Morgunblaðið - 19.03.2009, Blaðsíða 33

Morgunblaðið - 19.03.2009, Blaðsíða 33
Minningar 33 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 19. MARS 2009 vinum eða út í Ólafsfirði og það var alltaf jafn gaman. Því er ekki að neita að við höfum alltaf saknað Lillu og Geira úr Langholtinu og þegar horft er upp á hæðina þar sem þau bjuggu eru rifjaðar upp góðar og skemmti- legar minningar. Nú kveðjum við Lillu í hinsta sinn. Við ætlum að muna hana eins og hún var, glaða og geisl- andi, að segja sögur og muna yndisleg atvik úr götunni okkar Langholti. Elsku Geiri, Erla, Arnar og Freyr, makar ykkar og ömmu- og afabörn, missir ykkar er mikill, megið þið vera hvert öðru stoð í sorginni. Jörundur, Stefanía, Maríanna, Ólafur og Gestur Trausta- og Ás- dísarbörn. Lilju-nafnið hefur verið nokkuð ríkt í föðurfjölskyldu minni. Frá því ég man eftir mér hefur Lilja Margrét föðursystur mín aldrei verið kölluð annað en Lilla frænka. Svo var einnig um Lillu ömmu (Lilju Jónasdóttur d. 28.1. 1993) og Lillu systur (Lilja Kristín d. 6.4. 2002). Lilla frænka var elst 7 systkina, og eina stelpan í hópn- um. Á árum áður bjó hún og stærstur hluti bræðrahópsins á Akureyri. Þá hittust fjölskyldurnar á sunnudögum, allt liðið, 22 manns og spiluðu bridge. Þ.e. afi, Lilla frænka og „strákarnir“, eins og Lilla talaði um bræður sína, spiluðu á meðan við krakkarnar slóg- umst einhversstaðar annarsstaðar. Í minningunni var þetta eins og í ítölsku fjölskylduboði með hávaða, látum og hlátri. Og auðvitað kaffi og tertum. Ég gæti sagt svo ótalmargt um frænku mína, um hve fjölhæf hún var, víðlesin, fyndin, umtalsgóð, þver en umfram allt trygg sínum nánustu… og trygglyndi er ekki hægt að ofmeta. Þegar Lilja systir mín stóð í sínu sjúkdómsstríði tók hún flestar sínar lyfjameðferðir í Reykjavík og það brást sjaldan að Lilla frænka mætti á svæðið með pakka handa dömunni. Það var prinsippmál að nafna fengi pakka. Mikið sem þessar heimsóknir glöddu okkur. Lífið var henni sérstak- lega erfitt síðustu árin, heilsufarið ekki upp á marga fiska. Viku áður en hún kvaddi var ég svo heppin að hitta hana. Þrátt fyrir að vera orðin svo máttfarin að geta hvorki staðið né set- ið með góðu móti, sagðist hún hafa það gott og sér liðið vel. Um leið og ég kveð frænku mína með þakklæti fyrir samfylgdina votta ég Geira, Erlu, Arnari, Frey og fjöl- skyldum þeirra mína dýpstu samúð. Sofðu rótt, sofðu rótt, nú er svartasta nótt. Sjáðu sóleyjarvönd geymdu’ hann sofandi í hönd. Þú munt vakna með sól Guð mun vitja um þitt ból. Góða nótt, góða nótt, vertu gott barn og hljótt. Meðan yfir er húm situr engill við rúm. Sofðu vært, sofðu rótt eigðu sælustu nótt. (Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi.) Sóley Jónasdóttir. Saumaklúbburinn kveður í dag kæra vinkonu, Lilju Karlesdóttur, eða Lillu eins og hún var alltaf kölluð. Þegar hugurinn leitar til baka er margs að minnast, margar gleði- stundir sem hún átti mikinn þátt í að skapa. Lilla var afar lífleg og skemmtileg kona og hafði þann einstaka hæfileika að setja tilveruna í jákvæðan búning og gera þanng lífið litríkara. Hún hafði mikla frásagnarhæfileika og þar naut skopskynið sín. Sögurnar urðu að ævintýrum. Lilla var ljóðelsk og vel lesin kona. Fjölskyldan var henni allt. Heimili Lillu og Geira var þeirra aðalsmerki þar sem gestrisni og glað- værð réðu ríkjum. Heimilið