Morgunblaðið - 18.06.2009, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 18.06.2009, Blaðsíða 31
gott að koma til þeirra Sigga og Erlu í gegnum tíðina, þó svo að þeim skiptum hafi fækkað eftir að Árni flutti að heiman. Aldrei kom maður að tómum kofunum hjá Sigga þegar rætt var um veiði eða maður þurfti að fá leiðbeiningar eða hjálp. Yfir- lestur lokaritgerðar í HÍ með skömmum fyrirvara var auðsótt mál. Eitt sinn fyrir nokkrum árum vor- um við í Elliðaánum við Árni og bún- ir að fá hvor sinn laxinn. Klukkan var að verða níu og því lítið eftir af vakt- inni og við staddir upp í Höfuðhyl og nóg af fiski en engin taka. Þá settist ég niður með Sigga, sem hafði komið og kíkt á okkur, og spurði hvað ég ætti nú gera. Siggi sagði mér að velja flugu gjörólíka því sem við hefðum verið að bjóða laxinum þann daginn. Ákveðið var að setja White Wing tvíkrækju undir og það var ekki að sökum að spyrja, búið var að landa laxi á hana fyrir lok vaktarinnar. Kæra Erla, Árni Þór, Guðmundur og fjölskyldur, ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Megi minningin um góðan dreng og félaga lifa með okkur öllum. Stefán Karl Segatta. Í dag kveð ég æskuvin minn og fé- laga, Sigurð H. Benjamínsson, sem kvaddi þennan heim 9. júní sl. Minningarnar leita á hugann allt frá bernskuárum okkar austur á Norðfirði. Siggi missti móður sína í frumbernsku og var alinn upp hjá afa sínum og ömmu við gott atlæti. Á heimilinu bjó öll uppvaxtarár hans, móðurbróðir hans Guðmundur, sem reyndist honum vel og mjög kært var með þeim frændum. Guðmundur þótti nokkuð hvatvís í orðum og æði og er ekki örgrannt um að Siggi hafi tekið hann sér til fyrirmyndar hvað þetta varðar. Siggi hafði nefnilega dálítið sérstakan húmor. Við sem þekktum hann kipptum okkur ekki upp við það, en sumir gátu orðið hvumsa. Hann undanskildi síður en svo sjálfan sig í þessum efnum. Þetta var hans taktur. Hlýtt hjarta sló jafnan undir. Æskuheimili okkar stóðu nærri hvort öðru og samneyti okkar jafnaldranna var því mjög ná- ið. Á uppvaxtarárunum var frelsi okkar við leik óskorað innan fjalla- hringsins á Norðfirði, bæði á sjó og landi. Uppátækin voru af ýmsum toga og ekki öll til frásagnar eða eft- irbreytni. Þar á ég við græskulaust gaman. Það eigum við út af fyrir okkur. Lífsbarátta ungs fólks hófst fyrr á þessum árum en nú gerist. Siggi byrjaði ungur að vinna fyrir sér og þótti góður verkmaður og eft- irsóttur til allrar vinnu. Hann fór á síld á sumrin og vann þannig fyrir skólagöngu sinni. Við Siggi vorum herbergisfélagar á gömlu heimavist- inni í MA, sjálfu skólahúsinu, fjóra langa vetur á mótunarárum okkar. Í slíku návígi kynnast menn eins vel og verða má og þar var ævilöng vin- átta innsigluð. Það fór ekki hjá því að skyggnst væri inn fyrir skelina og hvor öðrum trúað fyrir sínum hjart- ans málum. Með eftirlifandi eigin- konu sinni, Erlu Sigurðardóttur, eignaðist hann myndarsyni, Árna Þór og Guðmund, og lét sér mjög annt um hagi þeirra enda mikill fjöl- skyldumaður. Barnabörnin voru þrjú við andlát Sigga, börn Árna Þórs, öll miklir augasteinar afa síns og ömmu. Þegar þetta er skrifað hef- ur Guðmundi fæðst sonur. Mikill