Lesbók Morgunblaðsins - 26.01.1985, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 26.01.1985, Blaðsíða 4
Samtal við Helga Sæmundsson eftir Gísla Sigurðsson ú hefur æöi oft þurft aö bregöa þér í hlutverk skemmtikrafts — veriö fenginn til aö tala og ert þá skyldugur til að vera skemmti- legur. Menn ætlast tii þess að geta hlegið þegar Helgi Sæmundsson talar. En er þetta ekki frekar erfið og óeðlileg útrás fyrir húmor og skemmtilegheit“ „Jú, reyndar. Einhver versta skylda, sem hægt er að leggja á menn, er að ætlast til þess af þeim að vera skemmtilegir. Maður veit aldrei hvort maður axlar þá byrði og oftast nýtur húmoristinn sín bezt í litlum hópi, þar sem hnn þarf ekki að setja upp neitt „sjó“. Sú skylda að vera skemmtilegur er eins og að yrkja eftir pöntun. Það er svolítið óeðlilegt. Þeir hlutir eru til, sem erfitt er að gera undir álagi og þar á meðal þetta. Að sumu leyti er þetta þjóðsaga: Maðurinn getur verið eitt og húmorinn annað." „Þú meinar þessa klassísku tilvísun í húmoristann, sem er eins og snúið roð í hund heima hjá sér. Ég veit af reynslu að það á ekki við um þig. En kannski er von að svo sé, fyrst það er svona erfitt að vera skemmtilegur eftir pöntun." „Ég hef nú ekki gert mikið af því að vera skemmtilegur eftir pöntun, en þá sjaldan ég gengst inná eitthvað slíkt, líður mér illa á undan, en skár meðan á þvi stendur. Þetta er að því leyti ólíkt hlutverki leikar- ans, að hann getur bara lært sína rullu utanað. Ég held þó að gamanleikarar dugi ekki til síns brúks, nema þeir séu líka húmoristar." „íslenzkur húmor þykir nú víst ekki sá bezti í heimi og kannski er „verstöðva- húmor“ sú skilgreining, sem bezt á við.“ „Jú, það er sagt að íslendingar séu litlir húmoristar, en eg held að margir séu það í þeim skilningi, að manni líði vel að vera með þeim. En atvinnuhúmor er ekki okkar sterka hlið, og íslenzk tunga hentar ekki sem bezt í þessu skyni, — orðaleikir sýnast til dæmis verða auðveldari bæði í ensku og dönsku. Þetta stendur líka eitthvað í sam- bandi við lundarfar þjóðar; einhvernveg- inn finnst mér að Danir og Englendingar séu meiri húmoristar en Norðmenn, Svíar og Þjóðverjar." „Þú hefur notið þess að hafa æfingu af hinum pólitíska vígvelli og pólitíkusar verða eins og kunnugt er að geta kjaftað sig út úr hlutunum. Manstu eftir því að þú kæmist í hann krappan?“ „Yfirleitt hef ég alltaf komizt í hann krappan, þegar ég hef tekið að mér að vera skemmtilegur, eða verið skyldaður til þess. En maður hefur klórað sig út úr því. Ég hef alltaf gætt þess að undirbúa mig eitthvað; hafa einhverja punkta. Hitt væri eins og að stökkva heljarstökk óæfður." „En þú þekkir það úr stjórnmálunum, að þar verða menn að fara frekar varlega í því að gera að gamni sfnu. Þó komast sumir upp með það án þess að vera kall- aðir ábyrgðarlausir.