Lesbók Morgunblaðsins - 26.01.1985, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 26.01.1985, Blaðsíða 13
kosta miklu til að höndla hnoss valdsins. En skáldið er engan veginn öruggt um að það sé vert að gerast valdsmaður og snill- ingur ef það kostar að mannúð og ást er fyrir borð borin. Eða hvernig ber að túlka hjartað í þessu dæmi? Snjólfur vinur Kjartans er nú kominn frá Ameríku og sest að þarna með snoturri dóttur sinni, Áslaugu. Milli hennar og Atla á lesandinn líklega von á einhvers konar ástarsambandi. Atli er farinn að hugsa mikið um kvenfólk, og hann langar til að komast yfir konu, ná valdi á konu til að svala kynhvöt sinni. En stúlkan er dyggð- ug. Svo honum verður ekki kápan úr því klæðinu. Lærdómur stráksins er með ólík- indum, og má geta þess að hann fær verk Shakespeares í fermingargjöf — gleypir það væntanlega í sig á örskotsstund. Atli er ofþroskað fermingarbarn líkt og Johan í einni af lauslega dulbúnum sjálfsævisög- um Strindbergs. Atli og Áslaug ræða saman um vald og mannúð. Hann er á förum svo það er spenna í loftinu. Þú ert svo stór uppá þig, segir hún. „Og hann svaraði í ástríðu- blandinni hrifni. Ég hef heitið því að verða mikill maður!" Það fer hrollur um Áslaugu og hún spyr til hvers. Hann: „Áslaug! Veistu þá ekki að valdið er hið einasta í öllum heiminum, sem er eftir- sóknarvert? [... ] skilurðu þá ekki að hið einasta takmark, sem einhvers er vert, er það að verða herra tilviljunar- innar, að ná taumhaldi á öllu þessu miskunnarleysi lífsins, svo að maður geti notað sér það í vil ..." (246). Hún sakar hann um að lifa í heimi álfa og ímyndana. Hann ásakar hana um kristni. Réttilega. Áslaug hafði nefnileg náð í töfrastein- inn drengsins og skrifaði orðið JESÚS á hann. Hann verður fokvondur og kveður vinkonu sína fulla af bábiljum; hún segir hann trúníðing og hann tekur undir með þessum orðum: „Eg trúi á mátt minn og megin!" (249). Þeirri röksemd að guð hafi skapað heiminn svarar hann með því að vitna í Darwin. Og dregur auk þess upp sígilda þverstæðu trúarinnar: hvers vegna gerist hið illa ef guð er almáttugur? Hvers vegna tók guð Ljúf? Því svarar Áslaug að vegir guðs séu órannsakanlegir. En þar með er kappræðu þessara ungu guðfræð- inga ekki lokið. Atli reynir að rispa nafn Jesúsar út á steininum; stúlkan er rétt nýfarin. Hann sker sig þá í lófann og hljóðar. Hún kemur þá einsog engill og bindur hugrökk um sárið. En af því að sagan er svo kristileg, eins og sést af þessu, þá endar hún ekki með ástarsambandi þessara unglinga heldur því að þau raula saman Ólaf lilju- rós. Boðskapur: ekki vera svo metnaðargjarn og maður gleymi guði og góðum verkum. NÁMSEFNI: AUÐMÝKT Það er vægt til orða tekið að trúmálin séu á dagskrá í Undir Helgahnúk. Sagan er beinlinis áróður fyrir kristni, enda skrifuð klausturárið í Lúxemborg 1923. Að vísu verður maður áróðursins ekki mjög var fyrr en í sögulokin, sem eru út af fyrir sig dálítið pasturslítil miðað við það sem á undan er gengið. Barn náttúrunnar er betur byggð saga en Undir Helgahnúk, en á fjórða áratugnum náði skáldið margföld- um árangri á sviði byggingar í skáldsög- um. Nokkur dæmi um það hve trúmál eru mikið á dagskrá í Undir Helgahnúk eru það að Jóhanna ætlaði í klaustur, Kjartan verður prestur, Grímur flakkari talar um guð, Áslaug og Snjólfur eru trúuð og hann boðar prestsfrúnni