Málfregnir - 01.05.1987, Blaðsíða 2

Málfregnir - 01.05.1987, Blaðsíða 2
Útgáfa Málfregna A árunum 1982-84 gaf íslensk málnefnd út fjölritað blað sem nefnt var Fréttabréf Islenskrar málnefndar og flutti ýmislegt efni úr verkahring nefndarinnar. Þetta var eins konar tilraun, sem gafst bærilega. Ekki verður annað séð en Fréttabréf hafi haft tilætluð áhrif. Það var aldrei söluvara en var sent ýmsum sem sýndu því áhuga eða það var talið eiga erindi við, t.d. íslenskukennurum og fræðimönnum hérlendis og erlendis, fjölmiðlum, bókasöfnum, opinberum stofnunum og alþingismönnum. Alls komu út 6 tölublöð af Fréttabréfi, tvö á ári, og var ætlunin að halda útgáfunni eitthvað áfram. Af því varð þó ekki, og olli einkum annríki ritstjórans. Smám saman fór að mótast sú hugmynd að gefa út ögn veglegra rit en þetta fjöl- ritaða fréttabréf, sem sumum þótti auk þess bera nafn með enskum keim (fréttabréf er þýðing á e. newsletter). Nú hefir málnefndin ákveðið að tímarit hennar skuli heita Málfregnir og koma út tvisvar á ári, vor og haust. Málfregnum er ætlað svipað hlutverk og Fréttabréfi áður. Þó er vonast til að þær komist nær því að mega kallast tímarit um málrækt. Hér verði unnt að birta stuttar fræðandi ritgerðir um það efni, eða góðar hugvekjur, og meira um málfarsleg atriði til leiðbeiningar og fræðslu, þar á meðal um nýyrði. Málfregnir eiga að flytja hvers konar efni sem varðar íslenska málrækt eftir því sem ástæður leyfa. Leitast verður við að greina frá afskiptum stjórnvalda af íslensku máli og aðgerðum annarra opin- berra aðilja. Þetta á einnig við um ýmsar athafnir málnefndarinnar sjálfrar og sitthvað af hennar verksviði sem ástæða þykir til að segja frá. í Málfregnum verða birtar stuttar umsagnir um bækur, greint frá niðurstöðum málfræðilegra rannsókna sem varða íslenska málrækt, sagt frá fundum, ráðstefnum og fleira slíku. Titilsíðan og merki málnefndar er teiknað á Auglýsingastofu Kristínar. Merkið gerði Björn H. Jónsson auglýsingateiknari. Þess er vænst að Málfregnir geti náð til sem flestra áhugamanna um íslenskt mál, kennara, fræðimanna, rithöfunda, stjórnmálamanna, embættismanna, sérfræðinga í ýmsum greinum, kaupsýslumanna, auglýsenda, fjölmiðlafólks o.s.frv. Segið vinum og kunningjum frá Málfregnum og hvetjið þá til að gerast áskrifendur. Hafið sam- band við íslenska málstöð, Aragötu 9. 101 Reykjavík. Sími (91) 28530. Málfregnir vænta góðrar samvinnu við lesendur sína og ábendinga frá þeim. BJ

x

Málfregnir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Málfregnir
https://timarit.is/publication/1146

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.