Lesbók Morgunblaðsins - 21.06.2003, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 21.06.2003, Blaðsíða 8
8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 21. JÚNÍ 2003 F RÁ húsi Brynhildar í Staðahverfi sér yfir fagurgrænar golfbrautir og út á sundin. Húsið er klætt sjávarmöl og ennþá á eftir að ganga frá umhverfis það, en við eitt hornið stendur stór rústrauð- ur járnskúlptúr. „Borgin á þenn- an og það á að koma honum fyrir þarna niðurfrá, á nesinu,“ segir hún og bendir niður að sjónum. Brynhildur Þorgeirsdóttir myndlistarkona hefur komið sér vel fyrir í útjaðri borgarinnar. Hópur listamanna lét teikna þar fyrir sig rað- húsalengju, þar sem hvert hús var hannað sér- staklega fyrir þarfir íbúanna. Brynhildur þurfti góða vinnustofu og hún er svo sannarlega glæsi- leg; hátt til lofts og verk standa á hillum upp með hliðarveggjum. Á gólfinu lyftari til að geta komið þeim fyrir. Reykur stígur upp af suðu- potti, þarna er stórt vinnuborð og innar í saln- um rammlegur glerofn, hillur með hvers kyns undarlegu úrvali af litlum glerskúlptúrum, og allra innst lækkar gólfið og í hvarfi bak við stóra skúlptúra er eldhús listakonunnar. Yfir því skrifstofa, gestaherbergi og lítið gallerí þar sem hangir úrval veggverka og lágmynda. Í hlið- arálmu verður síðan endanleg íbúð húsráðanda. „Það breytir hreinlega öllu fyrir mig að vera komin í svona húsnæði,“ segir Brynhildur, þar sem við erum sest við eldhúsborðið og hún lítur ánægjulega í kringum sig. „Ég hef alltaf haldið vinnustofu, alveg frá því ég kom fyrst úr skóla. Í New York var ég líka með svona pláss. Eftir að ég kom heim vann ég í húsnæði Myndhöggv- arafélagsins en þar getur maður ekki setið endalaust að aðstöðunni, sem kallar á síendur- tekna flutninga með dótið sitt. Ég ætlaði alltaf að vera í eigin húsnæði og ákvað loks að byggja og gera ráð fyrir öllum mínum þörfum. Af hverju ætti ég ekki að geta gert alveg eins og gömlu karlarnir Einar Jónsson og Ásmundur Sveinsson og byggt mér almennilegt hús!“ Þau voru upphaflega sex saman sem sóttu um að fá að byggja á þessu svæði árið 1988. „Ég var þá búin að vera mikið að vinna á Korpúlfsstöðum, sem eru hér rétt fyrir ofan, en ég bjó þar meðal annars í eitt ár. Mér þótti þetta frábært svæði. Í New York hafði ég kynnst Páli Hjartarsyni arkitekt, hann teiknaði húsin fyrir okkur, og við sóttum um byggingarleyfi löngu áður en svæðið var komið í skipulag. Svo leið og beið og þegar farið var að skipuleggja var fund- in fyrir okkur lóð. Hér passa hús með þetta mik- illi lofthæð vel inn, án þess að skyggja á útsýni þeirra sem eru fyrir ofan okkur. Það var frábært að hafa vinnuaðstöðuna hjá Myndhöggvarafélaginu en það var þreytandi til lengdar að vera ekki eigin herra. Svo var maður alltaf að sópa vatni upp í niðurföll! Alltaf þurfa niðurföll að vera á hæsta punkti á gólfum. Hér hannaði ég hús eins og ég þurfti – draumurinn varð að veruleika. En það var rosalegur prósess að standa ein í þessu öllu saman.“ – Nú þekkir maður sögurnar um gömlu lista- mennina sem gerðu allt í höndunum. „Þannig var þetta hjá mér; ég gerði allt sem ég gat gert sjálf. Ég fékk reyndar svolitla hjálp, við að setja til dæmis plöturnar upp í loftið. Bróðir minn bóndinn kom með þrjá bændur, á milli mjalta. Þeir byrjuðu klukkan ellefu og voru farnir klukkan fimm. Heim að mjólka. Ég var á söginni og fyrst voru nágrannarnir glottandi: Sveitamennirnir bara komnir í bæinn! Svo litu þeir inn skömmu síðar og þá var verkinu lokið.