Lesbók Morgunblaðsins - 02.03.1985, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 02.03.1985, Blaðsíða 6
mótun. Tilurð og eyðing skiptast á í sífellu, birta og myrkur, líf og dauði. Áþreifanlegast kemur þessi víxl- verkan fram í rás árstíðanna. í sumrinu sameinast goðmögnin og kveikja gróður til lífs. í vetrinum skiljast þau að og gróðurinn deyr. Frjómátturinn tortímist þó ekki og tryggir að náttúran fæðist að nýju í fylling tímans. Hann heldur tröllslegum öflum óskapnaðarins í skefjum og kemur í veg fyrir eilífan vetur. Mörg skáld hafa sótt í hugmyndaheim forn-norrænna manna, einkum á tímum þegar allífshyggja hefur átt hljómgrunn. Nefna mætti fjölmörg dæmi úr ljóðum íslenska rómantíkera frá 19du öld en ég læt nægja að minna á Brúösöng vorsins eftir Steingrím Thorsteinsson. í því kvæði er dregin upp erótísk mynd af samruna sólar og náttúru að vori: Ó, þú elskunnar tíð, þegar almóðir þýð Helgast ástum á frjósemdar beði Því að löngunarhýr Ofan Ljóshiminn snýr Ljúfrar Jaröar og að ástþrungnum barmi, Skjálfa bjarkir og strá Hrolli himneskum þá, þegar hún vefst að brúðgumans armi. Gunnar Gunnarsson og Franzisca kona hans ásamt frum- burði sínum, Gunnari. Myndin er tekin í Danmörku 1914. Svipuð sameining á sér stað í Á botni breöans: jörð varpar af sér tröllshami ógnþrungins vetrar og tekur í móti ljósi sólar, svartnættisbylurinn hverfist í dýrðlegt glitundur. Grafarvist Guðnýjar fól í sér tilvistarlegt og kosmískt ósamræmi. Upprisa hennar tengir tilverusvið- in á nýjan leik og breytir náttúrunni úr demónskri illvætt sem lífgar og deyðir af handahófi í miskunn- sama móður sem fóstrar og verndar mennina virði þeir iögmál hennar. Maðurinn er milliliður hinna andhverfu skauta. Hann þiggur bæði að ofan og neðan, örlög hans háð því að samhengið rofni ekki því gerist það er honum voðinn vís. Þá hnígur hann annaðhvort til óskapnaðarins elleg- ar týnist í tómarúmi, burtrækur og örlöglaus. í þessu sambandi verður að gæta þess að táknmálið vísar í senn á líkamlegan og sálrænan veruleik, lýsir jafnt innri sem ytri mótsetningum. Af Skáldlegri Heimsmynd Hér hefur verið stiklað á stóru í lýsingu hinna forn- norrænu hugmynda. Það er í mínum huga ekkert efa- mál að þær hafA haft djúptæk áhrif á þróun Gunnars Gunnarssonar, bæði hvað snertir formbyggingu, heim- spekilega lífsafstöðu og siðfræði. Því fer þó fjarri að hugsun hans sé með einhverjum forneskjubrag því hann lagar hið liðna að samtíð sinni og túlkar arfinn með hliðsjón af eigin reynslu. Bölsýni kreppusagnanna lifði og áfram því heildarhugsun mýþunnar gat aldrei útrýmt efanum til fulls; ormurinn gnagaði þótt Gunnari tækist á skáldlegan hátt að „leysa“ þær þversagnir sem klufu hugsun hans áður fyrr. I kreppusögnunum ríkti það viðhorf að náttúran væri bölvaldur mannsins og drægi hann til merkingarlauss dauða að afloknu snautlegu lífsflökti. Hún er þar nei- kvætt og meðvitundarlaust tortímingarafl, líkust ásjónulausum grimmdarguði. í seinni sögum sínum er höfundurinn kominn á þá skoðun að frjómáttur lífsins sé meiri en svo að eyðingarmátturinn geti borið sigur úr býtum. Þegar allt kemur til alls lýtur tilveran ákveðinni reglu, álítur hann, lífsrökin óhvikul og eilíf þó að hver einstaklingur sé endingarsmár. í greininni „Örlög" í Árbók 46—7 segir Gunnar. Hið nærandi „Ijós“ í hverri mynd sem er, er semsé ekki fallvaltara en fúasælt myrkrið; öfugt við. Enda á allt líf rót sína að rekja til sólhrifni og gróðurvilja: sigurs frjómagnsins yfir myrkrinu og skrímslum þess í ejturdjúp'um óskapnaðarins. Því lífið er ekki Ijósið eitt: það er einnig sköpunarmáttur. I0> Sá sem