Vera - 01.04.1993, Blaðsíða 4

Vera - 01.04.1993, Blaðsíða 4
P I S T I L L ERT ÞÚ EKKI NÓGU FREK? Þessa spurningu heyra margar konur þegar þær segja frá þvi að þær hafí innritað sig á námskeið i ákveðniþjálfun. Sérhver manneskja hefur sitt pláss í Iífinu. Réttindi hennar ná að réttindum annarra en ekki lengra. Þeir sem virða ekki þessi mörk sýna öðrum ágengni og frekju. Þeir eru ekki ákveðnir, öðru nær. Ákveðni og frekja eru ekki samheiti. Það er ekki verið að kenna konum að rífa kjaft eins og útvarpsmaður nokkur ályktaði um markmið þessa námskeiðs. Kona sem er ákveðin rifur ekki kjaft. Hún stendur á rétti sínum án þess að ganga á rétt annarra. Hún er sátt við sjálfa sig og trúir á eigið ágæti en álítur sig hvorki meiri né merkilegri en aðra. Hún veit að hagsmunir hennar eru jafn mikilvægir og hagsmunir annarra. Hún gerir sér grein fyrir kostum sínum og ræktar þá. Hún er hvorki feimin við sínar góðu hliðar né skammast sín fyrir að segja frá þeim. Hún gerir sér grein fyrir göllunum, reynir að vinna með það sem hægt er en sættir sig við það sem ekki verður breytt. Það er hægt að hafa áhrif á gallana til að þeir séu ekki til trafala. En það er ekki hægt og engin ástæða til að fletja út öll persónueinkenni. Við eigum að leyfa okkur að vera við sjálf svo lengi sem það hindrar okkur ekki eða gengur á rétt annarra. Þeir eru alltof margir sem hafa ekki næga sjálfsvirðingu; gera sér ekki grein fyrir eigin ágæti og skammast sín jafnvef fyrir að viðurkenna fyrir sjálfum sér og öðrum að þeir hafi einhverja kosti. Þeir eru alltof margir sem standa ekki á rétti sinum; láta aðra vaða yfir sig og þora hvorki að láta skoðanir sínar í ljós né greina frá óskum sínum. Hvernig er hægt að vinna á óákveðni og skorti á sjálfsvirðingu? I Ivernig er hægt að breyta sjálfum sér eða þáttum í sjálfum sér og nálgast viðfangsefnin á nýjan hátt? Hver og einn verður að finna þá leið sem honum hentar. Það er ekki hægt að segja öðrum hvað hann á að gera — en það er hægt að benda á leiðir. Framhaldið er undir honum sjálfum komið. Lykillinn er vilji, vinna og þrautsegja. Til að ná árangri verður að taka á, þó það geti verið sárt og erfitt. Það verður að takast á við vandann. Standa upp á fundum þó að maður þori það ekki. Hætta ekki við þó hver fundurinn af öðrum líði án þess að ætlunarverkið takist. Með góðum ásetningi næst markmiðið að lokum. Sá sem ekki þorir að svara fyrir sig á ekki að fara heim og segja „ég hefði átt að..." Slíkt er rakin leið til að bijóta niður sjálfstraust. Það er hægt að byrja með því að segja „næst ætla ég...” Það þarf ekki að vera of seint að segja hlutina þó að það hafi ekki verið gert strax. Hvernig væri að byrja á þvi að gera eitthvað skemmtilegt sem oftast? Það getur ekki alltaf verið gaman, en oftar en við höldum. Með breyttu hugarfari getum við gert æ fleiri hluti skemmtilega. Það takmarkar ekki rétt annarra að við njótum lífsins, öðru nær. Það gerir okkur að betri og jákvæðari félögum. Hvernig væri að losna úr eigin fangelsi? Ótrúlega margir hafa sett líf sitt í slíkar skorður að þeir eru eigin fangar. Hver segir að við verðum að þvo þvott á mánudögum og hafa alltaf til kvöldmat klukkan sjö? Oftast erum það við sjálf sem setjum slíkar