19. júní


19. júní - 19.06.2010, Blaðsíða 5

19. júní - 19.06.2010, Blaðsíða 5
5 Í ár eru fjölmörg merk tímamót í kvennabaráttunni sem konum er bæði ljúft og skylt að minnast: Það eru 90 ár liðin frá því að allar konur fengu kosningarétt, 80 ár liðin frá stofnun Kvenfélagasambands Íslands, 40 ár frá stofnun Rauðsokkuhreyfingarinnar, 35 ár frá fyrsta kvennafrídeginum, 30 ár frá forsetakjöri frú Vigdísar Finnbogadóttur, 20 ár frá stofnun Stígamóta og 15 ár frá samþykkt Pekingáætlunarinnar, svo það helsta sé nefnt. Það er rík ástæða til að fagna öllum þessum tímamótum og því hafa fjölmörg kvennasamtök tekið saman höndum til að fagna þeim og ítreka enn einu sinni kröfuna um að konur njóti sömu réttinda og tækifæra og karlar. Að öðrum ólöstuðum, má þakka Guðrúnu Jónsdóttur, kvennabaráttukonu og framkvæmdastýru Stígamóta, fyrir hennar frumkvæði varðandi þetta sameiginlega, metnaðarfulla átak. Þau félög sem koma að átakinu eru: Kvenréttindafélag Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Samtök um kvennaathvarf, Femínistafélag Íslands, Zontasamband Íslands, Kvennaráðgjöfin, Bríet - félag ungra feminista, Unifem, Samtök kvenna af erlendum uppruna, Landssamband Soroptimista, RIKK, Mæðrastyrksnefnd, Sólstafir á Vestfjörðum og Kvennasögusafnið. Mikill einhugur hefur ríkt meðal þessara kvennasamtaka um Kvennafrídaginn 2010 og ákveðið var að Kvennafrídagurinn yrði að þessu sinni helgaður baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Þórdís Elva Þorvaldsdóttir rithöfundur kemur einnig að átakinu. Hún er höfundur bókarinnar Á mannamáli, sem er tímamótaverk um þá þögn sem ríkir um ofbeldið sem hundruð kvenna mega sæta hér á landi á hverju ári. Þórdís ákvað jafnframt að láta hluta af söluhagnaði bókarinnar renna til stuðnings Kvennafrídagsins 2010. Kvennafrídagurinn 2010 24. október er á sunnudegi í ár, þannig að dagurinn sem slíkur hentar vel fyrir alþjóðlegan viðburð. Þess vegna verður ekki um að ræða einstakan kvennafrídag að þessu sinni, heldur þriggja daga viðburð frá laugardegi til mánudags, sem nær hámarki sínu mánudaginn 25. október með kröfugöngu og útifundi á Arnarhóli - sem fulltrúar kvennasamtakanna hafa sín á milli kallað Hallveigarbrekku. Með hliðsjón af því hve breið samstaða er innan kvenna- hreyfinganna um Kvennafrídaginn 2010 kom fljótt í ljós að lunginn úr þeim samtökum sem koma að deginum er með norræn, evrópsk eða alþjóðleg tengsl við systursamtök. Sú hugmynd kom þá fram að hver samtök myndu beita sér fyrir því að bjóða systursamtökum sínum hingað til lands helgina 23. – 24. október með það fyrir augum að þau slægjust í hópinn með okkur í kröfugöngu mánudaginn 25. október. Þá var einnig ákveðið að fara í „útrás“ með íslenska kvennafrídaginn og halda alþjóðlegan kvennafrídag þann 25. október undir yfirskriftinni „Women strike back“. Kvennafrídagurinn 2010 lítur því þannig út að einstök samtök eða félög hafa laugardaginn 23. október til ráðstöfunar fyrir fundi með fjölþjóðlegum eða alþjóðlegum systursamtökum, sunnudaginn 24. október verður alþjóðleg ráðstefna helguð baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi og mánudaginn 25. október verður farið í kröfugöngu í miðborginni, sem lýkur með útifundi á Arnarhóli. Á fyrsta kvennafrídeginum árið 1975 er talið að alls hafi 90% kvenna lagt niður störf eða nánast helmingur þjóðarinnar, til þess að krefjast sömu réttinda og launa og karlar nutu á vinnumarkaði. Á 30 ára afmæli kvennafrídagsins, árið 2005, var á ný brotið blað í baráttusögu íslenskra kvenna þegar tæplega 50 þúsund konur söfnuðust saman í miðbæ Reykjavíkur og kröfðust jafnréttis í reynd, því þrátt fyrir áratuga baráttu hafði lítið áunnist. Við treystum því að konur taki kvennafrídaginn 25. október frá og að við sýnum enn einu sinni samstöðumátt okkar í verki. a Margrét K. Sverrisdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands Merkisár í kvennabaráttunni 4-5 Norræntmerkisar.indd 3 6/1/10 2:31:17 PM

x

19. júní

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: 19. júní
https://timarit.is/publication/671

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.