19. júní


19. júní - 19.06.2010, Blaðsíða 27

19. júní - 19.06.2010, Blaðsíða 27
Fimmtíu ár voru liðin í síðasta mánuði frá því að fyrst var heimilað að selja nýja tegund getnaðarvarnar, sem lengst af hefur gengið undir nafninu p-pillan eða bara Pillan, gjarnan skrifuð með stórum staf. Þann 9. maí það ár samþykkti bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið FDA umsókn lyfjafyrirtækisins G.D. Searle og Co. um að markaðssetja getnaðarvarnarpilluna Enovid. Áður en lyfjastofnunin veitti samþykki sitt hafði að sjálfsögðu staðið yfir barátta áratugum saman um að fá að framleiða og selja einfalda getnaðarvörn, örugga og svo ódýra að allflestum konum ætti að vera kleift að kaupa hana. Í ítarlegri grein í bandaríska fréttatímaritinu Time kemur fram að frumkvöðull baráttunnar hafi verið bandarískur hjúkrunarfræðingur, Margaret Sander að nafni. Hugmyndina að lítilli pillu sem kæmi í veg fyrir ótímabæra þungun fékk hún strax árið 1912. Margaret var ein átján systkina. Þegar móðir hennar lést fimmtug að aldri sakaði hún föður sinn um að hafa valdið dauða móðurinnar með því að hafa lagt á hana allt of miklar byrðar. Þröngsýni og fjárskortur Til að gera langa sögu stutta fóru hjólin virkilega að snúast þegar Margaret Sander kynntist vísindamanninum Gregory Pincus, sérfræðingi í æxlunarfræðum, í byrjun sjötta áratugarins. Fjárskortur og almenn þröngsýni hamlaði starfi þeirra fyrst í stað. Eftir að fjárhagslegur bakhjarl var fundinn og Pincus komst í kynni við kvensjúkdómalækninn John Rock fóru hjólin loks að snúast. Rock var sérfræðingur í meðhöndlun við ófrjósemi, íhaldssamur kaþólikki, fimm barna faðir og afi átján barna til viðbótar. Hann vann að rannsóknum á hormónum í því skyni að auka frjósemi kvenna. Gregory Pincus áttaði sig fljótlega á því að nýta mátti uppgötvanir Johns Rocks í þveröfugum tilgangi. Það er að draga úr frjóseminni. Það var svo árið 1956 sem þeir Rock og Pincus töldu sig vera komna það vel á veg að rétt væri að prófa nýju Pilluna á konum. Leyfi fyrir rannsókninni fékkst í Puerto Rico. Þar var fjöldi kvenna sem þráði fátt heitar en að fundin yrði upp getnaðarvörn sem kæmi í staðinn fyrir þær óöruggu varnir sem þær höfðu úr að moða. Þessi frumgerð Pillunnar reyndist örugg leið til að koma í veg fyrir egglos og var leyfð árið 1957 í Puerto Rico sem lyf við „kvenlegum kvillum“ eins og það var orðað. Árin á eftir var pillan seld ólöglega í Bandaríkjunum og víðar, allt þar til matvæla- og lyfjastofnunin tók af skarið í maí 1960. Með samþykkt þess var raunar brotið blað í sögu lyfjaframleiðslu. Til þess tíma höfðu heilbrigðisyfirvöld aldrei samþykkt að framleitt yrði lyf sem gert var ráð fyrir að heilbrigt fólk tæki inn með reglubundnum hætti. Ýtt undir lauslæti Þrátt fyrir að p-pillan hefði fengið samþykki heilbrigðisyfirvalda vestra var björninn samt ekki alveg unninn. Í mörgum ríkjum mátti einungis selja Pilluna giftum konum fyrst í stað. Ef ógiftar konur fengju hana í hendur ýtti það bara undir lauslæti. Þeim skorðum var rutt úr vegi þegar tímar liðu. Nú orðið er litið á uppfinningu