Morgunblaðið - 24.11.2002, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 24.11.2002, Blaðsíða 10
Morgunblaðið/Kristi Þ AÐ voru mikil viðbrigði fyrir Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og formann Framsóknarflokksins, að þurfa að draga sig tímabundið í hlé í síðasta mánuði frá hringiðu stjórn- málanna til þess að glíma við nær- göngulli andstæðing. Að þessu sinni snerist baráttan um að ná aftur heilsu. Halldór fór í aðgerð 15. október sl. eftir að hann hafði greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli. Aðgerðin gekk vel. Það tókst að fjarlægja meinið og síðan hann kom úr veikindaleyfi í byrjun vik- unnar hefur hann átt viðræður við Josef Bonnici viðskiptaráðherra Möltu, ásamt því að opna form- lega verksmiðju Pharmaco á Möltu, og sótt leið- togafund NATO í Prag. Halldór virðist því ekki vígmóður eftir veikindin, þótt þetta hafi verið erfiður tími. „Þetta var mikil aðgerð og ég gerði mér ekki alveg grein fyrir um- fanginu í upphafi,“ segir hann. „En eftir að ég átt- aði mig á því, á meðan ég beið eftir aðgerðinni, má segja að allt hafi gengið snurðulaust fyrir sig. Það kom í ljós að krabbameinið var staðbundið og þar sem aðgerðin gekk mjög vel, fór allt á besta veg. Engu að síður er ljóst að það tekur nokkurn tíma að jafna sig eftir svona aðgerð. Nú hef ég þó náð góð- um styrk og er fullfær um að koma til starfa á nýjan leik.“ Ég var afskaplega heppinn Sjúkdómurinn greindist fyrir tilviljun í gegnum blóðsýni við reglubundið eftirlit. „Það sýnir að karl- menn á mínum aldri þurfa að láta fylgjast með þessum hlutum,“ segir Halldór. „Ef blóðsýnið hefði ekki verið tekið hefði þetta alveg eins getað dregist í nokkur ár. Þá kann að vera að það hefði verið of seint.“ Nú segist Halldór ekki vera í meiri áhættu, en hver annar í þjóðfélaginu. En það var óþægilegt að fá tíðindin á sínum tíma. „Það er með mig eins og aðra að auðvitað hrekkur maður við. En við nánari umhugsun, þá sér maður að krabbamein er því mið- ur alls staðar í kringum okkur og þar er enginn undanskilinn, þó öllum finnist sem þeir hljóti sjálfir að sleppa. Þetta var vissulega áfall, en maður getur verið þakklátur fyrir að það greinist á því stigi að það sé viðráðanlegt. Ég var afskaplega heppinn.“ Þegar Halldór vaknaði eftir svæfinguna byrjaði hann á því að spyrja: „Var aðgerðin framkvæmd?“ Honum hafði verið sagt að ef ástandið væri verra en útlit var fyrir, þá yrði engin aðgerð og hann þyrfti að fara í geisla. „En ég var skorinn og það voru fyrstu gleðifréttirnar sem ég fékk.“ Hef gengið á hverjum degi Halldór segir að umönnunin sem hann hafi feng- ið hjá læknum og hjúkrunarfólki hafi verið frábær, og hann sé afskaplega þakklátur öllu því fólki sem komið hafi að veikindum sínum. „Það eru margir tugir, sem hafa hjálpað mér með einum eða öðrum hætti,“ segir hann. „Maður verður þess áskynja hvað ein aðgerð er í raun mikið mál í heilbrigð- iskerfinu og hvað við eigum hæft fólk á þessu sviði.