harmur er nú kveðinn að fjölskyld- unni við snöggt andlát Sigga. Siggi var mikill náttúruunnandi og útilífs- maður. Í tómstundum sínum undi hann sér vel á sumrum við lax- og sil- ungsveiði í ám og vötnum, en á vetr- um við rjúpnaveiði. Siggi hnýtti sjálfur sínar veiðiflugur og þótti bærilega fiskinn. Þau hjón byggðu sér sumarhús við Langá á Mýrum og dvöldu þar löngum stundum með fjölskyldunni og vinum. Siggi naut sín þar til botns. Nokkrir skólafélag- ar frá MA og makar þeirra hafa komið reglulega saman til fjölda ára til að ylja sér við minningar frá skólaárunum og treysta vináttuna. Siggi og Erla hafa verið mjög áhuga- söm um þennan félagsskap, Hjóna- klúbbinn, eins og við hin. Nú hefur æ stærra skarð verið höggvið í vina- hópinn við fráfall Sigga og víst er um það að samverustundirnar verða ekki samar og áður. Elsku Erla, Árni Þór, Guðmundur og fjölskyldur, megi minningin um elskulegan eig- inmann, föður, tengdaföður og afa verða ykkur leiðarljós um alla fram- tíð. Góður vinur er genginn, blessuð sé minning hans. Jón Guðmundsson. Kveðja frá Ármönnum Við Ármenn kveðjum nú einn af okkar bestu félögum. Sigurður Haf- steinn Benjamínsson gekk snemma til liðs við Ármenn. Hann var kosinn formaður árið 1985 og stýrði félag- inu til ársins 1989. Þessi ár voru um- brotatími í starfi félagsins og mikið blómaskeið þegar litið er til baka. Ármenn höfðu lengi hafst við í litlu og þröngu leiguhúsnæði, en undir forystu Sigurðar réðst félagið í eitt stærsta verkefni sitt fyrr og síðar, að festa kaup á húsnæðinu í Dugguvogi 13. Við það tók félagsstarf Ármanna algerum stakkaskiptum. Það þurfti áræði fyrir lítið félag til að ráðast í svo stóra fjárfestingu. Fluguveiðar þóttu á þeim tíma ennþá frekar sérvitringsleg veiðiað- ferð en Ármenn voru þeim mun ein- beittari í sérvisku sinni og voru til- búnir að leggja ýmislegt á sig fyrir málstaðinn. Enn minnast gamal- reyndir Ármenn þess mikla eldmóðs sem var í félaginu þegar safnað var fyrir húsnæðinu. Menn hnýttu flug- ur og seldu, og létu prenta merki fé- lagsins á boli og ýmsar smávörur. Frá þessum tíma er laxaslangan góða, sem enn er til sölu í Árósum. Sigurður var Ármaður af lífi og sál. Hann stýrði félaginu af mikilli einurð og aðhaldssemi í gegnum þessa fjárfestingu og hafði lag á að virkja félagana til að leggja sitt af mörkum. Félagar Sigurðar í stjórn- inni á þessum árum minnast þess hversu nákvæmur, skipulegur og heiðarlegur hann var í öllum sínum vinnubrögðum, og gætti þess vel að fjármálin færu ekki úr böndum. Hann hafði það til að mynda fyrir reglu að senda út í pósti skrifaða dagskrá fyrir stjórnarfundi, en slíkt þótti tíðindum sæta í félagsstarfi. Sigurður dreif syni sína unga í Ár- menn, þá Árna Þór og Guðmund. Gárungarnir sögðu að hann hefði með þessu viljað styrkja umsóknir sínar um veiðileyfi. En til marks um heiðarleika Sigurðar er sögð sú saga að eitt sinn við úthlutun veiðileyfa hafi nafn Sigurðar og þeirra feðga komið upp þegar dregið var um bestu dagana í Hlíðarvatni. Veiðin var mikil á þessum árum og hart sótt eftir að komast í vatnið á besta tíma. Þá segir Sigurður: „Nei, ég get ekki þegið þetta. Við getum ekki látið það spyrjast að formaðurinn fái að veiða á besta tíma.