Morgunblaðið - 15.03.2002, Síða 42

Morgunblaðið - 15.03.2002, Síða 42
MINNINGAR 42 FÖSTUDAGUR 15. MARS 2002 MORGUNBLAÐIÐ ✝ Elínborg Ágústs-dóttir fæddist í Mávahlíð í Fróðár- hreppi á Snæfellsnesi 17. september 1922. Hún lést á dvalar- heimilinu Hrafnistu í Reykjavík miðviku- daginn 6. mars síðast- liðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Þuríður Þorsteins- dóttir, f. í Sjávargötu í Njarðvík 10.7. 1899, d. 9.4. 1976, og Ágúst Ólason, f. á Stakk- hamri í Miklaholts- hreppi 21.8. 1897, d. 13.9. 1975. Systkini Elínborgar eru Jóna Unn- ur, f. 30.6. 1925, Þorsteinn, f. 6.3. 1929, Ragnar, f. 16.3. 1931, Hólm- fríður, f. 20.5. 1933, og Leifur Þór, f. 27.11. 1943. Árið 1941 giftist Elínborg Böðv- ari Bjarnasyni, byggingarmeistara og byggingafulltrúa Ólafsvíkur- hrepps, f. 30.3. 1911, d. 15.5. 1986. Elínborg og Böðvar hófu búskap á Borg í Ólafsvík 1941, síðan byggðu þau húsið Borgartún sem nú er Grundarbraut 12 og fluttu þangað 1955. Þau slitu samvistum 1971. Börn Elínborgar og Böðvars eru: 1) Auður leiðbeinandi, f. 17.3. 1941, gift Kristófer Jónassyni vélgæslu- manni, f. 12.4. 1935. Þau eru búsett í Ólafsvík. Börn þeirra: a) Lilja, f. 1.9. 1957, gift Halli Skúlasyni, börn þeirra eru Auður og Hallur. b) Jón- as, f. 18.2. 1959, kvæntur Hafdísi Bylgju Konráðsdóttur, börn þeirra eru Íris og Kristófer. c) Böðvar, f. 4.1. 1966, kvæntur Lucille Terry, börn þeirra eru Flores Axel og India Bríet. d) Þorleifur, f. 16.11. 1972. 2) Sturla samgönguráð- herra, f. 23.11. 1945, kvæntur Hall- gerði Gunnarsdóttur laganema, f. 13.12. 1948. Þau eru búsett í Stykk- ishólmi. Börn þeirra eru: a) Gunn- ar, f. 17.7. 1967, sambýliskona hans er Guðrún Margrét Baldursdóttir, dóttir þeirra er Borghildur, b) El- ínborg, f. 21.12. 1968, gift Jóni Ás- geiri Sigurvinssyni, dóttir þeirra er Hallgerður Kol- brún, c) Ásthildur, f. 10.6. 1974, d) Böðvar, f. 12.6. 1983, og e) Sigríður Erla, f. 8.7. 1992. 3) Snorri raf- virki, f. 17.6. 1947, kvæntur Guðlaugu Önnu Ámundadóttur verslunarmanni, f. 26.1. 1947. Þau eru búsett í Ólafsvík. Dætur þeirra eru: a) Elín, f. 18.2. 1970, gift Pálmari Einars- syni. Dætur hennar eru Margrét Sif og Karen Anna Sævarsdætur. b) Inga, f. 29.12. 1972, gift Árna Birgissyni. Þeirra börn eru Andrea Valdís og Snorri. c) Þuríður, f. 15.6. 1977, í sambúð með Arnari Þór Ragnars- syni. Dóttir þeirra er Ragna Stein- unn. Elínborg stundaði nám við Hér- aðsskólann í Reykholti. Hún tók mikinn þátt í félagsmálum og var ein af stofnendum Kvenfélags Ólafsvíkur og formaður þess um árabil. Hún var einnig félagi í slysavarnadeildinni Sumargjöf í Ólafsvík. Þá starfaði Elínborg með Leikfélagi Ólafsvíkur þar sem hún var virkur félagi og lék mörg hlut- verk í leikritum sem félagið setti upp. Hún starfaði sem formaður orlofsnefndar húsmæðra í mörg ár og stjórnaði orlofsdvöl kvenna m.a. á Búðum á Snæfellsnesi, Stað- arfelli og Laugum í Dalasýslu og Hrafnagili í Eyjafirði. Eftir að hún flutti til Reykjavíkur starfaði hún m.a. á barnaheimili Landsspítalans meðan heilsan leyfði. Sambýlis- maður Elínborgar frá 1974 var Sigurvin Finnbogason verkstjóri, f. í Bolungarvík 28.5. 1918, d. 14.4. 