“ Eftir aðgerðina notaði Halldór tímann vel til að hvílast, hreyfa sig og safna kröftum. „Ég hef gengið á hverjum einasta degi frá því aðgerðin var fram- kvæmd. Mér var skipað að standa á fætur strax daginn eftir og ég hef smátt og smátt getað aukið hreyfinguna og öðlast góðan styrk á því. Ég hef verið heima, í nokkra daga í ráðherrabústaðnum á Þingvöllum og svo hef ég verið í nokkra daga á Möltu, en ég skal játa það að það hefur ekki alltaf verið auðvelt að standa utan við hringiðuna.“ Maður á engan annan kost Halldór þekkir varla annað en að standa í hring- iðunni miðri eftir að hafa setið á þingi nokkurn veg- inn óslitið frá árinu 1974 eða frá því hann var 26 ára. „Ég hef aldrei vanist löngum fríum og aldrei verið lengi í burtu, en ég varð að sætta mig við það núna. Þó fylgdist ég að sjálfsögðu með fréttum daglega og vissi hvað væri að gerast í samfélaginu. Maður á engan annan kost en að gefa sér tíma í þetta. Mér var gerð grein fyrir því strax í upphafi að það myndi aðeins koma niður á mér sjálfum og störfum mínum í framtíðinni, ef ég gæfi mér ekki nokkurn tíma í batann. Þessu hef ég farið eftir.“ Að sögn Halldórs hefur hann fengið góðan stuðn- ing víða að úr samfélaginu, ótrúlegan stuðning raunar, og fjölskyldan staðið þétt með honum, sem hann er þakklátur fyrir. Þá hefur hann fengið þakkir frá fólki, sem einnig hefur glímt við krabba- mein í blöðruhálskirtli, fyrir að fjalla um veikindi sín opinberlega. Það geri öðrum sem standi í svip- uðum sporum auðveldara fyrir. „Þetta er viðkvæmt mál hjá karlmönnum, m.a. vegna aukaverkana, og í mínu tilviki var ekki um annað að ræða en að tala um þetta mál eins og það er. Ég tel það skipta miklu máli varðandi öll veik- indi að hægt sé að ræða þau opinskátt og ég vona að það geti hjálpað öðrum.“ Alvarleg veikindi eru oft þroskasaga. „Auðvitað byrjar maður að hugsa um ýmislegt á annan hátt. Maður gerir sér betur grein fyrir því að lífið er ekki endalaust og hættan á sjúkdómum er fyrir hendi, eins og hjá öðru fólki. Þá lærir maður ennþá betur að meta gott heilbrigðiskerfi og vináttu og styrk þeirra sem manni þykir vænst um.“ Þarf sátt um heilbrigðiskerfið Halldór vill þó ekki segja að þessi reynsla hafi breytt sýn sinni á heilbrigðiskerfið. „En ég er sann- færðari en áður um að við séum á réttri leið og það þurfi áfram að hlúa að öflugu heilbrigðiskerfi, sem sé opið fyrir alla landsmenn án teljandi endur- gjalds.“ Hann hefur ákveðnar skoðanir á þeim deilum sem risið hafa um heilsugæsluna og náð hafa há- punkti með uppsögnum heilsugæslulækna á Suð- urnesjum. „Það liggur alveg ljóst fyrir að heilbrigð- iskerfið þarf mikla fjármuni og kemur til með að þurfa þá um langa framtíð. Þar verða alltaf þarfir sem ekki tekst að uppfylla og spurningin um for- gangsröðun verður stöðugt áleitnari. Sífellt eru að koma til sögunnar ný lyf, ný tæki og nýir mögu- leikar í baráttunni við sjúkdóma, sem áður var ekki hægt að ráða við. Við þurfum á því að halda að það sé sátt um heil- brigðiskerfið. Við þurfum líka á sanngirni sam- félagsins að halda í garð heilbrigðisstarfsfólksins. Svo þarf að ríkja sanngirni hjá því fólki í garð þess kerfis sem hefur verið byggt upp. Ég tel t.d. fráleitt að breyta heilsugæslunni, eða grundvallarþáttum í heilsugæslunni vegna verkfalla á vinnustöðunum. Með því er ég ekki að segja að ekki komi til álita að gera breytingar á ýmsu í heilbrigðiskerfinu. Við hljótum alltaf að vera opin fyrir því. En það er ekki rétta leiðin að gera það í gegnum vinnustöðvanir og blanda því inn í kjarabaráttu eins og mér finnst að sumir heilsugæslulæknar hafi gert. Það verður að gera það eftir eðlilegum leiðum utan kjarabarátt- unnar.