Tíminn - 03.12.1982, Blaðsíða 10

Tíminn - 03.12.1982, Blaðsíða 10
FOSTUDAGUR 3. DESEMBER 1982. 10 heimilistíminn umsjön: B.St. og K.L. „Fjárveitinganefndar- störfin eru bindandi” — segir önnum kafinn alþingismadur ■ Guðmundur Bjamason í Alþingi. ■ Guðmundur Bjarnason alþingis- maður er fæddur á Húsavík 9. ok'. 1944. Hann stundaði nám við Sam- vinnuskólann 1961-63, en starfaði síð- an hjá Kaupfélagi Þingeyinga til 1967, að hann hóf störf við útibú Samvinnu- bankans á Húsavík. Guðmundur var í bæjarstjórn Húsavíkur 1970-77 og þar af forseti bæjarstjórnar frá árinu 1974. Hann fluttist til Keflavíkur 1977ogtók við útibústjórastarfi við Samvinnu- bankann þar. Guðmundur er kvæntur Vigdísi Gunnarsdóttur, sem einnig er Húsvík- ingur, og þau eiga þrjár dætur. Guðmundur varð þingmaður í des- ember 1979, og síðan hann varð þingmaður hefur hann látið af öðrum störfum, - og er „bara þingmaður“, eins og hann komst að orði við blaðamann Heimilistímans. Morgunumferðin úr Breiðholtinu - óslitin röð bifreiða...flestar með einum manni Það er bjart og fagurt veður, snjóföl á jörð, hitamælirinn í eldhúsgluggan- um sýnir 6-7° frosl. Klukkan er 7.20 og allir eru á fótum nema yngsta dóttirin,sem ekki þarf í skólann fyrr en eftir hádegi. Ég spyr konuna hvort hún ætli á hílnum, en hún vill heldur að ég aki sér í vinnuna því það geti verið mikil hálka. Sú er líka raunin. Umferðin gengur mjög hægt, óvenjulega hægt, eitthvað hlýtur að hafa komið fyrir sem tefur. Óslitin bílaröðin silast áfram ofan frá Breiðholtinu og niður fyrir Elliðaárbrýr, langar biðraðir einkabifreiða - flestar með einum manni - við hver gatnamót. Við erum þó þrjú og förum sitt á hvern staðinn, konan í Tækniskóla íslands á Ártúns- höfða, ég niður í miðbæinn og dóttirin í Menntaskólann við Sund, en hún er nú farin að ókyrrast mjög vegna þess hve umferðin gengur hægt, óttast að koma of seint í fyrsta tíma. Jú, viti menn, hér hefur orðið árekstur og sennilega slys á fólki, þrír lögreglubílar og sjúkrabíll eru á staðnum. Hér hafa einhverjir orðið fyrir alvarlegu eignartjóni fyrir utan hið óbætanlega, hafi orðið veruleg meiðsl á fólki. Að lokum kemst konan í vinnuna, dóttirin í skólann og kl. 8.40 er ég kominn niður í „Þórshamar", þar sem fjárveitinganefnd Alþingis hefur aðsetur. Eitthvað þessu líkt er upphaf flestra virkra daga, veðrið er að vísu misgott, umferðin oft greiðari en í dag, en því miður líður varla nokkur dagur svo að maður verði ekki vitni að einhverjum áföllum í umferðinni. Einn daginn ók ég fram hjá þrem árekstmm á leið minni frá Elliðaárbrúnum og upp í Seljahverfið þar sem ég bý. Atburðir sem þessir vekja margar spurningar, en hvað er til ráða? Sjálfsagt kemur margt til; of lítil kennsla, nýir bílstjórar hafaekki fengið nægilega þjálfun í akstri við mismunandi aðstæður áður en þeim er afhent ökuskírteinið, engin skipulögð endurhæfing er í akstri, einkabíllinn er ofnotaður, bifreiðar eru misjafnlega vel útbúnar, sumar í tnjög slæmu ástandi, ökuhraðinn er of mikill og því miður kemur það of oft fyrir sem síst skyldi að „Bakkus" er með í för. Vart á það síðast talda þó við þegar ekið er til vinnu að, morgni dags. Mestu ræður trúlega óaðgæsla, kæruleysi og tillitsleysi. Umferðarmál og önnur þjóðmál rædd yfír kaffíbolla í Þorshamri Með samstilltu átaki verðum við að gera breytingar hér á. Upplýsa þarf betur hvað umferðaslysin valda mikl- um skaða og hvað þau kosta okkur, bæði einstaklinginn, tryggingafélögin og þjóðfélagið í heild í löggæslukostn- aði, sjúkrakostnaði, og síðast en ekki síst af því að missa dugandi og fullfrískt fólk, sem á eftir að skila sínu hlutverki til þessa litla samfélags okkar, þar sem hver