Vísbending


Vísbending - 25.03.2013, Blaðsíða 3

Vísbending - 25.03.2013, Blaðsíða 3
V Í S B E N D I N G 1 2 T B L 2 0 1 3 3 verðbólgu sem hefur fylgt okkur síðan. Verðbólga árin 2000 – 2012 hefur að jafnaði verið nærri 6% á ári, langt yfir fyrrnefndu verðbólgumarkmiði SÍ. Á þeim rösklega tveimur áratugum sem liðnir eru frá gerð þjóðarsáttarsamninganna hefur verðlag hér hækkað um 180% samanborið við um 40% í Þýskalandi á sama tíma, svo að dæmi sé tekið. Okkur hefur gengið afar illa að halda skynsamlega á hagstjórninni þegar vel hefur árað í efnahagslífinu. Helst hefur náðst sæmilegur verðlags- stöðugleiki hér á landi á tímum efnahags samdráttar. Það á ekki við nú. Undangengin þrjú ár hefur verðbólgan verið um 5% að jafnaði á ári. Það gefur ekki góð fyrirheit um verðlagsstöðugleika, nú þegar efnahagslífið er tekið að rétta úr kútnum. Þáttur krónunnar Einn orsakavalda þessarar miklu verðbólgu er íslenska krónan. Miklar sveiflur á gengi hennar hafa valdið íslensku atvinnulífi og heimilum miklum búsifjum og ljóst að ekki verður lifað við slík starfsskilyrði. Á undanförnum tveimur áratugum hefur virði íslensku krónunnar helmingast gagnvart evru. Á sama tíma hefur verðmæti evrunnar (mælt út frá viðskiptavog 20 stærstu viðskiptalanda aðildarríkjanna) staðið í stað. Gengisveikingin ein og sér er mikið vandamál fyrir atvinnulíf og heimili. Óstöðugleikinn sem einkennt hefur krónuna er ekki síður vandi. Eins og sjá má á mynd 1 eru árlegar sveiflur í gengi krónunnar umtalsvert meiri en sveiflur evrunnar á sama tíma. Sökum þess hve Íslendingar flytja inn stóran hluta aðfanga og neysluvara þjóðarinnar veldur veiking krónunnar mikilli verðbólgu. Gróflega má áætla að 10% gengisveiking leiði til um 4-5% verðbólgu. Á því tímabili sem hér er skoðað ætti því helmingun í virði krónunnar að öðru óbreyttu að leiða til liðlega 50% verðbólgu. Raunin er hins vegar nærri 180% hækkun verðlags á undangengnum tveimur áratugum. Veikingu krónunnar verður því ekki einni kennt um verðbólguna. Langvarandi víxlverkan launa og verðlags Fleira kemur hér til og ekki þarf að leita langt að öðrum veigamiklum orskavaldi, þ.e. óhóflega miklum launahækkunum á tímabilinu. Á undanförnum tveimur áratugum hefur launavísitala hækkað um 287%! Kaupmáttur launa hefur á sama tíma aukist um 35%. Ef við ætlum að ná stöðugleika í efnahagsmálum á Íslandi verðum við að stöðva þessa víxlverkun. Sjálfsagt má deila um hvort launin elta verðlag eða öfugt. En þegar hlaupið er endalaust í hringi skiptir á endanum engu máli hvor eltir hvorn. Það sem máli skiptir er að í slíkum eltingarleik miðar þjóðinni ekkert áfram. Þjóðarsáttin kenndi okkur það á sínum tíma að hóflegar launahækkanir skila mun betri árangri en óðaverðbólgan fyrir bæði atvinnurekendur og launafólk. Atvinnulíf sem býr við verðlagsstöðugleika getur einbeitt sér að bættum rekstri og aukinni framleiðni sem aftur skapar svigrúm til launahækkana. Þessa leið þurfum við að fara nú. Síðustu kjarasamningar fólu í sér miklar launahækkanir upp á von og óvon um að atvinnulífið ætti fyrir þeim. Mikill þrýstingur var á að sækja til baka þá kaupmáttarrýrnun sem varð á árunum 2008-2009. Vandamálið er að aldrei var innistæða fyrir þeim kaupmætti. Hann hafði verið tekinn að láni. Að sama skapi var engin innistæða fyrir launahækkunum og þær fóru beint út í verðlag eins og búast mátti við. Af áratugalangri reynslu ættum við að vita að verðbólgan hefur alltaf sigur í þessum eltingarleik. Aukin verðmætasköpun og framleiðni eru alltaf nauðsynleg forsenda aukins kaupmáttar. Á síðasta ári var hagvöxtur aðeins 1,6%, en á sama tíma hækkuðu laun að nafnvirði um 7,4%. Það er ekki tilviljun að verðbólga síðasta ár var nálægt mismun á þessum tveim stærðum. „Snjóhengjan“ Annað veigamikið vandamál er það mikla fjármagn sem er læst innan múra gjaldeyrishafta á Íslandi. Erfitt er að henda reiður á því hversu mikið fé bíður þess að komast úr landi, en nefndar eru tölur á bilinu 1.000 til 1.200 milljarðar króna. Stærstur hluti þessarar fjárhæðar er vegna svonefndra jöklabréfa og krafna á þrotabú bankanna. Við núverandi aðstæður hækkar þessi fjárhæð á hverju ári vegna uppsöfnunar vaxta og fjárfestingarþarfar lífeyrissjóða erlendis. Þetta fjármagn er eitt og sér verðbólguhvetjandi vegna þrýstings sem það setur á allt eignaverð innanlands. Hætta er á nýrri bólumyndun á ýmsum eignamörkuðum vegna þessa. Enn fremur er ljóst að hvorki er unnt að byggja upp trúverðuga peningamálastefnu né losa um gjaldeyrishöft án þess að taka á þessum vanda. Óhjákvæmilegt er að semja við eigendur þessara krafna um afskrift á hluta þeirra. Bent hefur verið á að margir þessara aðila eignaðist kröfurnar með miklum afslætti og því hægt um vik að semja um uppgreiðsluverðmæti gegn því að fjármagninu sé hleypt úr landi. Þennan vanda er nauðsynlegt að leysa, ef hér á að vera unnt að móta trúverðuga stefnu í peningamálum. Létta verður af þrýstingi á gengi krónunnar með samningum við kröfuhafa. Að auki verður að byggja upp nægjanlegan óskuldsettan gjaldeyrisvarðaforða hjá Seðlabankanum, svo að hann geti stutt við gengi krónunnar þegar á þarf að halda. Gjaldeyrisvandinn kann að reynast auðveldari úrlausnar en að ná hér tökum á verðbólgunni á nýjan leik. Gjaldeyris vandinn og verðbólgan eru meginverkefni þjóðarinnar á komandi misserum. Kjaraviðræður næsta haust skipta sköpum í því hvort þjóðin kemst af stað í þá vegferð, enda er það ein lykilforsenda fastgengisstefnu að peningamálastjórn, hagstjórn og launaþróun gangi í takt.

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.