2001. Þau bjuggu á Kaplaskjóls- vegi 41 í Reykjavík þar til þau fluttu á Hrafnistu í Reykjavík árið 1996. Útför Elínborgar fer fram frá Ólafsvíkurkirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 14. Jarðsett verður á Brimilsvöllum. Drottinn vakir, Drottinn vakir daga’ og nætur yfir þér. Blíðlynd eins og besta móðir ber hann þig í faðmi sér. Allir þótt þér aðrir bregðist, aldrei hann á burtu fer. Drottinn elskar, – Drottinn vakir daga og nætur yfir þér. (Sigurður K. Pétursson.) Tengdamóðir mín, Elínborg Ágústsdóttir frá Mávahlíð, lést mið- vikudaginn 6. mars sl. Hún átti þá trúarvissu sem glöggt kemur fram í sálminum Drottinn vakir eftir sveit- unga hennar, Sigurð Kristófer Pét- ursson. Sú sterka trú létti henni marga raun um ævina, ekki síst í langvarandi veikindum. Hún lagði í erfiðar skurðaðgerðir erlendis bjartsýn, en tilbúin að taka því sem að höndum bæri, sátt við guð og menn. Það var á skírdagskvöldi fyrir hartnær 36 árum, að mig bar fyrst að garði í hennar húsi. Hún tók á móti mér, unglingnum, með glað- værð og hispursleysi og bauð mér strax að borða kvöldverð með fjöl- skyldunni. Vafalaust hefur Elín- borgu þótt við sonur hennar fullung til að hefja búskap og barneignir en hún nefndi það aldrei en leiðbeindi mér við barnauppeldi og heimilis- hald þegar henni þótti þörf á. Tvö sumur dvaldi ég á heimili tengdaforeldra minna, Elínborgar og Böðvars Bjarnasonar, fyrst með eitt barn en seinna sumarið voru þau tvö. Þau hjónin vildu allt fyrir okkur unga fólkið gera og sem dæmi um það gengu þau úr her- bergi fyrir okkur svo að sem best færi um okkur ungu hjónin og börn- in. Mikill erill var á heimilinu og gestakomur tíðar. Sjaldan var svo að eingöngu heimilsfólk settist að matar- eða kaffiborði, ættingjar, ná- grannar og sveitungar voru daglegir gestir og öllum var borinn beini. Á þessum árum tóku tengdafor- eldrar mínir virkan þátt í félagsmál- um í Ólafsvík. Böðvar var umsvifa- mikill byggingarmeistari, hann var hreppsnefndarmaður og byggingar- fulltrúi í ört vaxandi bæjarfélagi. Elínborg var ein af stofnendum Kvenfélags Ólafsvíkur og um tíma formaður þess, tók þátt í starfi Leikfélags Ólafsvíkur og lék í mörg- um uppfærslum þess og síðast en ekki síst var hún formaður í Orlofs- nefnd húsmæðra á Snæfellsnesi. Formennskan í Orlofsnefndinni leiddi til þess að hún tók að sér að stjórna orlofsvikum húsmæðra á 7. og 8. áratugnum. Í fyrstu voru or- lofsvikurnar haldnar á Búðum í Staðarsveit en síðar á Staðarfelli og á Laugum í Dölum. Seinna varð hún starfsmaður Orlofsnefndar hús- mæðra í Reykjavík og stjórnaði or- lofsvikum á hennar vegum á Hrafnagili í Eyjafirði og á Laug- arvatni. Elínborg kynntist við þetta fjölda kvenna bæði á Snæfellsnesi og í Reykjavík og eignaðist vináttu þeirra og þakklæti. Í orlofsvikunum nutu húsmæður hvíldar og skemmt- unar og oft komu í ljós áður óþekkt- ir hæfileikar kvenna til að stíga á svið og lesa ljóð, sögur eða setja upp lítinn leikþátt. Í þessu starfi kom sér vel að Elínborg var sviðsvön og ekki síður að hún var mikill ljóða- unnandi og vel lesin í þeim. Elínborg var bókhneigð, en eins og títt var um fólk af hennar kyn- slóð átti hún ekki kost á langri skólagöngu. Eftir að barnaskóla- námi lauk var hún einn vetur í Hér- aðsskólanum í Reykholti og eign- aðist þar vinkonur sem hún bast ævilöngum vináttuböndum. Elín- borg minntist vetursins í Reykholti ætíð með gleði. Elínborg var ung þegar hún gift- ist og tók við húsmóðurstarfi í Ólafs- vík. Á þeim árum tíðkaðist í sjáv- arþorpum að fólk væri með kýr og kindur til að tryggja mjólk og kjöt til heimilisins. Tengdaforeldrar mínir voru þar engin undantekning og það kom að- allega í Elínborgar hlut að sinna skepnunum og fórst henni það vel úr hendi enda alvön þeim störfum á