“ „Það er rétt; húmor á ekki sem bezt við í stjórnmálum. Menn eru þá yfirleitt að fjalla um svo alvarleg mál, að erfitt er að koma gamansemi við; ég liti á þann mann sem séní, sem gæti það með góðu móti. En hitt er líka til, að sérstakur húmor hefur fylgt pólitískum skilmingum. Jónas frá Hriflu var til dæmis húmoristi og notaði sér það í stjórnmálabaráttunni. Hann átti auðvelt með að sjá menn og málefni í skoplegu ljósi, þegar þurfti að sækja að andstæðingum — og sumum fyrrverandi' samherjum. I seinni tíð nefndi hann Her- mann Jónasson yfirleitt „glímukappa Strandamanna" og allir vissu hvað hann átti við. En Jónas átti líka til að gera að gamni sínu á eigin kostnað." „í því sambandi rifjast upp, að maður fyrir norðan fór eitt sinn í framboð á móti Jónasi. Hann hafði á sínum yngri árum leikið á harmoníku á böllum og það not- aði Jónas sér: Sko, harmoníkuleikarinn segir þetta og harmoníkuleikarinn segir hitt — Aliir fóru að hlæja og maðurinn átti enga möguleika eftir það.“ „Þetta er auðvitað hreinræktaður ís- lenzkur húmor, — illkvittnislegur og á kostnað náungans. ólafur Thors sló á allt aðra strengi; var manna hressastur, glaður og kátur, og raunar er það dálítið annað en að vera húmoristi. Ég treysti mér þó ekki til að dæma um þetta, því ég þekkti ekki Ólaf nema lítið. Það stendur samt óhagg- að, að húmor sem kemur að innan þarf ekki að vera samfara glaðlyndi." „Samanber Jón Helgason í Kaupmanna- höfn.“ „Já, hann er dæmi um þesskonar húmor- ista; getur hreytt út úr sér sínu gráa gamni án þess svo mikið sem brosa.“ „Það er haft eftir Þórbergi Þórðarsyni, að skemmtilegir menn dóu út með Unuhúsi. — Er þetta goðsögn, sem skáldin hafa gert svona heillandi, eða voru þessir menn svona skemmtilegir, að skemmti- legheit á íslandi hafi ekki borið sitt barr síðan?“ „Ég held nú ekki að þetta sé svona eins og Þórbergur hefur fullyrt. Skemmtilegt fólk er alltaf að deyja; það deyr einhver úr þeim hópi á hverju ári, sem sjónarsviptir er að og það tekur sinn tíma að venjast öðru skemmtilegu fólki.“ „Hvað átti Þérbergur við?“ „Ætli hann hafi ekki bara verið að reisa Unuhúsi minnisvarða? Það er þó efalaust, að þeir voru margir bráðskemmtilegir sem vöndu komur sínar þangað; að minnsta kosti þeir sem ég þekkti, menn eins og Þórbergur sjálfur, Laxness, Hagalín, Plll ísólfsson og Lárus Ingólfsson.“ „En Steinn?“ „Jú, hann var vitaskuld í þessum hópi. Stefán frá Hvítadal var líka einn af þeim sem gerðu garðinn frægan og sjálfur gat Erlendur í Unuhúsi verið skemmtilegur maður. Um þetta hús leikur birta skáld- skapar og lista og þó margt i síðari tima hjali sé ugglaust tilbúningur, þá var þetta bæði sérkennilegt og merkilegt." „Sumir hallast að þvi að náttúran Iáti marga snillinga fæðast á sama tíma og síðan verði langur snillingalaus tfmi. Það má minna á norsku risana á öldinni sem leið: Ibsen, Grieg og Munch. Og hér verða þeir samferða að verulegu leyti Ásgrímur, Kjarval og Scheving í myndlist, en Lax- ness, Gunnar, Davíð og Tómas í bók- menntum. Sérðu framá, að snillingar séu í uppsiglingu hjá okkur núna?“ „Já, ætli ekki það. En þjóðsögur mynd- ast ekki eins og í gamla daga; það gera fjölmiðlarnir. Og núna er svo mikið fram- boð á allskonar andlegu fóðri, að einstakl- ingurinn nýtur sín ekki eins og fyrr.“ „Það kynni að verða bið á nýjum Lax- ness, — og raunar á nýjum Þórbergi einn- ig. í framhaldi af því sem við vorum að tala um áðan: Þórbergur gat sjálfur verið stórskemmtilegur. Þú hefur auðvitað kynnzt því?