“ Þingmaður Reykvíkinga Halldór Ásgrímsson stendur á krossgötum í fleiri en einum skilningi, því í næstu kosningum kveður hann Austurland og fer í framboð í Reykja- vík. Hann segir blendnar tilfinningar fylgja því. „Ég kem til með að sakna félaga minna á Austur- landi, en þó er ljóst að sem formaður flokksins kem ég til með að vinna áfram með þeim af fullum krafti. Á hinn bóginn hlakka ég mikið til að takast á við ný viðfangsefni í Reykjavík.“ Halldór er öllum hnútum kunnugur í borgarsam- félaginu. „Ég hef verið lengi í stjórnmálum og lengi ráðherra og því hefur viðvera mín verið mikil í Reykjavík. Við stofnuðum okkar fyrsta heimili þar árið 1967, efst í Árbæjarhverfinu, og höfum síðan búið þar og í Breiðholtinu. Viðvera okkar á Höfn í Hornafirði hefur ekki verið jafnmikil og við reikn- uðum með í upphafi, þó við höfum verið þar með annan fótinn.“ Halldór telur sig því hafa góðan grundvöll til þess að takast á við þau viðfangsefni sem fylgja þingmennsku í Reykjavík. „Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að við verðum að búa vel að okkar höfuðborg og jafnframt landsbyggðinni og talið það hvimleitt hversu oft hefur verið togstreita þar á milli. Ég tel hagsmuni Reykjavíkur og landsbyggð- arinnar fara saman. Við munum ekki eiga sterka höfuðborg nema eiga sterka landsbyggð. Og lands- byggðin verður heldur ekki sterk nema með öflugri höfuðborg. Það er alveg ljóst að höfuðborgin þjónar lands- byggðinni í mjög ríkum mæli. Höfuðborgarbúar eru flestir hverjir ættaðir eða upprunnir úti á landi og eiga sína forfeður úr sveit, þannig að tilfinn- ingatengslin eru meiri en orðræðan bendir til.“ Ekki einkamál Austfirðinga Halldór telur að þarna á milli eigi ekki að vera kapp heldur skilningur. Það sé t.d. ljóst að mik- ilvægt sé að bæta samgöngukerfið á höfuðborg- arsvæðinu, en þar með eigi ekki að hætta sam- göngubótum úti á landi. Þarna verði að ríkja jafnræði og menn verði að sýna báðum sjónarmið- um skilning. „Ég sem formaður í stjórnmálaflokki hlýt að líta á þau sjónarmið og kem ekki til starfa í Reykjavík til að gleyma öllu sem ég hef upplifað og staðið fyrir á landsbyggðinni, fæddur þar, uppalinn og verið þar lengi í störfum sem þingmaður. En ég hef aldr- ei unnið sem landsbyggðarþingmaður gegn höfuð- borginni. Ég hef alltaf reynt að taka tillit til sjón- armiða borgarbúa í mínu starfi.“ Hann nefnir sem dæmi þá vinnu sem farið hafi í uppbyggingu stóriðju á Austurlandi. „Það er mikill misskilningur að álíta að þær framkvæmdir séu Fundur framkvæmdas sætisráðherra og utan Morgunblaðið/Kristinn Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra og Guðni Ágústsson landbún- aðarráðherra ásamt flokksbróður sínum og formanni. Aldrei vanist löngum fríum 10 B SUNNUDAGUR 24. NÓVEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.