þetta skilur, hið altæka Samhengi, hann eyðir ekki jörðina hvað sem á dynur. Höfundurinn treystir því að lífslögmálið sé ljóssækið og „guðdómlegt" í eðli sínu, að það sjái til þess að náttúran rati ekki á refil- stigu eða mannlífið falli í stafi. Hann trúir því að hin andstæðu skaut tilverunnar spegli einingu á dýpra sviði og tjáir þá hugmynd á skáldlegan hátt í A botni breöans. í sögunni takast á „skrímslið" og „hið nærandi ljós“, móðirin og gýgurin. Veturinn leggur líkblæju yfir heim- inn og afmáir í heiftarofsa, grefur grös í fönn og leggur höfin ísi, ógnar siðmenningu og mannlífi, en — aðeins um stundarsakir, því frjóvijjinn er sterkari til lang- frama, erosið. Gunnar var mótaður af kristindómi 19du aldar enda gætir kristilegs táknmáls víða í verkum hans. Hann reyndi og að draga það úr kristninni sem best féll honum í geð og sameina lífssýn sinnL Táknrænt er að Guðný ákveður í Á botni breöans að grafa sig uppúr hinni ógnlegu nótt á aðfangadagskvöldi. Á þeirri stundu hefur lífið sigurför sína, upprisa tekur við af niðurstigningu. Útlínur frelsarans birtast og greinilega í persónulýsingu Guðnýjar líktog Benedikts í Aöventu. Að þessu leyti má líta á söguna sem nútíma- lega eða stílfærða helgisögn. Varast ber þó að leggja of mikið uppúr þætti kristninnar í hugmyndaheimi Gunn- ars. Hann var á öndverðum meiði við grundvallaratriði í boðskap hennar. Að Sporna Gegn SÁRSAUKA Og Dauða í greininni „Örlög" segir Gunnar Gunnarsson: „Goð- um og mönnum eru eftir þessu þau örlög sameiginleg, að hið ljúfa líf á enga aðra leið en hlið Heljar til fullkomnari og samræmdari tilveru, — eða öllu heldur: í festi Iífsins hinni fjölblómgu er annar hver hlekkur helfjötur “u> Leið lífsins liggur með öðrum orðum um helbraut. Sá sem horfist í augu við dauða sinn og geng- ur leiðina í fullu trúnaðartrausti á sigur gróðursælla máttarvalda mun eilífð hljóta, eða, með orðum skálds- ins, sá verður að fórna lífinu sem lífið vill vinna. Ein- ungis á þann hátt getur takmörkuð þjónusta hans við lífið fullkomnast: Sá, er gengur Helbraut svo sem væri hún vegur lífsins, — enda er hún ein af leiðum lífsins: vegar- kafli á lífsleið alls sem er, — hann styrkir „ljósið“ með því að fórna hiklaust lífsneista sínum til varnar myrkri, eyðingu, óskapnaði, — varnar gegn því, er Grikkir einu orði kölluðu chaos, en fornmenn Ragna- rökr.,2) Guðný í Á botni breðans lifir af vegna þess að hún trúir og treystir á sköpunarmáttinn. Hún týnist oní jarðardjúpið en á leiðarhnoðað sem vísar henni veginn til nýs lífs á ný: lífsviljann, æðruleysið og þróttinn. Af þeim sökum nær eyðingarmátturinn ekki tökum á henni einsog útlögum kreppusagnanna. Hún sigrast á hinni jarðbundnu óvætt; Himnastiginn sá var í sannleika tröllaukinn, enda trúarheift og yfirmannlegur máttur að baki: traust- ið takmarkalausa svo sem jafnan þegar á reiðir end- anlega. Traust sem hvorki verður hrakið né varið svo af viti sé. (196) — Sem ekki verður varið svo af viti sé. í kreppusög- unum sýndi Gunnar framá vanmátt rökvitsins þegar kemur að frumvandamálum lífsins. í Á botni breðans, Aöventu, Jörð og fleiri sögum fer hann leið „dulkynjaðs" innsæis og hverfur frá tilvistarlegu raunsæi, býr sér til skáldlega tilverumynd sem fullnægir — í það minnsta að hluta — tilfinningalegum þörfum hans fyrir sam- ræmi og tilgang. Blóðið sem var í uppnámi hefur kyrrst þrátt fyrir að fjandi tóms og tortímingar leiti enn á. Þó að Gunnar hafi tileinkað sér mýþíska heimssýn var siðfræði hans ævinlega raunsæ og um margt svipuð þeirri sem existensíalistar einsog Sartre hafa boðað á þessari öld. Örlagahugtak hans