“ „Hann gat verið mjög skemmtilegur, þegar honum tókst upp. Og þar að auki einhver mesti snillingur okkar á mál og stíl, upplesari góður, eftirherma, frábær frásagnarmaður og svo einkennilegur í háttum, að hann varð þessvegna ógleym- anlegur." „Mér er minnisstætt, að einu sinni hitti ég Þórberg heima hjá Sigurði Nordal. Það var sýnilegt, að Sigurður hafði mjög gam- an af Þórbergi og var að porra hann upp; lét hann syngja og herma eftir og svo skríkti Sigurður af hlátri, þegar Þórberg- ur náði sér á strik.“ „Já, Sigurður var húmoristi og Þórberg- ur hefur látið sér vel líka. Ég kynntist Sigurði fyrst að einhverju marki, þegar hann var orðinn roskinn; gjarnan hefði ég viljað þekkja hann fyrr. Það má segja um Sigurð, að hann var heimsborgari og sveitamaður í senn og úr því varð ágætis- blanda. Fyrir utan að vera fræðimaður og skáld, var hann bráðskemmtilegur.“ „En skáld og alveg sérstaklega fræði- menn þykja nú ekki beint í flokki skemmtikrafta í nútímanum. Ætli þeir taki sig svona alvarlega nú orðið?“ „Kannski sumir. En við höfum alltaf átt rómaða gáfumenn, sem áttu alltaf hægt með að vera manna skemmtilegastir; ég nefni bara Tómas Guðmundsson. Ég held líka, að þessi þáttur í persónuleika Tómas- ar birtist vel í ljóðum hans, — hann er eitt af frekar fáum skáldum, sem leyfa sér að gera að gamni sínu og tvímælalaust er hann eitt af okkar miklu ljóðskáldum. En tækjum við gamansemina burtu úr skáld- skap Tómasar, þá væri mikils misst.“ „Já, og kannski er það einmitt vegna þessarar hárfínu gamansemi, að Ijóð Tómasar virðast lifa góðu lífi þótt hann sé allur og ég trúi því að hann verði langlífur með þjóðinni.“ „Það held ég líka. Fyrir utan búninginn eru einhverjir innri töfrar í ljóðum Tóm- asar, sem erfitt er að skilgreina og eru líklega utan bókmenntafræðinnar. En það er ef til vill þessi eiginleiki, sem ræður úrslitum um langlífið." „Aftur á móti hef ég á tilfinningunni, að Davíð sé eitthvað farinn að fyrnast og gleymast.“ „Það er algengt um skáld, sem hafa hlot- ið miklar vinsældir á unga aldri, að þau fyrnast í fyrstu eftir andlát sitt, en koma svo upp aftur síðar. Davíð var raunar geysilega vinsæll alla sína skáldskapar- ævi, en það má ekki gleynma því, að vin- sældir hans voru líka tengdar persónunni. Það gengu af honum þjóðsögur og það var áhrifamikið að heyra hann tala og flytja ljóð með sinni miklu og djúpu rödd. Svo þóttu kvæði hans einnig mjög nýstárleg í fyrstu. Tökum Hallgrím Pétursson einnig sem dæmi. Sjálfsagt hafa verið hæðir og lægðir í því, hvernig hann hefur verið metinn og skáld eins og Grímur Thomsen og Matthí- as Jochumsson hafa verið betur metnir eftir 1950 en þeir voru á fyrra helmingi aldarinnar. Þeir hafa í seinni tíð verið taldir stórskáld, en á meðan þeir voru á lífi voru skiptar skoðanir um það. Grímur varð aldrei vinsælt skáld í sinni samtíð, en það urðu þeir aftur á móti Benedikt Gröndal og Steingrímur Thorsteinsson." „Þá komum við aftur að þessu hvernig persónuleikinn á þátt í vinsældum skálds. Var það vegna þess að Grímur þótti bað- stofukaldur og ekki að allra skapi, að samtíðin kunni ekki að meta skáldskap hans í sama mæli og við?