Pillunnar sem mikilvægan áfanga í jafnréttisbaráttu kvenna og veigamikinn þátt í þeirri þjóðfélagsbyltingu sem varð í vestrænum ríkjum á síðustu árum sjöunda áratugarins. Í fréttatímaritinu Economist kom fram árið 1999, þegar atburðir tuttugustu aldarinnar voru gerðir upp, að Pillan væri mikilvægasta vísindauppgötvun aldarinnar. Þrátt fyrir að um það bil hundrað milljónir kvenna noti Pilluna daglega að staðaldri er henni þó ekki tekið fagnandi alls staðar. Til dæmis notar hana einungis ein kona af hverjum eitt hundrað í Kína. Í Japan er Pillan sögð vera á undanhaldi. Þar í landi mæla heilbrigðisyfirvöld frekar með smokkum sem getnaðarvörn, þar sem hann skili betri árangri en Pillan í baráttunni gegn alnæmi. Kaþólska kirkjan hefur alla tíð barist gegn Pillunni. Þar á bæ er litið á hana sem röskun á eðlilegri hringrás náttúrunnar. Þá hefur alla tíð verið til staðar hópur fólks sem lítur á getnaðarvarnir, og þá sér í lagi Pilluna, sem undirrót lauslætis og framhjáhalds og að hún grafi undan hinum hefðbundnu gildum fjölskyldunnar. Breytti stöðu konunnar Þrátt fyrir úrtöluraddir er það útbreidd skoðun víða um heim að Pillan sé hið mesta þarfaþing. Ein víðtækasta rannsókn sem unnin hefur verið á heilbrigðissviði leiðir einnig í ljós að Pillan er hreint ekki eins hættuleg og margir hafa látið í veðri vaka. Rannsókn á 46 þúsund konum sem stóð yfir í tæpa fjóra áratugi leiddi til dæmis í ljós að þær konur sem taka Pilluna eru ólíklegri en hinar til að deyja fyrir aldur fram af ýmsum sjúkdómum, svo sem krabbameini og hjartaáfalli. Niðurstaða þessar rannsóknar var birt í mars síðastliðnum. a Byggt á greininni Love, Sex, Freedom and The Paradox Pill, Time 3. maí 2010. Pillan orðin 50 ára Rúmlega hundrað milljónir kvenna hófu daginn í dag eins og aðra daga ársins á því að taka inn agnarlitla töflu sem á að koma í veg fyrir að þær verði barnshafandi. Uppfinningu andskotans að margra mati. Aðrir líta á lyfið sem sannkallaða guðsblessun fyrir mannkynið og þó sér í lagi konur. Frumkvöðullinn Margaret Sander lést 86 ára að aldri árið 1966. Henni auðnaðist þar af leiðandi ekki að sjá hverju barátta hennar skilaði fyrir öruggri getnaðarvörn í formi smápillu. Hún missti af því að vegna Pillunnar breyttist hlutverk fjölmargra ungra kvenna. Þær hættu að líta á sig sem húsmæður fyrst og fremst og fóru að láta til sín taka á vinnumarkaði. Í úttekt Time í tilefni af hálfrar aldar afmæli Pillunar er haft eftir Terry O’Neill, formanni NOW, Landssamtaka bandarískra kvenna, að árið 1970 hafi sjötíu prósent kvenna með börn undir sex ára aldri verið heimavinnandi. Þrjátíu prósent hafi verið á vinnumarkaðinum. Fjórum áratugum síðar hafi dæmið snúist við. Terry O’Neill bætir því við að beint samhengi sé milli Pillunnar og þeirra umbóta sem hafa orðið á hlutverki og réttindum kvenna síðastliðna hálfa öld. 27 24-27 Upphefð Gerður Kristnypil5 5 6/2/10 6:09:46 PM

x

19. júní

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: 19. júní
https://timarit.is/publication/671

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.