“ Aðrir stjórnarmenn töldu að Sigurður hlyti að eiga sama rétt og aðrir og ætti að njóta þess þegar nafn hans kæmi upp. En við Sigurð varð engu tauti komið, hon- um varð ekki haggað. Enn í dag njóta félagsmenn ávaxt- anna af þeim eldmóði sem var í félag- inu í formannstíð Sigurðar. Árósar eru samastaður Ármanna þar sem gott er að koma, hvort sem er til að fræðast, hnýta flugur, sækja veiði- leyfi, skemmta sér við át og drykkju, eða bara til að fá sér kaffi. Sigurður tók þátt í starfi félagins og sýndi því alúð fram til hinsta dags. Hann kom oft í Árósa, sótti flestar samkomur, mætti á alla aðalfundi og lét jafnan að sér kveða. Hans verður sárt sakn- að. Við Ármenn þökkum Sigurði Benjamínssyni ánægjulega sam- fylgd og vottum fjölskyldu hans og ástvinum samúð okkar. Fyrir hönd stjórnar Ármanna, Baldur Sigurðsson. Hvernig sem á því stendur tengj- ast samferðamenn í lífinu misjafn- lega sterkum böndum. Fluguveiðin var sameiginlegt áhugamál okkar Sigga Ben. og á vettvangi stang- veiðifélags okkar Ármanna kynnt- umst við fyrst fyrir aldarfjórðungi. Sátum saman í stjórn félagsins um árabil undir hans forystu. Hann var góður leiðtogi; nákvæmur, skipu- lagður, ósérhlífinn og fórnfús. Stjórnarfundir voru líka skemmti- legir, þökk sé formanninum. Orð- heppinn með afbrigðum, fullur kímni undir alvörugefninni, missti aldrei sjónar á úrlausnarefnunum, lét okk- ur heyra það ef gáskinn keyrði úr hófi. Dagskráin skrifuð með fallegri rithönd sem bar vott um þá alúð sem hann sýndi hverju því sem hann tók sér fyrir hendur. Leiðir okkar lágu líka saman á vinnustað hjá Kópa- vogsbæ, hann í skólamálum og ég í félagsmálum, undir sama þaki í nokkur ár, nánast daglegt spjall um flugur og veiði, sögur um fiska og menn. Alltaf tilhlökkunarefni að hitta Sigga Ben. Umvöndun og hlýja, alvara og grín, óvæntar athuga- semdir, tvíræðni eða skilmerkileg tjáning frá hjartans rótum; eðlis- kostir sem ekki eru öllum gefnir jafn ríflega. „Skrifaðu á blað það sem ég á að hnýta fyrir þig,“ sagði hann gjarnan þegar sól tók að hækka á himni; „Jæja, ekki var þetta merki- legt ritverk – ég get svo sem reynt.“ Og svo lágu á skrifborðinu mínu sér- hnýttir „Hvítir draugar“ fyrir Mý- vatnssveitina í öllum stærðum, hand- bragðið óaðfinnanlegt og nokkrir pokar merktir „ýmist rusl“ auka- lega. Þær voru ekki rusl flugurnar frá Sigga, öðru nær eins og gogg- arnir í Laxá fúslega færðu sönnur á – þótt það kostaði þá lífið. Félagsmenn í Ármönnum eiga Sigga Ben. mikið að þakka. Þar eignaðist hann líka ævarandi vini sem honum voru kær- ir og þeir syrgja hann nú. Einn þeirra er Stefán Bjarni Hjaltested sem jafnframt var stjórnarmaður í félaginu í formennskutíð Sigga. Hann minnist þess hversu fjárhagur félagsins var bágborin á þessum tíma og hversu gætinn og aðhalds- samur formaðurinn var við þessar aðstæður. Stutt var þó ætíð í skop- skynið. Á jólakort sem Siggi Ben. sendi Stebba frá þessum tíma stóð einungis: „Takk, sömuleiðis“; með því vildi formaðurinn að sjálfsögðu leggja áherslu á það við stjórnar- menn að tileinka sér sparsemi á öll- um sviðum, í orði sem