Lesbók Morgunblaðsins - 25.09.2004, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 25.09.2004, Blaðsíða 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 25. september 2004 Eins og flestum er kunnugthefur um allnokkurtskeið verið unnið að nýrriþýðingu Gamla testa- mentisins á vegum Hins íslenska biblíufélags. Oft heyrast raddir sem spyrja hvers vegna verið sé að þýða Biblíuna að nýju, hvort ekki sé fyrir löngu búið að ljúka því í eitt skipti fyrir öll. Áður en þeirri spurningu verður svarað ætla ég að rekja stutt- lega langa sögu íslenskra biblíuþýð- inga. Vitað er að snemma var farið að þýða biblíutexta á íslensku þótt eng- ar líkur séu á að til hafi verið þýðing á allri Biblíunni í kaþólskum sið á ís- lensku. Samfelldasti biblíutexti, sem varðveittur er frá miðöldum, hefur verið nefndur Stjórn, og nær hann yfir fyrri hluta Gamla testament- isins frá Mósebókum til loka síðari Konungabókar. Þessi texti er til í mörgum handritum og hafði veruleg áhrif á íslenskar fornbókmenntir. Um aðra samfellda kafla er lítið vitað. Þó fara sögur af því að Jón biskup Arason hafi látið prenta þýðingu á guðspjöllunum, svonefnda Fjóra guðspjallamenn, en heimildir um það rit eru afar fátæk- legar. Síðasta eintakið var að sögn látið í kistu Brynjólfs biskups Sveinssonar 1675. Af því sem varð- veist hefur er þó ljóst að talsvert hafði verið þýtt af biblíutextum þeg- ar Oddur Gottskálksson tók til við Nýja testamentið og hann hafði eitt- hvað við að styðjast þegar hann hóf verkið. Oddur Gottskálksson var fróður maður og vel menntaður. Á árum sínum erlendis kynntist hann siðbót- arhreyfingunni og þeim mönnum sem boðuðu nýjan skilning á kenn- ingum kirkjunnar. Framámenn hreyfingarinnar vildu ná til alþýð- unnar og því var fljótlega hafist handa við nýjar þýðingar Biblíunnar og útgáfur annarra guðsorðarita. Oddur hreifst af þessum nýju straumum og hóf að þýða Nýja testamentið í Skálholti veturinn 1536 en síðustu hönd lagði hann á þýðinguna 1538. Hún var síðan prentuð í Hróarskeldu 1540. Eftir siðaskipti óx áhugi innan kirkjunnar á að Biblían yrði öll þýdd. Vitað er til að Oddur þýddi nokkrar bækur Gamla testament- isins og Gísli Einarsson, síðar bisk- up, Orðskviðina og Síraksbók. Auk þessara tveggja þýðenda er talið að biskuparnir Ólafur Hjaltason og Gísli Jónsson hafi fengist við að þýða kafla úr Gamla testamentinu. Það kom síðan í hlut Guðbrands Þorláks- sonar biskups að safna þessum þýð- ingum saman og laga þær að eigin málsmekk. Einnig mun hann hafa þýtt sjálfur það sem enn var óþýtt. Guðbrandur tók Nýja testament- isþýðingu Odds upp í Biblíu sína og gerði á henni óverulegar breytingar. Guðbrandsbiblía kom út 1584 og hafði án efa mikil áhrif á tunguna og varðveislu hennar. Því hefur meira að segja verið haldið fram að hefðu Íslendingar ekki eignast biblíuþýð- ingu eins snemma og raun ber vitni hefðu þeir að öllum líkindum tekið upp danska tungu og glatað sinni að mestu eða öllu leyti. Dóttursonur Guðbrands Þorláks- sonar, Þorlákur biskup Skúlason, gaf út Biblíu á árunum 1637–1644 og var hún að mestu endurútgáfa á Guðbrandsbiblíu. Þorlákur