Helgarpósturinn - 04.07.1985, Blaðsíða 17

Helgarpósturinn - 04.07.1985, Blaðsíða 17
MYNDBÖND Þrjár leikkonur Tfie Jayne Mansfield Story Árgerd 1980. Leikstjóri Dick Lowry. Adalhlutverk: Loni Anderson, Arnold Schwarzenegger, Raymond Buktenica og fl. Marilyn (The Untold Story) Árgerö 1980. Leikstjórar: John Flynn, Jack Arnold og Lawrence Schiller. Adalhlutverk: Catherine Hicks, Richard Basehart, Frank Converse o.fl. Mommie Dearest Árgerd 1971. Leikstjóri Frank Perry. Adalhlutverk: Faye Dunaway, Diana Scarmid, Steve Forrest ofl. Ævisögur leikara eru að verða mjög vin- sælt sjónvarps- og kvikmyndaefni í Banda- ríkjunum og víðar. Sumar kvikmyndir af þessu tagi berast hingað í kvikmyndahúsin. Langflestar þeirra koma þó aldrei til íslands, enda sjónvarpskvikmyndir sem Ríkisút- varpið/sjónvarp hefur lítinn áhuga á. Þegar íslensku kvikmyndahúsin og sjónvarpið sýna myndum lítinn áhuga, koma mynd- bandaleigurnar okkur til bjargar. Á leig- unum er nefnilega hægt að fá mikið úrval af myndum, gerðum eftir ævisögum frægra kvikmyndaleikara. í þessum dálki verður að þessu sinni fjallað um þrjár kvikmyndaleik- konur — stjörnur sem settu mikinn svip á kvikmyndaiðnaðinn í Hollywood á sínum tíma, og allar urðu þær að goðsögn: Jayne Mansfield, Marilyn Monroe og Joan Craw- ford. í The Jayne Mansfield Story fylgjumst við með „frama“ leikkonunnar sem íjósku og kynbombu sjötta áratugarins, uns kvik- myndaiðnaðurinn hafði ekki lengur þörf fyr- ir hana og setti hana út í kuldann. Jayne var þá orðin drykkjusjúk og hafði bætt á sig aukakílóum. Eftir var aðeins goðsögnin um skræku gelluna sem gerði karlmönnum allt til geðs og Jayne orðin fangi í eigin goðsögn. Þessi mynd er athyglisverð fyrir þær sakir að hún lýsir vel hinum ómannlegu hliðum Hollywood, sem nýtir starfskrafta sína með- an þeir henta peningavélinni, en hendir þeim á haugana þegar einstaklingarnir eru ekki gróðavænlegir lengur. Sagan um Jayne Mansfield er dapurleg saga, og stundum sterk, þótt hún sé ekkert stórvirki í kvik- myndaframleiðslu. Það skyggir einnig á að öll nöfn eru tilbúin nema Mansfield og heiti manns hennar, Mickey Hargitag, kjötfjallsins fræga sem hinn þekkti vaxtarræktarleikari Arnold Schwarzenegger leikur. Marilyn (The Untold Story) fjallar um Mari- lyn Monroe og rekur ævi hennar frá fæðingu til sjálfsmorðs. Myndin er byggð á ævisögu Monroe sem Norman Mailer skrifaði, og sneri Dalene Young bókinni yfir í handrit. Mynd þessi er fróðleg ef menn vilja skyggn- ast bak við ímynd Monroe sem varnarlausrar kynbombu með ljósa lokka og barnslegt sak- leysi. En helsti galli myndarinnar er sundur- leysi í frásögn og brokkgeng framrás. Kannski má kenna því um að þrír leikstjórar gera myndina, samanber gömlu lummuna um gæði súpunnar og fjölda kokkanna. Catherine Hicks á þó ágætt hól skilið fyrir trúverðugan leik sem Marilyn og stundum líkist hún henni svo mjög, að maður verður dálítið dolfallinn. Stærsta kvikmyndaleikkonan af þessum þremur er að sjálfsögðu Joan Crawford. Crawford lék aðalhlutverk allt frá þriðja ára- tugnum fram til þess áttunda. Hún var pía á djasstímanum, framagjörn kona í atvinnulífi í myndum stríðsáranna og fram á sjötta ára- tuginn, þegar hún hóf að leika samanbitnar, sterkar konur, komnar af léttasta skeiði. Joan Crawford var ein þeirra leikkvenna sem létu Hollywood aldrei buga sig og var geysilega vinsæl áratugum saman, ekki síst meðal kvenna sem elskuðu