Lesbók Morgunblaðsins - 02.09.1995, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 02.09.1995, Blaðsíða 3
LESBÖK ® ® dl [H [u] (H! E El S ® Sl □ ® E Útgefandi: Hf. Árvakur, Reykjavík. Árin tólf fyrir daga Sjónvarps og Kvikmyndasjóðs, er heiti á grein eftir Erlend Sveinsson, kvikmynda- gerðarmann og er í greinaröð um sögu ísl. kvik- mynda á aldarafmæli kvikmyndanna. Erlendur Qallar um tímabilið frá 1944-1957, þegar gerðar voru kvikmyndir eins og Milli fjalls og fjöru, og Síðasti bærinn í dalnum, sem vöktu þá mikla athygli. Harmleikur í Pólínesíu, er heiti á grein eftir Einar Má Guð- varðsson, myndhöggvara. Þessi eyjaklasi í Kyrra- hafinu er afar fjarlægur okkur, en á hann hefur oft verið litið sem paradís á jörðu. Sú paradís hefur heldur betur breyzt til hins verra með frönskum yfirráðum og kjamorkutilraunum, sem heimurinn stendur nú agndofa yfir. Lúter fullyrti að sá sem upphefur stríðsátök án góðar- ar ástæðu, hljóti alltaf að tapa. Séra Bjarni Karlsson í Vestmannaeyjum, fjallar um þesi rök í tenglslum við stríðið óskiljanlega í fyrrum Júgó- slavíu og telur að þessi gömlu guðfræðirök haldi ekki vatni og að þau séu eins og hver önnur barnaleg ósannindi. SIRIUS GIRA Vilna Magnús Ásgeirsson þýddi Enn ég man þig, móðurborgin Vilna: Maríuljóðin, sem af fjálgleik brenna, helgimynda bjarma i borgarhliðum, bros og gullhár litháískra kvenna. Enn ég grilli í minninganna móðu mjóar götur, sem í bugðum liggja. Turnar þínir tindra í mánaskini. Tré í blóma múrana yfirskyggja. Það var fyrir löngu. — Ennþá ertu eins, með háa turna og bugðótt stræti. En götustéttir þínar eðju og auri atast nú, - af pólskum hermannsfæti. Þrílit flögg ei lengur leiftra í bænum, Ijóði og brosi í felur ólög þröngva. Járnsmiður frá Varsjá hamrar hlekki handa þeim, sem rifja upp gamla söngva. En þótt þér leggið líkamana í fjötra, lagakúgun bindur hjörtun ekki: Vér munum eitt sinn yngja forna söngva, endursenda vora smán og hlekki. Vilna er höfuöborg i Litháen og þaöan er höfundurinn. B B Er þetta þitt líf? VIÐ hittumst í stórmark- aði vestur í bæ. Kunn- ingjakona mín var með gulan stráhatt og hafði bundið silkiklút yfir börðin í gjóstrinum. Hún brosti dauflega og minnti mig einna helst á Karenu Blixen á gamalli ljósmynd frá Afríku. Við ræddum verð og gæði á græn- meti og ávöxtum á tilboði. Appelsínurnar voru mattar og þurrar og eplin rauð, gljá- andi og ilmlaus. íslenska grænmetið var hins vegar bragglegt enda nýkomið á mark- aðinn og ekki á tilboði. Sjáðu þessar appels- ínur, þær minna mig á ellina í umkomu- leysi sínu. Hver heldurðu að vilji þær í þessu ástandi? Þetta er vonlaust tilboð. Nær væri að henda þeim strax. Kannski sé ég þetta svona af því að ég var að heimsækja Dunu föðursystur á Elliheimilið, sagði kunningja- kona mín. Hún er komin á hjúkrunardeild- ina, þessi elska. Og að venju skruppum við á Borgina og hún sagði mér allt um Dunu og heimsóknina. Hún er dama, hún Duna. Eg var hálf- hrædd við hana þegar við kynntumst fyrst. Hún þessi heimskona og ég nýgift stelpu- korn og búin að krækja í uppáhalds frænda hennar. Hún lærði hjúkrun í útlöndum í fyrra stríði, í Englandi held ég, og vann svo nokkur ár í New York. Þar hitti hún mann- inn sinn. Þau komu heim, eignuðust sex börn en misstu tvö þeirra ung. Þau byggðu sér fallegt hús, stofnuðu fyrirtæki og kom- ust í álnir. Hann var dálítið laus í rásinni blessaður og gældi ótæpilega við Bakkus alla tíð, en hún hafði hann