Íslendingaþættir Tímans - 16.02.1983, Blaðsíða 4

Íslendingaþættir Tímans - 16.02.1983, Blaðsíða 4
Helgi G. Benediksson, fyrrverandi oddviti Hvammstanga Fæddur 12. janúar 1914 Dáinn 29. desember 1982 Náinn frændi minn og nafni er nú allur svo löngu fyrr en skyldi. Horfinn er af sviði mikill öðlingsmaður, sannur ljúflingur að öllu skapferli, hinn gegnasti og grandvarasti þegn, sem öllu góðu lagði lið. Óvænt kom dauðans kall, þó heilsan væri ekki sterk, en lífsgleðin og lífslöngunin fylgdu honum allt að leiðarlokum. Sterk fjölskyldu- og vináttutengsl hafa jafnan ríkt með hinum mörgu systkinum Helga og þeirra fólki og hefi ég þar hvergi farið varhluta af. Ungur kom hann til dvalar í Seljateigi hjá systur sinni og mági, foreldrum mínum, og gott og náið samband var þar ætíð á milli, þó fjarlægðin hindraði meiri og betri samskipti. En mjög var með þeim kært og saknaðarkveðjur eru nú sendar norður frá þeim og blessunar beðið þeim, sem þar syrgja nánasta ástvin sinn. Helgi Benediktsson var óvenju vel gerður maður. Komu þar til ágæt greind og gjörhygli, skaplyndi svo gott að fágætt er, þannig að hann var hvers manns hugljúfi, óbilandi bjartsýni og trú á tilveruna og ekki sízt hversu vandaður maður hann var að hverju sem hann gekk. Ætíð var að öllu starfað svo sem atorka frekast leyfði og aldrei slakað á. Sanngirni, heiðarleiki og réttsýni voru honum í blóð borin. Sannarlega hefði maður eins og Helgi Bene- diktsson haft við það að gera að stunda skólanám með svo fjölbreytta hæfileika og góða eðlisgreind að vegarnesti, en fátækt kreppunnar leyfði ekki slíkan munað. En í lífsins skóla hlaut hann hina ágætustu einkunn, það sýndu þau fjölmörgu félagsmála- og trúnaðarstörf, sem honum voru falin og þá ekki sízt, er hann var oddviti þeirra Hvammstangabúa um átta ára skeið. Þar komu bjartsýnin og hin létta lund hans sér vel, en ekki síður hin óþreytandi elja hans og óbrigðula samvizkusemi, sem hann var rómaður fyrir. í hverju því starfi, sem hann innti af hendi kom hin einstaka lipurð og hjálpfýsi hans vel fram, ekki hvað sízt á störfum sínum fyrir Kaupfélagið á Hvammstanga, þar sem hann vann lengst við verzlunarstörf. Lífsskoðun hans var fastmótuð og ákveðin. Hann var mikill trúmaður, enda ævinlega í ljóssins fylgd og ungur hreifst hann af hugsjón jafnarðarstefnunnar og var sannur merkisberi hennar í orði sem verki. Slíka liðsmenn er hverrri hreyfingu gott að eiga og þar átti Alþýðuflokkur- inn talsmann, sem hvergi bifaðist, þó ýmislegt gengi á og ekki væri honum allt að skapi. En hugsjón jafnaðarstefnunnar var samofin skapgerð hans og lyndiseinkunn allri og sigrar hennar, margir og mótandi á flestum sviðum þjóðlífsins voru honum hugum kærir. Aldrei deildum við frændur um stjórnmál, enda taldi hann áherzlu- 4 mun einan skilja okkur að og færði að því góð og gild rök, sem vissulega var unnt undir að taka. Helgi Guðmundur Benediktsson var fæddur 12. janúar 1914 að Skinnastöðum íTorfalækjarhreppi Austur-Húnavatnssýslu. Foreldrar hans voru hjónin Guðrún Fr. Þorláksdóttir og Benedikt Helgason. Barnahópurinn var stór og alls urðu systkinin 13, þar af komust 12 til fullorðinsára. 