“ Var alltaf að bjarga öllu Brynhildur er sjálf úr hópi þessarra ham- hleypa úr sveitinni, fædd og uppalin á Hrafn- kelsstöðum í Hrunamannahreppi. Hún flutti inn í húsið sitt fyrir tveimur árum, þá var ekki kom- inn stigi milli hæða, hvað þá meira, bara hiti og rafmagn í húsið. „Ég lenti í því að vera hent út úr Korpúlfs- stöðum með vinnustofuna og þurfti að pakka vinnustofunni í gám í eitt ár. Og þá gat maður ekkert gert, ég var bara hér, að moka og smíða. Áður þurfti ég að leigja vinnustofu, leigja geymslu og leigja íbúð. Var svo á hlaupum á milli. Það er frábært að geta loksins haft allt á einum stað. Í meira en tuttugu ár er ég búin að vera að safna hlutum og efni, sá fyrir mér að ég gæti notað hitt og þetta í verk, og nú er ég allt í einu farin að finna þetta aftur. Svo er annað; það er einfaldlega ekki hægt að lifa á því að selja skúlptúra á Íslandi. Hér er ég komin með góða aðstöðu til að halda námskeið. Ég kenndi í Listaháskólanum, geri það ekki lengur, en er að kenna ungum krökkum í Myndlistarskólanum í Reykjavík og það er rosalega skemmtilegt. Málið er að ég kann svo margt og get svo margt varðandi gler og steypu, og hér get ég miðlað því til annarra. Nú get ég tekið að mér alls kyns verkefni. Hér áður kom oft eitthvað upp sem ég gat ekki tekið að mér. Hér get ég nýtt allan sól- arhringinn; steypt eitt lag, farið svo inn á skrif- stofu og unnið þar, komið svo og steypt annað lag þegar hitt er þornað. Hér hef ég farið að gera alls kyns tilraunir og prufað hluti sem ég hef ekki haft aðstöðu til að gera. Og það er held- ur engin afsökun lengur til fyrir einu eða neinu. Ég hef aldrei skilið þegar listamenn segjast ekki hafa efni á því að hafa vinnustofu. Hvernig geturðu sleppt því að hafa vinnustofu? Það er bara ekki hægt. Þetta er barátta upp á líf og dauða, ég verð að halda áfram því annars eru lánardrottnarnir bara mættir til að hirða þetta allt, en það gefur mér bara kraft. Þegar ég verð miður mín yfir því hvernig ég eigi að redda einhverju í sam- bandi við húsið sest ég bara á álfasteininn hér fyrir utan – það býr nefnilega huldufólk hér – sit þar, horfi út á hafið og þá verður allt í lagi. Þá man ég af hverju ég er að þessu.“ – Breytir þessi aðstaða einhverju fyrir grunnhugsun þína í listinni? „Nei, þetta er bara betri aðstaða. Það er ald- urinn sem fær mann til að breyta hlutum. Ég var alltaf á kafi í einhverjum félagsmálapakka. Formaður Myndhöggvarafélagsins, varafor- maður SÍM; ég var alltaf að bjarga öllu. Einu sinni fékk ég þriggja ára laun borgarlista- manns, þá var ég formaður og eftir tvö ár áttaði ég mig á því að ég var búin að eyða nær öllum tímanum í félagsstörfin í stað þess að vinna að mínum verkum. Hér er maður líka alltaf með samviskubit gagnvart kollegunum ef maður fær starfslaun, en þeir sem eru á launum eru alltaf skipaðir í nefndir því þeir eru svo sakbitnir yfir starfslaununum,“ segir Brynhildur, brosir og hristir höfuðið. „Ég var að lokum búin að fá al- veg nóg af þessu félagsmálastússi og kom mér alveg út úr öllu slíku. Sá pakki er bara búinn. Það er voða gott að vera komin svolítið út úr þessum myndlistarheimi og öllu því veseni – þetta tuð er svo slítandi. Óánægja hér, fólk að karpa þar, sífellt píslarvætti – ég hef aldrei ver- ið í því liði! Það er gaman að fara og hitta koll- egana á kaffistofunni í Myndhöggvarafélaginu en það þarf að hafa sín takmörk. Nú hljómar þetta sjálfsagt eins og ég sé orðin ansi settluð hér – en mér finnst líka eins og ég hafi allan tíma í heimi og geti nú farið að gera fullt af hlutum!“ Þessi ofboðslega vinnuþörf – Hvernig setur þú þig í samhengi við aðra listamenn hér, og listumhverfið? „Ég segist alltaf vera gamaldags styttugerð- arkona. Það hafa ekki orðið neinar stökkbreyt- ingar hjá mér. Það er engin hugmyndafræði bak við þetta sem ég er að gera. Það er bara þessi ofboðslega vinnuþörf og sköpunarþörf. Mér finnst núna vera að koma fram ungt fólk SEST BARA Á ÁLFA- STEININN FYRIR UTAN Hvöss glerhorn hafa ein- kennt verk Brynhildar Þorgeirsdóttur; þetta eru oft stórir dýrslegir stöplar úr steypu og sandi, eða ljóðræn fjöll með djúpum gleraugum. Brynhildur vakti snemma athygli fyrir persónulegan myndheim, en hún er bæði menntuð í gleri og skúlptúr. Hún sagði EINARI FAL ING- ÓLFSSYNI frá því að hún verði sífellt heimakærari, og uni sér hvergi betur en við styttugerðina í húsinu sem hún reisti yfir sig og verkin í Staðahverfinu. Morgunblaðið/Einar FalurBrynhildur Þorgeirsdóttir

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.