Lesbók Morgunblaðsins - 27.01.2001, Blaðsíða 12

Lesbók Morgunblaðsins - 27.01.2001, Blaðsíða 12
12 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 27. JANÚAR 2001 P ÓSTMÓDERNISMI síðustu ára- tuga hefur leitt til veigamikilla breytinga á hugmyndum og hugsun fræðimanna. Fræðileg umræða hefur á þessum tíma í auknum mæli orðið þverfagleg um leið og fræðimenn takast á við takmarkanir vestrænnar hugmyndafræði eins og hún hefur skilað sér í gegnum aldirnar. Póstmódernisminn hefur beint sjónum sínum að fjölbreytileika nútímans, t.d. þeim andstæðum sem áður voru álitnar fel- ast í list og dægurmenningu, að sjálfsímynd í tengslum við afstæðishyggju og hugmyndum um mannkynssöguna sem línulega hreyfingu er óhjákvæmilega hafi framþróun í för með sér. Þannig hefur hreyfingin ef til vill haft í för með sér fjölbreytilegri sýn á lífið en vestræn hug- myndafræði hefur áður meðtekið. Angela Carter er einn athyglisverðasti höf- undur seinni tíma í Evrópu þegar litið er til við- horfs hennar til mannkynssögunnar og vest- rænnar sögusýnar. Ekki einungis vegna þess að skynjun hennar á sögunni og tímahugtakinu er í andstöðu við hugmyndir um línulega hreyfingu tímans, heldur einnig vegna þess að í bókum sín- um skapar hún persónur og atvik sem eru í and- stöðu við hefðbundnar hugmyndir um „eðlilega“ framvindu tímans og þróun frásagnarinnar. Þannig tekst henni að knýja fram áhrif fram- andleika þar sem kerfi nýjunga í textanum verð- ur til þess að skapa óvænt áhrif sem eru grund- völlur listrænna efnistaka hennar. Í samræmi við það er útgáfa hennar af mannkynssögunni, þ.e.a.s. hin listræna útgáfa skáldsagnahöfundar- ins af raunveruleikanum, athyglisverður valkost- ur við hlið þeirrar útgáfu sem sagnfræðingurinn hefur fram að færa. Í anda póstmódernismans gengur Carter mun lengra en forsendur sagn- fræðinnar gefa tilefni til, eins og þær eru op- inberlega viðurkenndar í formi þekkingar. Eftirlíking raunveruleikans glatar þýðingu sinni Allt frá því að rússnesku formalistarnir hófu að andmæla þeirri hefð sem byggðist á eftirlík- ingu raunveruleikans, hafa ólík viðhorf verið viðruð til þeirra aðferða er teljast mættu gildar í bókmenntum. Formalistarnir fundu mikil- vægar samsamanir í bókmenntum og málara- list, málvísindum, kvikmyndafræðum, þjóð- fræði og þjóðlagatónlist. Þeir stuðluðu þannig að áhuga á breytingum varðandi form og hug- myndafræði. Raunsæisstefnan og eftirlíkingar- stefnan urðu samhliða því úreltar og mikilvægi þess að „færa sönnur“ á hlutina í skáldskap glataði þýðingu sinni. Aukinn áhugi á rithöfundum á borð við Gogol og E. T. A. Hoffmann, sem drógu inn í verk sín ákveðna þætti fantasíu sem átti rætur að rekja til þjóðfræði, varð mikilvægur þáttur í að af- byggja hina opinberu útgáfu af sögu mannkyns eins og hún hafði verið sett fram í anda raunsæ- is. Michael Bakhtin, sem með kenningum sínum um karnivalið og hina margrödduðu skáldsögu, markaði sér sérstöðu frá formalistunum og kom þar að auki fram á sjónarsviðið með hugmyndir sem hafa haft djúpstæð áhrif á hugmyndaheim vestrænna bókmennta. Með því að rekja áhrif karnivalsins frá nútímanum aftur til fornaldar sundraði hann þýðingu hugtaksins „framþróun- ar“ innan bókmenntahefðarinnar. Í stað þess að nema bókmenntahefðina sem línulega þróun úr einu í annað, sér hann karnivalið sem eitthvað sem á sér hvarvetna stað í ólíku menningarlegu samhengi. Þannig býður Bakhtin upp á sögu- sýn sem er meira eins og ferðalag í allar áttir á takmarkalausum fleti en óendanleg línuhreyf- ing úr fortíð til