki um neitt annað. Þegar menn byrja ungir á sjónum eiga þeir mjög erfitt með að rífa sig frá því aftur. Á þessum árum voru miklir mögu- leikar fyrir duglega menn í góðum plássum að hafa góðar tekjur og því ekki eftirsókn- arvert að koma í land. Það á við víða í dag en virkilega góðum plássum hefur fækkað töluvert. Það var mjög algengt að menn réru á smærri bátunum, sem þeir áttu jafn- vel sjálfir, fyrri hluta sumars og fóru svo á síld á sumrin og haustin og síðan á vertíðar- báta á veturna. Þannig var vinnuhringurinn hjá mörgum,“ segir Þorvaldur. - Hvenær eignast þú svo fyrsta bátinn? „Fyrsta bátinn eignast ég svo 1965, en það var átta tonna bátur sem hét Sæbjörg sem ég keypti á Hjalteyri. Þetta var erfið útgerð því báturinn bilaði mikið og segja má að fyrstu tvö árin hafi farið í viðhald og viðgerðir. Maður hljóp ekki inn í banka til að sækja peninga til að fjármagna viðgerðir því pen- ingar lágu ekki á lausu á þessum árum. Ég keypti bátinn í lok síldarævintýrisins og því má segja að ég hafi gert kaupin á hagstæð- um tíma, en hins vegar hafði ég verið mörg ár á ýmsum síldarbátum. Síðan tók við ann- að síldarævintýri í Norðursjó en ég tók ekki þátt í því ævintýri nema rétt í upphafi. Þegar ég byrjaði á sjó voru smærri bát- arnir eingöngu á handfærum og línu en þeir fara síðan ekki á net fyrr en um 1960 og þeg- ar ég keypti minn fyrsta bát voru flestir komnir með net og eins með dragnót sem miklar vonir voru bundnar við. Síðar hafa margir fengið hálfgerðan ímugust á henni.“ Viðskipti með báta hrakfallasaga - Þú hefur Iíka verið ótrúlega óheppinn í viðskiptum með báta? „Erfiðasta tímabilið var á árunum 1977 til 1980 en þá seldi ég tvo báta vegna erfið- leika. Annar þeirra sökk og kaupandi hins varð gjaldþrota og þar tapaði ég stórfé en ég hafði ekki fengið greidda eina krónu í öðr- um þeirra og lítið í hinum. Það tók mig ein sjö ár að rétta úr þeim kút aftur. Þegar byrj- að var að stjórna fiskveiðum með fiskveiði- kvóta, banndögum o.fl. sá ég að ekki væri möguleiki á því að Iifa af fiskveiðum til langframa og því fór ég að huga að því að réttast væri að taka sér eitthvað annað fyrir hendur. Með aflareynslunni var afli meiri á hvern úthaldsdag og ég hafði hugsað mér að róa einn en eftir kvóta var ég um hálft ár að ná honum. Tekjur voru viðunandi með því að öllum kostnaði var haldið í lágmarki en það gat kannski ekki gengið endalaust en algengt er að tveir þriðjuhlutar af aflaverðmætinu fari í kostnað. Ég á þessa aflahlutdeild ennþá, en hún er hins vegar stöðugt að minnka en ég hef verið í sumar á leigubát sem heitir Sædís og er frá Dalvík og Iagt aflann upp hjá Jóhannesi og Helga hf. Kvótaárinu lauk á mánudaginn og segja má að þá hafi verið eins konar gamlárskvöld hjá sjómönnum, en ekkert fyllerf. “ - Fyrir nokkrum árum var ákveðið að byggja flotbryggju á Dalvík fyrir smærri báta og trillur. Þú stóðst einn gegn þeirri ákvörðun hafnaryfirvalda, af hverju? „Það var búið að byggja smá garð fyrir smábátana og norðan á hann var settur grjótgarður og það gefur auga leið að til- gangurinn var að drepa niður sjógang og hreyfingu í höfninni. Samt var flotbryggjan sett norðan við grjótgarðinn og seinna kom í ljós að það var vita vonlaust. Það var gert á þeirri forsendu að ekki væri hægt að koma henni suður fyrir grjótgarðinn þar sem þar þyrfti að dýpka svo mikið. Það hefur nú ver- ið gert núna og ég sé ekki að það hafi orðið neitt ódýrara að fresta þeirri framkvæmd um nokkur ár.