Lesbók Morgunblaðsins - 27.01.2001, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 27.01.2001, Blaðsíða 8
8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 27. JANÚAR 2001 I. Hér á eftir fara þankar, settir á blað í flýti um tíðarandann núna. Þó að almanakið sýni að ný þúsöld, öld, ár eða mánuður sé hafin, þá breytist líf mitt ekkert við það eitt. Mæling tímans er grundvöllur siðmenningar okkar mannanna, hugtakið öld ein mælieiningin: eitt hundrað ár – og tími okkar flestra hér á jörðinni er styttri. Tíðarandi er teygjanlegt hugtak og sleipt, kannski ein allsherjar al- hæfing. Hugtökin tíðarandi og öld, eru ekki gagnslaus. Þau eru hjálp- arhugtök til að greina í sundur og flokka til skýrara yfirlits, flókna samþættingu atburða og hughrifa. Í lok 19du aldar var talað um „fin de siecle“ eða aldarendi. Það var ein- hvers konar fílingur sem var alls staðar. Ég kann ekki að skilgreina hugtakið en það var einhvers konar eftirsjá, lífsleiði eða – þjáning: „Weltschmerz“, grunur um kom- andi siðmenningarhrun. Ef litið er til Íslands á sama tíma – einangraðrar og arðrændrar danskrar nýlendu – þá virðist mér að hér hafi ríkt bjartsýni sjálfstæð- isbaráttunnar, vorhugur, samkennd og athafnaþrá, enda nær allt ógert sem þurfti að koma í verk. Í stuttu máli: væntanleg lok margra alda kyrrstöðu.Við tölum réttilega um „aldamótakynslóðina“. Íslenska þjóðin braust frá fátækt til bjarg- álna. Það var mikið afrek.Síðar mettuðumst við, og jafnvel ofmett- uðumst. Ég þekki merka konu sem ólst upp suður með sjó á fyrra helmingi 20stu aldar í fátækt. Hún taldi að fá- fræði, sjúkdómar og fátækt væru rót hins illa í mannlífinu. Til að bæta það gerðist hún kennari, læknir og kommúnisti! II. Hér á Vesturlöndum, í „velferð- arbeltinu“ svonefnda, og þar á ég fyrst og fremst við Vestur- og Mið- Evrópu, Norðurlönd og Bandaríkin hefur ríkt stöðugt stjórnarfar í meira en hálfa öld, sem einkennist af samþættun og jafnvægi kapítalisma, lýðræðis og velferðar. Jafnaðar- menn, öðrum fremur, hafa komið á þessari skipan og hefur hún leitt til meiri velsældar fjöldans, en áður hefur þekkst í sögu mannkynsins. Sameiningar- og samvinnuferli Evrópuþjóða er einn meginþátta þessa ferils. Þetta er markaðsbú- skapur. Einn merkasti og farsælasti hagfræðingur 20ustu aldar, Ludwig Erhard, faðir þýska efnahagsund- ursins, talaði ekki um „frjálsan markað“ heldur „samfélagslegan markað“, þ.e. markaðurinn er til fyrir mennina, en ekki mennirnir fyrir markaðinn. Og það ríkir jafnrétti, öllum eru tryggð jöfn tækifæri. Kommar vildu jöfnuð – allir væru jafnir, allir hefðu jafnt. Orwell benti á að þar með yrðu sumir jafnari en aðrir. Kommúnisminn mistókst hrapallega. Stefnan byggðist á harðstjórn, einræði, mannréttinda- brotum og leiddi yfir löndin meiri vesöld en áður hafði þekkst. Tilraun Leníns leiddi 70 árum síðar til ör- birgðar 400 milljóna manna og réttindaleysis. Kapítalisminn var grimmilegur og ólýðræð- islegur, tillitslaus á 19du öld. Það fylgdu honum svonefndar framfarir en kratar – sósíaldemó- kratar – virkjuðu hann til mannúðlegrar þjóð- félagsgerðar þar sem hin kristnu boð um sam- hjálp og mannúð voru höfð að leiðarljósi. Þetta