reglur — og enginn getur aflétt þeim nema við sjálf. Á ákveðniþjálfunarnámskeiðum ræða konur saman um kosti sína og galla. Þær gera sér grein fyrir að þær eru ekki einar um vandann og kynnast því hvernig meðsysturnar hafa tekist á við hann. Margir þurfa nýjar hugmyndir og ábendingar um leiðir til að komast út úr fangelsinu. Gera sér grein fyrir eigin ágæti og annarra. Þora að bera höfuðið hátt og segja „Hér kem ég! Ég er jafnmikilvæg og aðrir og hef sama rétt og þeir.” Námskeið er þó ekkert lausnarorð heldur aðeins upphaf. Framhaldið byggist á hverri og einni. Hún verður að geta. þora og vilja og má aldrei gefast upp þó móti blási. Þá verður hún sátt við sjálfa sig og aðra, ákveðin í framkomu en ekki frek, því hún gengur ekki á rétt annarra og lætur heldur ekki ganga á rétt sinn. □ Steinunn Harðardóttir, félagsfræðingur GÓRILLUR Á LEIÐ TIL ÍSLANDS? Þurfa konur að vera naktar til að komast inn á Metropolitan safnið í New York? Innan við 5% lista- manna sem eiga verk á nútímalistadeild safnsins eru konur, en 85% nektarmynda eru af konum. Þessi texti, prentaður ofan í mynd af nakinni konu með górillugrímu, er á einu af veggspjöldum Guerilla Girls sem komu fyrst fram í New York árið 1985 og segjast vera samviska listaheimsins. Á öðru veggspjaldi segir: ... 17.7 milljónir dala voru greiddar fyrir málverk eftir Jasper Johns, fyrir þessa upphæð má kaupa eitt verk eftir hverja þessara kvenna - og svo fylgir upptalning á 70 þekktustu myndlistarkonum heimsins frá 16. öld til okkar daga. Guerilla Girls kreljast sanngjarnrar hlutdeildar kvenna í myndlistarheiminum. Þær vekja athygli á stöðu myndlistarkvenna með hnyttnum og sláandi textum. í baráttunni nota þær orð í stað kúlna og hylja andlit sín undir górillugrimu. í skjóli nætur festa þær upp veggspjöld sín á söfn og sýningarsali. Höfuð- áhersla er lögð á að félagslegar aðstæður, en ekki hæfi- leikaskortur og fagurfræði, haldi konum frá kjötkötl- unum. Mikið hefur verið fjallað um þær bæði í blöðum og tímaritum og nú eru Guerilla Girls aðgerðahópar víðsvegar um Bandaríkin. Nú stendur yfir farandsýning á 30 veggspjöldum þeirra á hinum Norðurlöndunum sem hefur vakið verðskuldaða athygli almennings. Verið er að vinna að því að fá þessa sýningu hingað til lands. Hafið augun opin og drífið ykkur þegar af þessu verður. Á einu vegg- spjaldanna segja þær að ástandið sé jafnvel verra í Evrópu. Ef það er rétt hjá þeim, hvernig skyldi það vera NOKKRIR KOSTIR VIÐ AÐ VERA LISTAMAÐUR AF KVENKYNI segja górillustelpurnar vera eftirfarandi: - það er hægt að vinna ón þess að frægð og frami íþyngi manni - það þarf ekki að halda sýningar með karlmönnum - það er hægt að flýja listaheiminn með því að vinna fjögur íhlaupastörf - föst kennarastaða er manni ekki til trafala - vonin um að framinn komi þegar maður er um óttrætt - vissan um að allt sem þú skapar verði skilgreint sem kvenleg list - þú getur valið á milli listarinnar og móðurhlutverksins - þú sérð hugmyndir þinar lifa ófram í verkum annarra - þú ótt kost ó að komast í endurskoðaða útgófu listasögunnar

x

Vera

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vera
https://timarit.is/publication/858

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.