bar Biblíuna saman við Biblíu Lúthers og danska Biblíu frá 1633, sem kennd er við Kristján fjórða, og má rekja eitthvað af þeim breytingum sem hann gerði til þessara verka. Samkvæmt tilskipun konungs átti hann þó fyrst og fremst að fara eftir danskri Biblíu sem Hans Resen, síð- ar Sjálandsbiskup, hafði þýtt beint úr hebresku og grísku að því er talið er og gefin var út 1607. Í samtímaheimildum er ekki að sjá hver viðbrögð almennings voru enda lítið annað prentað en bisk- uparnir vildu. Segja má því að Guð- brandsbiblía hafi verið nær einráð frá lokum 16. aldar og fram undir miðja 19. öld þar sem tvær af þrem- ur næstu útgáfum voru svo til beinar endurprentanir með litlum breyt- ingum. Það voru svokölluð Vais- enhúsbiblía, sem kennd var við hið konunglega Vaisenhus í Kaup- mannahöfn, gefin út 1747, og Biblían frá 1813, oft nefnd Grútarbiblía vegna prentvillu (harmagrútur í stað harmagrátur) eða Hend- ersonbiblía. Það er því augljóst að Guðbrandsbiblía, og þar með einnig Nýja testamenti Odds Gottskálks- sonar, hefur haft veruleg áhrif á það málfar sem ríkti innan kirkjunnar og um leið á málfar alls þorra fólks í landinu um aldir. Biblía Steins biskups Jónssonar frá 1728 er eins og hlykkur á annars beinni leið frá Guðbrandi til Hend- ersonbiblíu en honum var falið af Friðriki konungi fjórða að endur- skoða Biblíu Þorláks Skúlasonar og laga hana að dönsku Biblíunni, lík- lega útgáfu Hans Svane frá 1647. Steinn virðist hafa tekið fyrirmælin mjög bókstaflega og er málfar víða dönskuskotið. Margir hafa farið hörðum orðum um þessa þýðingu Steins og skilið orð hans í ævisög- unni of bókstaflega. Meginástæða þess er líklegast sú að mönnum hef- ur þótt texti Steins víkja um of frá kunnuglegu orðfæri. Hann víkur víða frá þeirri biblíumálshefð sem ríkt hafði að minnsta kosti frá 1540 og tekur upp hversdagslegri orð í skiptum fyrir önnur hátíðlegri. Á 19. öld varð vakning meðal Ís- lendinga um málrækt í anda róm- antísku stefnunnar og Fjölnismanna og áhersla var lögð á að sníða af Biblíunni dönskuskotið málfar. Þekking á frumtextum hafði aukist og strangari kröfur voru gerðar til nákvæmni en áður. Það var því tími til kominn að hefjast handa á ný við biblíuþýðingu. Byrjað var á endur- skoðun Nýja testamentisins og tals- verðar breytingar gerðar á text- anum. Það var síðan gefið út á árunum 1826–27 en Biblían öll í Við- ey 1841 og hefur hún löngum verið kennd við prentstað sinn. Alþýðleg- ur blær var á allri þýðingunni bæði í orðavali og stafsetningu enda var það í anda Fjölnismanna að leita fyr- irmynda í alþýðumáli. Það má vera að þýðingarnar séu ekki alltaf ná- kvæmar en óneitanlega eru margar þeirra afar fallegar. En menn undu ekki lengi við þessa þýðingu því að snemma á sjö- unda tug aldarinnar ákvað breska biblíufélagið að styðja útgáfu nýrrar Biblíu. Nýja testamentið var endur- skoðað og hluti Gamla testament- isins en vegna tímaskorts varð ekki af frekari endurskoðun. Biblían var síðan gefin út 1866. Háværar deilur urðu um útgáfuna sem urðu til þess að Hið íslenska biblíufélag ákvað þegar 1887 að láta fara fram endur- skoðun