tókst í „velferðarbeltinu“, einkum í Evrópu og á Norðurlöndum. Í Bandaríkjunum var þjóð- félagsgerðin önnur, kapítalisminn var oftast fyrirferðarmeiri en velferðin og lýðræðið. Tilraunir bestu manna í þeirri stóru heims- álfu á síðustu áratugum hafa miðast að því að þróa þjóðfélagslega samhjálp og tempra kapít- alismann. Afturhaldið þar í landi streitist á móti. Svonefnd frjálshyggja sem skaut upp kollin- um var ekkert annað en rangnefni á taumlausri sjálfselsku og tillitslausri, ókristilegri gróða- hyggju. Þessi stefna ríkti í hinum anglósax- neska heimi um hríð og reyndist illa. Kratastjórnir hafa síðar verið að græða sárin í Bretlandi og Bandaríkjunum. Þessar pólitísku staðreyndir móta tíðarand- ann um þessar mundir. III. Dýrafræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Konrad Lorenz telur upp nokkrar syndir hins siðmenntaða heims. Þær eru þessar helstar: of- fjölgun manna, náttúrueyðing, úrkynjun, hefð- arrof, heilaþvottur, kjarnavopn, kapphlaup mannsins við sjálfan sig og tilfinningakuldi. Nú í dag er hinn vestræni heimur mettur. Hjá okkur ríkir efnishyggja, tæknidýrkun og óhófs- neysla. Hnattvæðingin er á fullu. Þrátt fyrir of- gnóttina eykst bilið milli hinna fátæku og ríku í velmegunarlöndunum, og bilið milli ríkra þjóða og fátækra vex hratt, að sögn. Vísindin eru hrokafull. „Vísindin eiga ekki að hlýða siðfræðinni, síðfræðin á að hlýða vísind- unum,“ sagði einhver Nóbelsverðlaunahafi í sjónvarpinu. Vísindin ásamt kapítalismanum eru vond við náttúruna og umhverfið. Við útrýmum dýrateg- undum og jurtum miskunnarlaust og það mun ekki enda vel. Náttúran hefur meiri tíma en við maðurinn og hún hefnir sín. Nú ríkir mikil fjóstrú á tölvur. Talað er um þekkingarsamfélag eða upplýsingasamfélag sem á að redda öllu. Í Sandgerði er meðalein- kunn grunnskólanema lægst á landinu. Og hvað er gert? Keyptar tölvur. Meiri ástundun, (sjálfs) agi gætu hækkað einkunnir þar – með eða án tölva. Þótt samskipti, tjáskipti , boðskipti og fjar- skipti margeflist þá gildir enn hin skarpa at- hugasemd frá fyrstu árum símans: „Gildi sím- ans miðast við það sem sagt er í hann.“ Og þetta má yfirfæra á önnur samskipta- og margmiðlunartól. Neyslan eykst og þar með hag- vöxturinn. Neyslan var lengi vel álit- in góð. Offita er helsta heilbrigðis- vandamálið, ásamt því hreyfingarleysi og aumingjaskap sem hlýst af bílanotkun og sjón- varpsglápi. Ég fer stundum í líkams- rækt og sé þar fólk hlaupa á þartil- gerðu „hlaupabretti“ og stíga síðan upp í dúnmjúkan bílinn og keyra heim. Ég er ekkert betri en aðrir, ég hreyfi mig of lítið, er of lítið úti og reyni of lítið á mig. Ég var einu sinni bíllaus í nokkur ár og það var prýði- legt. Ég hef ekki sjónvarp, fannst það leiðinlegt og sakna þess ekki. Ég er bókamaður. Mér finnst bókin fjöl-miðill sem hentar mér vel, og góð bók er tryggur vinur. En vísindin leysa ekki vandræði kyrrsetunnar með auknu pilluáti, sem gefur aukalífsfyllingu og lífs- gæði að sögn lyfjafræðinga. Læknir nokkur tjáði mér um dag- inn að lífslíkur hefðu margfaldast á seinustu árum. Margfaldast með hverju – tveim eða þremur? spurði ég. Og oki leiðans er mætt með síauk- inni afþreyingu (Leikföng