og á borði! Stebbi biður hér fyrir góðar kveðjur til ástvina Sigga og vottar minningu hans virðingu sína. Siggi var gæfu- maður í einkalífi, Erla honum svo kær og hans besti vinur og stuðn- ingsmaður. Á heimili þeirra var gott að koma. Engan þarf að undra að vel tókst til í uppeldinu enda synir þeirra Árni Þór og Guðmundur af- bragðs menn sem Siggi var ávallt stoltur af. Fjölskyldunni allri votta ég samúð mína sem og öðrum vinum. Ég leyfi mér hins vegar að kveðja vin minn Sigga Ben. með síðustu orð- sendingu hans til mín: „Þakka þér allt gamalt og gott – og hitt svo sem líka!“ Bragi Guðbrandsson, Stefán Bjarni Hjaltested. Ágætur skólabróðir og vinur, Sig- urður Hafsteinn Benjamínsson, er látinn. Við skyndilegt fráfall hans rifjast upp margar minningar. Í kveðjuræðu eftir stúdentspróf við MA vorið 1963 mælti Þórarinn Björnsson skólameistari svo: „Mitt í hinni miklu óvissu allrar tilveru er eitt hér um bil víst: Að þið þessi hóp- ur, sem nú situr hér saman á Sal og verið hefur hér í gamla MA í fjóra vetur, verðið aldrei framar öll saman eftir þennan dag.“ Skólameistari reyndist sannspár. Við lítum gjarnan svo á að nægur tími sé ætíð til flestra hluta, að gleðjast, vera saman, gera eitthvað snjallt. Sigurður er fæddur í Reykjavík en þrevetur sigldi hann með Súðinni til Norðfjarðar þar sem hann ólst upp hjá móðurafa sínum og ömmu allt þar til hann settist í Menntaskólann á Akureyri haustið 1959 ásamt 70 öðrum nýliðum af landinu. Þar kynntumst við Siggi Ben; urðum fljótt góðir félagar, hann að austan ég að vestan og höfum átt mikið sam- an að sælda síðan. Frá Norðfirði kom þetta haust og síðar margt af góðu fólki og sem gott var að kynn- ast og hafa tengslin haldist vel alla tíð. Sigurður var traustur námsmað- ur en las þó, eins og gengur, sum fög ver en önnur og til þess var tekið að honum fannst mannkynssaga afar íþyngjandi! Í Carminu, bókarkveri stúdentsefna við MA, er Siggi Ben sagður ganga með dellur svo sem bókakaup en að bækurnar lesi hann aldrei! Það var ofsagt. Hann var góð- ur íslensku- og þýskumaður og stundaði háskólanám sitt í Tübingen og við Háskóla Íslands í þeim grein- um, þaðan sem hann lauk BS-prófi í bréfum, sem hann skrifaði mér frá Tübingen veturinn 1963-64 fór ekki milli mála hve mjög hann naut sín við þýskunám sitt. Þýsku las hann tals- vert síðan og kunnugir segja að Þjóðverjum hafi þótt Sigurður tala „elegant“ þýsku. Á menntaskólaárum okkar var al- gengt að menn sæktust eftir að kom- ast á sjó í sumarleyfum, milli bekkja. Síldveiðar voru á þessum árum í al- gleymingi. Það var í raun ótrúlegur fjöldi skólanema sem komst í góð skipspláss á síld og þar á meðal Siggi Ben. Á Hafrúnu NK var hann ásamt öðrum Norðfirðingum og vinum og síldarævintýrið og sjómennskan varð gjarnan síðar uppspretta um- ræðna um þessa vinnu okkar næstu áratugina, þegar við hittumst á vetr- arsíðkvöldum. Síldarköstin og hleðsla bátanna varð stöðugt ævin- týralegri! Siggi Ben fékk sér vasa- hníf á þessum árum. Upp frá því gekk hann eins og almennilegur sjó- maður með vasahníf, alltaf. Sigurður var ágætur stangveiðimaður, kastaði flugu fyrst og fremst. Hann var um skeið formaður