Morgunblaðið - 27.03.2005, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 27.03.2005, Blaðsíða 22
22 | 27.3.2005 þess að vera vitnisburður um virðingarstöðu eigandans. Á 17. öld voru demantar orðnir ráðandi í hönnun minni skartgripa og féll umgjörð skartsins í síauknum mæli í skugga steinanna, sem voru nú á færi efnuðustu kaupahéðna. Vinsældir demantanna jukust svo enn frekar á 18. öld, jafnvel þótt þeir prýddu að mestu kvenmannsskart og væru aðeins bornir að kveldi til, þar sem annað þótti óheflað. Þeir voru líka fluttir til Evrópu í mun meira magni en áður, Indland var ekki lengur eini birgirinn heldur höfðu fundist demantsnámur í Suður-Ameríku og rúmri öld síðar, 1867, fundust enn fleiri námur í Suður-Afríku. Og til að auka enn frekar á demantaflóðið sem streymdi á markaðinn ákvað ríkisstjórn þriðja lýðveldisins, eftir að hafa steypt Napóleon þriðja Frakklandskeisara af stóli, 1870, að selja stærstan hluta frönsku krúnudjásnanna. Flestir mun- anna fóru til bandarísku skartgripa- verslunarinnar Tiffany’s, sem greiddi of fjár fyrir. Undir lok 19. aldar var þessi eitt sinn fágæti steinn líka orðinn á færi fjöl- margra án þess þó að tapa aðdráttar- afli sínu að því er virðist. Úr miðju jarðar | Demantur er líklega einn elsti hlutur sem sæmilega stæðu fólki gefst kostur á að eignast á lífsleiðinni, enda líklega um þriggja milljarða ára gamall. Þetta gagnsæja form hreins kolefn- is sem demanturinn er myndast við háan hita og mikinn þrýsting djúpt í innri lögum jarðar. Talið er að stein- arnir hafi myndast í bráðnuðum hraunlögum sem síðar hafi borist með gosflaumi í efri jarðlög. Þær sérstöku jarðfræðilegu aðstæður sem demantar myndast við skila hins vegar ekki alltaf steinum í sama gæðaflokki og í raun eru einungis 20% þeirra steina sem finnast not- aðir í skartgripi – hinna 80% bíða þau örlög að vera notaðir í ýmiskon- ar iðnaði. Ekki falla heldur allir demantar í sama flokk, enda ræður náttúran lög- un, hreinleika og stærð steinsins. Nokkuð mis- jafnt er hvernig demantar eru slípaðir þó náttúruleg lögun þeirra sé venjulega höfð til hliðsjónar svo að sem minnst verðmæti fari forgörðum, en ljómi steinsins stafar af ljósbroti, endurskini og litrófstvístrun ljóssins. Af öllum gimsteinum hefur demantur- inn hæstan ljósbrotsstuðul: 2.419, en verð- mætamat steinsins byggist á alþjóðlegum staðli – c-unum fjórum – colour [lit], carat- weight [þyngd í karötum], clarity [hreinleika] og cut [slípun]. Litróf demanta er margslungið og steinarnir hreint ekki eins litlausir og margir gætu haldið. Litaskali steinanna nær frá bókstafnum D að Z + og eru demantar í D-flokki fullkomlega litlausir (og þar af leiðandi verðmætari), en eftir því sem litmagn steinanna eykst, því aftar falla þeir í stafrófið og þar með verð- mætaröðina. Demantur sem til dæmis fellur í J-flokk er ljósgulur að lit og er raunar ekki mælt með að fjárfesta í steinum í lægri flokkum, að undanskildum Z-flokknum, sem geymir fágæta, litríka og einkar verðmæta demanta sem eru fæðar sinnar vegna nefndir úrvalssteinar. Demantar í Z-flokki eru mjög gulir frá náttúrunnar hendi. Náttúrulegir rauðir demantar eru langverðmætastir, en á eftir koma aðrir litir svo sem bleikir, grænir og bláir í svokölluðum fancy color-flokki. Demanta má raunar einnig lita með geislameðferð, en þeirri aðferð er sjaldan beitt á stærri steina þar sem hún eykur ekki verðgildi þeirra. Þyngd steinsins skiptir ekki minna máli en liturinn og er þyngd demanta mæld í karötum og punktum, eitt karat samsvarar 0,2 g og einn punktur 0,002 g og 100 punktar þar af leiðandi einu karati. Stærsti steinn sem vitað er til að hafi fundist var Cullinan-steinninn sem vó 3.106 karöt, en var síðar skorinn niður í minni steina. Sá stærsti þeirra var Afríkustjarnan mikla sem vó 530,2 karöt. Stærsti steinn sem vitað er til að fluttur hafi verið hingað til lands er hins vegar ekki nema brot af því eða 4,20 karöt. Sá steinn var fluttur inn í upphafi níunda áratugarins vegna tískusýningar og var á þeim tíma metinn á andvirði þriggja herbergja íbúðar! Hreinleiki demantsins frá náttúrunnar hendi er svo enn einn þáttur í verðmætamatinu. Fyrsta flokks steinar eru fullkomlega tærir og nefnast