Lesbók Morgunblaðsins - 21.06.2003, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 21.06.2003, Blaðsíða 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 21. JÚNÍ 2003 HETJUKVÆÐIÐ Matthews Barneys um þrá mannsinseftir fullkomnu frelsi kynleysisins er flutt á heima-slóðum í Guggenheim-safninu á Manhattan. Safn-byggingin fer með stórt hlutverk í lokakafla verksins. Spírallaga gangurinn umhverfis opna miðju safnsins fetar sig upp fimm hæðir og það er hér sem fimm þættir Cremaster- kvikmyndanna eiga sitt upphaf og endi. Þetta er óður Barneys til karlmennskunnar; áskorana, nagandi efa og drambs sem alltaf leiðir til falls. Og endursköpunar. Í Reglunni, sem er sá hluti lokakafla Cremaster sem gerist í safninu, er Alter-Ego Barneys, lærlingurinn Entered Apprent- ice, mættur til leiks í glæstum skrúða; úr tannlausum og blóð- ugum munnvikunum (refsingu lærlingsins fyrir ofdramb sitt) stendur silkiklútur. Lærlingurinn tekur undir sig stökk og hefur að klífa upp eftir utanverðum veggjum spíralsins, með öllu óvarinn falli. Um- merki gjörningsins, búnaður einna líkastur söðli settum hönk- um, liggja upp eftir svalaveggjum safnsins og brúnirnar eru bólstraðar líkt og fimleikaslá. Karlmennskan í fyrirrúmi Lærlingurinn fetar sig upp hæðirnar fimm og tekst m.a. á við tvær kappsfullar þungarokkshljómsveitir og eigið kvenlega eðli í persónu sem leikinn er af Amiee Milles, fyrirsætu og fótalausri afrekskonu í íþróttum fatlaðra. Efst í spíralnum stendur svo lærifaðirinn, skúlptúristinn Richard Serra, og slettir kraum- andi vaselíni á stálplötur. Auk þess að koma fram í eigin per- sónu í Guggenheim fer Serra með hlutverk arkitekts Chrysler- byggingarinnar í þessum lokakafla Cremaster-hringsins. Gjörningur Serra vísar til frumkvöðulsverks hans frá 7. ára- tugnum þar sem hann sletti bræddu blýi um veggi vinnustofu sinnar og ögraði með því hugmyndum fólks um hvað væri skúlptúr. Síðan þá hefur hans helsti efniviður verið risavaxnir stálfleygar, ættaðir úr skipasmíðastöð í Þýskalandi. Það gerist ekki öllu karlmannlegra. Þetta er einn smellnasti hluti Cremaster. Barney hæðir og lofar í senn þetta eilífa brölt okkar mannanna til líkamlegra og andlegra þrekvirkja. Það að við skulum sífellt finna okkur knúin til að leita að nýjum áskorunum og ögrunum. Á sýningunni í Guggenheim eru innsetningar með skúlptúr- um úr Cremaster-kvikmyndunum, auk ljósmynda og teikninga, þar sem rakin eru í réttri röð þemu kvikmyndanna fimm. Kvik- myndirnar sjálfar eru svo sýndar í tilheyrandi hlutum innsetn- inganna. Sýningin veitir því skýrari sýn á Cremaster-heim Barneys. Hér er þó ekki einfaldleikanum fyrir að fara, og sem fyrr má komast að þeirri niðurstöðu að ekkert sé eins og það sýnist og að einstök fyrirbæri búi yfir margslungnum skírskot- unum, bæði til annarra þátta innan verksins, sem og utan þess. Enda mikill misskilningur að líta á Cremaster sem einhverja Hringadróttinssögu sem rekur sig rökvís frá upphafi til enda í baráttu góðs og ills. Sennilega er því farsælast að hætta að reyna að „skilja“ og leyfa sér að verða gagntekinn af þessum dá- leiðandi heimi drauma og martraða í senn. Því það sem Matthew Barney glímir við er að koma tilfinn- ingum og kenndum sem bærast innra með manninum í fast form, í frístandandi skúlptúr í rými. Segja má að kvikmyndirnar séu þá eins konar lýsing á þeim kenndum sem síðan eru færðar yfir í listobjekta sem eftir standa, þeir hafi m.