búi foreldra sinna. Hún hafði gengið til útiverka með föður sínum og fall- ið það vel. Elínborg og Böðvar stofnuðu heimili sitt í gamla læknishúsinu á Borg í Ólafsvík en byggðu síðar hús í túnfætinum og nefndu Borgartún. Heimilið var mannmargt, auk þeirra hjónanna og barna þeirra þriggja bjuggu á heimilinu bræður þeirra hjóna sem stunduðu vinnu í Ólafsvík auk ættingja og sveitunga sem fengu þar vist oft vikum og mán- uðum saman. Sumir heimilismanna stunduðu sjó og á þeim árum þurftu sjómenn að hafa með sér bitakassa með nesti til dagsins. Sú vinna sem í því fólst lenti að sjálfsögðu á hús- móðurinni. Húsið á Borg var á þessum tíma tvíbýlishús og bjó fjölskyldan þar ásamt hjónunum Önnu Þórðar- dóttur og Eyjólfi Snæbjörnssyni og dætrum þeirra. Sú sambúð einkenndist af gagnkvæmri vináttu og virðingu og börnin léku sér saman eins og systkini. Elínborg minntist þeirra hjóna ætíð með þakklæti. Elínborg var heilsuhraust framan af ævi en aðeins 45 ára að aldri tók hún hjartasjúkdóm sem breytti miklu í lífi hennar. Hún gekkst undir mikla aðgerð erlendis sem tókst vel miðað við tækni þess tíma en bjó við skerta heilsu eftir það og tvær aðrar stórar hjartaaðgerðir gekkst hún undir allmörgum árum síðar. Skilnaður varð með þeim hjónum eftir þrjátíu ára hjónaband og El- ínborg flutti til Reykjavíkur. Hún vann við leikskóla ríkisspítalanna meðan heilsan leyfði. Það starf átti vel við Elínborgu. Henni lét vel að umgangast börn og hafði mikinn áhuga á uppeldismálum. Barna- börnum sínum sýndi hún mikla ást- úð og umhyggju. Hún las fyrir þau, kenndi þeim bænir og vers og síðast en ekki síst sagði hún þeim sögur. Sögurnar voru stundum frá upp- vaxtarárunum í Mávahlíð en oftar af bernskubrekum barna hennar og samferðafólki í Ólafsvík á árum áð- ur. Barnabörnunum þótti alltaf jafn- gaman að heyra frá þessum löngu liðnu dögum. Atburðir liðins tíma urðu ljóslifandi í frásögn hennar svo oft þótti áheyrandanum sem hann hefði sjálfur verið á vettvangi og upplifað atvikið. Hún fylgdist vel með hverju barnabarni og vildi vita hvað hvert og eitt tók sér fyrir hendur hverju sinni. Síðustu árin var það hennar mesta gleði að fylgj- ast með yngstu börnunum í fjöl- skyldunni og fá þau í heimsókn. Árið 1974 hóf Elínborg sambúð með Sigurvini Finnbogasyni verk- stjóra. Heimili þeirra var á Kapla- skjólsvegi 41 í Reykjavík. Þau fluttu á Hrafnistu í Reykjavík árið 1996. Sigurvin lést sl. vor. Ég kveð tengdamóður mína með virðingu og þakklæti fyrir ást henn- ar og umhyggju fyrir mér og mín- um. Þegar æviröðull rennur, rökkvar fyrir sjónum þér, hræðstu eigi, hel er fortjald, hinum megin birtan er. Höndin, sem þig hingað leiddi, himins til þig aftur ber. Drottinn elskar, – Drottinn vakir daga’ og nætur yfir þér. (Sigurður K. Pétursson.) Hallgerður Gunnarsdóttir. Elskuleg amma mín, Elínborg Ágústsdóttir, er látin. Hún ólst upp í Mávahlíð í Fróðárhreppi á ástríku heimili foreldra sinna, Þuríðar Þor- steinsdóttur húsfreyju og Ágústar Ólasonar pósts. Náttúrufegurð er mikil í Mávahlíð. Gegnt bænum vak- ir fannhvítur Snæfellsjökull og bæj- arhúsin speglast í Mávahlíðarvaðl- inum. Úr eldhúsglugganum blasir Hlíðin við og snarbrattur Búlands- höfðinn innar, þar sem þræða þurfti einstigi af stakri varkárni til að komast fyrir Höfðann heilu og höldnu. Af bæjarstæðinu er horft út á bláan Breiðafjörðinn, sem gat heldur betur orðið úfinn ef blés. Lít- il stúlka óx úr grasi á þessu forna býli og fuglarnir, lömbin, hestarnir