inntærir (IF, Internally Flawless). Oftast er hins vegar einhver merki, eða agnir, frá náttúrunnar hendi að finna á demöntunum. Neðsti hreinleika- flokkurinn inniheldur steina með áberandi ögnum (P, Pigue), en milli IF og P er að finna flokkana VVS, VS og SI. Þess má geta að flestir demantar sem seldir eru hér á landi falla í VS-flokkinn. Þótt demantur fái góða einkunn í öllum flokkunum hér að ofan getur hann hrapað allnokkuð í verðgildi ef hann er illa slípaður, enda hafa ljós- fletir og endurvarp steinsins veruleg áhrif á fegurð hans. Hér er mikið komið undir hlutfalli skurðarins sem verður að vera á hárréttum stað svo sem mest endurvarp ljósbrots nái í gegnum efri flöt demantsins. Einna algengast er að demantar séu slípaðir í svo nefnda brilliant, eða ljómandi lögun, en við þá slípun öðlast steinninn 58 fleti. Demanta má þó slípa á marga aðra vegu og má sem dæmi nefna: smaragðslaga, perulaga, sporöskjulaga, sem og af- langa og útgeislandi steina og þá sem slípaðir eru með prinsessu-, markgreifa- og rósarskurði. Stóra og veru- lega verðmikla steina má svo skrautslípa þannig að þeir fái allt að 150 fleti. Átök og ágirnd | Enn í dag er Suður-Afríka með gjöf- ulustu demantsnámusvæðum, bæði er varðar magn og gæði steinanna. Auðugar námur er þó að finna víða annars staðar og fer framleiðsla landa á borð við Ástr- alíu, Rússland, Botsvana og Kongó sívaxandi. Gæðin eru þó ekki alls staðar þau sömu og eru til að mynda flestir þeirra steina sem finnast í Kongó aðeins dæmdir nothæfir til iðnaðar. Bandaríkjamenn kaupa mest eða um tvo þriðju hluta allra demanta sem finnast. Demanta má í raun kalla nokkurs konar alþjóðlegan gjaldmiðil, enda getur steinninn haldið verðgildi sínu mun betur en peningar á oft ótryggum fjármálamörkuðum. Ekki eru þó öll steinavið- skipti jafn æskileg frá sjónarmiði mannúðarmála og viðskiptasið- ferðis, en sala demanta frá átakasvæðum, svonefndra stríðssteina, hefur lengi verið umdeild og valdið áhyggjum. Enda hafa stríðs- steinar verið notaðir til að fjármagna átök, vopnakaup og starf- semi uppreisnarhópa í Afríkuríkjunum Sierra Leone, Líberíu, Lýðveldinu Kongó, Angóla, Burkina Faso sem og á Fílabeins- ströndinni. Afleiðingarnar hafa oft verið eyðing, kvöl og þjáning íbúa viðkomandi ríkja. Í Sierra Leone, svo dæmi séu tekin, hefur sala stríðssteina og átök um yfirráð þeirra gert samtökunum Re- volutionary United Front kleift að kaupa vopn og aðrar birgðir til að bæta stöðu sína. Pyntingar og aflimanir ásamt ólýsanlegum sársauka hafa í kjölfar- ið oft beðið þeirra almennu borgara sem á vegi þeirra hafa orðið. Talið er að sl. áratug hafi demöntum að andvirði um 10 milljarða dollara, eða tæp- lega 700 milljarða íslenskra króna, verið smyglað frá Sierra Leone, Angóla og Kongó. Þetta er þó, að því að fram kemur í skýrslu World Diamond Council, aðeins brot af því mikla magni demanta sem fer á markað árlega, en engu að síður má vera ljóst að umtalsvert magn vopna fæst keypt fyrir 700 milljarða króna. Ályktun Sameinuðu þjóðanna, sem krefjast þess að öll ríki samtakanna leggi sitt af mörkum til að hindra kaup stríðssteina, og lagagerð World Diamond Council, sem bannar sínum fé- lagsmönnum einfaldlega að kaupa steina sem ekki bera alþjóðlega upprunavottun, duga ekki til að stöðva söluna. Enda virðist alltaf mega finna einhvern sem ekki stenst glitrandi og allt að því ómótstæðilegt aðdráttarafl demantsins. | annaei@mbl.is Grace Kelly átti til- komumikið safn demanta. Það glitrar á demantana í kórónu Elísabetar II. Bretadrottningar, en fá- ir þjóðhöfðingjar geta státað af öðru eins safni voldugra eðalsteina. Marilyn Monroe söng um dem- anta og sagði þá besta vin stúlk- unnar í myndinni Gentlemen Pre- fer Blondes. Trúlofunarhringurinn sem Ben Affleck gaf Jennifer Lopez var 6 karöt og skart- aði bleikum demanti. Elizabeth Taylor með 69 karata Taylor-Burton- demantinn. Demantsdjásnin eru frá Siggu & Timo. Nicole Kidman með 241 karats Bulgari-hálsmen. Demanta má í raun kalla nokkurs konar alþjóðlegan gjaldmiðil, enda getur steinninn haldið verð- gildi sínu mun betur en peningar á oft ótryggum fjármálamörkuðum DEMANTAR DÝRASTA DJÁSNIÐ

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.