undir ströngum húsaga. Hún sá um bókhaldið og heimilið og ræddi það aldrei þegar hann gerði sér dælt við vinkonur hennar. Hún minntist ekki heldur á það þegar hann éignaðist krakka framhjá, en sá til þess að lausa- leikskróginn fengi afmælis- og jólagjafir líkt og hin börnin. Börnunum kom hún til manns. Dæturnar gifust vel og eldri sonur þeirra hjóna er nú þjóðkunnur maður en sá yngsti fór í brennivín og rugl eins og gengur. Hún missti manninn um sextugt og þá breyttist margt. Fyrst var hún hálfutan við sig eins og hún vissi ekki vel hvað hún ætti til bragðs að taka, en svo fór hún að blómstra. Loksins gat hún gert það sem hún vildi sjálf og þurfti hvorki að spyija kóng né prest. Hún naut þess að halda boð. Nú tók hún fram kokkabækurnar og gamlar úrklippur með allskyns hugmyndum að veislum. Hún bauð til sín vinum og kunningj- um, dúkaði borð með fínum handsaumuðum líndúkunum, silfrinu, bláa blóminu og bar fram dýrindis veitingar. Ég gleymi aldrei kamapvínsmorgunverðinum sem hún hafði alltaf á sumardaginn fyrsta. Hún fór á málverkasýningar, fékk sér fastamiða á leikhús og tónleika og lagðist í ferðalög. í einni heimsferðinni kynntist hún talvert yngri manni og tókust með þeim ástir. Hún hló þegar ég minntist þess að þau elskuð- ust fyrst úti undir berum himni skammt þaðan sem Múhamed sá logandi runnann. „Jörðin brann enn,“ sgði hún feimnislega. Hugsaðu þér bara, það kom henni á óvart eftir öll þessi ár í hjónabandi. Um áttrætt fór heilsan að bila. Vinur hennr var þá einnig horfinn yfir Kokytus- fljót og hún hafði skrifað undir víxla fyrir yngsta son sinn og tapað eigum sínum. Hún fékk hægfara heilablæðingu og flutti fyrst á elliheimilið og þaðan á hjúkrunarheimilið. Nú heitir hún ekki lengur Duna, heldur „Elskan" eða „Gamla konan á fimm“. Starfsfólkið er elskulegt á þennan hressilega stofnanamáta. Það er of fáliðað því stofnun- in þarf að skera niður. Samt sinnir það vel daglegum verkum, að þrífa, baða, hjálpa gamla fólkinu að klæðast, matast og fara á klósett. Hugsaðu þér, það er allt tandur- hreint og enginn gamalmennalykt á deild- inni. En fáir hafa tíma til að ræða við vist- fólkið eða finna út hvaða persónu það hefur að geyma. Sagan hennar Dunu, líkt og sög- ur hinna vistmannanna, er gleymd á þessum stað. Starfsfólkið veit ekki að Duna nýtur þess að hlusta á klassíska tónlist, að henni finnst nýtt seytt rúgbrauð með osti og þunn- ar brauðsneiðar með agúrkum hnossgæti, að hún vill fremur soðinn fisk en steiktan og að hún drekkur aldrei kaffí en kýs Earl Grey með örlitlum sykri. Hún nýtur þess enn að matast í góðum hópi, ekki síst ef góðgæti er á borðum, fallega fram reitt. Sú ánægja veitist hins vegar sjaldan á hjúkr- unardeildinni. Maturinn er oftast ágætur og næringarríkur, en hjólastólnum hennar er ekið að borði þar sem borðfélagar eiga ekkert sameiginlegt nema ellina. Það bætir heldur ekki úr skák, að maturinn er oft kaldur þegar hún fær loks hjálp við að borða vegna manneklu á deildinni. Hún Duna hefur alla ævi verið vel til höfð. Hún er næm á liti, snið og skart og á mikið af fallegum fötum. Núna er hún oft heldur kauðalega til fara, því það fer eftir smekk eða hugulsemi viðkomandi starfsfólks hveiju hún klæðist. Sumar starfsstúlkurnar leggja sig fram um að velja saman viðeigandi liti og spyija hana jafnvel hvort hún vilji vera í þessu eða hinu. Aðrar klæða hana í flýti í það sem hendi er næst. Hárgreiðslukona sér hins vegar um að