og hundurinn á bænum áttu hug hennar allan. Henni þótti gaman að ganga upp í Fjall eða gleyma sér hjá kríunum niðri á Rifinu og við Vað- alinn, ellegar að skottast í kringum hann afa sinn í útihúsunum eða hlusta á hana ömmu sína segja sér sögu. Á kvöldin þegar gengið var til náða dró hún að sér ilminn af píp- unni hennar ömmu Lilju. Amma mín var elst í hópi sex systkina og bar þess nokkur merki alla tíð að vera forystusauður og frumburður foreldra sinna. Hún var hörð af sér, sagði skoðanir sínar af- dráttarlaust og átti sérlega auðvelt með að segja fólki til verka og fá það til að vinna með sér og/eða fyrir sig. Það kom líka snemma í ljós hvað hún var glaðvær, rösk, sterk og úrræðagóð. Á þessa eðliskosti reyndi þegar hún fór í svaðilfarir fyrir foreldra sína í þeim tilgangi að leita uppi hross eða fé. Hún þótti góður leiðsögumaður fyrir hinn hættulega Höfða og ekki síðri send- ill í kaupstaðarferðir til Ólafsvíkur. Þetta fór hún ýmist ríðandi eða fót- gangandi. Það átti sérlega vel við hana að sinna útiverkum og hirða um skepn- ur. Dýrum tengdist hún nánum böndum sem einkenndust af virð- ingu og væntumþykju, enda urðu þau miklir vinir hennar. Heimilis- dýrin í Mávahlíð á æskuárum ömmu breyttust með tímanum í lifandi persónur, sem við barnabörnin fengum að kynnast í sögum, sem amma festi á blað síðar á lífsleiðinni. Þegar ég man fyrst eftir mér höfðu Böðvar afi minn og amma slit- ið samvistir. Þau höfðu verið búsett í Ólafsvík þar sem börnin þeirra Auður, Sturla og Snorri ólust upp. Í Ólafsvík hafði amma mín látið að sér kveða með sinni smitandi glaðværð og persónutöfrum. Hún var um skeið potturinn og pannan í starfi leikfélagsins, tók virkan þátt í starfi kvenfélagsins og var um hríð for- maður þess. Amma gerði sér vel grein fyrir því hve miklar annir íþyngdu mörgum konum og beitti sér fyrir því að opnaður yrði gæslu- völlur fyrir börn í plássinu. Hún beitti sér ekki einungis fyrir því að „rólóinn“ yrði opnaður heldur tók hún að sér að sjá um hann. Það var eins með börnin og dýrin, þau hændust að ömmu. Þeir sem ómálga voru fundu hjá henni þá hlýju og yf- irvegun sem kallar fram traust og ró. Eftir að amma mín varð eigin- kona og móðir urðu kjör húsmæðra henni nokkuð hugleikin. Hún lagði sig fram um að ala börnin sín vel upp og siða þau til. Á sama tíma og amma mín bar djúpa virðingu fyrir starfi kvenna gerði hún sér einnig grein fyrir að konur þyrftu á því að halda að taka sér frí frá vinnunni sinni, heimilinu, og lyfta sér upp. Hún var virk í því ævintýri sem á 7. og 8. áratugnum var nefnt „orlof húsmæðra“. Amma Bogga tók að sér að stýra mörgum slíkum orlofs- vikum. Ár eftir ár söfnuðust konur saman á Búðum, Laugagerði, Laug- um, Staðarfelli, á Hrafnagili og víð- ar í þeim tilgangi að skemmta sér og hvíla sig. Á þessum vettvangi tengd- ust konur hvaðanæva af landinu sterkum böndum og á milli þeirra myndaðist vinátta sem fylgdi þeim ævina á enda. Það var mikið áfall þegar amma Bogga, þessi kraftmikla og hrífandi kona, missti heilsuna 45 ára gömul. Haustið 1967 kom í ljós að hún var orðin hjartveik og þurfti að fara ut- an í stóra hjartaaðgerð. Til allrar lukku gekk aðgerðin vonum framar og amma komst til nokkurrar heilsu á ný, en gekk aldrei heil til skógar þaðan í frá. Þessi fyrsta hjartaað- gerð sem amma fór í til Edinborgar reyndist ekki vera sú síðasta, því tvisvar sinnum enn þurfti hún að leggja land undir fót til að leggjast á skurðarborðið hjá