Lögmannablaðið - 01.12.2013, Blaðsíða 21

Lögmannablaðið - 01.12.2013, Blaðsíða 21
lögmannaBlaðið tBl 04/13 21 Á léttUM nótUM af merði lögmanni Það er þungt yfir Merði eftir atburði síðustu daga og vikna. Þannig er að allt frá því að landslýður gekk til kosninga í vor og kaus sér nýja ríkisstjórn hefur Mörður, eins og fleiri, haft uppi ákveðnar (ó)réttmætar væntingar um það sem í vændum er. Mörður hafði lagst yfir þetta mál dögum og jafnvel vikum saman til að reikna út hvað hann fengi í leiðréttingu. Dustaði meira að segja rykið af vasareikninum sem hann fékk í gjöf frá Hafskip jólin ´83. Þessir útreikningar höfðu leitt í ljós að Hróa Hattar réttlæti nútímans, þar sem er tekið frá kröfuhöfum og fært til skuldara, myndi gefa Merði vel í aðra hönd. Ekki svo að skilja að Mörður væri neinn óreiðumaður. Því fer fjarri. En eins og allir góðir lögmenn þurfti hann að eiga þak yfir höfuðið sem bæri stöðu hans og status gott vitni. Mörður hafði unnið eftir þeirri reglu varðandi húsnæðiskaup að margfalda þann árafjölda sem hann hafði unnið sem lögmaður með 10 og finna þannig út eðlilegt flatarmál á þeirri fasteign sem hann þyrfti að eiga. Árið 2007 hafði hann því komist að þeirri niðurstöðu að 380 fermetra hús væri lágmarksaðstaða fyrir mann í hans stöðu og ekki var neinn hörgull á viljugum bankamönnum að lána í þau kaup fram og til baka. Eftir hið svokallaða hrun hafði þrengt nokkuð um hjá Merði og ólíkt kollegum hans náði hann ekki að troða sér í slitastjórnir eða skilanefndir. Þá hafði hann ekki haft erindi sem erfiði við að gerast lögmaður kröfuhafa eða annarra erlendra aðila enda farinn að ryðga töluvert í enskunni. Hann talaði framúrskarandi dönsku en bölvaður danzkurinn virtist ekki hafa haft neina trú á íslensku bönkunum og þar af leiðandi voru engir danskir kröfuhafar til að vinna fyrir. Mörður sat því uppi með sömu gömlu góðkunningjana, bótamál, síbrotamenn og ýmsa lukkuriddara sem ætluðu sér í mál við hinn og þennan vegna óréttlætis heimsins. Það hafði því glatt Mörð verulega þegar hinn hugumprúði forsætisráðherra þjóðarinnar hafði lýst því yfir að hann hygðist setja heimsmet í að koma til móts við menn eins og hann. Mörður hafði meira að segja sent nokkrum þingmönnum sms- skilaboð á árinu til þess að mæra þá í hástert og hafði á köflum leiðst út í að setja með ýmsar kynferðislegar lýsingar á því hve ánægður hann var með framtakið. Þar sem útreikningar Marðar höfðu leitt í ljós að hann átti í vændum myndarlega ávísun frá ríkissjóði hafði hann ákveðið að panta sér far til Kanarí-eyja yfir jólin og lagt inn pöntun hjá Bílabúð Benna fyrir nýjum bíl. Þegar stóri dagurinn rann upp, þar sem ríkisstjórnin tilkynnti niðurstöðurnar, hafði Mörður klætt sig upp á í grasgræna lopapeysu. Honum leið eins og manni sem væri að fylgjast með lottó-útdrættinum, vitandi að hann væri með vinningsmiðann. Eina sem var óljóst var hve hár vinningurinn yrði. Fljótlega runnu þó tvær grímur á Mörð þegar ýmsir reiknimeistarar ríkisstjórnarinnar trommuðu upp og tilkynntu að leiðréttingin yrði að hámarki 4 milljónir og fyrri leiðréttingar drægjust frá. Hámark og frádráttur?! Það hafði aldrei verið nefnt í hans eyru fyrr. Hverskonar drottins svik voru þetta? Heimsmetið sem Mörður átti von á reyndist á endanum varla vera héraðsmótsmet – í hans heimasveit hefði svona lítilræði ekki verið neitt til að tala um. Kaupfélagið felldi annað eins niður hjá góðum framsóknarmönnum mánaðarlega! Það sauð á Merði. Hann slökkti á útsendingunni og sendi nokkur vel valin sms á sitt fólk á þingi, sem birtust öll jafnóðum á netinu. Hann hringdi svo í ferðaskrifstofuna, afbókaði Kanarí-ferðina og sagði Benna að nýi bíllinn yrði að bíða. Hann yrði víst að fara aftur í vinnuna til að eiga fyrir næstu afborgun.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.