framtíðar. Þessi breyting á sjónarhorni kemur ekki fram fyrr en á seinni hluta tuttugustu aldar í evrópskum bókmenntum. Bakhtin var t.d. ekki enduruppgötvaður í eigin heimalandi fyrr en á sjöunda áratugnum og enn síðar í Vestur-Evr- ópu. Þar af leiðandi hafa meira að segja tíma- mótahöfundar á borð við Frakkana Jean-Paul Sartre, Nathalie Sarraute og Alain Robbe- Grillet álitið sig vera að vinna í rökréttu fram- haldi af raunsæisstefnunni. Þau reyndu að losa sig undan oki einnar tegundar raunsæis með því að þróa nýja tegund sem tilheyrði þeim sjálfum. Enda virtist sú stofnun sem felst í for- tíðinni virka eins og Þrándur í götu sjálfrar til- vistarinnar í augum Sartre. Einstaklingar á borð við Roquentin, ævisöguritarann í skáld- sögunni Nausea, bera þunga mannkynssögunn- ar á herðum sér og þrátt fyrir tregðu Roquent- ins við að miðla fortíðinni – og vanþóknun Sartre á sammannlegum veruleika – er samt sem áður eitthvað í sögum hans sem allir eiga sameiginlegt, einhvers konar formleysa eða einmanaleiki. Þótt verk þessara frönsku höfunda hafi verið skilgreind sem hin „nýju skáldverk“ (nouveau roman) til að marka upphaf nýs tímabils þjóna þau samt sem áður eins og punktur í línulegri þróun bókmenntanna. Þar af leiðandi er ekki hægt að skoða þessi verk utan þess samhengis sem leiðir af samkeppni og samanburði innan vestrænnar bókmenntahefðar. Það er ekki fyrr en rithöfundar á borð við Kólumbíumanninn Gabriel Garcia Marquez koma fram á sjónar- sviðið og segja sögu mannkyns frá sjónarhóli annarrar menningar, að ólíkir bókmenntalegir þættir eru teknir til greina sem innlegg sem hefur verið til samhliða ríkjandi menningu á Vesturlöndum eða jafnvel skarað ólík menn- ingarleg mörk. Skilgreiningar á tímanum í tengslum við söguna Sú hugmynd er liggur að baki sýn Mikhails Bakhtin er hann sér heiminn fyrir sér sem víð- áttumikinn flöt í stað línu, er útfærð af enn meiri glöggskyggni af rússneska heimspek- ingnum P. D. Ouspensky, en hann vakti mikla athygli fyrir verk sín upp úr 1920. Kenningar hans útskýra vel takmörk hinnar vestrænu hugmyndar um mannkynssöguna sem línulegt þróunarferli sem einungis getur stefnt í eina átt. Þannig álítum við sögu okkar ætíð vera hluta fortíðarinnar fremur en hluta af líðandi stundu og tengjum þess vegna söguna ósjálf- rátt tímahugtakinu. Ouspensky bendir á að „öll hreyfing eða fjarvera hreyfingar er óhjákvæmi- lega tengd hugmyndinni um tímann“. Og af þessum ástæðum, af því að við höfum tengt mannkynssöguna tímanum til að byrja með, upplifum við söguna eins og línulega þróun, með upphafi og hugsanlegum endi - í öllu falli sem hreyfingu fram á við. Af þeim sökum finnst Ouspensky nauðsynlegt að byrja á að skilgreina tímann til þess að vera í stakk búinn að kanna mannkynssöguna. Að sögn Ouspensky lítur heimspekingurinn Immanuel Kant á „tímann á sama hátt og hann lítur á rýmið: sem hlutlægt form móttækileika eða næmleika okkar“, en „. . . við búum tímann til sjálf, sem þátt í hæfileika okkar til að nema ytri veruleika. Raunveruleikinn er samfelldur og stöðugur, en til þess að geta numið hann verðum við að búta hann niður í aðskiljanleg augnablik; [...] sem við getum einungis skynjað eitt og eitt í senn“. Sú dæmigerða skynjun á heiminum sem hér er lýst er mjög takmark- andi. Hún varpar ljósi á það hvernig hugmynd- in um tímann er ætíð tengd hugmyndinni um orsakasamhengi. Með því að trúa því að fortíðin sé ekki til (nema sem minning) og að framtíðin eigi enn eftir að renna upp, takmörkum við upp- lifun okkar við líðandi augnablik sem er svo