hjartasérfræð- ingum í Bretlandi. Í veikindum sínum og mótlæti leitaði hún styrks í trúnni á góðan Guð og í bæninni sem leiddi hana yfir sérhverja torfæru. Sálmabókina sína hafði hún alltaf nærri sér og stakk henni í veskið sitt á ferðalögum eða ef hún þurfti að leggjast á sjúkrahús. Persónulega á ég ömmu minni og nöfnu mikið að þakka. Hún hefur leitt mig í gegnum lífið og verið mér einlæg vinkona. Hún mótaði mig um leið og hún var mér fyrirmynd. Hún reyndist mér bæði skilningsrík og örlát, hvort sem ég var spurult barn, ástfanginn unglingur eða full- tíða kona og móðir. Hún kenndi mér að biðja, fara með ljóð og meta góð- an skáldskap. Hún kenndi mér líka að drekka sterkt kaffi og hversu dýrmætt það er að gefa sér tíma til að vera með fólkinu, sem er manni kært. Þrátt fyrir að lífið færi ekki ávallt um ömmu mína mjúkum höndum erum við barnabörnin hennar svo heppin að eiga minningar um ástríka ömmu og sjálfstæða og sterka konu, sem tók okkur alltaf opnum örmum. Þessar minningar ylja okkur nú þegar komið er að kveðjustund og vonin um komandi endurfundi veitir okkur styrk. Elínborg Sturludóttir. Elsku amma. Sárt er að líta sætið auða, heyra ekki rödd þína hljóma lengur. Stirðnuð er mundin, styrk er veitti, græddi sjúka og gladdi snauða. (Þórhildur Sveinsd.) Efst í huga okkar þegar við kveðjum þig er þakklæti fyrir allt sem þú varst okkur, gerðir fyrir okkur og hugsaðir til okkar. Ávallt vorum við velkomin á heimilið þitt bæði í stuttar heimsóknir og til lengri dvalar. Það var þér mikið hjartans mál að við gengjum menntaveginn og þegar við sem unglingar komum til Reykjavíkur í skóla varst þú öll af vilja gerð að greiða götu okkar og vildir helst að við dveldum sem mest hjá þér. Mik- ið varstu líka glöð þegar við eign- uðumst okkar heimili og er við kom- um í heimsóknir með börnin okkar þá ljómaðir þú. Heitasta óskin þín er fór að vora var að komast í heimahagana í Mávahlíð. Þegar þú komst með okk- ur vestur varstu óþreytandi við að fræða okkur um fjöll, firði og voga sem ekið var hjá. Sveitin þín var þér alltaf ofarlega í huga og sagðir þú okkur margar sögur af því þegar þú varst barn og saman bjuggu þrír ættliðir í gamla torfbænum í Máva- hlíð. Við eigum örugglega oft eftir að lesa sögurnar sem þú skrifaðir um æskuárin í sveitinni þinni. Elsku amma, þú hafðir ákveðnar skoðanir á hlutunum og varst trú þinni sannfæringu. Þú varst mikil félagsvera og vildir helst hafa sem mest líf í kringum þig. Þegar þú fluttist frá Mávahlíð til Ólafsvíkur og varst komin með heimili og fjöl- skyldu fórstu að starfa með leik- félaginu, varst einn af stofnendum kvenfélagsins og stóðst fyrir að stofnaður yrði barnaleikvöllur. Þú eignaðist margar vinkonur í störfum þínum fyrir húsmæðraorlofið og naust samverustundanna með þeim. Þú virtist alltaf hafa tíma til að sinna þessum áhugamálum þínum þó svo að heimilið væri mannmargt. En svo brást heilsa þín. Þú, þessi sterka kona, þurftir að fara í þrjár erfiðar hjartaaðgerðir til útlanda. Eftir það varstu oft veik og þá var gott að geta endurgoldið þann stuðning sem þú hafðir alltaf sýnt okkur. Það er ómetanlegt að hafa átt svona góða ömmu eins og þig sem bar hag allra í fjölskyldunni fyrir brjósti. Við söknum þín sárt og munum ylja okkur við minningar um þig alla ævi. Lilja, Jónas, Böðvar og Þorleifur. ELÍNBORG ÁGÚSTSDÓTTIR  Fleiri minningargreinar um El- ínborgu Ágústsdóttur bíða birt- ingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.