Vísbending


Vísbending - 27.04.2009, Blaðsíða 2

Vísbending - 27.04.2009, Blaðsíða 2
2 V í s b e n d i n g • 1 7 . t b l . 2 0 0 9 Sumarnámskeið á háskólastigi Í kjölfar þess að fjármálageirinn lagðist á hliðina síðastliðið haust hefur ástand á vinnumarkaði versnað til muna. Atvinnuleysi jókst úr 1,3% í september 2008 í 8,9% í mars 2009. Það þýðir að atvinnulausum fjölgaði um ríflega 12 þúsund og samkvæmt nýjustu tölum Vinnumálastofnunnar eru tæplega 15 þúsund manns nú atvinnulaus. Á meðan atvinnurekendur segja upp starfsfólki er ólíklegt að þeir ráði sumarstarfsmenn. Því má búast við að stór hluti námsmanna verði án atvinnu þegar námsönnum lýkur í vor. Þessi hópur berst nú fyrir því að ríkið bjóði upp á námskeið á háskólastigi í sumar. En er réttlætanlegt að eyða opinberu fé í sumarkennslu þegar ljóst er að skera þarf niður í velferðarkerfi og heilbrigðismálum? Af hverju styrkir hið opinbera menntun? Það ríkir löng hefð fyrir því, bæði hér á landi og annars staðar, að skólar séu fjármagnaðir af hinu opinbera að hluta eða öllu leyti. Aristóteles var til dæmis mikill talsmaður þess að allir skyldu hljóta sömu menntun og að hún skyldi veitt af ríkinu. Hagfræðingar eru yfirleitt á því að í stað þess að styrkja fátæka með beinum matargjöfum sé betra að veita peningastyrki. Hinir fátæku geta þá valið hvort þeir kaupa sams konar mat og boðið hefði verið upp á, eða hvort þeir telja hag sínum betur borgið með því að nýta peningana í annað. Velferð þeirra er þá jafnmikil eða meiri en ella meðan kostnaðurinn er sá sami. Nemendum ætti líka að vera betur borgið fái þeir peninga beint í vasann og val um að afla sér menntunar eða ekki. Því er það ekki besta leiðin að ríkið bjóði upp á námskeið ef markmiðið er jöfnuður. Hins vegar er hægt að ná fram annars konar réttlæti með því að hafa menntamál í höndum ríkisins, vegna þess að þannig er hægt að minnka mismun á aðstæðum nemenda eftir efnahag þeirra og foreldra þeirra. Bandaríski heimspekingurinn John Rawls setti fram eftirfarandi hugaræfingu: „Hvernig samfélag myndum við velja, ef við gætum valið áður en við fæddumst án þess að vita hvaða aðstæður við fæðumst inn í?“ og móta samfélagið eftir því. Í slíku þjóðfélagi væri ekki algjör jöfnuður, en það myndi líklega bjóða fólki jöfnust tækifæri án þess að kostnaður yrði of mikill. Hagfræðingar hafa þó verið hrifnari af annarri röksemdafærslu fyrir stuðningi ríkisins við nám. Flest bendir til þess að menntun fylgi jákvæð ytri áhrif. Þegar fólk aflar sér menntunar nýtist hún ekki aðeins einstaklingunum heldur samfélaginu öllu. Til dæmis ýtir hátt menntunarstig undir hraðari tækniþróun og meiri hagvöxt en ella. Þegar búið er að finna upp tækni geta margir nýtt sér hana. Margt bendir líka til þess að með aukinni menntun dragi úr glæpum. Það þýðir minni kostnað vegna fangelsa, minni kostnað við að vernda eignir, meiri skatttekjur og ekki síst betra þjóðfélag. Þá má færa rök fyrir því að betur menntað fólk taki upplýstari ákvarðanir en aðrir. Fleira mætti telja til. Nýlegar rannsóknir sýna að grunnmenntun hefur jákvæð áhrif, en þeim ber ekki saman um það hvort sama gildir um háskólamenntun. Ríkið getur aukið almannahag með því að skylda alla til þess að hljóta lágmarksmenntun eða með styrkjum til menntunar. Það er samt spurning hvort það sé