Helgarpósturinn - 27.02.1986, Blaðsíða 16

Helgarpósturinn - 27.02.1986, Blaðsíða 16
ISLENDINGAR HEILA- ÞVEGNIR AF DÖNUM HP ræðir við franska matreiðslumeistarann Francois Fons um feril hans og skoðanir á fslenskri matargerðarlist „Gagnrýnendur sletta fram dómum til þess að upphefja sjálfa sig og gera blöð að söluvöru". Á veitingastadnum I Kvosinni í Reykjavík starfar franskur matreidslumeistari, sem lítur á starfsitt sem listgrein og hefur mjög ákvebn- ar skoðanir á íslenskum veitingastöbum, matargerbarlist og fjölmiblaumfjöllun um þau mál hér á landi. Francois Fons hefur búib hér á landi í ein þrettán ár, sett saman nœrri 400 mataruppskriftir úr íslensku hráefni og hefur ekki hugsab sér ab snúa aftur til föburlands síns. Þegar blaðamann bar að garði I Kvosinni var allt innihald eldhússkápanna í kössum á gólfi veitingasalarins, en eldhúsið var fullt af málningardósum, penslum og rúllum. Frá barnum barst píanótónlist. Franski matreiðslu- meistarinn, Francois, sat þar og spilaði af hjart- ans lyst, án þess að verða var við komu mína á staðinn. Eftir að Francois hafði hætt hljóðfæraleikn- um og náð í þjóðardrykk íslendinga á hita- könnu, spurði ég hann að því hvort það væri rétt að hann hefði starfað á hinu fræga Savoy hóteli í London. ,,Já, það er rétt. Ég starfaði þar í um það bil eitt ár, en var alls í um þrjú ár í Bretlandi." Eins og í himnaríki hjá hertoganum — Var þab ekki eftirminnileg reynsla ab starfa á þessu glœsilega hóteli? „Þetta var auðvitað ólíkt öllu því, sem fyrir- finnst hér á landi, enda eldhúsið mjög stórt. Ég vann í grillinu, en á hótelinu er bæði veitinga- salur og grill, og þetta var heilmikil reynsla. Það er einn yfirmatreiðslumeistari í eldhús- inu og hann hefur fjóra undirmeistara, sem framfylgja því sem hann ákveður. Þessir undir- meistarar segja síðan matreiðslumönnunum til, en þeir hafa allir lærlinga sér til aðstoðar. í svona stóru eldhúsi er mikil verkaskipting og því er einn ábyrgur fyrir sósum, annar fyrir grænmeti og svo framvegis. Þarna er líka bak- arí, sérstök kjötdeild og sérstakar deildir, sem sjá um heita fiskrétti og kalda fiskrétti. Það vinnur hver við sitt afmarkaða verkefni, þó að sjálfsögðu sé hjálpast að þegar á þarf að halda." — Fórstu til London til þess ab lœra eitthvab sérstakt? ,,Ég fór nú ekki síst til að læra ensku og æfa mig í henni, en ég fékk mörg skemmtileg tæki- færi til þess að sinna matargerðarlist. Til dæmis fór ég nokkrum sinnum í hálfan mánuð í einu til hertogans af Bedford, sem býr í kastala, Woburn Abbey. Það var eins og að vera í himnaríki að stjórna eldhúsinu þar. Hreinlega draumi líkast! Ég gat fengið hvað sem mér datt í hug til þess að nota við matargerðina og þess vegna var mér kleift að tjá mig fullkomlega í þessari listgrein, sem ég tel starf mitt vera. Það er ekki alls staðar hægt að nota kampavín og önnur dýr hráefni við matargerð, en þarna fékk ég allt upp í hendurnar." — Hvers vegna rébir þú þig ekki til hertog- ans í lengri tíma í einu? „Það var ekki mögulegt fyrir mig. Konan mín vann í London og ég vildi þess vegna ekki flytja upp í sveit." — Konan þín er íslensk, er þab ekki? „Jú, hún heitir Hrönn Brynjarsdóttir. Við kynntumst í gegnum sameiginlegan vin okkar í London. Hún var þá að vinna í gestamóttök- unni á Strand Palace hótelinu, sem er við sömu götu og Savoy. Við giftum okkur síðan og eigum núna tvö börn, tíu ára stelpu og sautján mánaða strák." Karfinn of lítið notaður _ — Fékkstu strax vinnu, þegar þib fluttub til íslands? „Það eru þrettán ár síðan við komum hing- að og ég byrjaði á því að sækja um starf á Hótel Holti, en fékk neitun. Þeir sögðust ekki vilja út- lenda matreiðslumenn. Ég fór þá til Konráðs á Hótel Sögu og hann bauð mér samstundis starf hjá sér.