bar þess merki í einu og öllu hversu mikill fag- urkeri hún var. Við nutum þess allar í saumaklúbbnum að eiga Lillu að vin- konu og eins og Kahlil Gibran segir um vináttuna: Vinur þinn er þér allt. Hann er akur sálarinnar, þar sem sam- úð þinni er sáð og gleði þín uppskorin. Þökkum af alhug fyrir samfylgd- ina. Ó, himins blíða hjartans tár er hjúpar sorg, þótt blæði sár, þín miskunn blíð, hún mildar barm, hún mýkir tregans sára harm. Þú ert það ljós, það lífsins mál, er ljúfur drottinn gefur sál. Nú hljóð er stund, svo helg og fríð, að hjarta kemur minning blíð. Hún sendir huga bros þitt bjart, blessar, þakkar, þakkar allt. Hún minnir sál á sorgaryl, sendir huggun hjartans til. (Steinunn Þ. Guðmundsdóttir) Elsku Geiri og fjölskyldan öll, við sendum ykkur innilegar samúðar- kveðjur. Megi Guð gefa ykkur öllum styrk í sorginni. Ásgerður, Edda, Guðbjörg, Kristín og Margrét. Í dag kveðjum við Lilju Margréti, hana Lillu. Hún var búin að berjast við erfiðan sjúdóm í nokkur ár.Það var ekki stíll Lillu að gefast upp í líf- inu og það sýndi hún svo sannarlega í sinni baráttu en að lokum varð hún að lúta í lægra haldi.Við sáum Lillu fyrst haustið 1961 þegar við hófum skóla- göngu í húsmæðraskólanum á Lauga- landi. Þar mættum við þessari glæsi- legu, glaðlyndu og hressu stúlku sem svo sannarlega átti eftir að sýna það í verkum sínum þennan vetur hvaða hörkukonu hún hafði að geyma alla tíð. Árgangurinn átti gjarnan góðu viðmóti að fagna á heimili þeirra Lillu og Geira, enda þau höfðingjar heima að sækja. Við viljum gera þessar ljóð- línur eftir Þórunni Sigurðardóttur að okkar kveðju við leiðarlok. Ég sendi þér kæra kveðju nú komin er lífs þíns nótt, þig umvefji blessun og bænir ég bið að þú sofir rótt. Þó svíði nú sorg mitt hjarta þá sælt er að vita af því, þú laus ert úr veikinda viðjum þín veröld er björt á ný. Ég þakka þau ár sem ég átti þá auðnu að hafa þig hér, og það er svo margs að minnast svo margt sem um hug minn fer, þó þú sért horfinn úr heimi ég hitti þig ekki um hríð, þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. Blessun og kveðjur til Geira og annarra aðstandenda Fyrir hönd skólasystra á Lauga- landi veturinn 1961-62, Sigríður og Jóhanna. Mig langar langar með nokkrum orðum að minnast góðrar vinkonu og nágranna. Við Lilla vorum báðar að- fluttar í Kópavog, hún að norðan, ég að sunnan. Við fundum hvor í annarri góðan félagsskap. Við vorum svona nágrannakonurnar sem hittumst yfir kaffibolla hvor hjá annarri og spjöll- uðum um allt milli himins og jarðar. Oftar en ekki var rætt um fjölskyld- urnar en börn og barnabörn voru Lillu mikils virði og ræddi hún um þau af mikilli gleði, enda fjölskyldan mjög samrýnd. Lilla var glæsileg kona, stolt, ákveðin og dugleg. Hún hafði svo skemmtilegan húmor og var góður sögumaður, oft var hlegið að sögum og atburðum sem hún dró ljóslifandi myndir af. Hjá Lillu var gott að leita ráða og ófáar uppskriftir fékk ég hjá henni enda var hún listakokkur. Henni féll sjaldan verk úr hendi og sjáum við hana fyrir okkur að þvo bíl- inn, rúður, innkeyrslu og hugsa um garðinn á milli þess sem hún sá um heimilið af miklum myndarskap og fór létt með. Eftir því sem sjúkdóm- urinn sem lagði hana að lokum fór að ágerast var það henni erfiðara að standa sig eins og hún sagði en aldrei fór æðruleysið, húmorinn og hugur- inn. Það verður tómlegra í götunni okk- ar. Ekki lengur litið inn í kaffi og spjallað um daginn og veginn. Ég mun sakna þeirra stunda. Hvíl í friði kæra vinkona. Við vottum vini okkar Geira, börnum og barnabörnum inni- lega samúð. Megi Guð styrkja ykkur í sorginni. Ingibjörg og Daníel. ✝ Hjörleifur Bald-vin Björnsson kontrabassaleikari fæddist á Akureyri 28. júní 1937. Hann lést á heimili sínu í Stokkhólmi 27. febr- úar 2009. Foreldrar hans voru Snjólaug Hjörleifsdóttir frá Knappsstöðum í Fljót- um, f. 1.9. 