Dagur - 03.04.1993, Blaðsíða 10

Dagur - 03.04.1993, Blaðsíða 10
10 - DAGUR - Laugardagur 3. apríl 1993 DÝRARÍKI ÍSLANDS Sr. Sigurður Ægisson Fuglar 20. þáttur MUSARRINDILL - (Troglodytes troglodytes) Músarrindillinn hefur löngum ver- ið talinn minnstur íslenskra fugla. Hann er þeirra stystur, en jafnan þyngri en auðnutittlingur. Hann er hnubbaralegur, mó- brúnn að lit, með gráum þverrák- um á vængjunum aftan til, og með stutt, uppsperrt stél. Yfir augum er ljós rák. Goggur er brúnn, svo og augnlitur. Miðað við búkstærð eru fætur áberandi sterklegir. Kynin eru mjög áþekk. Fuglinn er ákaflega kvikur í hreyfingum, og á auðvelt með gang og hlaup. Leitar sér ætis í rotnandi laufi og moði á jörðu niðri, eða tínir skordýr í gróðri. Hann flýgur beint, með afar tíðum vængjaburði. Flugúthaldið er þó lítið. Hann lifir mest í birkiskógum landsins og grónum hraunum og er algengur við læki, en lítt hrifinn af berangri. A vetrum leitar hann til stranda, í fjörukampa og þarabrúk, eða í urðir og grjótgarða. Hann syngur næstum allt árið um kring, og er talinn einn mesti söngfugl íslands. Músarrindillinn er af rindlaætt, en það er ætt með um 60 smá- vöxnum tegundum fugla, sem all- ar eru skordýraætur. Þær eiga allar heima í Ameríku, en músarrindill- inn er eina tegundin af rindlaætt- inni, sem verpir utan þess svæðis. Hann verpir auk þess í mest allri Evrópu, í N-Afríku, um sunn- anverða Asíu að Kyrrahafi, og sýnir mikla hæfileika til aðlögunar að ýmsum staðháttum. Músarrindillinn skiptist í um 40 undirtegundir. Þar af eru 27 í Evrópu og Asíu, og 7 í N-Amer- íku. íslenskir fuglar mynda eina slíka, T. t. islandicus, og eru þeir stærri, dekkri og rákóttari en mús- arrindlar í nálægum löndum. Is- lenska deilitegundin er 12-13 sm á lengd, og 14-17 g að þyngd, en aðrir músarrindlar frá 10,5 sm upp í 11,5 sm, og ívið léttari. Vegna smæðar, litar og atferlis, þ.e.a.s. vegna þess hversu jarð- bundinn hann er, og gjam á að skjótast í felur í holum og gjótum, eða þéttu kjarri, í stað þess að bjarga sér á flugi, hefur músar- rindillinn oft með alþýðu manna verið talinn skyldari mús en fugli, og áður fyrr var hann því stundum nefndur músarbróðir. Auk þess eru til heitin músarfrændi, og svo bara rindill. Músarrindill byrjar að verpa 1 árs. Hann er ekki félagslyndur á varptíma, en utan þess flakkar hann um í stórum eða litlum hóp- um. Karlfuglinn mætir á varp- stöðvar á undan kvenfuglinum, helgar sér varpsetur og byggir mörg hreiður. Kvenfuglinn velur svo úr þessum hvelfingarsmíðum bónda síns, og þá er loks fóðrað að innan. Hreiðursmíð músarrindils er sérstæð og nefnist kúluhreiður. Þetta er nokkurs konar hvelfing, haglega gerð úr mosa og stráum, með litlu opi á hliðinni. Þvf er komið fyrir í holum í þúfum, bökkum við lækjasytrur, í mosa- þembu í hraunum, eða í urðum, og fellur það algjörlega inn í um- hverfið. Varpið hefst í fyrri hluta maí. Eggin eru venjulega 5-8 talsins, hvít að lit, með rauðbrúnum eða ljósgráum dröfnum. Útungun tek- ur 14-17 daga. Kvenfuglinn liggur einn á, en þegar að ungatíma kemur færa báðir aðilar mat í hreiðrið. Músarrindlar eru oft tvíkvænis- fuglar og er það yfirleitt karlfugl- inn, sem eignast fleiri maka en einn. Breskir fuglafræðingar hafa verið að rannsaka nokkuð músar- rindilinn hjá sér, enda mun hann vera með algengustu varpfuglum þar. Komið hefur í Ijós, að eftir milda vetur, einkum og sér í lagi ef þeir koma nokkrir í röð, getur músarrindilsstofninn þar farið upp í 15-20 milljónir fugla. En fuglinn þolir illa mikinn kulda, vegna smæðarinnar, og eins þess, að hann lifir nær ein- göngu á skordýrum. Eftir veturinn 1962-1963, sem var sá harðasti og kaldasti þar í landi í 200 ár, fækk- aði músarrindlunum t.d. um 78%. En á þeim 10 árum sem á eftir komu, frá 1964-1974, náði stofninn að rétta við, svo að tala verpandi para komst í 10 milljón- ir. Rúmlega helmingslíkur eru sagðar vera á að músarrindill lifi af dæmigerðan vetur. En elsti músarrindill, sem hefur náðst lif- andi, var þó um 7 ára gamall. Það