einstaklingur er mikilvægur. Um allt þetta ræðum við Kristján Aðalsteinsson, fyrverandi skipstjóri og Halldór Kristjánsson frá Kirkju- bóli, núverandi húsverðir í Þórshamri, báðir miklir áhugamenn um þjóðmál ekki síður en þeir þingmenn er þarna koma saman, yfi.' kaffibolla meðan beðið er eftir að klukkan verði 9,00 og nefndarstörf hefjist. Annríki í fjárveitinga- nefnd fram til jóla Fjárveitinganefndarstörfin eru bind- andi. Við hefjum störf kl.9,00 á hverjum morgni og standa fundir fram undir hádegið, frá því í byrjun október og þar til afgreiðslu fjárlaga er lokið í þinginu, venjulega tveim til þrem dögum fyrir jól. Það er því lítill tími fyrir fjárveitinganefndarmenn til að sinna ýmsum öðrum störfum og erind- um, sem ætlast er til að þingmenn sinni og flestir geta notað morgunstundina í, eða þá að sitja við að semja vinsælar þingsályktunartillögur og lagafrum- vörp. Reyndar hefi ég áður látið þá skoðun mína í Ijós í blaðagrein að mikið af því mætti að skaðlausu missa sín. Nefndarstörfin í dag hefjast með viðtölum við fulltrúa frá þrem sjúkra- húsum, einu á höfuðborgarsvæðinu, öðru fyrir vestan og því þriðja fyrir norðan. Þetta eru dýrar stofnanir, kosta mikið í uppbyggingu en ennþá meira í reekstri. Þörfin er mikil og erfitt að geta ekki uppfyllt allar óskir. En við verðum að gæta okkar og huga að því hvert stefnir, hvers okkar litla samfélag er megnugt. Við fáum beiðnir um fjölgun starfsfólks á einstökum stofnunum um 10 eða 30, jafnvel 100 manns, í fyrra börðust þingmenn eins kjördæmis hart fyrir því að fá eina milljón króna til að ljúka framkvæmd- um við sjúkrastofnun heima í héraði. Nú standa þar tilbúin 20 sjúkrarúm sem mikil þörf er fyrir, en starfsemin útheimtir nær 30 starfsmenn sem áætlað er að kosti tíu .nilljónir króna í launagreiðslum og öðrum rekstrar- gjöldum á næsta ári. Fjallað um „bráðabirðalögin“ Flestir fjárveitinganefndarmenn sitja í fleiri þingnefndum, og á ég t.d. sæti í þrem öðrum. Ein þeirra er fjárhags og viðskiptanefnd og nú kl. 10.30 hefst fundur í henni, þar sem fjallað er um „bráðabirðgðalögin“ svo kölluðu, þ.e. efnahagsaðgerðir ríkis- stjórnarinnar frá því í ágúst s.l. Ekki er um annað að gera en yfirgefa fund fjárveitinganefndar, og því miður er það oft svo að þörf væri að vera á fleiri en einum stað í senn. Meðferð bráða- birgðalaganna er þannig háttað í nefndinni, að leitað er álits og umsagn- ar ýmissa aðila í þjóðfélaginu á gildi þeirra og áhrifum, rætt er við fulltrúa Þjóðhagsstofnunar og aðila vinnu- markaðarins, úflytjendur og fulltrúa bankakerfisins svo eitthvað sé nefnt. Að því loknu sest nefndin á rökstóla fer yfir þær upplýsingar sem borist hafa og sýnist sjálfsagt sitt hverjum. Þar sem pistill þessi á fyrst og fremst að greina frá daglegum starfsferll, læt ég pólitíska umfjöllun um málið liggja milli hluta að þessu sinni. Nú hefur nefndin fjallað um bráðabirðalögin fjóra morgna og rætt við fjölmarga aðila og líklegt að einhverjir fundir séu eftir enn, áður en þau koma til annarrar umræðu í efri deild þingsins. Hádegið er oft notað til fundahalda, annaðhvort á þingnefndum eða með mönnum heiman úr kjördæmi, sem koma til skrafs og ráðagerða, mjög oft sveitarstjórum,fulltrúum sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja, eða þá eins og í dag að nokkrir nefndarmenn úr fjárveitinganefnd sóttu Blindrafélagið heim og þáðu þar hressingu í hádeginu um leið og hlýtt var á upplýsingar um starfsemi félagsins og starfsaðstaðan skoðuð. Slíkar heimsóknir eru bæði ánægju- legar og fóðlegar. Oftast reyni ég þó að skjótast heim í hádeginu til að fá mér hressingu með yngstu dótturinni og sjá til þess að hún fari í skólann á réttum tíma, ella