að sjá hina köldu, sterku konu þjást innra með sér, klædda pelsum og silkikjólum. Mommie Dearest er óvanaleg ævisögu- mynd að því leyti, að hún er gerð eftir sögu dóttur leikkonunnar. Sú heitir Christina Crawford og var tökubarn og einbirni. Mommie Dearest er engin falleg móðurlýs- ing, heldur óhugnanlegur vitnisburður dótt- ur um harðræði og kaldlyndi móður sem er ákveðin í að sigra ávallt í hörðum og misk- unnarlausum bransa, og er jafnframt harð- stjóri heima fyrir. Leikur Faye Dunaway sem Joan Crawford er sá besti sem ég hef séð hjá henni, hreint makalaus. Mommie Dearest er þegar orðin ,,kúlt-filma“ hið vestra, enda ekki undarlegt, því myndin er afbragðs vel gerð og leikin og einhver undarleg stemmn- ing yfir henni allri. Kannski stafar það af því, að áhorfandinn veit að saga dótturinnar af móðurinni er sönn og rituð af ást/hatri sem ekki er óvanalegt í samskiptum barns og for- eldris. Áhorfandinn dregst á sterkan hátt inn í þessi samskipti í Mommie Dearest. BÓKMENNTIR Liðnir dagar eftir Heimi Pálsson f þessu bladi og hinum nœstu verbur hug- að ad nokkrum Ijóðabókum sem nýlega hafa komið út. Með því er reynt að taka ofurlítið undir við þau skáld sem á vordögum héldu hátíðlegan „dag Ijóðsins" og gerðu þar með heiðarlega og skemmtilega tilraun til að vekja athygli á gróskunni sern er í Ijóðagerð okkar um þessar mundir. Þorsteinn frá Hamri: LJÓDASAFN. Myndir: Guðrún Svava Svavarsdóttir. Iðunn 1984. 349 tölusettar síður. Kannski finnst manni maður allt í einu vera orðinn dálítið gamall við að fá þessa fal- legu ljóðabók í hendur. Ekki vegna þess að ljóðin séu fornleg og aldurhnigin í eðli sínu, flest eru þau einmitt síung, heldur vegna hins að við vorum lengstum vön því að sjá ljóðasöfn skálda þá fyrst þegar frumsmiðirn- ir vpru gengnir eða a.m.k. komnir vel á efri ár. Útgáfa Iðunnar á heildarsöfnum miðaldra skálda og þaðan af yngri á síðustu árum hef- ur ekki enn megnað að breyta þessu viðhorfi þrátt fyrir góðan ásetning. Þessvegna stend- ur maður svolítið hissa með heildarsafn skálds sem hefur fylgt manni frá því fyrsta bókin kom og ævinlega verið jafnungt manni sjálfum. En það verður ljúfsár upprif jun á ævinni að feta sig gegnum safnið hans Þorsteins allt frá Isvörtum kufli til Spjótalaga á spegil. Þarna er baráttugleðin og sannfæringarkrafturinn frá sjötta og þó einkum sjöunda áratugnum þegar skáldið kvað í okkur dug í baráttunni gegn hervirkjum og drápsstefnu samtíðar- innar. Þarna eru efasemdirnar frá áttunda áratugnum — komnar í rökkurbirtu liðinna ára. Þarna er örvænting síðustu ára. Og allt sér maður þetta eins og í nýju ljósi við að fá samfelluna og þreifa sig gegnum hana. Þró- unin verður ljósari en fyrr og lesanda skilst betur en áður hvað gerðist, hvernig það gerðist, hvers vegna það gerðist. Og ekki spillir að þessi upprifjun skuli gerast með svo ljúfum skáldskap sem ljóð Þorsteins frá Hamri hafa einatt verið. ★ Líklega hreifst skólastrákur eins og ég, alinn upp við „stuðlanna þrískiptu grein“, einna mest af fyrstu ljóðum Þorsteins frá Hamri (/ svörtum kufli) einmitt vegna þess óvenjulega samruna sem þar varð milli gamals og nýs. Þarna birtist okkur ungskáld sem gekk ívið lengra á vit hins formfrjálsa ljóðs en t.d. Hannes Pétursson hafði gert þrem árum áður (Kvœðabók 1955), en sýndi samt jafn algert vald á hefðinni og best gerðist. Yrkisefnin voru líka í senn módernísk og hefðbundin. Þessi ljóð voru