“ — Hvab finnst þér um þab hráefni, sem hér er til boba? „Það er auðvitað bæði gott og slæmt. Fiskurinn er því miður ekki nægilega fersk- ur. Það er ekki nóg að fá fisk tvisvar til þrisvar í viku. Ferskur fiskur er veiddur í dag! Úrval fisktegunda er heldur ekki nægiiegt hérna, finnst mér. í Suður-Frakklandi, þar sem ég ólst upp, er komið með fisk að landi hvern einasta dag og úr honum velja matreiðslumeistararnir aðeins það besta. Þetta tryggir auðvitað bestu mögu- legu gæði. Þarna er líka gerður frægur pott- réttur, sem í verða að vera 22 fisktegundir." — Hvaba fiskur finnst þér bestur af þeim, sem hér er ab fá? „Karfi er með betri fiskum, sem hægt er að óska sér. Hann er alltof lítið notaður." — Hefurbu tíma til að borba oft á veitinga- stöbunum í Reykjavík? „Það gefst nú lítill tími til þess, en ég fór fyrir nokkru út að borða á stað, sem flestir telja einn af bestu veitingastöðunum í bænum, og varð fyrir miklum vonbrigðum. Ég pantaði mér pip- arsteik og hún var borin fram þurr, með sósu í sérstakri skál. Steikin var grilluð, en þannig gerir maður alls ekki piparsteik. Þar að auki fengu allir við borðið að því er virtist sömu sós- una, þó við værum með mismunandi rétti." — Eru eingöngu þín hugarfóstur á matseðl- inum, eba býbur þú líka upp á klassíska rétti, sem fólk þekkir? „Þetta eru allt mínar eigin uppskriftir. Engin klassík. Þannig get ég tjáð mig eins og ég vil og úr verða réttir, sem fólk verður annað hvort yfir sig hrifið af eða ekki. Það er enginn milli- vegur. Þegar maður tilreiðir klassískan mat, er að- eftir Jónínu Leósdóttur mynd Jim Smart eins um eina einustu aðferð að ræða og ekkert rúm fyrir sjálfstæða túlkun. Útkoman verður heldur aldrei nema miðlungs, því það vantar alltaf einhvern herslumun." Sósur úr túnfíflum og rifsberjalaufi — Hvaba áhrif telur þú ab rábi ríkjum í mat- argerbarlist hér á landi? „íslendingar hafa verið heilaþvegnir af Dönum, skal ég segja þér. Þetta lýsir sér í þessu þunga fæði ykkar, eins og hamborgarhryggn- um og sykruðu kartöflunum. Þið notið alls ekki nóg af íslenskum jurtum við matargerð, en þar eru ýmsir möguleikar fyrir hendi. Ég notaði t.d. túnfífla í sósu, sem ég gerði á Sögu og hér í Kvosinni nota ég með- al annars söl. Einnig bý ég til mjög góða sósu úr rifsberjalaufi, sem er sérlega ljúffeng með gæs." — Hvernig ferbu ab því? „Það má segja að það sé 100% íslensk sósa, því ég myl niður laufin í blandara (mixer) og bæti síðan í þau brennivíni og rjóma!" — Hver er nú mesti munurinn á matargerb hér og erlendis? „Agaleysi, held ég. Og virðingarleysi fyrir þessari listgrein. Það er list að búa til mat. Matreiðslumeistar- inn er að tjá sig á nákvæmlega sama hátt og aðrir listamenn og réttirnir, sem hann býr til eru afrakstur listsköpunarinnar. Sem sagt, list, sem hægt er að borða. Ég læt hugsanir mínar verða að veruleika í eldhúsinu, enda lít ég ekki á þetta sem vinnu heldur áhugamál. Þess vegna finnst mér líka gaman að mæta í vinnuna. Það er mín mesta ánægja. Islendingar hugsa alltaf fyrst og fremst um hvað þeir fá greitt fyrir vinnuna og gera það fremur peninganna vegna en ánægjunnar að vinna. Það