á henni. Verkið hófst þó ekki fyrr en 1897 að Haraldur Níelsson tók það að sér þá nýkominn frá námi. Með honum vann að þýðing- unni séra Gísli Skúlason. Markmiðið var að leggja frumtextann alltaf til grundvallar og þýða eins nærri orð- um hans og framast væri unnt. Skipti það þýðendur og þýðing- arnefnd meira máli en málfarið. Það má virða aðstandendum þýðing- arinnar til vorkunnar að þetta sjón- armið var ríkjandi í biblíuþýðingum á þessum tíma. En þýðingin, sem gefin var út 1908 og aftur endur- skoðuð 1912, er ekki ný þýðing í orðsins fyllstu merkingu. Finna má nær orðrétta kafla úr Viðeyjarbiblíu og talsvert hefur verið stuðst við endurskoðunina frá 1866. Íslensk Biblía var síðast gefin út 1981 og var hún tíunda í röð ís- lenskra biblíuþýðinga. Þó var ekki um heildarþýðingu að ræða. Guð- spjöllin voru endurþýdd úr frum- texta og Postulasagan var sömuleið- is þýdd að nýju en fyrri þýðing annarra rita Nýja testamentisins endurskoðuð. Einnig voru gerðar nokkrar breytingar á Gamla testa- mentinu. Þessi útgáfa var þó aðeins hugsuð sem bráðabirgðaútgáfa en stefnt var að nýrri þýðingu Bibl- íunnar allrar. Að henni hefur verið unnið frá 1990 en áður höfðu verið gerðar tilraunaþýðingar á tveimur bókum Gamla testamentisins. Níu kynningarhefti hafa verið gefin út með textum Gamla testamentisins, apókrýfu bækurnar voru gefnar út til kynningar í nýrri þýðingu 1994 og stefnt er að kynningarhefti með nýj- um þýðingum Opinberunarbókar og bréfanna en endurskoðuðum texta guðspjallanna og Postulasögu snemma næsta árs. Stefnt er að því að Biblían verði gefin út 2006 eins og fram kom á kynningu nýlega. Það er erfitt verk að þýða Biblí- una. Engin ein leið er greiðfærari en önnur. Ýmsar spurningar vakna þegar unnið er með svo viðkvæman texta. Hversu mjög á þýðingin að vera frumtextanum trú? Er ástæða til að halda tryggð við eldri þýð- ingar? Hvaða kröfur á að gera til lesandans og hans málskilnings? Þessar spurningar og aðrar leita á huga þeirra sem verkið vinna. Svar mitt er: Þýðendur verða að vera frumtextanum trúir til þess að sú kenning sem Biblían boðar verði rétt lesin og túlkuð. Boðskapurinn verður að vera ljós hverjum þeim sem les og málið eins gott og frekast er unnt. Enn hefur ekki tekist að fullnægja öllum þessum kröfum en ég tel að við hverja nýja þýðingu og hverja endurskoðun hafi þetta verið einlægur ásetningur þeirra sem verkið unnu. Eitt gerir biblíuþýð- ingu þó erfiðari en aðrar þýðingar en það er að flestir kunna heila kafla úr textanum og vilja ekki að hróflað sé við þeim. Sumir þessara kafla, eins og faðirvorið, boðorðin og hlut- ar fjallræðunnar, hafa erfst mann fram af manni og eru ekki lærðir af bók. Biblían þarf ávallt að vera í endur- skoðun. Stöðugt má bæta mikinn texta og þekking manna og skiln- ingur á frumtextanum eykst jafnt og þétt. Tilfinning manna fyrir máli og stíl mun breytast eins og hún hefur gert um aldir. Guðsorð hefur ekki sömu áhrif á málfar alþýðu og það hafði fyrr á öldum en markmið bibl- íuþýðenda á að vera að skila á hverj- um tíma eins góðum texta á eins vönduðu samtímamáli og frekast er unnt á