1911, d. 26.1. 2001, og Björn Júlíusson frá Syðra- Garðshorni í Svarf- aðardal, f. 14.4. 1903, d. 26.2. 1985. Systkini Hjörleifs eru: Jóhanna María, f. 1934; Rósa, f. 1938, maki Ármann Sigurjónsson; Sigrún, f. 1940, maki Valgeir Stef- ánsson; Júlíus Jón, f. 1942, maki Lisbeth Grönvald; Jófríður, f. 1944, maki Kristinn Helgason; Daníel Björn, f. 1946, maki Guðný Guð- laugsdóttir; Árni, f. 1951, maki Þór- ey Agnarsdóttir; og Ólafur Örn, f. 1953, maki Lilja Gunnarsdóttir. Hjörleifur ólst upp í Helga- magrastræti 3 á Akureyri. Hann byrjaði mjög ungur að spila á gítar en fljótt varð bassinn hans hljóð- færi. Hann spilaði í hljómsveitum á Akureyri og Reykja- vík, en þangað flutti hann 1956. Í Reykja- vík fann hann lífs- förunaut sinn, Björk Guðmundsdóttur, f. í Reykjavík 29.2. 1940. Foreldrar hennar voru Guðný Vigfús- dóttir frá Hellissandi, f. 24. 3. 1917, d. 4.10. 2000, og Guðmundur Guðmundsson frá Nafranesi í Dýrafirði, f. 25. 10. 1904, d. 29.9. 1971. Dóttir Hjörleifs og Bjarkar er Kristín, f 12.4. 1958, gift Eugen Steiner, f. 23.3. 1954. Börn þeirra eru: Hrafn, Svava og Embla. Árið 1962 fór Hjörleifur ásamt konu og dóttur til Danmerkur og spilaði þar og fór í tónlistarnám en þau settust síðan að í Malmö og 1970 fluttust þau til Stokkhólms þar sem þau hafa búið síðan. Hann spilaði í mörgum dans- og djass- hljómsveitum og kenndi í tónlistar- skólanum Södra Latin í u.þ.b. 30 ár. Kveðjuathöfn um Hjörleif verður í Dómkirkjunni í dag, 19. mars, kl. 11. Heimsókn til Stokkhólms: Höddi og Björk að taka á móti úti á Ar- landa. Fallega breiða brosið hans stækkar eftir því sem gestir nálg- ast og hún hoppar af kátínu við hliðina. Á þennan hátt, eða líkan, muna margir ættingjar og vinir upphaf heimsókna sinna til Hjör- leifs bróður míns og Bjarkar konu hans. Svo byrjuðu veislurnar: For- drykkur, glæsilega lagt á borð, kertaljós í risastjökum, dásamleg- ur matur og íslensk lög sungin á eftir við undirleik Hödda. Svona voru heimsóknirnar líka eftir að hann veiktist af þeim óvægna sjúk- dómi sem hann átti í stríði við undanfarin ár, en lét aldrei ráða yfir sér. Þau hjónin unnu sleitu- laust að því að sem flestir dagar væru góðir og eðlilegir. Kristín dóttir þeirra og hennar fólk voru þar sannarlega með. Samheldin fjölskylda með afbrigðum. Bassaleikarinn, djassarinn og góðmennið Hjörleifur Björnsson flutti ungur ásamt Björk sinni og Kristínu til Svíþjóðar þar sem þau bjuggu alla tíð síðan. Fyrstu árin í Malmö en lengst af í Stokkhólmi. Hann kenndi og spilaði á bassann nær fram á síðasta dag. Þrátt fyrir áratuga búsetu erlendis var hann mikill Íslendingur í sér og fylgdist vel með landsmálum. Eins var hann afar tryggur ætt- ingjum og vinum. Þau Björk komu æ oftar heim til Íslands er árin liðu. Eftir að Kristín og Eugen maður hennar eignuðust Stóra- Kropp í Borgarfirði var fjölskyld- an þar saman um