annast konan slíkt eftirlit símleiðis. Hvort tveggja er bæði tímafrekt og kostnaðarsamt, t.d. er um 20 km akstur úr miðbænum í Breiðholtið en svona heimilishald er, eins og allir vita, liður í kröfugerð og framkvæmd nútíma samféiags, jafnt hjá þingmönnum sem öðrum. Klukkan 2,00 hefjast þingfundir. Á mánudögum og miðvikudögum eru fundir í deildum, þar sem lagafrum- vörp eru til meðferðar. Deildarfundir standa fram til kl. 4.00 en þá hefjast fundir í þingflokkum. Þar eru málin í raun krufin til mergjar, ráðherrar greina frá sínum málaflokkum, segja frá umræðum í ríkisstjórn og leggja fyrir mál frá ráðherrum hinna flokk- anna. Þingmenn greina frá málum er þeim hyggjast flytja, segja frá nefn- dastörfum og ræða um þau mál er ráðherrar hafa lagt fyrir. Áð lokum er afstaðan mótuð. Á þriðjudögum og fimmtudögum eru fundir í sameinuðu þingi. Þar eru ræddar þingsályktunar- tillögur og fyrirspumir og einstaka Iagafrumvörp s.s. frumvarp til fjárlaga. Tvær helgar „heima með fjölskyldunni“ frá því í júlí til októberloka. Á föstudögum eru ekki þingfundir en þeir dagar notaðir til annarra starfa s.s. nefndarfunda, útréttinga og síðast en ekki síst ferðalaga og fundahalda í kjördæmunum, en helgarnar eru sjaldnast frítími hjá þingmönnum. Sem dæmi um það get ég nefnt að frá því í júlí og til októberloka var ég aðeins tvær helgar „heima með fjöl- skyldunni". Meðan þingfundir standa er oft mikill erill í þinghúsinu, menn koma og reyna að ná tali af þingmönnum, ys og þys er á göngum, enginn friður fyrir símakvaðningum og við sem höfum setið á nefndarfundum allan morgun- inn reynum að nota þennan tíma til erindareksturs með dyggilegri aðstoð elskulegra símastúlkna, sem reyna að leysa hvers manns vanda við erfiðar aðstæður, og lipurra þingvarða. Þetta er að sjálsögðu ekki nógu gott og oft missir maður af gagnlegum um- ræðum.en oft eru bær líka til einskis gagns fyrir áheyrendur og ræðu- mönnum til lítils sóma, því miður. Þetta er og skýringin á lélegri setu manna á þingfundum og mörgum auðum sætum á fréttamyndum sem birtar eru ú þingsölum. Síminn tengir þingmanninn við sína umbjóðendur Að loknum kvöldverði sest ég við sjónvarpið og horfi á fréttirnar, stund- um eitthvað annað af dagskánni eða lít í dagblöðin, en oftar fer verulegur hluti kvöldsins í símtöl. Sveitarstjóri hringir til að forvitnast um störf fjárveitingarnefndar, -hvaðfæst mikið fjármagn í skólann, heilsugæslustöð- ina, höfnina eða til að frétta af einhverju öðru sem er á döfinni. Hvað verður um stjórnarsamstarfið, hvenær verður kosið, hvernig á að bjarga atvinnulífinu, hvernig fer með vaxta- málin eða hvernig á fólk að fara að því að koma sér upp þaki yfir höfuðið eins og allt er í pottinn búið? Þegar stórt er spurt verður oft lítið svar. Öll hafa þessi samtöl þó þann tilgang að tengja þingmanninn við sína umbjóðendur. Hann fær ekki síður svör hjá þeim en þeir hjá honum, hann heyrir hvað þeir hugsa og vilja, þeir bera saman bækur sínar og samræma skoðanir. Stundum koma líka gestir, flestir að norðan. Þeir eru staddir í bænum að reka ýmis erindi,og allir mega vita að þeir eru hjartanlega velkomnir. Það er kominn tími til að setjast að. Ekki fékk ég tíma til að ganga frá þessari þingsályktunartillögu sem ég hef verið að hugsa um og ekkert gat ég unnið við skýrslu Landhelgisgæslunefndar- innar sem ég átti að vera búinn með fyrir löngu, enda formaður nefndar- innar. Þaðan af síður að ég hafi þvegið bílinn eða lagað til í bílskúrnum. Ég lauk þó við þennan pistil fyrirTímann sem ég lofaði að skrifa fyrir þrem vikum. Guðmundur Bjarnason. Dagur í llfi Gudmundar Bjarnasonar, alþm.:

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.