þess að hvika að þarflausu frá rótgróinni biblíumálshefð. Kirkjan verður að geta náð til nýrra lesenda sem hrökkva ekki frá biblíutexta sem er of langt frá þeim orðaforða og því málfari sem þeim er tamt. Þar á ég ekki við að slaka eigi á málfars- legum kröfum heldur að texti Bibl- íunnar eigi ávallt að vera fyrirmynd annarra texta á hverjum tíma. En biblíutextinn er ekki góð fyrirmynd ef ekki er tekið tillit til eðlilegrar þróunar málsins. Við verðum að geta sleppt hendi af gömlu þýðing- unni, sem við ólumst upp við, rétt eins og við verðum að geta sleppt hendi af börnum okkar þegar þau vaxa úr grasi. Biblíuþýðingar Til hvers er verið að þýða Biblíuna einu sinni enn? Hér er leitað svara við þeirri spurningu og rakin saga biblíuþýðinga. Morgunblaðið/Kristinn Viðkvæmur texti „Það er erfitt verk að þýða Biblíuna. Engin ein leið er greið- færari en önnur. Ýmsar spurningar vakna þegar unnið er með svo við- kvæman texta.“ Höfundur er formaður þýðingarnefndar Gamla testamentisins og formaður rit- stjórnar þýðingarinnar. Eftir Guðrúnu Kvaran gkvaran@lex- is.hi.is Walking Around Stundum þreytir það mig að vera maður. Stundum kem ég inn á saumastofurnar og bíóin uppþornaður, ónæmur, einsog flókasvanur siglandi á vatni upphafs og ösku. Lyktin á rakarastofunum kemur mér til að grenja. Ég vil bara hvíla mig á steinum eða ull, vil hvorki sjá stofnanir né garða, söluvarning, gleraugu eða lyftur. Stundum þreyta mig fætur mínir og neglur og hár mitt og skuggi minn. Stundum þreytir það mig að vera maður. Samt sem áður væri indælt að hræða kontórista með afskorinni sverðlilju eða drepa nunnu með höggi á eyra. Fallegt væri að ganga um göturnar með grænan rýting og öskra þar til ég dræpist úr kulda. Ég vil ekki lengur vera rót í myrkrinu, liggja endilangur á maganum, óákveðinn, skjálfandi af syfju á blautum leirveggjum jarðarinnar, sjúgandi, hugsandi, étandi dag hvern. Ég óska mér ekki slíkrar ógæfu. Vil ekki lengur vera rót eða gröf, einmana jarðgöng, kjallari fullur af stíffrosnum líkum, deyjandi úr sorg. Þessvegna logar mánudagurinn einsog olía þegar hann sér mig nálgast með fangelsissvipinn, og gólar á leið sinni einsog sært hjól, og gengur heitum blóðskrefum inn í nóttina. Og ýtir mér út í ákveðin horn, ákveðin saggafull hús, spítala þar sem beinin standa út um gluggana, skósmíðastofur sem anga af ediki, götur skelfilegar einsog jarðsprungur. Til eru brennisteinslitir fuglar og hræðileg innyfli hanga í dyrum húsanna sem ég hata, til eru tanngarðar sem gleymst hafa í kaffikönnu, til eru speglar sem hefðu átt að gráta af skömm og hryllingi, úti um allt eru regnhlífar, og eitur, og naflar. Ég spássera í makindum, með augu, með skó, með ofsareiði, með gleymsku, geng áfram, fer um skrifstofur og stoðtækjabúðir og húsagarða þar sem föt hanga á vír til þerris: nærbuxur, handklæði og skyrtur sem gráta þungum skítugum tárum. Pablo Neruda (1904–1973) var chíleskt ljóðskáld. Ljóðið er úr bókinni Recedencia en la tierra II (1935) eða Athvarf á jörðu II. Pablo Neruda Ingibjörg Haraldsdóttir þýddi

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.