jól og einnig oft á sumrin. Sjötugsafmælisveisla Hödda var haldin í yndislegu sum- arveðri hjá þeim á Stóra-Kroppi með systkinum hans og fjölskyld- um. Sú helgi verður okkur öllum ógleymanleg. Við Kristinn og Inga Rún send- um innilegar samúðarkveðjur til Bjarkar, Kristínar, Eugens, Hrafns, Svövu og Emblu. Takk fyrir allt kæri bróðir. Jófríður Björnsdóttir. Hjörleifur Björnsson kontra- bassaleikari og kennari lést á heimili sínu í Stokkhólmi hinn 27. febrúar sl. eftir öfluga baráttu við krabbamein. Við viljum minnast okkar góða vinar og félaga, Hödda, eins og hann var jafnan kallaður en vin- átta hefur varað allt frá ungdóms- árum er við stunduðum hljóðfæra- leik saman í hljómsveit undir stjórn hins eftirminnilega píanista og myndlistarmanns Árna Elfar á veitingahúsunum Röðli og síðar Glaumbæ fram á sjöunda áratug síðustu aldar en sú hljómsveit hætti störfum haustið 1963. Það var á vordögum 1963 að Höddi yfirgaf hópinn og fór, ásamt eiginkonu og ungri dóttur til Kaupmannahafnar til að stunda þar tónlistarstörf. Fljótlega réðist Höddi til starfa með hljómsveit í Malmö og stundaði einnig tónlist- arnám í Kaupmannahöfn og var það upphafið að ævilöngum tónlist- arferli í Svíþjóð. Eftir áralanga dvöl og störf í Malmö og nágrenni flutti fjölskyldan til Stokkhólms og þar var starfsvettvangur hans til æviloka. Viðfangsefnin í Stokk- hólmi voru mjög fjölbreytt. Höddi varð fljótt þekktur meðal djass- tónlistarmanna og eftirsóttur til starfa og lék með ýmsum hópum tónlistarmanna, oftar en ekki þekktum og frægum alþjóðlegum kröftum, ýmist á tónleikapalli eða í upptökustúdíói. Auk spilamennsku stundaði Höddi kennslu við tónlist- arskóla í Stokkhólmi og fram til þess síðasta hafði hann nemendur í einkatímum. Ungur að árum kvæntist Höddi glæsilegri konu, Björk Guðmunds- dóttur, ættaðri af Snæfellsnesi og eignuðust þau eina dóttur, Krist- ínu, sem er starfandi læknir og bú- sett í Stokkhólmi ásamt eigin- manni sínum, Eugen Steiner sem einnig er læknismenntaður og þrem börnum þeirra. Hjónaband þeirra Hödda og Bjarkar eða „Bibi“ eins og hún er kölluð var einstaklega traust. Um árabil rak Bibi verslunina „Islands Design“ í miðborg Stokkhólms, Gamla Stan. Þessi einyrkjastarf- semi krafðist mikils vinnuframlags og var Höddi oftar en ekki við verslunarstörf þegar hlé gafst frá tónlistinni. Höddi kenndi fyrst sjúkleikans fyrir um það bil fjórum árum en þau tóku mótlætinu með aðdáun- arverðu hugrekki og er hlutur Bjarkar þar afarstór, hún vakti yf- ir velferð hans og bakhjarl hennar – og raunar þeirra beggja – var hin mikla náðargjöf; sálarstyrkur og óbrigðul trú á hin góðu öfl í lífi okkar ásamt léttri lund og kímni- gáfu. Samband þeirra var náið og byggt á gagnkvæmu trausti og virðingu sem gerði þeim mögulegt að njóta saman síðustu áranna til fullnustu heima og heiman. Nú síð- ustu árin, eftir að Björk hætti verslunarrekstri, höfðu þau meiri tíma til að dvelja á heimaslóðum og undu sér sérlega vel í Borg- arfirðinum en dóttir þeirra og tengdasonur höfðu áður fest kaup á jörðinni Stóra-Kroppi. Þaðan er yfir fagurt land að líta og hafa þau öll bundið mikla tryggð við víð- áttur Borgarfjarðar. Komið er að kveðjustund. Það er með miklum trega sem við kveðjum okkar kæra vin með þökkum fyrir allt sem hann gaf okkur. Eftirlifandi eiginkonu, okkar kæru Björk, dótturinni Kristínu og hennar