var til dæmis skylt frelsishugmynd þeirra, táknaði sjálfssköpun en ekki áhrínsorð: fyrirfram bundna framvindu. Hver maður gerir sjálfan sig, að mati Gunnars. Þótt hann sé háður uppruna sínum og ytri viðburðum eru möguleikar margir til afbrigða og lífið ekki fullgert í eitt skipti fyrir öll. Ábyrgðin hinsvegar mikil því neiti maður gefnum forsendum og snúist gegn hlutskiptinu kallar hann yfir sig og umhverfið sekt og ógæfu. Órlög manns búa í vali hans. Hér er ekki rúm til að rekja siðfræði Gunnars nánar enda er hún efni í heila ritgerð. Til hvers að lifa og berjast í heimi sem virðist á góðri leið oní „eiturdjúp óskapnaðarins"? Gunnar gefur okkur ekkert einhlítt svar en bendir hinsvegar á leið til að lifa af. Sérhver verður að játast lífinu og andæfa eyð- ingarmættinum í sjálfum sér og heiminum, reisa sér himnastiga líktog Guðný í Á botni breðans. Saga hennar felur í sér áskorun til manna um að sporna gegn sárs- auka og dauða, takast á við heiminn, lifa. Matthías Viðar Sæmundsson Tílvítnanaskrá: 1) Northrop Frye hefur manna best reifað hugmyndir af þessu tagi i bök sinni Anatomy of Criticism, Princeton Univers- ity Press 1957. 2) Mattheusarguöspjall 12,38—41. 3) Joseph Campbeil: The Hero with a Thousand Faces, Meridan Books 1956. 4) Tilvitnanir eru auðkenndar með blaðsiðunúmerum úr út- gáfu Almenna bókafélagsins: Fimm fræknisögur, Reykja- vik 1976. 5) Hjálmar Jónsson frá Bólu. Ritsafn III. laust mál, s. 115. 6) Sama, s. 124. 7) Sama, s. 117—118. 8) Sama, s. 121. 9) Gunnar Gunnarsson: Jörö, Reykjavlk 1950, s. 32. 10) Gunnar Gunnarsson: „örlðg", Árbök 46—7, Reykjavlk 1948, s. 104. 11) Sama, s. 108—109. 12) Sama, s. 109. Matthiás Viðar Sæmundsson er cand. mag. I Isl. bókmenntum. GUÐBRANDUR SIGLAUGSSON Skagfirzkar lendur Á einni stundu rífur sig fortíðin lausa frá hlaðorpnum garði og fer geyst yfir tíma sem ótamið hross um tún. Engjar og vötn ströng í augu mér koma og fótatak snart eftir fit þenur hlust. Sem plógur veltir tunga mín orðum. Það er klukka á vegg, grænir hagar, hóll og gráir melar. Mér kviknar mynd: Af brún þar sem Þjófagil hvílir að baki svart, en blátt úr glugga, sér til brúnna klappa og gulra eyja og hólma og þar var mér sagt að fjállið reista hefði nafn eftir hesti. Mið Enn er hann þreyttur en leiðinn er af honum horfinn, í hillum liggur hver hetjan um aðra og örvar hans anga af blóði. Að brottfararstundu líður og flotinn er frjáls af landi. Dynja svo siglingaleiðir af stunum og togi ára. Heim vill hann skjótt og aðrir hugsa til sömu moldar. Skyggnir þá Ódeysseifur hafflöt og kennir ein skýin. Kveðja Það er hljómlist úr húsi þegar gesturinn kveður, tæpt frost og íkrapinu brestur en hripar af ufsum — þeir hafa setið á tali og tíminn liðið líkt og af vindlingi reykur, og fallið sem aska í gröf sem er jafnskjótt gleymd og enginn vitjar um aðrar dyr en Ijóðsins —. SVEINBJÖRN BEINTEINSSON Vegurinn Við finnum einatt furðulega strauma um farveglífs með nýjum krafti renna. Þar eigum við svo undurfagra drauma, sem okkar hugur mun í vöku kenna. Þar birtist margt sem betra er að vita í blárri móðu gefur sýn um heiminn, samt er með engum orðum hægt að rita það eina skyn er finnur hugur dreyminn. En sumirgeta séð með skilning einum þau sönnu rök er málið skýrir eigi, því heilög viska veitist mönnum stundum, ef sjón er beint að viljans viskuleynum og villan gerir ekki nótt úr degi. Hér er þá leiðin, sú er fyrr við fundum. (23. des. 1984) Guöbrandur Siglaugsson býr I Dortmund / Þýzkalandi. Sveinbjörn Beinteinsson er bóndi og allsherjargoöi á Draghálsi.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.