er að lokum skemmst frá því að segja, að menn vita ákaf- lega lítið um ferðir íslenskra mús- arrindla, eða annað, sem að þeim lýtur. Til dæmis er stofnstærðin gersamlega óþekkt. Eina leiðin til að bæta úr þessu er að merkja fugla, í þeim tilgangi að reyna að ná þeim síðar ein- hvers staðar. En það hefur ekki verið gert hingað til, nema í afar litlum mæli. Og vegna þess hve lítið er í raun vitað um þennan fugl, hafa í gegnum tíðina myndast alls kyns furðusögur um hann. Dæmi um þetta má sjá í Ferðabók Eggerts og Bjama, frá 1772, þar sem verið er að lýsa fuglalífi í Dalasýslu og á Vestfjörðum. Þar segir m.a.: „Lifnaðarhættir músarrindilsins eru einkennilegir. Hann sést sjald- an að degi til, en liggur þá í dimmum holum, sem á vetrum lokast af snjó og ís, en þó hefir hann ætíð opin leynigöng úr þeim. Hann er því mest á ferli á nóttunni og í rökkrinu... Hann sækist mjög eftir hangiketi. Flýgur hann inn um eldhússtrompana og heldur sig þar í sóti og reyk. Mest sækir hann í kindaketið og grefur sig inn...þar sem holdið er þykkast, og gerir sér þar holur. Þegar bænd- umir verða þess varir, setja þeir grind á strompinn, sem músarrind- illinn þorir ekki gegnum. Aðrir telja hann eins konar óheilíafugl og setja því trékross á strompinn, því að þeir trúa að hann þori ekki fram hjá krossinum.“ Músarrindill að sumarlagi. (Jim Flegg: Field guide to the birds of Britain and Europe. London 1990). Matarkrókurinn Svanhildur Vilhelmsdóttir læknir í matarkrók: Kjúklingapaté, sveppir í olívu- oMu og komaksís með döðlum Svanhildur Vilhelmsdóttir læknir á Fjórðungssjúkrahús- inu á Akureyri er í matarkrók að þessu sinni en hún tók áskorun Svanfríðar Birgis- dóttur skólastjóra Stóru- tjarnaskóla. Svanhildur býður sœlkerum í lesendahópi Dags m.a. upp á kjúklingalifrarpaté og sveppi í olívuolíu. Kjúklingalifrarpaté 300 gr kjúklingalifur 1 laukur 2 egg 4 dl rjómi 2'/i msk. hveiti 150 gr smjör, mjúkt negull af hnífsoddi 1 msk. salt >A tsk. pipar Allt sett í mixara og hrært saman. Hellið maukinu í smurt eldfast mót og setjið lok yfir. Bakið í ofni við 200 gráður í vatnsbaði á neðstu rim í 1 klst. og 10 mín. Síðustu 15 mín. er lokið tekið af. Kælið. Borið fram með brúnuðum eplum og rúsínum 4 rauð epli skorin í báta 2 msk. ferskt timjan, saxað eða 1 tsk. þurrkað 25 gr smjör 3 msk. vatn salt og pipar eftir smekk Ijósar rúsínur Smjörið hitað á pönnu. Epli og timjan brúnað á pönnunni. Rúsínunum, kryddi og vatni bætt á og vatnið látið sjóða niður. Eplin eiga að mýkjast en ekki verða lin í gegn. Borið fram heitt. Sveppir í olívuolíu 1 kg ferskir sveppir 3 dl hvítvíns eða kampavínsedik V/i dl vatn 3 hvítlauksrif 2 greinar ferskt dragon eða basilkum (eða 1 tsk. þurrkað) 4 - 5 dl olívuolía Skolið sveppina og setjið í pott. Setjið edik, vatn og salt í pott- inn og sjóðið í 5 - 8 mín. þar til sveppirnir eru orðnir mjúkir. Síið vökvann frá og setjið sveppina ásamt kryddjurtinni og hvítlauknum í krukku. Hell- ið olíunni yfir þannig að það fljóti yfir sveppina. Geymið á köldum stað. Gott að bera fram með grilluðu kjöti. Koníaksís með döðlum og karamellusósu 2 msk. vanillusykur 5 eggjarauður 80 gr sykur Vi l rjómi 1 dl koníak Sósa 100 gr sykur 1 dl vatn V/2 dl rjómi '/2 dl koníak 12 ferskar döðlur 1 dl koníak 80 gr heslihnetuflögur Þeytið saman vanillusykur, eggjarauður og sykur þar til það er orðið létt og ljóst. Þeytið rjómann og blandið honum í eggjahræruna ásamt koníaki. Frystið í minnst 5 klst. Látið döðlurnar liggja í koní- aki yfir nótt. Ristið heslihnetu- flögurnar. Bræðið sykurinn og látið hann brúnast aðeins. Blandið vatninu út í sykurinn og hrærið vel. Bætið rjómanum út í og síðan koníakinu. Berið ísinn fram í kúlum eða sneiðum með heitri karamellusósu og döðlum. Stráið heslihnetum yfir. „Ég skora á Agnesi Heiðu Skúladóttur, frænku mína, að mæta í næsta matarkrók en ég veit að hún bakar heimsins bestu kökur og býr auk þess til ljúffengan mat,“ sagði Svan- hildur Vilhelmsdóttir. GG

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.