fjölskyldu ásamt systkin- um Hödda og þeirra fjölskyldum vottum við dýpstu samúð. Farðu sæll þína hinstu för, kæri vinur! Þín er saknað. Gunnar, Aðalheiður, Sveinn Óli og Anna Lilja. Meira: mbl.is/minningar „September í rigningunni“ á Ak- ureyri árið 1998 og Hjörleifur í essinu sínu að vitja ættarslóðanna í Svarfaðardal í för með bróður sínum og djassbandinu Landnem- unum frá Svíþjóð. Ég heima með áhyggjur yfir því að vætan myndi spilla gleði þeirra kumpána. Síð- degis komu þeir sælir til baka og Hjörleifur sælastur. Er ég spurði eftir veðrinu svaraði hann með brosi. „Sólin skein á Gullbringu þegar við vorum þar og það full- komnaði daginn.“ Gullbringa var þá komin í eyði, óðal móðurafa og nafna Hjörleifs og staðurinn honum mjög hjart- fólginn. Nú erum við vinir Hjörleifs stödd í drunga rigningar og dregið hefur verið fyrir ljósið hans, og þó! Er ekki sól minninganna eitt- hvert sterkasta ljósið í vitund okk- ar? Verður ekki gleðin og þakklætið treganum yfirsterkari þegar tímar líða? Þakklætið fyrir að hafa þekkt mann sem af einlægri tilfinningu fann geisla sólar í Gullbringu fylla votan haustgrámann birtu. Þegar ég kynntist Hjörleifi fyrir tuttugu árum fékk ég það sterkt á tilfinninguna að honum hefði ég fyrir löngu tengst og mér fannst hann ætíð vera einn af gömlu góðu vinunum. Ég held að orðin tryggur, hóg- vær og jákvæður lýsi Hjörleifi vel! Tengsl okkar í gegnum djassinn voru allnokkur; ég að brasa í skipulagi djasstónleika í heimabæ okkar beggja og hann bassaleik- arinn sem hafði með færni sinni öðlast frama í útlandinu, en hafði mikinn áhuga á að liðsinna mér og Jazzklúbbi Akureyrar. Hann sótti okkur heim með tónleika tvívegis. Í fyrra skiptið haustið ’98 með djasskvintettinn Immigrants, og síðar með sextettinum Jazzin Du- kes sumarið 2002, hljómsveit með trúarlega tónlist eftir Ellington að meginviðfangsefni. Þessir tón- leikar fluttu okkur inn á heimssvið góðs djass. Í Svíþjóð var það Höddi, sem var í djasslandsliðinu, en Hjörleifur minna þekktur, enda mjög erfitt nafn í framburði fyrir sænska. Mér er nær að halda að hógværð Hjörleifs og lítillæti hafi orðið til þess að hinn þekkti kontrabassaleikari Höddi hafi ekki öðlast þá athygli í heimalandi sínu sem honum bar. Ég fékk að kynnast einstökum öðlingshjónum, þegar ég var sam- ferða Hödda og Björk eiginkonu hans frá Reykjavík til Stokkhólms haustið 2007. Það var meira en að vera samferða, því þau báru mig nánast á höndum sér, og naut ég gestrisni þeirra í heimilishlýju og vinafaðmi í nokkra daga. Þrátt fyr- ir alvarleg veikindi, sem Höddi vildi síst af öllu ræða, gafst mér tækifæri til að fara með honum á hljómsveitaræfingar og heimsækja tónlistarmenntaskólann þar sem hann hafði kennt um margra ára skeið. Það var sama hvert við fór- um, alls staðar mætti ég því við- móti sænskra að Höddi væri ein- stakur bassaleikari og það sem mest er um vert, einlægur og trúr sínu starfi, samstarfsfólki og vin- um. Mig langar til að leiða huga les- enda að Gullbringu í Svarfaðardal í þeirri vissu að haustregn tregans stytti þar upp og sólin varpi geislum í hlað og mitt í því ljósi sé Hjörleifur nú. Innilega samúð votta ég Björk, Kristínu og fjölskyldu, einnig systkinum Hjörleifs og fjölskyld- um. Blessuð sé minning um góðan dreng. Jón Hlöðver Áskelsson. Hjörleifur Björnsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.