eru of fáir listamenn í þessari grein á íslandi." — Var þetta erfitt nám í Frakklandi? „Svo sannarlega. Ég þurfti að vinna í 14—16 tíma á dag þegar ég var lærlingur. Við notuð- um kolaeldavél og það þurfti að bæta í hana tvisvar á dag og passa alltaf upp á að eldurinn kulnaði ekki. A sumrin vann ég alla daga vik- unnar, en fékk hálfan frídag á viku yfir vetrar- mánuðina. Þetta var oft þjáningarfullt, en ég held einmitt að það sé nauðsynlegt að með- taka þessa listgrein með svita og tárum. Það er stór þáttur í töfrunum." Gagnrýnin ekki fagmannleg — Þá er þab hin klassíska spurning, Francois. Hvernig finnstþér íslensk matargerb og sú umfjöllun, sem matargerðarlist fœr í blöbum hér á landi? „Það hafa orðið stórkostlegar breytingar til batnaðar hérna á þeim þrettán árum, sem ég hef búið á íslandi. Veitingastaðirnir eru hins vegar of margir að mínu mati og maturinn, sem þar er á boðstólum, er alltof líkur. Ég sé ekki tilganginn í að setja á stofn veitingastað og bjóða þar upp á nákvæmlega sömu hluti og hægt er að fá annars staðar. Varðandi gagnrýnina, þá finnst mér hún alls ekki nægilega fagmannleg, svo ekki sé meira sagt. Það ætti að vera eitthvert próf, sem fólk þyrfti að standast til þess að mega skrifa um matargerð. Gagnrýnendur ættu að minnsta kosti að vera í góðu sambandi við fagmenn, ef þeir hafa ekki nægilegt vit á málunum sjálfir. Það er ekki rétt að sletta fram gagnrýni ein- ungis til þess að upphefja sjálfan sig og gera blöð að betri söluvöru." — Ertu ánœgbur með þau vín, sem hér fást? „Hreint ekki. Það er alls ekki flutt inn nægi- lega mikið af góðum vínum. Ég er úr fjöl- skyldu, sem starfar að víngerð, og það fer oft um mig hrollur þegar ég sé fólk drekka rósavín og önnur sæt vín með góðum mat. Fyrir mörgum árum fór ég í „ríkið" og sá þar útstillta flösku af tíu ára gömlu rauðvíni, sem ég vildi kaupa, en maðurinn í búðinni rétti mér eins árs gamalt vín af sömu tegund. Þegar ég sagðist vilja það gamla, sagði hann að búið væri að senda það allt til baka til Frakklands, því það hefði verið gallað. Hann sagði að eitt- hvert botnfall hefði verið í flöskunum. Ég er viss um að landar mínir hafa grátið úr hlátri við þessa sendingu, því þetta er einmitt sönnun þess að vínið er orðið verulega gott. Þegar þú færð botnfallið vín á veitingastað í Frakklandi, fara þjónarnir undurvarlega með flöskurnar og passa að hrista ekki upp í þeim. Þetta er það allra besta." Grænmetisæta — Nú ert þú tággrannur. Þarftu ekki alltaf ab vera að smakka á réttunum? „Maður getur nú ofboðið bragðlaukunum eins og öðrum líffærum og ég tek mér oft hvíld frá kjöti og fiski í nokkra mánuði í einu til að bragðskynið komist í jafnvægi. Þegar ég hef verið á grænmetisfæði um skeið, nægir mér jafnvel lyktarskynið til þess að vita hvort salt eða pipar vantar í sósurnar hjá mér. Þetta skerpir bragðskynið. Auðvitað verð ég oft að bragða á fisk- og kjötréttum þó ég sé annars á grænmetisætu- skeiði, enda er ég ekki í þessu af neinu ofstæki. Hins vegar bý ég til fullan pott af hrísgrjónum og grænmeti handa sjálfum mér og borða upp úr honum á svona fjórum dögum." — Framtíðaráform? „Ég vil gera minn núverandi vinnustað að besta veitingastaðnum í bænum. Ekkert minna. Það er þó ekki ég, sem mun einn eiga heiðurinn af því. Ég er mjög trúaður og er sannfærður um að Guð stýrir okkur mönnun- um. Án hans værum við lítils megnug." 16 HELGARPÖSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.