Vísbending


Vísbending - 23.01.2009, Blaðsíða 2

Vísbending - 23.01.2009, Blaðsíða 2
2 V í s b e n d i n g • 4 . t b l . 2 0 0 9 framhald á bls. 4 Forréttindi þess grafna Sá sem er í gröfinni hefur eitt umfram alla lifendur: Málfrelsi. Sá sem er á lífi er ekki beinlínis án þessara forréttinda, en hjá honum er frelsið aðeins innantómt formsatriði og hann veit betur en að nota það. Það er ekki hægt að líta á það sem formleg réttindi. Sem raunveruleg forréttindi er málfrelsið á svipuðu stigi og morð; við getum aðeins notað það ef við erum tilbúin að taka afleiðingunum. Morð eru bönnuð bæði í orði og á borði; málfrelsi er leyft í orði en bannað á borði. Samkvæmt almannarómi er hvort tveggja glæpur og litið á bæði með djúpri fyrirlitningu. Stundum er mönnum refsað fyrir morð, alltaf fyrir málfrelsi – ef menn fremja það. Sem er ekki oft. Það eru hvorki meira né minna en fimm þúsund morð á móti hverju (óvinsælu) frjálsu orði. Það er skýring á því hvers vegna menn hika við að setja fram óvinsælar skoðanir. Kostnaðurinn við það er of hár, það getur eyðilagt viðskipti hjá þeim sem talar, kostað hann vini hans, leitt til þess að á hann verði ráðist á opinberum vettvangi, saklaus fjölskyldan getur einangrast og heimili hans orðið einmanalegt og fyrirlitið. Óvinsæl skoðun á pólitík eða trúmálum blundar í brjósti sérhvers manns, oft fleiri en ein. Þeim mun greindari sem maðurinn er, þeim mun stærri farm ber hann af slíkum skoðunum og heldur þeim fyrir sjálfan sig. Það er ekki einn einasti maður, þar með talinn ég sjálfur og lesandinn, sem á sér ekki hjartfólgna sannfæringu sem heilbrigð skynsemi hindrar hann í að setja fram. Stundum þegjum við af ástæðum sem eru okkur til sóma, en oftast bælum við óvinsælar skoðanir niður vegna þess að við höfum ekki ráð á bitrum afleiðingum þess að setja þær fram. Enginn vill vera hataður, enginn vill vera sniðgenginn. Náttúruleg afleiðing þessara skilyrða er að við gætum þess, meðvitað eða ómeðvitað, að stilla álit okkar inn á sömu bylgjulengd og nágranninn til þess að fá samþykki hans, fremur en að fara yfir hvað er rétt og skynsamlegt. Þessi venja leiðir auðvitað til annarrar niðurstöðu: Almannarómur sem myndast með þessum hætti er alls ekki skoðun heldur stefna, hann er ekki háður íhygli, sannfæringu og á ekki skilið virðingu. Þegar glæný og óreynd stjórnmála skoðun er sett fram verður fólk hissa, óöruggt, vart um sig og þögult, hlédrægt og hikar við að segja sína skoðun. Meirihlutinn kynnir sér ekki hina nýju stefnu og ákveður svo hvaða skoðun hann hefur á henni, heldur bíður eftir því hvaða skoðun verður ofan á. Þegar andstaða kom fyrst fram á móti þrælahaldi í Norðurríkjunum fyrir um þremur aldarfjórðungum átti hún sér formælendur fáa. Pressan, prestar og pöpullinn létu sér fátt um finnast. Þetta var vegna þess að menn voru smeykir við að láta álit sitt í ljós og virðast einstrengingslegir, ekki vegna þess að menn styddu þrælahald eða vorkenndu ekki þrælum. Við sem bjuggum í Virginíu gengum í Suðurríkin, ekki vegna þess að við vildum það, heldur vegna þess að við vildum fylgja straumnum. Það var náttúrulögmál og við fylgdum því. Flestir vilja fylgja straumnum og þess vegna verða til áhrifamiklir stjórnmálaflokkar. Það eru engin æðri mótív hjá flestum. Nema ef vera skyldi að hægt sé að segja að það sé æðra mótív að vera í sama flokki og pabbi manns var. Almúgamaðurinn er ekki vel heima í flokkslínunni og það er ágætt. Hvorki hann né ég gætum nokkurn tíma skilið hana. Ef hann er beðinn að skýra á skiljanlegan hátt og í smáatriðum hvers vegna hann valdi eina stefnu umfram aðra yrði brjóstumkennanlegt að hlusta á hann. Þá er sama hvaða stefnumál er tekið fyrir, því að öll pólitísk mál eru langt ofan skilning meðaljónsins. Það er ekkert skrítið því að þau eru líka ofvaxin skilningi snjöllustu hugsuða landsins. Eftir að menn hafa brotið málin til mergjar aftur og aftur hefur enginn sannað að nein þessara kenninga sé hin eina rétta. Þegar einhver hefur gengið í stjórnmálaflokk er líklegt að hann fari ekki svo glatt úr honum aftur. Ef hann skiptir um skoðun, ég á við tilfinningu eða viðhorf, þá er samt líklegt að hann haldi sig í sama flokki. Vinir hans eru í flokknum og hann heldur nýjum skoðunum sínum fyrir sjálfan sig og heldur áfram að lýsa yfir stuðningi við skoðun sem hann styður ekki lengur með sjálfum sér. Með þessum hætti getur hann nýtt sér amerísk forréttindi um málfrelsi. Slíkir menn eru í báðum flokkum, en hve margir höfum við ekki hugmynd um. Þess vegna vitum við aldrei hvor flokkurinn er raunverulega í meirihluta. Málfrelsi er forréttindi hinna dauðu, einkaeign hinna dauðu. Þeir geta sagt sína skoðun án þess að móðga nokkurn mann. Þeim dauðu leyfist margt. Kannski erum við á móti því sem þeir segja, en við móðgum þá ekki og ráðumst ekki á þá, vegna þess að við vitum að þeir geta ekki varið sig. Ef þeir gætu talað yrði það aldeilis uppljómun! Þá kæmi í ljós að enginn þeirra sem er látinn var sá sem okkur sýndist meðan hann var enn á meðal okkar. Af ótta eða að vel yfirlögðu ráði, jafn vel til þess að særa ekki vini sína hefði hann haldið fyrir sig ákveðnum skoðunum og farið með þær í gröfina. Og ef hann talaði myndu eftirlifendur átta sig á því að þeir væru sama marki brenndir. Þeir myndu skilja að þeir, og öll þjóðin með þeim, eru alls ekki þeir sem þeir virðast vera – og geta aldrei orðið. Flest vildum við gjarnan upplýsa umheiminn um þessi leyndarmál okkar. Við getum það ekki meðan við erum á lífi, hvers vegna ekki að gera það úr gröfinni og njóta þess vel? Hvers vegna setjum við þessar skoðanir ekki í dagbækurnar okkar í stað þess að sleppa þeim meðvitað? Því ekki að leyfa vinum okkar að finna þetta í dagbókinni? Því málfrelsi er eftirsóknarvert. Ég fann það í London fyrir fimm árum þegar stuðningsmenn Búa - Mark Twain - [Twain skrifaði þessa grein árið 1905, fimm árum fyrir andlát sitt. Hún birtist í New Yorker í desember 2008, um hundrað árum síðar. Kannski hefur ekki svo margt breyst á hundrað árum]

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.