Skólavarðan - 01.10.2007, Blaðsíða 8

Skólavarðan - 01.10.2007, Blaðsíða 8
8 FORELDRASAMSTAR SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 7. ÁRG. 2007 Í nýlegu tölublaði neatoday, tímariti bandarísku kennarasamtakanna (NEA), er sjónum beint að foreldrasamstarfi. Bent er á að góð leið til að fá foreldra til aukins samstarfs sé í gegnum aðra foreldra, símtal frá foreldri til foreldris skilar oft meiri árangri en miði í skólatösku eða tölvupóstur. Þá er sagt frá atvinnurekandanum og hugsjónakonunni Eileen Kugler sem er höfundur bókarinnar Debunking the middle-class myth: Why diverse schools are good for all kids. Eileen Kugler á þrjú börn sem öll gengu í Annandale unglingaskólann en nemendur hans eru frá 85 löndum og tala 40 tungumál. Hún hefur meðal annars þróað verkefni sem gengur út á að ná til og breyta viðhorfum ungra foreldra, fjölmiðla, fasteignasala og félagasamtaka til fjölmenningarlegra hverfa og skóla í slíkum hverfum. Verkefnið var árangurs- ríkt og vakti mikla athygli á jákvæðum hliðum þess að vera nemandi og foreldri í fjölmenningarlegum skóla. Nýverið hrinti Eileen af stokkunum sérstöku leiðtogaverkefni fyrir foreldra úr hópi innflytjenda í Annandale skólanum. Það samanstendur af vinnusmiðjum og námskeiðum þar sem foreldrar kynnast innbyrðis og læra að hjálpa börnum sínum að rata í bandaríska skólakerfinu. Í vinnusmiðjum ræða foreldrar um skóla- kerfið í heimalandi sínu og bera það saman við hið bandaríska ásamt því að ræða um leiðir til að hvetja börn sín áfram í námi og aðstoða þau við heimanám. Þeir fá leiðbeiningar um hvernig þeir geti haft samband við skólann, rætt við kennara og hjálpað börnum sínum að gera áætlanir um framtíðina. Skólabókasafnið og starfsráðgjafarmiðstöð skólans (career center) eru heimsótt og og gestafyrirlesarar koma frá háskólum í nágrenninu og víðar að. Kugler mælir með því að tvítyngdir foreldrar séu virkjaðir til aðstoðar í verkefnum af þessum toga. Jeaneth Lazima frá Guatemala er ein þeirra sem tóku þátt í verkefninu og segist ekki verða jafn óróleg út af dóttur sinni og fyrr, s.s. þegar hún kemur heim með slæmar einkunnir. Nú kann hún að tala við kennarana og vinna með þeim að því að styðja barnið. Hún segist líka hafa öðlast skilning á mikilvægi þess að dóttirin taki þátt í tómstundastarfi eftir skóla og velji fjölbreytta áfanga til að búa sig undir framhaldsskóla. Svo eru það fyrirmyndarforeldrarnir, þessir sem alla kennara dreymir um. Í blaðinu er sagt frá Kim Wilson sem er alltaf til taks, mætir á fundi, bakar, hjálpar krökkunum daglega með heima– nám og býr þau snyrtileg, útsofin og vel nestuð í skólann. Svona foreldrar eru auðvitað fáséðir á Íslandi. En Kim er ekki nógu ánægð. Hana langar nefnilega til að taka meiri þátt en að hella í glösin á foreldrafundum en veit ekki hvernig hún á að snúa sér í því. Hún vill ekki ganga of langt og eiga á hættu að stuða kennarana. Í bókinni Beyond the bake sale: The essential guide to family/school partnerships er hvatt til þess að skólar og foreldrasamtök hugsi foreldrasamstarf upp á nýtt. Hætti að leggja áherslu á samstarf á borð við það sem Wilson tekur þátt í og hugi þess í stað að samvinnu um að virkja foreldra meira í námi barnanna. Til þess þurfa kennarar að skilgreina hvað þeir vilja fá frá foreldrum strax í upphafi og vera reiðubúnir að kenna foreldrum hvernig þeir eigi að bera sig að. Í stað þess að hafa hefðbundin bekkjarkvöld megi til dæmis hafa vísinda- eða stærðfræðikvöld þar sem foreldrar og börn vinna saman í vinnusmiðju. Með smágrúski fann undirrituð myndbandsupptöku af málstofu þar sem fjallað er um bókina. Meðal þess sem fjallað er um í bókinni og komið inn á í fyrirlestrinum er hvernig foreldrar og kennarar geta byggt upp gagnkvæmt traust í stað tortryggni, hvernig þeir geti stutt hver annan með góðum hugmyndum sem ýta undir nám og hvernig kennarar geta unnið með fjölskyldum sem hafa gildi og menningu sem er ólík þeirra eigin. Anne Henderson, einn höfundur bókarinnar, segir rannsóknir sýna að gott foreldrasamstarf bæti ekki bara námsárangur nemenda heldur skólastarfið í heild og, í enn víðara samhengi, menntunarstig samfélagsins. Hún nefnir fjórar gerðir skóla sem hún kallar Fortress school, Come-if-we-call-school, Open- door school og loks Partnership school. Annar höfundur, Karen Mapp, segir það goðsögn að erfitt sé að ná til foreldra. „Ég er tómstundagarðyrkjumaður,“ sagði Mapp, „og mér var sagt að ef ég notaði áburð fengi ég ánamaðka. En það gerðist ekki. Þegar ég fór að lesa mér til komst ég að því að ég þurfti að nota fleiri tegundir af áburði og halda moldinni rakri. Ég kenndi hins vegar ánamöðkunum um að mæta ekki á staðinn! Það sama gerum við gagnvart foreldrum. Við höldum fund, foreldrar mæta ekki og við kennum þeim um.“ Myndbandsslóðin er forum.wgbh. org/wgbh/forum.php?lecture_id=3508 Hérlendis er foreldrasamstarf talsvert til umræðu en betur má ef duga skal. Er t.d. samstarf milli skólastiga um áhrifaríkt foreldrasamstarf? Hvernig foreldrasamstarfi gefur fólk hæstu ein- kunn (kennarar, foreldrar, nemendur)? Ýtir aukin skráning undir áhrifaríkt foreldrasamstarf eða dregur hún e.t.v. úr því? Náum við til allra foreldra (algengt er t.d. að fólk sem er nýflutt til landsins hafi ekki tölvu og netfang)? Viðurkennir menntakerfið mikilvægi foreldrasamstarfs og fá kennarar tíma til að þróa það og sinna því? Með áhrifaríku foreldrasam- starfi er átt við samstarf sem ýtir undir vellíðan, þroska og framfarir nemanda, traust milli heimilis og skóla og ánægju foreldra og skóla með hver annan. Þetta eru mikilvægar spurningar sem við þurfum að leita svara við. keg Nýjar leiðir í foreldrasamstarfi Svo er líka mikilvægt að skemmta sér saman. Þessi mynd var tekin á sérlega skemmtilegu bekkjarkvöldi í Austurbæjarskóla haustið 2005. Lj ó sm y n d : k e g

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.