ö.o. líkamnast á breiðtjaldinu. Þetta verk ferst honum frábærlega af hendi. Máttur kvikmyndanna bitnar á skúlptúrunum Það er hins vegar nokkuð sláandi við að skoða Cremaster- hringinn í Guggenheim, að upplifa hversu sterkur kvikmynda- hluti verksins er á kostnað þess sem eftir stendur í rýmum safnsins. Þetta huglæga rými kvikmyndanna er ótrúlega gríp- andi og sjónrænt áhrifameira en skúlptúrar úr vaselíni, tabíókíi og plastefnum. Ef til vill er þetta eðli kvikmyndamiðilsins, dá- leiðandi máttur kvikra hreyfinga á tjaldi. Það er því erfitt að komast hjá því að lesa viðburði kvik- myndanna úr öllum þeim hlutum sem fyrir augum ber í Guggenheim-safninu. Og án þess að ætla sér það verður maður sífellt uppteknari af því að rýna í risavaxinn fimmhliða skjáinn sem hangir neðan úr loftinu miðju og sýnir á víxl senur úr Regl- unni, þar sem persónur og táknmyndir allra kafla verksins koma saman á keppnisleikvangi safnsins. Að feta sig upp gang safnsins er því dálítið eins og að reika um leiksvið að sýningu lokinni. Cremaster-hringur Matthews Barneys er á enda. HULDA STEFÁNSDÓTTIR skoðaði sýningu listamannsins á sínum lokastað, í Guggenheim-safninu í New York, þar sem verkið á sér upphaf og endi. Á SLÓÐUM CREMASTER-HRINGSINS Myndlistarmaðurinn Matthew Barney í hlutverki Lærlingsins sem hér er staddur á keppnisleikvangi Guggenheim-safnsins. AFHJÚPAÐ var á dögunum útilistaverk í Grafarvogi úr smiðju Gjörningaklúbbsins, en listamennirnir þrír sem hópinn skipa, þær Jóní Jónsdóttir, Eirún Sigurðardóttir og Sig- rún Hrólfsdóttir, eru jafnframt nýsnúnar heim frá Danmörku þar sem þær unnu gjörn- ing í samvinnu við mótorhjólagengi og lúðra- sveit og undirbúa um þessar mundir sam- vinnuverkefni með japanska listamanninum Yoshimoto Nara í München í september. Enn- fremur takast þær á við hið vandasama verk- efni að fylgja í kjölfar Matthews Barneys með sýningu í Nýlistasafninu í sumar. Eina ómetanlega dýrmætið Verkið sem afhjúpað var nyverið nefnist Dýrmæti og stendur á bílaplani Borgar- holtsskóla í Grafarvogi, en skólinn stóð fyrir opinni hugmyndasamkeppni síðastliðið vor og kaus dómnefnd verk Gjörningaklúbbsins. Verkið samanstendur af demantslaga skúlpt- úr úr ryðfríu, epoxy-húðuðu stáli og áletrun- inni „Ómetanlegt dýrmæti“ á rúðu í skóla- byggingunni. „Demanturinn er eins og hann hafi fallið af himnum ofan á bílaplanið. Áletr- unin á glugganum vísar til menntunarinnar og mannauðsins innan veggja skólans, sem er dýrmæti og fellur ekki af himnum ofan,“ segja þær Jóní, Sigrún og Eirún. „Harpa Björnsdóttir myndlistarmaður, sem var trún- aðarmaður samkeppninnar, talaði mjög fal- lega við afhjúpunina um hugmyndafræðina að baki verkinu, að menntun og reynsla sé hið eina ómetanlega dýrmæti sem við eigum, nokkuð sem við getum aflað en ekki keypt.“ Athygli vekur að listamenn af „ungu kyn- slóðinni“ geri útilistaverk, en Gjörninga- klúbburinn er skipaður þremur listamönnum í kringum þrítugt. „Það fylgir því á vissan hátt önnur tilfinning að gera verk sem er var- anlegt og mun standa um aldur og ævi en að vera með performans sem er búinn þegar hann er búinn og kemur aldrei til baka,“ segja þær. Hugmyndaheimurinn sem birtist í verkum Gjörningaklúbbsins er margræður, en Sigrún, Eirún og Jóní segja sömu táknin endurtaka sig í verkum þeirra. „Demanturinn í Dýrmæti er til dæmis ekki nýtt fyrirbrigði í verkum okkar. Vegna þess að við erum þrjár getur hugmyndafræðin stundum virst flókin, en stundum verður hún einfaldari fyrir vikið, því hún hefur þurft að fara í gegnum þrjár síur. En lífið og hvað það er mikilvægt að kunna að meta hlutina er það sem við erum yfirhöfuð að fást við. Dýrmætið og fegurðin í alls konar hversdagslegum hlutum, sem má öðlast aðra sýn á. Til dæmis má nefna myndbandið „Með þökk“, sem er þakkaróður til þorsksins. Húm- or og gagnrýninn undirtónn eru fyrir hendi, en auðvitað erum við að búa til myndlist, það er aðalatriðið.