Morgunblaðið - 02.09.2001, Blaðsíða 2

Morgunblaðið - 02.09.2001, Blaðsíða 2
2 B SUNNUDAGUR 2. SEPTEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ Á NEÐRI hæð húss sínsvið Sólbrekku á Húsavíkhafa hjónin Gunnar Óm-ar Gunnarsson ogHrafnhildur Stella Sig- urðardóttir innréttað bruggstöð. Þetta er ekki svona stöð sem þeir borðalögðu mega ekki vita af, heldur hafa þau Ómar og Stella fengið til- skilin leyfi til þess að hefja þarna framleiðslu á víni, sem þau kalla Kvöldsól og kemur að öllu forfalla- lausu á markað í byrjun desember. Ómar er lærður kokkur. „Ég er fæddur í Lindarbrekku í Kelduhverfi og ólst þar upp við hefðbundin sveita- störf. Þarna var rekið hótel í gamla daga, eitt fyrsta sveitahótelið á land- inu, og kannski það hafi haft þau áhrif á mig, að ég ákvað 17 ára gamall að læra kokkinn. Körlunum í sveit- inni þótti það nú ekki gáfulegt fram- tíðarplan.“ „Ég komst að minnsta kosti í heimsmetabók Guinness 1987 fyrir pönnukökubakstur,“ segir Ómar og glottir við. „Ég bakaði 2.541 pönnu- köku á átta klukkustundum. Það met stóð í bókinni í tvö ár. Reyndar hef ég ekki haft fréttir af því að það hafi ver- ið slegið. Ég komst upp á lagið með pönnu- kökurnar á Stórutjarnaskóla, þar sem ég var bæði kokkur og kennari um tíma. Þar var rekið Edduhótel á sumrin og um helgar var boðið upp á kaffihlaðborð, sem var mjög vinsælt. Þá varð kokkurinn að vera handfljót- ur með pönnukökupönnuna og þarna kom ég mér upp ákveðinni tækni. Heimsmetið kom svo til sögunnar suður í Reykjavík í sambandi við sýn- ingu, sem Hótel- og veitingaskólinn stóð fyrir. Þar ætluðu menn að setja einhver met og ég spurði í einhverju bríaríi, hvort ég mætti ekki mæta með pönnukökupönnuna. En mér var hafnað. Þá samdi ég bara við Víðis- bræður um að baka í verzlun þeirra í Mjóddinni. Þeir lögðu til aðstöðu og efni og ég bakaði og bakaði. Ég bætti heimsmetið um röskar 1.100 pönnu- kökur. Við höfum í mörg ár gert vín til heimilisbrúks og reynt sitt af hverju. Síðasta haust prófuðum við svo að- ferð, sem gaf það langbezta vín, sem við höfum fengið. Við fundum strax, að við vorum með eitthvað sérstakt í höndunum og svo batnaði það í alvöruvín. Framleiðslan í fyrra varð nú ekki nema 30 flöskur og þær eru allar farnar. Uppistaðan í víninu er krækiber og svo er svolítið af bláberjum og rabarbara. Út í þetta setjum við svo kryddjurtir. Við höfðum áður prufað bara rab- arbara og bara krækiber og útkoman verið allt frá óþverra til þess að vera sæmileg. Takmarkið var nú aldrei sett hærra en að búa til sæmilegt vín fyrir okkur sjálf. En þegar ég opnaði fyrstu flöskuna í byrjun desember hugsaði ég strax með mér, að þetta gæti alveg plumað sig. Undirtektir annarra styrktu mig í þeirri trú. Það var helzt sagt um vínið að það væri gott, þykkt og bragðmik- ið og í sætari kantinum. Eftir nokkr- ar vangaveltur ákváðum við að láta slag standa og undirbúa framleiðslu fyrir almennan markað. Ég var á sjónum þar til í vor og notaði frítúrana í vetur til þess að sækja um tilskilin leyfi. Það voru nú ekki einu sinni til eyðublöð í öllum til- vikum, en allt gekk þetta upp. Ég þurfti að sækja um iðnaðarleyfi og leyfi frá heilbrigðisnefnd og bygging- arnefnd og til þess að fá að hafa fram- leiðsluna hérna á neðri hæðinni urðum við að leggja málið fyrir fólkið í götunni.“ – Var það nokkuð nema banka upp á og bjóða smakk? „Nei, ekki gerðum við það nú. En þetta var auðsótt mál, þrátt fyrir það! Nágrannar okkar og reyndar allir Húsvíkingar hafa sýnt okkur skiln- ing og velvilja. Nú sjáum við fram á að hefja framleiðslu í haust. Það er allt klárt, framleiðsluleyfið líka.