Ármanna, félags fluguveiðimanna. Við Sigurður átt- um ásamt tveimur öðrum vinum okkar fjölmargar góðar stundir við árnar. Nefndist félagsskapurinn „Laxlausa félagið“ í samræmi við ár- angur sumra ferðanna. Ofveiði var sem sé ekki stunduð. Sigurður var afar bóngóður og hjálpsamur, traustur og heiðarlegur og hafði góða nærveru. Það er með miklum trega að við Kristín og synir okkar kveðjum Sigga Ben og sendum Erlu og son- unum Árna Þór og Guðmundi og fjöl- skyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur. Sigurjón H. Ólafsson. Vinur minn og sveitungi, Sigurður Hafsteinn Benjamínsson frá Norð- firði, er látinn. Við kynntumst ekki fyrr en fyrir fáum árum þótt margt tengdi okkur saman, Norðfjörður, Menntaskólinn á Akureyri og störf okkar að kennslu og skólamálum. Þegar við Gréta dvöldumst með þeim hjónum Erlu og Sigurði nokkra ógleymanlega vordaga í Prag tengd- umst við vináttuböndum og öllum var ljóst „at kemien passet“, eins og Danir segja um fólk sem þykir gott að vera saman. Fyrir fáum vikum kom Sigurður í heimsókn til mín að morgni dags og hafði gengið að heiman frá sér úr Kórsölum hingað í Blásali. Honum var brugðið, kvartaði undan þreytu og máttleysi, en hann hlakkaði til að hætta að vinna í mánaðarlokin og fara að sinna áhugamálum sínum. Við töluðum um svarta lognið á Norðfirði, ljúfar minningar úr Menntaskólann á Akureyri, heillandi höfuðborg Tékklands – Prag, Beke- rovka og Góða dátann Sveik, sem allt var okkur kært. Þetta var góð stund og líður mér seint úr minni, en ekki grunaði mig að þessi stund yrði síð- asta samverustund okkar sveitung- anna og ekki fékk Sigurður Benja- mínsson að eyða júlídögunum í sumarhúsinu við Langavatn eða við silungsveiðar fyrir austan. Við Gréta sendum Erlu og sonun- um samúðarkveðjur og minnumst ánægjulegrar kynningar við góðan dreng. Tryggvi Gíslason. Kæri vinur. Ég kynntist Sigga Ben þegar ég hóf störf á fræðslusviði Kópavogs- bæjar árið 2001. Ég nýútskrifaður rekstrarfræðingur með enga þekk- ingu á þeim málaflokki sem ég hafði ráðið mig til að starfa við, hann með sína viðamiklu reynslu og þekkingu. Ég vildi óska að einhver hefði þá sagt mér frá því hversu hrjúfur hann var á yfirborðinu en með hjarta úr skíragulli. Mér er minnisstætt þegar ég einhverju sinni á mínum fyrstu dögum gekk að skrifstofunni hans, með fullt af pappírum í fanginu, og spurði hvort ég mætti ónáða hann aðeins. Hann sat við skrifborðið sitt, leit upp, glotti aðeins og sagði síðan „Nei“ og hélt áfram að vinna. Ég stóð eins og kjáni fyrir framan hann þar til hann leit aftur upp og sagði „komdu þá“ og hló. Milli okkar skapaðist góð vinátta og ég kunni vel að meta húmorinn hans, sem var gráglettinn stundum, nákvæmlega eins og hjá pabba mín- um heitnum. Þegar Siggi svo veiktist haustið 2002 og var frá vinnu í nokkra mánuði tók ég að mér að sinna hans vinnu líka. Þá fyrst byrj- aði fjörið. Þegar ég var að vinna við mína fyrstu endurskoðun á fjárhags- áætlun fyrir fræðslusviðið og ætlaði að fara að leita í pappírum og gögn- um til að vita hvernig hann hefði gert þetta. Siggi var nefnilega af gamla skólanum og reiknaði allt út í reikni- vélinni sinni. Í