“ Kaupin á matvöruverslun hrein tilviljun - Þegar aflahlutdeild þín fór að minnka fórstu að huga að öðrum atvinnurekstri. Nú hefur rekstur matvöruverslunar ekki verið talinn sérstaklega arðvænlegur verslunar- rekstur á allra síðustu árum en samt var ráð- ist í það að reka matvöruverslun á Akur- eyri. Var það skynsamleg ákvörðun eða hrein glópska? „Ég var málkunnugur þeim manni sem hér var með matvöruverslun undir nafninu „Þorpið" og hann vildi leigja aðstöðuna en reksturinn var farinn að ganga erfiðlega vegna þess að húsnæðið var svo dýrt enda er þetta mikið húsnæði. Ég ræddi við Kristján son minn, sem bjó þá í Reykjavík, um það hvort hann væri tilbúinn að fara með mér út í svona verslunarrekstur þar sem fiskveiðar væru að líða undir lok. Það varð síðan úr að ég og þrír synir mín- ir stofnuðum hlutafélag um reksturinn en Kristján er verslunarstjóri en hinir tveir eru sjómenn. Aðbúnaður hér er langt frá því að vera góður, og t.d. hefur verslunin undan- þágu frá heilbrigðisyfirvöldum vegna þess að bílastæðið hér fyrir utan er ómalbikað og þegar blautt er úti berst mikill aur inn í verslunina vegna þess að mikill leir er í ofnaíburðinum á stæðinu. Fyrri eigandi varð gjaldþrota og Búnaðar- bankinn eignaðist allt húsnæðið en seldi síð- ar efri hæðina og yfirtók leigusamninginn milli okkar og fyrri eiganda um verslunar- húsnæðið en bankinn ætlar að selja verslun- arhúsnæðið líka og því er að hrökkva eða stökkva fyrir okkur þegar þar að kemur.“ Samkeppnin fer harðnandi „Þegar við hófum verslunarrekstur hér 2. október 1990 voru möguleikar á því að reka matvöruverslun allsæmilegir með því að halda öllum tilkostnaði í lágmarki, en nú keyrir alveg um þverbak. Ég tala nú ekki um eftir að stóru markaðsverslanirnar fóru að hafa opið bæði á laugardögum og sunnu- dögum sem ekki var þegar við byrjuðum, og mér sýnist það vera stefna þeirra að losa sig við hverfaverslanirnar. Forráðamenn þess- ara stóru verslana hafa orðið varir við það eins og fleiri að verslun í landinu hefur minnkað um jafnvel 10% en þeir gera sér ekki grein fyrir því að viðskiptavinunum fjölgar ekki á svæðinu né eykst verslun ein- stakra viðskiptavina. Með því að hafa opið alla daga vikunnar seilast þeir hins vegar í vasa þeirra viðskiptavina sem hafa skipt við hverfaverslanirnar um helgar. Hverfaverslanirnar eru nauðsynlegar en þær hafa engan rekstrargrundvöll ef fólk kaupir þar aðeins mjólk og brauð en gerir síðan stórinnkaup á annarri matvöru í stór- mörkuðunum. Það gleymist oft að fólk ekur langar leiðir til að komast í þessar verslanir, jafnvel 100 km, og ég er hræddur um að þá sé mestur glansinn farinn af hagnaðinum af verslunarferðinni.“ Laugardagur 5. september 1992 - DAGUR - 11 Texti og myndir: Geir Guðsteinsson Nýjungar í vöruvali - Fljótlega eftir að þið byrjuðuð buðuð þið upp á varning sem ekki var almennt á boð- stólum í öðrum verslunum? „Við höfum alltaf boðið upp á nýjan fisk af trillum eða smærri bátum þegar hann hef- ur verið falur og einnig höfum við haft hér hnísu- og höfrungakjöt og það hefur verið vinsælt. Á mínum yngri árum var þetta kjöt aldrei selt heldur var kallað á liðið í kring þegar einhver hafði fengið slíkan drátt og sagt að hér væri nóg af kjöti að fá. í dag