eilíft líf. Kjartan fer suður til Rómar; trúarefni Jóhönnu fer á undan þunglyndi hennar og geðveiki (víti til varnaðar?), hún verður síðar trúlaus og hugsar ekki um annað meira en dauðann uns hún hengir sig. Einu sinni stelst Atli litli í messuvín föður síns og það kemst upp; svo virðist sem þetta bernskubrek eigi að marka upphaf óhamingju hans. Það er fyrirboði í Islendingasagnastíl, en lesand- inn fær reyndar ekki séð að hann verði neitt sérstaklega óhamingjusamur nema hvað hann er auðvitað trúleysingi. Auk allra þessara trúarlegu umfjöllun- arefna og minna kemur dauðinn mikið við sögu í bókinni. Ljúfur verður undir vagni, Jóhanna styttir sér aldur. Atli hugsar um dauðann sem barn, Sæmundur í hjáleig- unni deyr. Dauði Ljúfs sáir trúarefa í huga Atla en frammi fyrir dauða móður sinnar þykir Atla það ekki lengur eftirsóknarvert að verða mikill maður. En það líður hjá. Sú löngun virðist koma aftur. Togstreita Atla — eða togstreita Atla og Áslaugar — snýst um guðfræðilegt mál- efni: hvort eftirsókn eftir viðurkenningu sé hégómleg. Tómas frá Kempis, sem Hall- dóri þótti mikið til um á þessum árum, segir: „Ó hve hratt hverfur ekki veraldleg [...] upphefð. Hversu margir, sem hirða lítt um að þjóna guði, bíða skipbrot vegna hégómlegs veraldlegs lærdóms. Og þeir eru týndir í eigin ímyndunum af því að þeir þrá að verða miklir frekar en auðmjúkir.“ Atla dreymir um að verða mikilmenni, öðlast vald yfir öllu. Hann dreymir síður um að hafa vald yfir sjálfum sér, sem Tómas boðar. Atli þekkir ekki kristilega auðmýkt. Það er einkar athyglisvert hvaða menn hann telur hollastar fyrirmyndir: það eru herstjórinn, náttúrufræðingurin og bók- menntapáfinn. Hann setur stórskáld skör hærra en stjórnmálamenn. Spursmálið sem lesandinn getur velt fyrir sér er hvort það var ekki fagnaðarefni að skáldið að- hylltist metnaðargirnd Atla í stað kristi- legrar hógværðar Áslaugar, því maður hlýtur að eiga von á meiri bókmenntaaf- rekum frá manni af gerð Atla en Áslaug- ar. Spurningin er hvort hinni kristilegu afneitun allrar veraldlegrar upphefðar og lærdóms lyktar ekki með algeru aðgerða- leysi og afneitun skáldskapar. Eftir sem áður var það happ frá sjónarmiði lesend- anna að skáldið aðhylltist ekki atlamál- staðinn án þess að kanna áslaugarhliðna fyrst til hlítar. Hluti af list Halldórs Lax- ness er að hann býður ekki upp á einfaldar lausnir. Hjá honum vék kristni í gerð þeirra Áslaugar Snjólfsdóttur og Tómasar frá Kempis fyrir skáldskapnum. En ekki strax. AF dolpúngi Margar af sögum Halldórs Laxness hafa ekki verið prentaðar. Þar á meðal er skáldsagan Aftureldíng sem hann skrifaði sem barn og mun hafa verið mikil vöxtum, þúsund síður stendur i Heiman ég fór, þar sem hún er reyndar nefnd Dagrenníng. Þá er Rauða hættan óprentuð en Landsbóka- safnið á handrit af þeirri sögu að því marki sem hún er varðveitt. Rauðu hætt- una skrifaði Halldór i Þýskalandi árið 1922. Á Hornafirði veturinn 1920—21 skrifaði hann söguna Salt jarðar sem er glötuð. Haustið 1924 lauk hann við Heiman ég fór, sem voru drög að Vefaranum mikla. Heiman ég fór kom út árið 1952 þegar skáldið varð fimmtugt. í formálanum seg- ir hann að þegar hann hafi verið að brjóta bókina með sér hafi hann komist að þeirri niðurstöðu að „í stað einnar höfuðpersónu er ég að burðast með tvær sem aðeins draga hvor frá annarri og hljóta að