Fréttablaðið - 30.12.2008, Blaðsíða 12

Fréttablaðið - 30.12.2008, Blaðsíða 12
12 30. desember 2008 ÞRIÐJUDAGUR INNLENDIR VENDIPUNKTAR 2008 O ft er auðveldast að láta reka á reiðanum og forðast allar ákvarðanir. En sá val- kostur er ekki í boði í dag. Við sem þjóð þurfum að taka mikilvægar ákvarðan- ir. Ísland hefur orðið fyrir gríðarlegu efna- hagsáfalli og allir þurfa að leggjast á eitt til að vinna okkur út úr áfallinu. En hvert skal stefna? Það er engin peningastefna til í landinu eftir að verðbólgumarkmiðið sigldi í strand og enginn virðist treysta krónunni. Þá lá Evrópuumræðan í dvala á meðan allt virtist ganga svo vel. Aðild að Evrópusam- bandinu er raunhæfur kostur sem okkur ber að skoða af fullri alvöru. Pólitíska umhverfið Af stjórnmálaflokkum er það einungis Sam- fylkingin sem hefur sagt að hún vilji að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu og hefji aðildarviðræður. Samfylkingin vill einnig að unnið verði að víðtækri samstöðu um samningsmarkmið og að niðurstöður samninga verði bornar undir þjóðarat- kvæði. Aðrir stjórnmálaflokkar hafa ekki tekið afstöðu og sá stjórnmálaflokkur sem verið hefur stærstur síðustu ár og verið þaulsetinn í ríkisstjórn hefur ekki viljað opna Evrópuumræðu. Í ályktun um utanrík- ismál frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2007 segir meðal annars að Sjálfstæðis- flokkurinn telji aðild að Evrópusambandinu ekki þjóna hagsmunum íslensku þjóðarinn- ar eins og málum er háttað. Umræðan einfeldningsleg Umræðan um aðild að Evrópusambandinu er vanþróuð. Umræðan er oft afskrifuð með orðum á borð við „þetta tekur allt of langan tíma“ eða „þetta gengur ekki fyrir sjávarút- veginn“, „landbúnaður í landinu leggst af“, „við erum svo lítið land við hefðum ekkert að segja innan Evrópusambandsins“ svo maður tali ekki um „við getum tekið upp evruna án þess að þurfa að ganga í Evrópu- sambandið“. Það er auðvitað fásinna að afgreiða eins stórt og mikilvægt mál fyrir íslenska þjóð á svo einfaldan hátt. Við þurfum auðvitað að gefa okkur tíma til að svara þessum spurn- ingum og öllum hinum spurningunum. Umræðan þarf að vera opin og heiðarleg. Jú, ferlið tekur sinn tíma, en margt breytist um leið og ákvörðunin liggur fyrir. Þegar kemur að sjávarútvegi og landbúnaði þarf að skilgreina samningsmarkmið og meta hugsanlegan kostnað við breytingar á móti þeim ávinningi sem við gætum haft af aðild. Hvers vegna núna? Í hugum flestra voru orð á borð við „bank- arnir eru of stórir fyrir íslenskt þjóðarbú“ og „þjóðarbúið er of lítið fyrir sjálfstæða mynt“ hjómið eitt þar til vikuna þegar bank- arnir féllu. Allt í einu fundum við fyrir því hvað er að vera lítil þjóð utan efnahags- bandalaga. Evrópusambandið gaf okkur skýr skilaboð um að áður en það hjálpaði okkur myndi það hjálpa eigin aðildarríkj- um. Við vorum því 28. í forgangsröð þeirra. Þegar á bjátaði reyndumst við berskjölduð í alþjóðlegum heimi. Við höfum haft þá tilhneigingu í alþjóða- samskiptum að haga okkur eins og ungling- arnir. Unglingar vilja njóta góðs af öllu, en helst aldrei bera neina ábyrgð. Í EES-sam- starfinu vildum við fá kosti fjórfrelsisins án þess að bera á því nokkra ábyrgð. Nú vilja sumir taka upp evruna í stað krónunn- ar án þess að ganga í Evrópusambandið. Er ekki kominn tími til að við skipum okkur í lið með þeim fullorðnu og gerumst fullgild- ir aðilar með þeirri ábyrgð sem því fylgir? Höfum við ekki brennt okkur á ungæðis- skapnum? Flestir gerast aðilar í niðursveiflu Því er stundum haldið á lofti að ekki sé hægt að ganga í Evrópusambandið með skottið á milli fótanna. Því er til að svara að fordæm- in eru fjölmörg. Svíþjóð og Finnland gengu í Evrópusambandið í kjölfar bankakreppu sem skall á í upphafi tíunda áratugar síð- ustu aldar. Sú kreppa var um margt lík okkar kreppu, þó minni í sniðum. Efnahags- ástandið á Írlandi var ekki beysið þegar Írar sóttu um inngöngu. Sömu sögu má segja um Spán og Portúgal, en þessi ríki sóttu um aðild eftir að hafa verið undir ein- ræði áratugum saman. Austur-Evrópuþjóð- irnar sóttu það fast að gerast aðilar að Evr- ópusambandinu sem fyrst eftir fall Sovétríkjanna. Við yrðum því ekki fyrsta ríkið til að sækja um inngöngu þegar illa árar. Aðildarumsókn En þurfum við að ganga í Evrópusamband- ið? Auðvitað ekki. En ættum við ekki að gera það ef það er besti kosturinn fyrir íslenskt þjóðarbú? Er