gef- ur enginn neitt og innheimt er greiðsla fyrir allt sem látið er af hendi. Margir hafa ekki smakkað þetta kjöt og eru hræddir við það af ókunnugleika en þetta er hins vegar hinn besti matur. Svo erum við með hugmyndir á prjónun- um sem er svar við sunnudagsopnun stór- markaðanna en ég hvorki get né vil greina frá því í hverju þær eru fólgnar en það skýr- ist innan tíðar. Það er hins vegar erfitt að vera með tilboð, því fólk sem ekki verslar hér að staðaldri kemur ekki hingað þó til- boð séu í gangi nema kannski einu sinni, og þá af hreinni forvitni. Við erum þessa dag- ana að fá hreindýrakjöt að austan og það hefur alltaf fengið góðar viðtökur og auðvit- að dregur það einhverja nýja viðskiptavini að sem þá kaupa einnig aðra vöruflokka." Ódýrara en í heildverslunum - Nú hefur talsvert verið rætt um mismun á verðlagi í hverfaverslununum annars vegar og stórmörkuðunum hins vegar og margir undrast það að hægt sé að fá sumar vörur ódýrari þar en hjá heildverslunum? „Já, við kaupmennirnir getum keypt vöru í þessum stórmörkuðum sem er á lægra verði en heildverslun bíður okkur hana á. Ég held að það felist fyrst og fremst í því að stærri verslanir fá meiri magnafslátt en við enda kannski ekki óeðlilegt þegar jafnvel er verið að tala um hundraðfalt meiri sölu og veltu. Fyrir jólin í fyrra barst okkur til eyrna að ákveðnar framleiðsluvörur væru boðnar á 20% afslætti. Þegar ég fór svo á stúfana og ætlaði að versla var mér vinsamlega bent á það að beina viðskiptum mínum til umboðs- aðilans. Hjá umboðsaðilanum var mér hins vegar boðinn 8% afsláttur. Mismunurinn er notaður til að þjóna stærstu viðskiptavinun- um á kostnað okkar sem minni veltu hafa. Yfirleitt fáum við 45 daga gjaldfrest á þeim vörum sem við kaupum til verslunar- innar en ég veit dæmi þess að stærri aðilar fá allt að 90 daga gjaldfrest.“ Sameiginleg innkaup - Hefur aldrei komið til þess að smærri verslanir sameinuðust við innkaup? „Nei, þetta er svo sundurlaus hópur en reyndar ræddum við þrír aðilar um samstarf í fyrra en það datt uppfyrir. Við sáum reyndar leiðir og smugur en viljann til raun- verulegs samstarfs vantaði.“ - Nú rekur konan þín fataverslun á Dalvík, verslunina Kotru. Kom það aldrei til greina í upphafi að þið færuð í samstarf þar, hún með fataverslun en þú með mat- vöruverslun? „Á Dalvík er hreinlega ekki markaður fyrir matvöruverslun í samkeppni við Kaup- félagið, enda er verslunin Sæland á markaðssvæði sem telur helmingi fleiri íbúa. Því var eðlilegt að álíta sem svo að þessi verslun gæti gengið rétt eins og Kaup- félagsverslunin á Dalvík. Við urðum hins vegar áþreifanlega varir við það að stór hóp- ur fólks sem býr hér í næsta nágrenni verslar alls ekki hér eða mjög lítið. Ég bý og ætla að búa á Dalvík og ek því hingað inneftir þegar ég fer til vinnu og það er ekkert mál, enda er. malbikaður vegur alla leið. Það aka margir til vinnu í Reykjavík frá Selfossi eða Keflavík sem er svipuð vega- lengd en þar er hins vegar töluvert meiri umferð þannig að þeir eru oftast lengur á leiðinni en ég. Ég vek athygli á því að fyrir nokkrum árum síðan var aðeins ein lúga opin hér á Akureyri vegna kvöldsölu,-þ.e. í Höfða- hlíð. Síðan var opnuð lúga í Byggðavegi og Hrísalundi og þá var verð á öllum vörum keyptum í gegnum lúgu hækkað um 10% til að mæta launakostnaði. Þrátt fyrir það stóð verslunin ekki undir þessu en í dag er vöru- verð miklu lægra og mér er spurn, getur verslunin staðið frekar undir þessu í dag? Það er augljóst að þetta leiðir til þess að þessi kostnaður vegna kvöldsölunnar fer út í verðlagið.