kljúfa verkið“. Hvað sem líði bókmenntagildi verksins þá sýni það að minnsta kosti sjálfsmynd æskumanns um 17 ára aldur. Vafasamur klofningur einnar persónu í tvær var reyndar áður hjá Halldóri í Undir Helgahnúk þar sem mörkin milli Snjólfs og Kjartans eru óskýr í forleiknum. Sá klofn- ingur á kannski eitthvað skylt við það sem Halldór á hér við þegar hann segist burð- ast með tvo í stað eins í Heiman ég fór. Þessir tveir eru Steinn Elliði og sögumað- ur. Sögumaðurinn á margt sameiginlegt með höfundinum. Steinn Elliði kynnir sögumann í félaginu Vetrarbrautin þar sem hann heldur stórkostlega skemmtileg- an fyrirlestur á móti öllu fornu og gamal- reyndu í íslenskri menningu. „í þessu landi er að vettugi virt hvað úngir menn segja og eiga ekki aðrir en aflóga karlar rétt á að tala; hér er ell- innar land. [...] Ég segi: Hirði fjand- inn lífsreynslu allra gamalla skrögga! Eða hvenær hefur gamall maður hugs- að nokkuð eða sagt heiminum til við- reisnar?“ (57—58) Ræðumaðurinn telur það skýrt vitni þess að þjóðerninu er að hnigna að menn „skreyta sig með nátthúfum lángafanna". Fornmenn voru morðingjar og virtu mannvitið einskis. „Er ekki endirinn á öll- um íslendingasögum sá að Njáll er brend- ur?“ spyr hann. f Vetrarbrautinni kynnist hann frú Svölu og meistara Ásgrími. Frúin er blíð og móðurleg og hlustar á skáldið lesa upp úr sögu sinni, Dóttur fjallanna. Það er skemmtilegt neðanmálsatriði að félag með nafninu Vetrarbrautin var reyndar til á árunum eftir stríð hér í Reykjavík og var Halldór með í því ásamt kunningjum sínum, Sigurði Einarssyni, Tómasi Guðmundssyni og Jakobi J. Smára, sem var forseti félagsins, hvorki meira né minna. í því félagi las Halldór upp álfameyjarkvæðið úr Barni náttúrunn- ar. Hann las kafla úr sögunni upp í Bár- unni þegar hann var 17 ára, og er auðvelt að tengja Barn náttúrunnar við nafn sög- unnar Dóttir fjallanna sem sögumaður Heiman ég fór les upp fyrir frú Svölu. Það hefur alltaf visst skemmtigildi að velta vöngum yfir hvaða hráefni úr veru- leika sínum skáldin nota í skáldverkin, þótt bókmenntafræðigildi slíkra hugleið- inga sé oft takmarkað. Mér dettur í hug að eflaust megi finna einhverjar „fyrirmynd- ir“ að meistara Ásgrími. Ásgrímur var á leið með að ávinna sér alþjóðlega frægð fyrir vísindastörf, honum voru boðnar stöður erlendis, sigldi stundum til útlanda upp úr þurru, skrifaði um málvísindi. Kannski hafa Alexander Jóhannesson, Helgi Pjetursson og Bjarni Jónsson frá Vogi lagt eitthvað til í myndina af meist- ara Ásgrími. Vera má að til séu „fyrir- myndir" að frú Svölu, en ef til vill eru þær auðfundnastar í bókmenntaverkum, til dæmis í Tjánstekvinnans son eftir Strind- berg, sem skáldið hafði lesið þegar hér var komið sögu. Nafn Strindbergs er reyndar líka nefnt í sögunni. Sögumaður var að lesa verk hans, svo og verk Brandesar og Tolstojs. En Svala er merkilegur karakter: helgimynd í konulíki; hún er menningar- vinur, sem eiginmaður hennar er ekki, enda fer sögumaður að spá í hvort hún búi ekki við óhamingjusamt einkalíf, kyn- svelti. Við það springur frúin úr hlátri. Þegar minnst er á Strindberg: pælingar Strindbergs um konur voru ekki það eina sem Halldór hafði gleypt í sig um mun kynjanna þegar hann skrifaði Vefarann. Það voru líka fræði Weiningers sem hon- um þóttu athyglisverð. Og eitthvað af því hefur átt rætur að