Lögmannablaðið - 01.06.2013, Blaðsíða 22

Lögmannablaðið - 01.06.2013, Blaðsíða 22
22 lÖgmannaBlaÐiÐ tBl 02/13 Á lÉttUM nÓtUM af merði lögmanni Nú þegar vetrarskrípið hefur loks haft sig á brott er það ekki aðeins sólin sem er í hæstu hæðum heldur er væntingavísitala Marðar á svipuðu róli. Hann sér fram á gósentíð í kjölfar glæsilegrar upprisu Flokksins og endalok uppivöðslu vinstrimanna sem síðustu ár hafa valdið mörgum flokkshollum lögmanninum miklum búsifjum. Mörður horfir með velþóknun og væntumþykju á flokkskírteini sitt í Framsóknarfélagi Strandamanna sem hangir á ný innrammað uppi á vegg á skrifstofunni og veltir fyrir sér hvort tími sé kominn til að fara að stunda golf eins og helstu lagakanónur landsins. Það getur varla verið flóknara en einfaldur heimaskítur að spássera úti í móa og sveifla þessum prikum. Höggin virðast einmitt liggja einkar vel við mikilvægum síðmiðaldra körlum. Stór og feit verkefni bíða handan við hornið. Þessum eftirmiðdögum í vor var ekki varið til einskis þegar Mörður ók á gömlu Lödunni á milli sambýla á höfuðborgarsvæðinu og bauð heimilismönnum í ísbíltúr - með örstuttri viðkomu hjá Sýsla þar sem vistmenn kusu svo kórrétt utankjörfundar. Mörður er þess fullviss að sá tími sé liðinn að hann þurfi að berjast um stöku búskiptamola við her nýtilgerðra lagatitta sem fátt virðast kunna annað en að hamast linnulaust á spjallsímunum sínum eða hvað þau nú heita þessi apparöt sem virðast gróin fast við ungt fólk. Eftir kosningasigur vorsins er nefnilega morgunljóst að ráðamenn munu þurfa á alveg sérstakri sérfræðiráðgjöf að halda. Það verður ekki verk fyrir einhverja erlenda pótintáta eða nýútskrifaða lagatitti heldur fyrir menn með áratuga reynslu og þjóðleg gildi í anda ungmennafélaganna. Mörður hefur í gegnum árin náð að fullkomna sig í þeirri list að fá fresti og viðhalda málsmeðferð jafnvel einföldustu mála. Sá hæfileiki Marðar að teygja lopann gæti komið að góðum notum fyrir hinn unga forsætisráðherra og Flokkinn sem í hita leiksins fór kannski aðeins fram úr sér í loforðalistanum. Að vísu hefur Mörður upp á síðkastið haft af því nokkrar áhyggjur að nýir dómarar, ungir reglupésar, virðast á góðri leið með að yfirtaka héraðsdómstólana. Einn af þessum ungu reglupésum gekk svo langt um daginn í fyrirtöku að skammast yfir því að Mörður væri ekki undirbúinn sem skyldi fyrir þennan spjallfund. Svo meinaði hann Merði að fara í stutta pissupásu og sagði það sig engu varða hvort eitthvað væri að Merði í blöðruhálsinum, hann gæti bara haldið í sér. Mörður syrgir þá tíma þegar dómarar skelltu sér með í smók í pissupásunum og ekki var nokkur þörf var á að grípa til þess að gera sér upp líkamlega krankleika til að tefja mál. Flokkurinn mun vonandi beita sér fyrir upptöku gamalla gilda í dómssal sem annars staðar. Mörður lítur aftur á flokkskírteinið á veggnum og veltir fyrir sér hvort hann eigi að taka upp símann og hringja strax í unga forsætisráðherrann til að bjóða fram aðstoð. Í leiðinni gæti Mörður líka lagt til að fyrst þeir ætli að afnema fiskveiðigjaldið og setja aðildarviðræður ESB á ís þá geti þeir allt eins frestað gildistöku þessara forheimsku kvótalaga sem skikka fyrirtæki að fylla stjórnir sínar af kerlingum. Þetta jafnréttiskjaftæði hefur nú þegar gengið allt of langt að mati Marðar og sést best á því að nú skipa lögfreyjur meirihluta stjórnar Lögmannafélags Íslands. Hér er þörf á frekari frestum og þar er Mörður á heimavelli.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.