“ „Bæði það og eins hitt, að Grírnur var látinn gjalda stjórnmálaskoðana sinna. Hann var í andstöðu við Jón Sigurðsson og stóð með embættismannavaldinu, sem var danskt og að minnsta kosti sem stjórn- málamaður heyrði hann til yfirstéttinni. En þetta bitnaði ranglega á skáldskap Gríms; ef nokkurt skáld er rammíslenzkt, þá er það Grímur." „En Einar Ben. — er hann tekinn að fyrnast?" „Já, kannski, þegar litið er á skáldskap hans í heild. En ég held jafnframt að beztu og aðgengilegustu kvæði Einars lifi eins góðu lífi nú og meðan hann var á lífi.“ „Það eimir samt eftir af sérstakri virð- ingu, sem menn bera fyrir Einari, en það eru áhöld um hvort það er fyrir persón- unni eða skáldskapnum. Ég hitti kemp- una Sigurjón í Raftholti fyrir tveimur ár- um; hann er nú vfst að verða 87 ára. Hann sagði frá því, þegar hann settist inn á Hótel ísland, ungur drengur austan úr Holtum — og allt í einu gekk glæsilegur maður í salinn og fyllti hann með per- sónutöfrum sfnum. „Það voru augun,“ sagði Sigurjón og augu öldungsins leiftr- uðu, þegar hann rifjaði þetta upp.“ „Já, það liggur í augum uppi að Einar hefur haft alveg sérstaka persónutöfra og svo varð hann þjóðsagnapersóna vegna umsvifa sinna og þess lífs sem hann lifði. Einar er líka vissulega eitt af stórskáldum okkar, þótt hann sé vitanlega umdeilanlegt skáld. Ljóð hans eru mörg hátimbruð og oft tilgerðarleg." „Tilgerð og hátimbrun er nú meðal þess, sem ekki hentar í nútímanum.“ „Nei, það er í beinni andstöðu við það sem hefur verið að gerast og gerjast síð- ustu áratugina. Einar er að sumu leyti lík- ari fornskáldum og miðaldaskáldum en formbyltingarmönnum nútímans. Hann er klassískur að þessu leyti. Mat á skáldum er mjög breytingum und- irorpið og ekki alltaf auðvelt að spá í hvað verður ofaná. Sú var tíð, að margir töldu Steingrím Thorsteinsson ekki mikið skáld og það var kannski ógæfa hans að yrkja mikið af söngtextum og sama má segja um Þorstein Erlingsson. En það ræður ekki úrslitum um skáldskap þeirra. Menn reka samt hornin í þessa söngtexta, og kannski mátti segja, að þeir væru ekki dýr kveð- skapur. En drottinn minn dýri, — berðu þá bara saman við söngtextana, sem nú er verið að framleiða." „Já, það er eigilega guðsþakkarvert, þeg- ar þeir eru á ensku.“ „Það skaðar að minnsta kosti ekki ís- lenzkuna, en bezt væri að hafa þá á máli, sem enginn skildi.“ „Ertu smeykur um, að þessi dægurtexta- framleiðsla muni smám saman eyðileggja tilfinninguna fyrir góðum kveðskap?“ „Það held ég ekki. Þeir sem hnoða þessu saman eru sambærilegir við leirskáldin, sem alltaf voru til.“ „En leirskáidin höfðu ekki yfirráð yfir heilum útvarpsrásum þar sem hægt er að láta þennan nútíma leir hljóma frá fjöru til fjalla árið um kring.“ „Munurinn á snjöllu og ósnjöllu máli hefur alltaf verið fyrir hendi á íslandi. En hér tíðkast meira en annars staðar að hver sem er komi fram í blöðum eða útvarpi. Það er meðal forrétt- indanna við að vera íslendingur að sauðsvartur almúginn talar á fundum og skrifar í blöðin“. 4

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.