ekki þröngsýni að horfa fram hjá þessum valkosti án þess að vega hann og meta gaumgæfilega? Aðildin að Evrópska efna- hagssvæðinu hefur breytt gíf- urlega mörgu í samfélagi okkar. Þá tókum við upp fjórfrelsið svokallaða, það er frelsi með viðskipti með vöru og þjónustu og frjálsan flutning fólks og fjármagns á öllu EES-svæðinu. Það eru að vísu tímabundin tak- mörk á flæði fjármagns vegna hruns fjármálakerfisins en það stendur vonandi til bóta. Aðild að Evrópska efnahagssvæðinu felur aftur á móti ekki í sér ákvarðanavald. Okkar val er hvort við tökum upp gerðir Evr- ópusambandsins eða ekki. Markmiðið ætti að vera að hefja aðildarviðræður sem fyrst og semja um að gjaldmiðill okkar komist í var af evrunni eins fljótt og hægt er. Ég hef áður nefnt álitamál á borð við sjávarútveg og landbúnað. Þegar kemur að aðildarviðræð- um þurfum við að setja okkur markmið. Hvað erum við tilbúin að láta af hendi og á hvaða verði? Hvað fáum við á móti? Hvers vegna evran? Aðild að Evrópusambandinu myndi færa okkur ýmsa kosti, en einn sá mikilvægasti er aðild að stóru myntsvæði með öflugan bakhjarl og mynt sem ekki tekur slíkar dýfur sem krónan gerir. Íslenska krónan nýtur einskis trausts um þessar mundir. Skortur á trausti gerir hana að vonlausum gjaldmiðli. Íslenskt þjóðarbú hefur heldur enga peningamálastefnu eins og er. Verð- bólgumarkmiðið beið skipbrot eins og kunnugt er og stjórnvöld hafa ekki kynnt okkur hvað tekur við. Höft eru á fjármagns- flutningum inn og út úr landinu og ekki liggur fyrir hvenær eða í hvaða skrefum þeim verður lyft. Gengi krónunnar ræðst því ekki á markaði. Tilkynning um að markmið stjórnvalda sé að taka upp evru myndi eyða stórum hluta þeirrar óvissu sem ríkir í dag. Þó hið eiginlega ferli muni taka einhvern tíma, þá er markmiðið ljóst, óvissan því horfin og væntingarnar breytast samstundis. Slík yfirlýsing myndi því breyta stöðunni strax í dag. En hvers vegna evran frem- ur en aðrar myntir? Svarið við því er afar einfalt. Yfir helm- ingur af okkar viðskiptum er í evrum og því myndi við upp- töku evrunnar hverfa gengis á- hætta af yfir helmingi okkar viðskipta við önnur lönd. Ávinningurinn af því er aug- ljós. Ekki þarf að hafa mörg orð um hversu illa gengis á- hættan hefur leikið okkur að undanförnu. Horfum fram í tímann Ég tel að við eigum af fullri alvöru að sækja um aðild að Evrópusambandinu með það fyrir augum að taka upp evr- una eins fljótt og unnt er. En afstaða mín varð ekki til á einum degi. Gefum okkur tíma til að fræðast, spyrjum spurn- inganna. Höfum umræðuna eins opna og skýra og hægt er. Fáum sérfræðingana okkar til að fræða okkur og gefum okkur tíma til að hlusta. Í dag þurfum við að horfa fram í tímann og íhuga hvar við viljum vera í framtíðinni. Vilj- um við vera með íslenska krónu eftir áratug? Sveiflur hennar næstu tíu ár yrðu ekki minni en síðustu tíu ár. Ríki Evrópusambandsins njóta verndar hvert frá öðru. Er ekki betra að vera innan Evrópusambandsins og njóta þeirrar vernd- ar sem það veitir okkur þegar á bjátar? Það er vel hugsanlegt að hægt væri að ná meiri hagvexti með því að standa utan Evr- ópusambandsins en innan, en að sama skapi yrðu niðursveiflur að öllum líkindum grynnri. Ég segi fyrir mig: eftir ólgusjó síð- ustu ára kýs ég stöðugleikann fram yfir þensluna. Ísland og Evrópa framtíðarinnar Aukin alvara hljóp í umræðuna um Evrópumál á árinu sem er að líða. Katrín Ólafsdóttir hagfræðingur segir Íslendinga ekki komast hjá því lengur að vega og meta kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu af fullri alvöru. HVAR VILJUM VIÐ VERA? „Viljum við vera með íslenska krónu eftir áratug? Sveiflur hennar næstu tíu ár yrðu ekki minni en síðustu tíu ár,“ segir í greininni. SAMSETT MYND/KRISTINN Katrín Ólafsdóttir er hagfræðingur og lektor við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík. Innlendir vendipunktar 2008 Fréttablaðið gerir nú upp árið með greinum um innlenda vendipunkta eftir málsmetandi Íslend- inga. Vendipunktarnir snúast um markverðar fréttir á árinu, sem eiga það sammerkt að vera fréttir um eitthvað nýtt sem gerðist eða breyt- ingar sem hafa áhrif til frambúðar. Við höfum haft þá til- hneigingu í al- þjóðasamskipt- um að haga okkur eins og unglingarnir. Unglingar vilja njóta góðs af öllu, en helst aldrei bera neina ábyrgð.

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.