kveðin á forna og nýja tungu í einu á sannfærandi hátt og opnuðu augu ungs lesanda fyrir öllu í senn: hefðinni, ný- lundunni, fornöld og samtíð. Manni var náttúrlega ekki ljóst þá hve mikilvægt gæti verið að tengja saman fortíð og samtíð. Mað- ur hafði kannski fremur tileinkað sér fyrir- litningu á öllu gömlu og lúnu. Þarna kom skáld og sagði ekkert því til fyrirstöðu að hyggja að fornu til að leita frumleika í fram- tíð. Þetta var notaleg tilfinning — allt að því maður fyndi til „rótanna" frægu. Og þessa tilfinningu fengum við áréttaða og undir- byggða enn betur í næstu bók tveim árum síðar, Tannfé handa nýjum heimi. Þetta var bókin sem hófst með sjálfum ugg kalda stríðsins, nafnlausu prósaljóði: Það býr maöur í húsi og dvelur fyrir sér viö flökt hamhleypunnar í snœljósinu; í húsi þessu er eilífrökkvað; í húsi þessu kemur ótt- inn á brjóst sofanda og vefur honum drauma. En svo fékk maður að sannfærast um að uggurinn sá varð allteins tjáður á hætti þjóðvísunnar: Bros Ljúflingur brosti við lind tcerri sem undan frosti framvegu rann feigir menn nœrri nakin kona spann Með þessari ljóðabók var sá björninn end- anlega unninn sem hér skrifar. Hver bók frá hendi Þorsteins hefur síðan hitt í liðinn og bæst í föruneyti sem hefur verið afar gott að hafa. Samt verður þetta allt ljúfsár upprifjun eins og sagði hér í upphafi. Ljúf vegna þeirrar gleði, þeirrar nautnar sem jafnan má hafa af fögrum og sönnum kveðskap, sár vegna þeirra vonbrigða sem ósjálfrátt rifjast upp. Sú var tíðin að við vorum baráttuglöð og geng- um vondjörf fram. Ein af öðrum hafa vonirn- ar verið að bregðast og bresta uns uppi stendur miðaldra fólk sem hættir til að leið- ast ungu fólki vegna þess að það þykist hafa séð allt, skilið allt — en hefur umfram allt glatað voninni. Þetta er ljótt og þetta er sem betur fer tilfinning sem stundum hvarflar frá um lengri eða skemmri tíma. En hún er þarna einhvers staðar — og hún hefur fengið átakanlega túlkun í ljóðum Þorsteins frá Hamri. Ekki er auðséð hvenær þróunin frá bar- áttugleði til uppgjafar hefst í ljóðum Þor- steins og því fer fjarri að skilin séu skörp. Samt held ég sé óhætt að fullyrða að stórorð hvatningar- og brýningarljóð eins og „Lof- saungur" (Lifandi manna land) verði mun fá- gætari frá og með Lángnœtti á Kaldadal (1964). Verður m.a.s. ekki séð að árið fræga, 1968, breyti miklu þarum. Efasemdirnar eru að verða ljósari og ljósari, tónninn skyldari þeim sem sleginn er í „Biskupsbrekku" (Lángnœtti): En fátt gleður oss betur en hraust orð yðar menn: fyrir þeirra tilstyrk hljótum vér bölva bœtur kostum vér huginn að herða hrœðumst vér dauðann ei. Allt um það ertu ekki einn um að hafa kviðiö fyrir kaldadal meistari Jón. Þetta ljóð er reyndar eitthvert allrabesta dæmið um list Þorsteins. Hér hlaðast vísan- irnar (Egill, Þórir jökull, Hallgrímur) — og eru slegnar til jarðar með meistara Jóni („Kvíði eg fyrir Kaldadal"). Hraustu orðin, sem skáldið hafði sjálft tekið sér í munn oftar en einu sinni, eru ekki lengur þess megnug að kveða í okkur kjarkinn. Að sönnu gleðja þau ennþá, en kvíðinn verður löngum yfir- sterkari eftir þetta. Auðvitað felst það í framansögðu að varla verði litið á Þorstein frá Hamri sem „bjart- sýnisskáld". Bölsýni hans eru þó skemmtileg takmörk sett. Ógnir stríða, heitra og kaldra, eru að vísu oftast á öðru leitinu, en á hinu sér maður einatt hilla undir vonir, rótfestar í þeirri trú sem Þorsteinn hefur á íslenskri menningu, sögu og baráttu þjóðarinnar á liðnum öldum: Þó er ég kannski allur af vilja gerður og arka hlýðinn á fjallið — en veit aö verður torsótt að rýna í fölvuð spor eftir fót og örnefnin gleymd við Innstafljót. Þannig kveður hann í „Eftirleit" (Spjótalög á spegil, 1982) og fyrr í sama ljóði er orðuð efasemdin: „og svo ef ég finn nú eitthvað / — verður það lífs?