“ Afengisverslun mundi örva viðskiptin - Hefur það aldrei komið til greina að opna aðra verslun á staðnum til að draga fleiri viðskiptavini á svæðið? „Upphaflega átti að byggja hér verslunar- húsnæði sem myndaði eins konar U-hring utan um bílastæðið og þá yrði ekið inn í það frá Móasíðu. Það voru því stórhuga menn sem byggðu hér og þeir hafa trúað á framtíð hverfaverslunarinnar. Hér er reyndar autt húsnæði þar sem áður var „sjoppa“ og ef þar kæmi verslun yrði það einhvers konar sérverslun en þær ganga almennt illa í dag. Ég held að þótt þarna kæmi t.d. fataverslun mundi það ekki draga að fleiri viðskiptavini í neinum mæli, því hér á Akureyri eru svo margar fataverslanir og markaðurinn er hreinlega mettaður. Kæmi hins vegar áfeng- isverslun hér við hliðina á okkur veit ég að viðskiptin mundu aukast.“ Minnkandi kvóti, minni kaupgeta „Með minnkandi afla sem berst á land minnkar atvinna í landi og kaupgetan þverr að sama skapi og sú þróun á eftir að halda áfram eitthvað ennþá. Þar sem innkaupa- ferðir til útlanda eru að hefjast núna get ég ekki orða bundist og minni á það að það er yfirleitt sama fólkið sem fer í þessarar ferðir ár eftir ár og þetta er fólkið sem oftast er að berjast í bökkum með heimilishaldið. Þess- ar ferðir eru fjármagnaðar af peningavald- inu með einum eða öðrum hætti og kredit- kortafyrirtækin bjóða upp á greiðsludreif- ingu og fleira í þeim dúr. Það er einmitt eftir slíkar ferðir sem algengast er að fólk komi til okkar og fer fram á lánsviðskipti þar sem það á ekkert lausafé og getur ekki verslað meira út á kreditkortið sitt. Við höfum því miður verið allt of viljugir að taka fólk í lánsviðskipti, og ekki aðeins þá sem hafa farið í verslunarferðir erlendis, en nokkrir af þeim reikningum innheimtast aldrei að fullu, því miður. Margir lifa hins vegar of hátt og þegar kemur að skuldadög- um er leitað á náðir matvöruverslana með úttekt. Það þarf sterk bein til þess að neita þessu fólki en því er kannski enginn greiði gerður með því að fleyta því stöðugt áfram með fyrirgreiðslu.“ Fyrirgreiðsla vegna bygginga- framkvæmda ófullnægjandi - Sýna peningastofnanir versluninni í land- inu þá fyrirgreiðslu sem eðlilegt getur talist? „Ef þú vilt kaupa verslunarhúsnæði í dag eða byggja þá hefur þú ekki mikla mögu- leika á nægilega stóru láni. Peningastofnanir lána þér fyrir hluta af fasteignaverðinu til 15 ára að hámarki en þú ert að kaupa eign sem hefur jafnvel 50 ára afskriftartíma. Það er hrein ósvífni af peningastofnunum að bjóða mönnum upp á slík lán með háum vöxtum. Þetta er hluti af því sem er að drepa niður „kaupmanninn á horninu“ og jafnvel ýmsa stærri í kaupmannastétt. Einstaklingar geta fengið lán sem greiðast á 42 árum og því má ekki veita fyrirtækjum viðlíka lán? Það þarf að styðja við verslun í landinu en ekki drepa hana niður markvisst því það er almenningur sem borgar brúsann í hækkandi vöruverði ef hér á landi verða eingöngu stórmarkaðir sem geta ráðið vöru- verðinu. Samkeppnin frá hverfaverslunun- um er neytandanum besta verðlagseftirlitið þegar öllu er á botninn hvolft.“

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.