réttlætanlegt að láta þá sem fara ekki í háskóla borga fyrir hina sem fara þangað og eiga væntanlega eftir að fá hærri tekjur í framtíðinni. Hvers vegna eru námslán lægri en atvinnuleysis­ bætur? Háskólastúdentar berjast nú fyrir hærri námslánum. Þeim finnst ósanngjarnt að ætlast sé til þess að nemendur fái minni peninga til framfærslu en atvinnulausir sem skapa engin verðmæti meðan þeir eru á bótum. Framfærsla námsmanna er í formi lána með niðurgreiddum vöxtum, lána sem þarf að greiða aftur. Ríkið fær því stóran hluta af framfærslu námsmanna til baka. En af hverju fá námsmenn minna frá ríkinu en atvinnulausir? Ein skýring er að þeir fá meira út úr náminu en framfærslu frá ríkinu. Hjá sumum er námið áhugavert og skemmtilegt og fullnægir forvitnisþörf. Aðrir eygja von um hærri tekjur í framtíðinni. Hvort tveggja bætir upp bágan fjárhag á meðan á námi stendur. Ekkert slíkt gildir hjá atvinnulausum. Atvinnuleysisbætur á Íslandi eru aðallega hugsaðar sem öryggisnet fyrir þá sem missa vinnu tímabundið, en ekki hefur þurft að gera ráð fyrir langtímaatvinnuleysi á Íslandi hingað til. Bæturnar milda áfallið við atvinnumissi en halda fólki ekki uppi lengi. Af hverju sumarnám? Vissulega verður hið opinbera að draga saman seglin, en þá er best að draga saman á þeim sviðum þar sem fjármagnið veitir minnsta viðbótar velferð? Mörg rök hníga að því að það sé ekki á sviði menntamála. Ef valið er milli atvinnuleysis eða að bjóða upp á nám er svarið augljóst, burtséð frá áðurnefndum rökum um ríkisstyrkta skóla. Fullt námslán fyrir einstakling í eigin húsnæði er 100.600 kr á mánuði. Fullar atvinnuleysisbætur eru hins vegar 149.523 kr. á mánuði og ekkert af þeim peningum fæst til baka. Í stað þess að láta tíma fólks fara til spillis má nýta hann til fjárfestingar í mannauði og þekkingu. Stór hluti af kostnaði við að reka háskóla er fastur, þannig að viðbótarkostnaður vegna sumarnáms er hlutfallslega lítill. Hugsanlega vegur sparnaðurinn sem hlýst af því að námsmönnum sé borgað minna en atvinnulausum upp þann kostnað. Sumarnám er mjög ódýr fjárfesting sem getur skilað miklum arði. Hún er einnig vinnuaflsfrek sem minnkar atvinnuleysi. Aukin menntun getur verið skynsamlegri fjárfesting til framtíðar en aðrar aðgerðir svo sem stórframkvæmdir ef ætlunin er að draga úr niðursveiflunni. Opinberar framkvæmdir á krepputímum hafa oft reynst sóun á fjármagni. Atvinnuleysi hefur oft neikvæðar félagslegar afleiðingar, svo sem streitu og lélegt sjálfsálit. Sé fólk lengi án atvinnu getur því reynst erfitt að fóta sig aftur á atvinnumarkaði. Kostnaður við atvinnuleysi getur því verið meiri en atvinnuleysisbæturnar og vinnutapið segir til um. Í venjulegu árferði er óvíst hvort það borgi sig fyrir ríkið að bjóða uppá sumarnám, eða hvort eigi að styrkja háskólanám yfir höfuð. Í kreppu hefur það hins vegar augljósan ábata en óverulegan kostnað. Fyrir stjórnmálamenn ætti ákvörðun því að vera auðveld, því að fyrir utan ofangreind rök væri það einnig vinsælt í augum væntanlegra kjósenda. Kári S Friðriksson Háskólastúdentar berjast nú fyrir hærri námslánum. Þeim finnst ósanngjarnt að ætlast sé til þess að nemendur fái minni peninga til framfærslu en atvinnulausir sem skapa engin verðmæti meðan þeir eru á bótum.

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.