“ í næsta blaði, þegar fjall- að verður um nýjustu bók Þorsteins, verður að því vikið hvort eitthvað kunni að geta komið eða hafa komið í stað baráttugleð- innar. 1 samræðum fyrir fám dögum lét ungt skáld þau orð falla að hugsanlega mætti líta svo á að glíma skálda við rím og ljóðstafi, „hefðbundið form“, væri sambærileg við þá þjálfun sem málarar þyrftu að afla sér í með- ferð lita í hefðbundnum viðfangsefnum (vasar og blóm) í málaraskólum. Ég veit ekki hversu algilt þetta gæti verið en hygg að Þor- steinn frá Hamri sé gott dæmi um skáld sem hefur lært ókjörin öll af að fást við flókna bragarhætti og erfiðar þrautir í hrynjandi. Þessa sér áreiðanlega stað m.a. í þeim ljóð- um sem „frjálsast" eru kveðin. Þar gætir ög- unarinnar í hrynjandinni, í orðavali og knappleik. Ljómandi dæmi (valið nokkurn- egin af handahófi) fæst í ljóðinu „Meðan þið sofið“ (Lángnœtti) þar sem síðasta erindið er þetta: Segjum svo að þið hafið unnið til hvíldar; en meðan þið sofið gisti ég aöra staði — maður nefnir aldrei slíkt í kvœðum og hver veit líka nema ykkur dreymi þángaö nauðuga viljuga. Annars væri það efni í heila bók ef kannað- ir væru bragarhættir og tilbrigði bragarhátta í ljóðum Þorsteins — og kjörið viðfangsefni fyrir athugula menn. Hér skal aðeins minnst á hvernig hann beitir mislöngum ljóðlínum með óvæntu og sterku rími (t.d. „Stormur" í Tannfénu) og hvernig hefðbundinn bragur birtist í dulargervi (t.d. „Vaggan" í Jórvík) o.s.frv. 1 bragleikjum hans er fólginn hluti af þeirri endurnýjun íslensks skáldskapar sem orðið hefur merkastur á síðustu áratugum. Ekki leggur maður frá sér Ljóðasafn Þor- steins frá Hamri án þess að minnst sé á myndskreytingarnar. Það er styrkur við heildarsvip safnsins að fá einn myndlistar- mann — og hann ekki af lakara taginu þar sem Guðrún Svava er — til að lýsa allar bæk- urnar. Guðrún Svava er mjög hógvær í teikn- ingum sínum, tranar myndlistinni ekki fram fyrir textana en sækir myndefnið að sjálf- sögðu í ljóðin. Þannig verða myndir hennar að skreytingu en ekki túlkun á verkum Þor- steins. Þetta er áreiðanlega mjög skynsam- leg stefna og í fullu samræmi við það sem ella hefur verið gert í kvæðasöfnum Iðunnar. Hinu skal ég ekki leyna að ég sakna mynda Ástu Sigurðardóttur, þeirra sem fylgdu fyrstu kvæðabókum Þorsteins til okkar. Ágengar dúkristur hennar í Tannféi handa nýjum heimi hafa mér einatt þótt í tölu mericustu bókaskreytinga íslenskra. En það hefði orðið augljóst stílbrot að endurprenta þær myndir núna og láta svo annan listamann taka við skreytingunni. Því hygg ég þarna hafi verið farin skynsamleg leið. Ég sagði einhverntíma í dómi um ljóðasafn sem Iðunn gaf út að mér væri gleði að því að forlagið skyldi sýna svo mikinn metnað sem þar kæmi fram. Mér er enn sönn gleði að því að áfram skuli haldið á þeirri braut. Heildar- söfn Ijóða gefa lesendum færi á að nálgast skáldin á annan hátt en gjarna verður án þeirra og standa í góðu gildi. HELGARPÓSTURINN 17

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.