allt vistfólkið sé vel klippt og greitt. Óhreinu fötin hennar fara nú í poka sem ættingjum er ætlað að taka og þvo þegar þeir koma í heimsókn. Börnin hennar koma eins oft og þau geta, en þau eru á faraldsfæti og oft erlendis, svo þú getur rétt ímyndað þér hvernig fer fyrir fötunum. Duna getur auð- vitað ekki haft eigur sínar hjá sér. Þeim var komið fyrir í geymslu þegar hún flutti á elliheimilið. Fyrst gat hún þó haft fáein húsgögn, málverk, bækur og smáhluti sem eru henni kærir, en nú deilir hún herbergi með annarri konu og hefur rétt rúm fyrir stól, lítið borð þakið myndum af fjölskyldu og vinum, og málverk eftir Ásgrím sem hún fékk í brúðargjöf. Hjúkrunardeildin hefur fátt eitt handbært sem hægt er að dreifa með huganum. Finnst þér ekki skrýtið að ég hef ekki séð þarna bækur, spil eða töfí í setustofu vistfólksins og þar eru heldur engin hljómflutnings- tæki. Hins vegar er þarna útvarp og sjón- varp sem sjaldan er slökkt á. Fyrst eftir að Duna koma á deildina var henni ekið inn í þéttan hóp annarra gamalla kvenna í hjóla- stólum, sem rorruðu fyrir framan sjónvarp- ið. Dag einn varð Duna reið og sagðist ekki þola Andrés Önd. Nú er hún mikið látin ein inni hjá sér. Um tíma reiddist hún oft og átti það jafnvel til að dangla í starfsmann ef henni misbauð. Núna er hún komin á róandi lyf og dregur sig hægt og hægt inn í sjálfa sig. Stundum biður hún um að fá að fara heim og spyr hvað hún hafi eigin- lega brotið af sér til að verðskulda þessa vist. Samt glittir enn í gamla húmorinn. Ég heimsótti hana á kosningadaginn í vor. Gamla fólkið fékk að kjósa eins og vonlegt er og vikuna fyrir kosningar streymdu að frambjóðendur flokkanna. Hún skellihló þegar hún sagði mér frá því hvernig gam- all herramaður á deildinni hefði dansað við einn frambjóðendanna, lofað öllum atkvæð- um sínum og ekki munað nokkurn skapaðan hlut af öllu tilstandinu kosningakvöldið. Hvers vegna dæmum við fólk til svona örlaga bara vegna þess að það er farið að gamlast og slitna? Getur það verið að góðir og hjarthlýir starfsmenn á vönduðum stofn- unum okkar vinni vistfólk óbætanlegan skaða án þess að átta sig á því hvað það er að gera? Eg vil ekki lenda í þessu. Helst vildi ég verða gömul eins og amma Móses, svert- ingjakonan sem fór að mála myndir þegar hún losnaði undan amstri brauðstritsins sjö- tíu og fimm ára gömul. Hún hlaut mikla frægð og frama og málaði bestu myndina sína „Jón í Betlehem“ þegar hún var hund- rað ára. Nú eða eins og fröken . . . sem var kennari. Hún gerðist ritari í félagi aldraðra þegar hún fór á eftirlaun og lærði þá fyrst að skrifa á ritvél, tók bílpróf sjötíu og fimm ára, sigldi upp Amason áttatíu og fimm ára og sá um fimm hektara jörð með aðstoð tveggja sextíu og fimm ára kvenna þegar hún var sjálf níutíu og fimm ára. Ef það á samt fyrir mér að liggja að flytja á hjúkrun- ardeild, áskil ég mér allan rétt til að drekka mitt sherry ef mér sýnist, verða öskureið ef þannig vill til og halda áfram að vera ég sjálf. Kunningjakona mín tæmdi bollann sinn og stóð upp. Best að ég kveðji núna. Ég ætla að skreppa í Ríkið og kaupa kampa- vín fyrir Dunu föðursystur. Eg steingleymdi því á sumardaginn fyrsta. Þar með var hún rokin, en ég sat eftir og hugleiddi hvort þeir ættu almennileg kampavínsglös á öldr- unardeildinni. DÓRA S. BJARNASON. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 2. SEPTEMBER 1995 3

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.