“ Vínið nefna þau Ómar og Stella Kvöldsól / Midnight Sun. „Við vorum fyrst að hugsa um að kalla það Bláma með vísan til berj- anna, en svo sáum við, að það væri ekkert hægt að spinna við það nafn, ef við færum út í fleiri tegundir. Það er hins vegar vel hægt að hugsa sér nöfn eins og Morgunsól og Fjallasól með Kvöldsólinni. Mér fannst Miðnætursól of langt sem heiti á íslenzku og þannig varð Kvöldsól ofan á. Miðnætursólin held- ur sér hins vegar í enska heitinu, enda þekkja útlendingar „Midnight sun“ og tengja hana Íslandi. Eins var þetta með nafn á fyrir- tækið. Við vorum fyrst að velta fyrir okkur að kalla það Berjabrekku, en svo ákváðum við að halda okkur við sólina og nefna það Sólbrekku, eins og götuna sem við búum við. Nú bíðum við bara eftir berjunum. Það er fólk að tína fyrir okkur á Vest- fjörðum og austur á fjörðum og svo ætlum við fjölskyldan að tína eins og eitt tonn. Meiningin er að framleiða sex þús- und flöskur og til þess þarf ég þrjú tonn af krækiberjum og eitthvað minna af bláberjum og rabarbara. Svo eru það íslenzku kryddjurtirnar, en þær ásamt fleiru gerðu þennan mun; gerðu útslagið um að þetta varð alvöru vín.“ Það er alveg sama úr hvaða átt ég sæki að Ómari. Hann lætur ekkert nákvæmar uppi um uppskriftina. „Það er eiginlega galdurinn, hvernig sætan úr berjunum og súr- inn úr rabarbaranum blandast. Þar gegna jurtirnar lykilhlutverki,“ segir hann og verður svo bara leyndar- dómur með lokaðan munn! Framleiðsluferlið tekur um um þrjá mánuði og því á Kvöldsól að koma á markað í byrjun desember. Vínið verður 12–13% og mun fást í Heiðrúnu og til að byrja með á völd- um hótelum í Reykjavík og á Akur- eyri og Húsavík, en Ómar segir, að auðvitað geti allir pantað, sem hafa endursöluleyfi fyrir vín. „Verðið á eftir að koma í ljós. Ég hef bara heildsöluleyfi og ræð engu um verð- lagningu veitingahúsanna. Ég tel mig þó geta sagt, að það verður ekki ódýrasta vínið á markaðnum, en heldur ekki það dýrasta! Ef þetta selst fljótt og vel, þá verð- um við að koma okkur í annað hús- næði. Reyndar er ég með ákveðið húsnæði í sigtinu, en meðan allar stærðir eru meira eða minna óþekkt- ar er vont að gera einhverjar áætl- anir. Við ætlum þó ekki að selja alla framleiðsluna í haust, heldur setja eitthvað á lager og sjá til, hvort geymsla bætir vínið og þá hve lengi. Kvöldsól verður árgangsvín og við reiknum með að það verði drukkið á fyrsta árinu. Það verður gaman, þegar við för- um að geta borið árgangana saman. Sumrin geta verið mjög ólík. Það er til dæmis miklu minni berja- spretta núna en í fyrra. Berin eru hálfum mánuði seinna á ferðinni. Síð- asta sumar var reyndar með beztu berjasumrum, sem menn muna. Hitatölur eru svipaðar milli þess- ara sumra, en sólskinsstundir færri núna. Þetta hefur allt áhrif á vínið og það verður spennandi að sjá, hver þau eru.“ – Getið þið framleitt úr frosnum berjum? „Við höfum prófað það. En það gengur ekki. Það vantar allt líf í vín- ið.“ – Eitthvað hlýtur nú undirbúning- urinn að hafa kostað? „Auðvitað. Við höfum þurft að breyta húsnæðinu hér niðri og laga það fyrir vínframleiðslu. Svo þurfum við auðvitað að borga berin, sem aðr- ir tína fyrir okkur. Við höfum farið bónleið til búðar hjá Byggðastofnun. Reyndar sögðu þeir fyrst, að málið myndi ekki vefj- ast fyrir þeim, þetta væri svo lág upphæð. En hún var nú ekki lægri en svo, að þeim tókst ekki að afgreiða málið og nú er okkur sagt, að engin lán verði veitt fyrr en eftir áramót. Við eigum líka umsókn inni hjá Ný- sköpunarsjóði, sem verður afgreidd eftir mánuð eða svo. Við höfum fengið smástyrk úr frumkvöðlasjóði og svo horfum við til kísligúrstyrksins. Verksmiðjan veitir einn styrk á ári og við ætlum að sækja um núna. Það verða örugglega fleiri um hituna, þannig að við höfum ekkert fast í hendi á þeim bæ.“ – En á ekki Kvöldsólin eftir að mala ykkur gull? „Við erum ósköp jarðbundin og gerum okkur svo sem engar gyllivon- ir. En vonandi eigum við eftir að hafa atvinnu af þessu. Ég hef trú á að þetta seljist og satt að segja trúi ég á þetta dæmi frá upp- hafi til endis.“ Kvöldsólin kemur upp Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson Hvernig skyldi nú Kvöldsólin verða? Ómar, Stella og Orri sonur þeirra á berjamó. Ómar Gunnarsson kynnti Kvöldsól fyrsta sinni opinberlega á fyrirtækjakynn- ingu á Húsavík nýlega. Eftir að hafa bruggað vín til heimilisnota í mörg ár duttu þau í fyrrahaust niður á blöndu, sem þau ætla að taka til framleiðslu. Nú bíða þau bara eftir berj- unum og með þeim fara hjólin að snúast. Freysteinn Jóhannsson heimsótti brugghúsið á Húsavík.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.