rekja til Nietzsches sem hann og þeir Einar Ólfur Sveinsson lásu í þaula, a.m.k. Also sprach Zarathustra. En það er með tal Halldórs um konuna í þess- um bókum eins og margt fleira sem hann skrifar að maður verður að taka það gæti- lega. Kaldhæðið tvísæi er skætt í höndum hans; og það er sígilt vandamál í bók- menntatúlkun yfirleitt. Það að Svala hlær að unglingnum í Heiman ég fór þegar hann fer að spá í hjónabandið hennar, er kannski vottur um hvernig höfundur hefur vissa fjarlægð gagnvart söguhetjunni. Þegar hann heldur fyrirlestur sinn í Vetr- arbrautinni er hann kallaður sextán vetra gamall „dolpúngur sem veit alt, lángur og horaður". Menn brosa góðlátlega að hon- um, hann talar eins og hver annar sveita- maður, sem hefur orðið uppbelgdur á að lesa Sögu mannsandans eftir Ágúst H. Bjarnason. Síðar lærðist honum að tala varlegar. Hér er semsé líkur tónn hjá skáldinu eins og í æskuminningabókunum, þar sem hann gerir góðlátlega grín að ofvitanum sem hann var sjálfur sem unglingur. Erf- itt er að vita hvar alvörunni sleppir og grínið byrjar. Skáldið kann að hafa verið hégómlegt, uppbelgt og montið, en bók á borð við Heiman ég fór verður ekki skrifuð af flautaþyrli sepi vantar innistæður fyrir orðum sínum ekki frekar en geðveikur maður hefði getað skrifað Infernó Strind- bergs. Guð Enn Guð vantar ekki í Heiman ég fór. En hann hefur fengið keppinaut: skáldið sjálft. Skáldið finnur til sín sem einstakl- ingur, telur sig skipta máli. Sögumaðurinn stígur djarfur fram og segir skoðanir sínar án feimni. Postillurnar voru einhver leið- inlegustu rit sem ég þekki, segir hann hispurslaust líkt og Þórbergur Þórðarson. Hann endurfæddist til sannrar frjáls- hyggju, segir í llciman ég fór, síðan tók trúleysið og brandesisminn við og þar fram eftir götunum: sagan af hugmynda- heimi hans er sögð eins og ekkert væri sjálfsagðara en menn langi að lesa hana. En slíkt var nýlunda í íslenskum bók- menntum um þetta leyti, fyrirbæri sem kom skýrt fram í Bréfi til Láru og olli upp- námi. Sögumaður í Heiman ég fór mælir sig við alla veröldina eins og fútúristinn Majakovskí: „Krafturinn ólgar í líkama mínum, ég spyrni við himinhvolfinu með hvirfli mínum! [... ] Hjarta mitt ætlar að sprínga af því það er svo ríkt!“ (37). Við guð er hann næsta alminlegur og segir: „Ég vil gera stórvirki og inna af höndum ógleymanlegar dáðir til dýrðar þér sem gafst mér þessar gjafir!“ Hann langar að boða sannleik, líða píslarvætti ef guð vill, finna smæð sína — nú er hann allt í einu orðinn lítill aftur — frammi fyrir ómæli heimsins. Guð já. Guð og skáldið. Þegar menn segjast vilja bíða píslarvætti ef guð vilji, vaknar spurningin hvernig hægt sé að vita vilja guðs og hvort þetta sé þá ekki bara löngun til að líða píslarvætti alveg burtséð frá afstöðu guðs til þess. Guðleysisskoðun Atla fermingardrengs kemur aftur fyrir hjá sögumanni Heiman ég fór. Guð er ofarlega í huga þess sem skrifar Undir Helgahnúk. En árið 1925 sendi Halldór frá sér bók sem fjallaði gagngert um þetta efni. Það er bókin Kaþólsk viðhorf. Svar gegn árásum, sem hann skrifaði á móti gagnrýni Þórbergs Þórðarsonar á kirkjuna í Bréfí til Láru árið áður. Þetta skrifar Halldór þegar kaþólskan hefur hvað mesta LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 26. JANÚAR 1985 13

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.