9 systkini Helga eru enn á lífi en tveir bræður hans látnir. Erfið voru kjör þeirra hjóna Guðrúnar og Benedikts og lífsbaráttan hörð. 7 ára gamall fór Helgi að Svínavatni og var það í 10 ár. Vinnuharka var mikil þar nyrðra og börnum og unglingum hvergi hlíft og fengu þau systkini, sem flest fóru ung frá foreldrum sínum, vissulega að kenna harkalega á því. En þau hlutu að lúta tíðaranda þess tíma, stóðust hverja raun og urðu öll hinir nýtustu þjóðfélagsþegnar. Um 18 ára aldur lá leiðin svo austur á Reyðarfjörð til Helgu systur hans og hennar manns Jóhanns bónda í Seljateigi og þar var hann um nær tveggja ára skeið, vann bæði bústörf og ýmsa daglaunavinnu og var vinsæll og vel látinn þar sem annars staðar. Þá fer hann norður á ný, en foreldrar hans voru þá flutt til Blönduóss. Þar vinnur hann í 5 ár við vélgæzlustörf við rafstöðina í Sauðanesi og var til þess tekið, hver vel honum fórust þau verk úr hendi, alls ólærðum á þessu sviði. Þar gekk hann á vit lífsgæfu sinnar, en þá kynntist hann eftirlifandi konu sinni Kristínu Jónsdóttur frá Hlíð á Vatnsnesi, sérstakri öndveg- iskonu og glæsilegri að allri gerð. Foreldrar Kristínar voru þau hjón Halldóra M. Guðmunds- dóttir og hinn þjóðkunni kvæðamaður Jón Lárusson bóndi í Hlíð. Listrænir hæfileikar eru mikir í þessari ætt, sem komin er af Bólu-Hjálmari og hefur Kristín ekki farið varhluta af þeim. Jafnræði var með þeim hjónum og ástríki mikið. Þau gengu í hjónaband 1. september 1945 og voru fyrstu tvö árin á Blönduósi. Þá fluttu þau til Reykjavíkur og voruþarbúandi í eitt ár, en hugðu síðan til búskapar að Hlíð á Vatnsnesi og voru þar í tvö ár. En þar kom glögglega í Ijós, að hvorugt var heilsuhraust og afréðu þau hjón þá að flytja til Hvammstanga 1949 og þar hafa þau búið alla tíð síðan. Þau eignuðust eina dóttur Guðrúnu Halldóru, en eiginmaður hennar er Þráinn Traustason húsasmiður og búa þau á Laugarbakka í Miðfirði og eiga þrjú börn. Voru þau eftirlæti afa síns og sáu ekki sólina fyrir honum. Eins og áður er að vikið var starfsvettvangur Helga á Hvammstanga fjölbreyttur og hvarvetna skilur hann eftir sig spor hins dáðríka dreng- skaparmanns, sem allra götu vildi greiða. Traust sitt á honum sýndu Hvammstangabúar glöggt og í engu brást hann því trausti. Ég minnist þess glöggt, er ég var þar á ferð, hve stoltur hann sýndi mér hið vaxandi blómlega þorp, en ekki síðrá var það, hve mikla hlýju hann bar í brjósti til íbúanna, ekki sízt hinna ungu. Það fannst líka glöggt á viðmóti þeirra, er á vegi okkar urðu, hvern hug menn báru til Helga. En í dagsins önn og erli var heimilið griðastaður og mikil unun var að sækja þau heim, og sjá hversu gleðin og ástúðin merlaði milli þeirra, hve alúðin við gestina var ósvikin og þó veikindi herjuðu á, var hinn létti tónn ævinlega í öndvegi. Það leiftrar af kvöldinu góða fyrir nokkrum árum, þegar við Þórir Gíslason frændi minn áttum þar dýrðlega stund, sem hvorugum gleymist. Þvílík elskusemi, þvílík hátíð gamanmálanna og gleð- innar. Og nú kveðjum við þennan góða dreng þakklátum og klökkum huga. Lífsbraut hans var í engu dans á rósum, en ævistarfinu skilaði hann með ágætum þess, sem ævinlega gerði skyldu sína, sem ætíð gerði það sem hann vissi sannast og réttast. Björt og góð er sú mæta minning, sem ég á um þennan farsæla og hugumprúða frænda minn og nafna. Hlýjar eru kveðjurnar að austan, Kristín mín og þið öll, sem syrgið nú ykkar kæra vin. Minningarnar um allt hið góða vermi hugskotið í sárum söknuði ykkar og veiti ykur hugarfró. Systir og mágur þakka og kveðja hrærðum hug. Skammdegismyrkrið grúfir yfir, en ofar öðru skín vissan um geislandi dýrð vorsólarinnar. Fáa veit ég sannari syni þeirra sólskinstrúar en Helga Benediktsson. Blessuð sé minning hans Helgi Seljan. islendingaþættir

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.