Akranes - 01.07.1944, Blaðsíða 12

Akranes - 01.07.1944, Blaðsíða 12
96 AKRANES fram með reglugerðinni um stofnun alþingis 1843, upphafi þess 1845, þjóðfundinum 1851 og verzlunarfrelsinu 1855. Reykjavíkurbæ var og smám saman að vaxa fiskur um hrygg. Hann var sem óðast að breytast úr frumstæðu ný- lenduþorpi í dálítinn höfuðstað. Lærði skólinn hafði verið fluttur þangað, skólahús reist með miklum myndarskap, og gat kennsla hafizt þar 1846. Alþingi hafði aðsetur í Reykjavík, prentsmiðjan var færð úr Viðey og til bæjar- ins 1844, prestaskólinn stofnaður 1846, og margt annað fór í sömu stefnu. Allar þær andlegu hræringar, sem nú gengu yfir, hlutu að snerta marga strengi í brjóstum æskumanna Reykja- víkurbæjar. Því efnilegri sem æskumennirnir voru, því dýpri varð snertingin og varanlegri menjar hennar. Geir Zoega hefur eflaust mótazt nokkuð í umróti þessu. Þráin til framtaks og dáða, sem hvarvetna leysti ný öfl úr læð- ingi á þessum árum, tvinnaðist vaxtarlöngun æskumanns- ins, sameinaðist vilja hans, draumum og vonum. Geir sá suma vini sína og félaga setjast á skólabekkinn og taka að bergja á þráðum menntalindum. Sjálfum var honum sú leið meinuð fyrir fátæktar sakir, og fýsti hann þó mjög að afla sér fróðleiks, ekki sízt eftir að leikbróðir hans og bezti vinur, Helgi E. Helgasen hóf nám sitt. En Geir varð að bægja öllum slíkum draumórum til hliðar. Eins og öðrum börnum févana almúgafóiks, var honum búið það hlutskipti, að vinna baki brotnu, frá því er hann var til nokkurs fær. Þetta var Geir engan veginn óljúft, enda þótt menntaþrá- in léti einnig nokkuð á sér bæra. Hann þótti snemma hraustur og harðger, hafði nautn af að taka rösklega til hendi og kunni flestum betur að njóta sannrar gleði yfir vel unnu verki. Sjómennskan féll honum einna bezt allra starfa á æskuárum. Þar reyndi meira á þol og karlmennsku, en við búðarstörf og annað snatt fyrir kaupmenn. Geir undi því allvel hag sínum eftir að hann tók að fást við sjó- sókn, en það mun hafa verið um fermingaraldur. Þótt Geir nyti ekki mikillar fræðslu á bernskuárum, fram yfir það, sem krafizt var að lögum, hlaut hann nokkra upp- bót þess, um eða eftir tvítugsaldur. Lærði hann þá töluvert í enskri tungu, og átti sú kunnátta eftir að hafa veruleg áhrif á lífsferil hans allan. Um þessar mundir var enskukunnátta sjaldgæft fyrir- brigði í Reykjavík. Hinir lærðu menn voru allir í fornmál- unum, gátu að vísu flestir lesið ensku sér til nota, en gerðu það oft lítt eða ekki. Um aðra var naumast að ræða í þessu sambandi, nema þá að einhver sérstök atvik lægju til. Svo var og um enskukennara Geirs, Sigurð kaupmann Sivert- sen. Sigurður var sonur Bjarna Sievrtsen riddara í Hafnar- firði og Rannveigar Filippusdóttur, konu hans. Bjarni ridd- ari má hiklaust teljast einhver mikilhæfasti forvígismaður íslendinga á öndverðri 19. öld, og ber höfuð og herðar yfir flesta kaupmenn, stéttarbræður sína. Hann hafði hafizt úr fátækt og umkomuleysi vegna gáfna og dugnaðar, stofnað myndarlegt verzlunarfyrirtæki, rutt nýjar brautir í útgerð- armálum og hafið stórskipasmíðar hér á landi fyrstur manna. Á dögum Napóleonsstyrjaldanna lánaðist Bjarna að verða bjargvættur íslendinga, þegar styrjöld hófst milli Danmerkur og Englands, og ekki var annað sýnna en að íslenzka þjóðin myndi hrynja niður úr hungri. Tók hann þá að sér einskonar sendifulltrúastörf í Englandi, og leysti þau þann veg af höndum, að með ágætum mátti telja. Sagnir herma, að er Bjarni var kominn um tvítugt, hafi hann hvorki getað talizt læs né skrifandi, vegna þess að ástæðulaust þótti að kenna honum slíka hluti í foreldra- húsum. Síðar aflaði hann sér víðtækrar menntunar af eig- in dáðum og lærði meðal annars enska tungu svo vel, að sérstakt orð var á gert. Til marks um það er meðal annars sú staðreynd, að árið 1809, á dögum Jörundar-uppreisnar- innar, var Bjarni hvað eftir annað sóttur til