möppunni sem merkt var fjárhagsáætlun 2002, var fullt af þessum útreikningum hans á alls- kyns strimlum, en forsendurnar fyr- ir þessum útreikningum fundust ekki, enda voru þær geymdar í koll- inum á honum. Við áttum því mörg símtölin þetta haustið sem flest voru á sama veg. Ég spurði um einhverja ákveðna tölu sem ég fann á einum strimlinum og hann svaraði að bragði; „Hva, veistu þetta ekki? Þetta er …“ og svo kom skýringin. Allt á hreinu og engu gleymt. Ég á eftir að sakna hans mikið, sakna brandaranna, blótsyrðanna, þess hvernig brosið kom í augun á honum þegar hann þóttist hafa betur í orðaskiptum okkar og allra samtal- anna okkar. Án hans hefði ég ekki komist í gegnum þessi fyrstu ár mín í vinnunni. Siggi var óþreytandi að hjálpa til, segja mér sögur frá því hvernig allt var þegar hann byrjaði að vinna á fræðslusviðinu. Ég á eftir að sakna nákvæmninnar hans sem hefur svo sannarlega hjálpað mér í gegnum alla mína vinnu. Það að hafa alltaf svör við öllu … Hann barðist í gegnum veikindin með gráglettnum húmor, en innst inni held ég að hann hafi alltaf vitað hvernig baráttan myndi fara. Ég man enn símtalið okkar mánu- daginn áður en hann lést. Það var eins og hann vildi tryggja og binda alla lausa enda. Hann að hætta í vinnu og allt átti að vera klárt. Svona vann hann og svona vildi hann hafa hlutina. Ég mun reyna að halda þín- um vinnubrögðum á lofti í minni vinnu eftirleiðis sem hingað til. Blessuð sé minning þín og hafðu þökk fyrir allt og allt. Takk fyrir að vera vinur minn og takk fyrir að hafa til hinsta dags verið þú sjálfur. Fjölskyldu þinni færi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Minning um góðan mann mun lifa með okkur öllum. Jófríður Hanna Sigfúsdóttir. Góður vinur minn og félagi Sig- urður Benjamínsson er fallinn frá, fyrr en nokkurn grunaði. Ég kynnt- ist honum eftir að ég flutti suður 2001 og fór að starfa hjá Kópa- vogsbæ. Þó svo að við hefðum alist upp austur á fjörðum, hann í Nes- kaupstað og ég á Eskifirði og báðir gengið í Alþýðuskólann á Eiðum vissum við ekki hvor af öðrum þá, enda nokkur aldursmunur á milli okkar. Strax og við kynntumst tókst með okkur góð vinátta. Við heilsuð- um á þann hátt að fólk sem þekkti okkur ekki sneri sér við undrandi. Orðfærið, sem við notuðum oft á tíð- um, er ekki prenthæft en orðin voru sögð brosandi. Ég fékk kveðju frá honum vikuna áður en hann dó og sú sem bar kveðjuna hvíslaði henni að mér því hún taldi að kveðjan væri ekki á hvers manns færi að hlusta á. Ég fór aldrei á skólaskrifstofnuna án þess að heilsa upp á hann ef hann var á staðnum. Þá voru sagðar sögur oft- ast að austan og hlegið mikið. Sigurður var ljúfmenni með stundum hrjúfa húð sem stuðaði þó engan. Mér finnst það forréttindi að hafa kynnst honum og mun sakna hans mikið. Því miður gefst mér ekki tækifæri til að fylgja honum síðasta spölinn en hugur minn er hjá honum og fjölskyldu hans sem ég sendi inni- legar samúðarkveðjur. Megi sá sem öllu ræður styrkja ykkur í sorg ykk- ar. Helgi Halldórsson. Minningar 31 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 18. JÚNÍ 2009

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.