stutt að það er naumast hægt að skynja það. Ouspensky er því sammála Kant um tak- markanir skynjunar okkar á veruleikanum. Hann sér rangfærslu í okkar viðteknu viðhorf- um til tímans eins og glögglega má lesa úr eft- irfarandi lýsingu hans á sambandi okkar við raunveruleikann: „Við hreyfumst í eina átt á opnum fleti. Þessa átt álítum við eilífa og óend- anlega. En allar þær línur sem liggja samhliða í sömu átt og allar þær línur sem skera hana, álít- um við ekki eilífar og óendanlegar. Við ímynd- um okkur að þær séu ekki til um leið og við höf- um farið framhjá þeim, auk þess sem þær línur sem eru fyrir framan okkur hafa ekki enn tekið á sig mynd raunveruleikans. Ef við gefum okk- ur að við séum á einhvers konar hnetti og hreyf- umst eftir miðbaug eða einhverjum öðrum sam- síða breiddarbaug myndi þessi heimsmynd gefa til kynna að aðeins væri til einn lengd- arbaugur; þeir sem eru fyrir aftan okkur eru horfnir og þeir sem eru fyrir framan okkur hafa ekki enn birst.“ Samkvæmt kenningum þeirra Kant og Ouspensky um tímann og veruleikann má því skynja fortíðina, nútíðina og framtíðina á þann máta að þær séu allar til í einu. Sú hugmynd er einmitt bergmáluð í verkum margra nútímahöfunda. Í grein sem hann nefndi „A New Refutation of Time“ (eða; „Ný afsönnun tímans“) frá árinu 1944, sá Jorge Luis Borges fyrir það sem þá átti enn eftir að koma í ljós: „Ég afneita,“ sagði hann, „með rökum hug- sjónastefnu þeirri ótrúlegu atburðaröð tímans sem hugsjónastefnan leyfir. Hume afneitaði til- vist algilds rýmis, þar sem allir hlutir eiga sinn stað; ég afneita tilvist eins tíma, þar sem allir hlutir eru tengdir eins og perlur á streng. Af- neitun á því að hlutir geti verið til samhliða er ekki síður óbilgjörn en afneitun á þeirri hug- mynd að hlutir geti einungis verið til í runu.“ Hugmyndir Bakhtin og samsvarandi grund- vallarkenningar Ouspensky virðast eiga sér- staklega vel við um skáldsögu Angelu Carter, „Nætur í fjölleikahúsi“, bæði hvað varðar karni- valíska þætti skálkasögunnar, notkun Carter á tímahugtakinu og túlkun hennar á mannkyns- sögunni. Á sama máta og Marquez neitar hún að láta staðsetja sig innan hinnar „opinberu“ sögu. Samt sem áður er hvorugt þeirra að reyna að verða til þess að eitthvað sé „uppgötvað“, mark- mið þeirra er fremur að færa þeirra eigin „hina hlið“ sögunnar úr dimmunni baksviðs, þar sem hún hefur alltaf verið til, fram í sviðsljósið. Þau reyna að ljá þeim rödd sem ekki heyrist í að öllu jöfnu og afhjúpa á þann hátt tilviljanakennt af- stæði ríkjandi menningar. LOFTFIMLEIKAR Á MÖRKUM SKÁLDSKAPAR OG VERULEIKA Heimsmynd manna í austri var mjög ólík þeirri sem þróaðist á Vesturlöndum eins og sést glögg- lega á þessari mynd af hjóli lífsins frá Tíbet. Veran sem heldur utan um hjólið þjónar þó líku hlut- verki og faðir Tími, því hún gleypir alla tilveruna. Skáldverk breska rithöfundarins Angelu Carter hafa verið fræðimönnum mjög hugleikin vegna þess að í þeim má iðulega finna alla helstu þætti póstmódern- ismans. Í þessari fyrri grein af tveimur fjallar FRÍÐA BJÖRK INGVARSDÓTTIR um hugmyndafræðilegt samhengi frægustu skáldsögu hennar, „Nátta í fjöl- leikahúsi“, en hin vængjaða aðalsöguhetja þeirrar bókar er boðberi breyttra tíma – nýrrar tegundar frjálsra kvenna sem fær köllun sína á slaginu tólf á aldamótum nítjándu og tuttugustu aldar. Víst er að þær róttæku hugmyndir sem sköpun hennar byggist á eiga fullt erindi til okkar sem nú siglum hraðbyri inn í tuttugustu og fyrstu öldina.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.