Hafnarfjarðar, svo að hann gæti verið túlkur milli Englendinga og ís- lenzkra fyrirmanna, þegar mikils þótti við þurfa. Er ekki að efa það, að Bjarni varð fyrir allmiklum áhrifum af enskum siðum og enskri menningu, enda gætti þess nokkuð í starfi hans öllu. Kenndi Bjarni Sigurði syni sín- um enska tungu og lét hann auk þess sigla til fullnumunar í því efni. Sigurður Sivertsen var talinn gegn maður og góðviljað- ur, en ekki skörungur eins og faðir hans. Hann gerðist verzlunarstjóri við útibú Bjarna í Reykjavík, en það stóð efst við Hafnarstræti, þar sem nú er Smjörhúsið. Reykja- víkurverzlun sína stofnsetti Bjarni riddari 1797, en Sig- urður tók við forstöðu hennar 1819. Virðist hann hafa verið fremur lítill kaupmaður og rýrnaði verzlunin smám saman í höndum hans. Lauk svo, að hann varð að selja fasteignir sínar nær allar litlu eftir 1840. Keypti þá verzl- unina Dethlef Thomsen og kom þar upp einhverri stærstu verzlun bæjarins. Sigurður var kvæntur hinn merkustu konu, Guðrúnu, systur Helga biskups Thordersen. Hún var handlagin og hannyrðakona mikil. Hafði hún fengið styrk úr opinberum sjóði til að læra prjónavefnað og kaupa þrjár prjónavélar, gegn því að kenna iðn þessa öðrum konum. Eftir að Sig- urður hraktist frá verzluninni vann Guðrún einkum fyrir þeim hjónum með prjóni og kertasteypu. Bjuggu þau við heldur þröng kjör á efri árum, en nutu jafnan mikillar virðingar vegna prúðmennsku og annarra mannkosta. Börn áttu þau mörg og voru þar á meðal fjórir synir. Hét einn þeirra Bjarni, frábær efnis- og gáfumaður. Hann and- aðist úr tæringu og hafði þá loklð háskólanámi í klassiskri málfræði, en átti prófið eitt eftir. Annar var Hans Anton, verzlunarstjóri fyrir Knudtzons-verzlun og bæjarfulltrúi í Reykjavík. Þriðji hét Guðmundur. Hann var svo efnilegur, að Gaimard hinn franski veitti honum sérstaka athygli, tók hann með sér til Frakklands og fékk stjórnina þar til að kosta nám hans við ágætan háskóla. Guðmundur lærði læknisfræði, en mun hafa andazt ungur suður í Al- gier. Fjórði sonurinn var Pétur bóndi í Höfn í Borgarfirði, faðir Sigurðar prófessors Sivertsen. Svo er sagt, að þegar Geir Zoega hafði önglað saman með mikilli sparsemi dálitlu skotsilfri, hafi hann komið að máli við kunningja sinn einhvern, og stungið upp á því, að þeir öfluðu sér dálítillar fræðslu og notuðu til þess vetrar- mánuðina. Gleymt er nú hver kunninginn var, en sagan segir, að þeir hafi bundið þetta fastmælum. Þegar farið var að ræða um það, hvað læra skyldi, varð enskunám ein- hverra hluta vegna fyrir valinu. Hefur ekki tekizt að grafa upp neinar sennilegar skýringar þess, hvaða atvik mestu hafi um það ráðið. En víst er hitt, að þeir íélagar héldu nú á fund Sigurðar Sivertsen og föluðu hjá honum tilsögn í enskri tungu. Varð hann við bóninni og skyldu þeir greiða eitthvað lítilræði fyrir kennslustund hverja, sinn helming- inn hvor.Hófst nú námið.En þegar Jiðnir voru fáeinir dagar, heltist félagi Geirs úr lestinni og ákvað að hætta svo fá- víslegu föndri, sem námsbrölti þessu. En þá var Geir ekki meiri auðmaður en svo, að honum virtist algjörlega ókleift að greiða kennslugjaldið einsamall, eftir að kunninginn hafði skorizt úr leik. Sá hann þann kost vænstan, að hætta námshugleiðingum öllum, þótt miður félli honum það. En þegar Sigurður Sivertsen frétti um málavexti, gerði hann Geir þau boð, að hann skyldi hiklaust halda náminu áfram, hvað sem greiðslum öllum liði. Þáði Geir að sjálfsögðu boðið, og naut tilsagnar Sigurðar um veturinn. Hafði hann oft gaman af að rifja þetta atvik upp síðar meir, bæði fá- tækt sína og velvilja kennarans. Mun hann heldur hafa lát- ið Sigurð njóta þessa greiða, þegar honum gafst kostur á, en svo var hin síðustu ár Sigurðar.

x

Akranes

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Akranes
https://timarit.is/publication/865

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.