Lögmannablaðið - 01.06.2012, Blaðsíða 20

Lögmannablaðið - 01.06.2012, Blaðsíða 20
20 lögmannablaðið tbl 03/11 Á léttUM nótUM af merði lögmanni Nú er búið loksins að skipta um formann í Lögmannafélaginu. Mörður var hissa yfir því að þessi sérkennilegi maður skyldi verða kosinn sem formaður á sínum tíma. Mörður kunni nú samt ágætlega við hann. Hann er svolítið skrítinn eins og Mörður, fylgdi ekki tískustraumum í klæðaburði og „holningin“ ekki glæsileg. Stundum leit blessaður maðurinn út eins og útigangsmaður, sólbrúnn og órakaður. Þótt Mörður verði seint talinn til fegurstu manna var hann aldrei svona illa útlítandi. Þótt Mörður hafi að mörgu leyti kunnað ágætlega við formanninn fyrrverandi var ekki sama hægt að segja um marga aðra. Mörður hitti til dæmis landsþekkta konu um daginn á ónefndri knæpu. Sú hefur verið málkunnug Merði frá því í gamla daga þegar hann var hagaljómi á veiðilendum lostalífsins í mjaðarlausum Reykjavíkurhreppi. Í stað þess að hneppa einni tölu neðar á velstraujaðri skyrtunni og hagræða brjóstunum til að gera skoruna meira áberandi, eins og hún hafði iðulega gert frá því þau tefldu saman sína skák, þá vatt hún sér að Merði og fór að tala um „skítasvínið formanninn“. Uppákomur sem þessar hafa verið algengar síðustu misseri og nú virðist svo komið að konur líta ekki við lögmönnum almennt. Mörður kannaði betur hvernig á þessu stæði og skoðaði hvað þessi fyrrverandi formaður hafði gert. Kom þá í ljós að hann hefur verið sífellt að gaspra í fjölmiðlum og ráðist harkalega að konum sem eru að reyna að berjast fyrir réttindum kvenna og hjálpa öðrum konum að komast undan lostugum körlum. Þótt Mörður sé nú ekki þekktur kvenréttindasinni varð honum um og ó við skrif formannsins fyrrverandi og finnst ekki skrítið að lögmenn séu ekki hátt skrifaðir hjá kvenþjóðinni. Það er því af sem áður var þegar jafnvel ófríðustu lögmenn komust á séns. Við nánari skoðun Marðar kom ýmislegt sérkennilegt í ljós í fari formannsins fyrrverandi. Hann kann lítið í lögfræði og lét nýútskrifaðan sérfræðing í málefnum flóttamanna pakka sér saman í fjölmiðlum þegar hjálparlausu börnin frá Alsír reyndu að flýja til landsins. Álit Marðar á formanninum minnkaði heldur þegar Möðrur áttaði sig á því að hann er sérstakur stuðningsmaður mótorhjólagengja og annars glæpalýðs. Svo ekki sé talað um stuðning hans við útrásarvíkinga og bankamenn. Mörður er greinilega ekki lengur mesti furðufuglinn í lögmannastéttinni. En ólíkt Merði hefur formaður fyrrverandi verið kvæntur sömu konunni alla tíð sem er mjög undarlegt í ljósi skrifa hans. Konan hlýtur að hafa sérstakt langlundargeð og sennilega af framsóknarættum. Mörður er ánægður með nýja formanninn, sem er yndislegur maður, bæði góður og fallegur. Þar er á ferð vandaður maður sem er ekki sífellt gasprandi tóma vitleysu í fjölmiðlum. Nýi formaðurinn hefur óskað eftir starfskröftum Marðar í þágu Lögmannafélagsins. Til stendur að endurvekja spilakvöldin með áherslu á framsóknarvist.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.