leiðans heitir ein af bókum Guðbergs Bergssonar) til að fylla upp í tóma- rúm frístundanna. Afþreyingin er iðnaður, skemmt- anaiðnaður – hún er framleidd og seld með skjótgróða að markmiði. Afþreyingunni og listinni er ruglað saman. En munurinn er augljós: af- þreyingin er einnota, listin er marg- nota.Listin er eilíf, lífið stutt – sögðu gömlu Rómverjarnir. IV. Efnishyggja vísinda- og tækni- dýrkunar hefur ekki leitt til fullkom- innar hamingju, því maðurinn lifir ekki á brauði einu saman. Það er mikið andlegt hungur ríkjandi á vel- ferðarbeltinu. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn ef hann hefur fyrirgjört sálu sinni? Trúarbrögð eru hálfgert feimnis- mál. Andlegri reynslu og andlegu lífi, sem ekki er hægt að gera að verslunarvöru, er vísvitandi ruglað saman við kukl og hindurvitni. Mér finnst lútherska þjóðkirkjan vera ráðvillt. Ég er ekki í þjóðkirkj- unni, því ég er kaþólskur. En ég hef engar áhyggjur að vantrú mann- anna. Almættið sér um sig og Guð elskar okkur mennina. Sóst er mjög eftir þægindum. Við reynum að forðast sársauka, sorg og jafnvel dauða. Erfiðleikar og and- streymi er ekki eftirsóknarvert, en samt hluti af lífinu, sem ber að taka með æðruleysi ef að höndum ber. Þægindin eru heldur ekki eftirsóknarverð. Við skyldum taka lífinu eins og það kemur til okkar, og upplifa það með öllu sínu litrófi. Fíla það í botn, segir unga fólkið! V. Ég finn á mér breytta tíma og andlega vakn- ingu. Þar mun listin og trúin gegna miklu hlut- verki. Maðurinn mun breytast. Homo comsu- mens – neysluveran – verður homo serviens, annarra þjónn, í kristilegri merkingu. Gildi list- arinnar: uppljómun og fegurð; gildi trúarinnar: tilbeiðsla, samlíðun og góðvild verða jafnmik- ilvæg hinum hagnýtu og rökréttu gildum reikni- stokks og peninga. Þorsteinn Gylfason heimsspekiprófessor sagði einu sinni við mig að þegar fjallað væri um mikilvæg hugtök eins og ástina og dauðann, dygði ljóðlistin og músikkin betur en flest annað. Og væntanlega hefur hann átt við jarðbundna rökhugsun vísindanna. Það er sjálfsagt að vernda og varðveita fossa og mýrarfláka í óbyggðum einungis vegna þess að þeir eru fagrir. Það þarf ekki að draga neina ferðamenn upp á hálendið og reisa kamra, sjoppur og láta „helvítis útlendingana“ borga fyrir að fá að horfa á óspilltu fegurðina. Á því má græða meira, til langs tíma litið, heldur en á virkjun, segja sumir „náttúruverndunarsinnar“. Þetta finnst mér falsrök. Fegurðin ein er jafn- þung á vogarskál lífsins og hagkvæmnisrök verkfræðinnar. Það hefur margsinnis sýnt sig að hagkvæmnin er ekki alltaf hagkvæm. Ég minnist orða Kants, sem sagði að tvennt hefði vakið mesta lotningu sína, hinn alstirndi næturhiminn og siðgæðisvitundin í brjósti sínu. „Ég finn á mér breytta tíma og andlega vakningu. Þar mun listin og trúin gegna miklu hlutverki. Maðurinn mun breytast. Homo comsumens – neysluveran – verður homo serviens, annarra þjónn, í kristilegri merkingu.“ BREYTTIR TÍMAR E F T I R AT L A H E I M I S V E I N S S O N Höfundur er tónskáld. Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson T ÍÐARANDI Í ALDARBYRJUN

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.