“ Borgarholtsskóli sótti um styrk úr list- skreytingasjóði ríkisins til þess að standa straum af kostnaði við útilistaverkið. „Það er mjög gott framtak hjá skólanum að sækja um í þennan sjóð. Það getur verið að ekki viti allir af honum, en það er hægt að sækja um allt að 2–3% af heildarkostnaði við bygginguna til fjárfestingar í listskreytingu,“ segja þær. Tal- ið berst að listskreytingum fyrirtækja og stofnana víðsvegar um land. Rifjast þá upp önnur samkeppni um útilistaverk þar sem Gjörningaklúbburinn bar sigur úr býtum, á vegum Landsvirkjunar. Í ljós kemur að nið- urstöðurnar urðu ljósar í sömu vikunni í fyrrasumar. „Já, það var alveg ótrúleg vika. Við munum vinna í verkinu, sem er við Vatns- fellsvirkjun, í sumar. Þetta er langtímaverk- efni sem við vinnum í samvinnu við Kristínu Svavarsdóttur, plöntuvistfræðing hjá Land- græðslunni, og Landsvirkjun. Fyrir þeim er verkið líka áhugaverð vísindaleg tilraun. Vís- indi og listir tvinnast þarna mjög vel saman,“ segja þær um verkið, sem er gróðurþríhyrn- ingur í svartri auðn á hálendinu, sem hita og vatni er veitt sérstaklega til. Takk við þjóðina Gjörningaklúbburinn fæst við fjölbreytt verkefni, þó að tvö útilistaverk hafi fallið í þeirra skaut á síðastliðnu ári, og margt er framundan. „Við erum nýkomnar frá Árósum í Danmörku, þar sem við vorum beðnar að vinna að gjörningi. Við vorum í samvinnu við Harley Davidson-mótorhjólagengi og lúðra- sveit. Það var mjög spennandi og heppnaðist vel,“ segja þær um gjörninginn, sem bar heit- ið Ceremony Harmony. „Við erum svo á leið til Prag á tvíæringinn þar og hlutum nýverið styrk til fararinnar frá Myndstefi. Í París er svo verið að sýna myndbandið „Where do we go from here?“ á myndbandahátíð, þar sem einnig eru sýnd verk eftir m.a. John Armled- er, Roman Coppola og Spike Jonze.“ Nýlistasafnið mun svo hýsa sýningu á nýj- um verkum Gjörningaklúbbsins í sumar, í júlí í kjölfar sýningar Matthews Barneys. „Það fylgir því ákveðin ögrun að vera beint á eftir honum,“ segja þær og bæta við að koma Barn- eys hingað til lands sé mikil lyftistöng fyrir listalífið hér. „Það er auðvitað alveg ótrúlegt að listamannarekið safn skuli geta fengið svo markverðan listamann eins og hann er til að sýna hjá sér, en stóru söfnin ekki.“ Gjörningaklúbburinn hlaut starfslaun úr sjóði myndlistarmanna í ár og er ekki annað að sjá en þær séu að vinna fyrir þeim. Þær segjast hafa haft í nógu að snúast frá því þær stofnuðu Gjörningaklúbbinn og útskrifuðust úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands fyrir sjö árum. Ekkert lát sé heldur á starfinu. „Við viljum segja takk við þjóðina, sem borgar launin okkar núna, og vonumst til að hún kunni að meta það sem hún fær á móti,“ segja þær Eirún, Jóní og Sigrún að lokum. Hægt er að kynna sér Gjörningaklúbbinn nánar á heimasíðunni ilc.is. DÝRMÆTI „HVERSDAGSINS“ ingamaria@mbl.is Það er stöðugt eitthvað um að vera hjá Gjörninga- klúbbnum. INGA MARÍA LEIFSDÓTTIR tók púlsinn á liðsmönnum klúbbsins þremur, þeim Jóní Jónsdóttur, Eirúnu Sigurðardóttur og Sigrúnu Hrólfsdóttur. Morgunblaðið/Jim Smart Gjörningaklúbburinn við útilistaverk sitt, Dýrmæti, á bílaplani Borgarholtsskóla í Grafarvogi.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.