Morgunblaðið - 28.01.2011, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 28.01.2011, Blaðsíða 24
24 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 28. JANÚAR 2011 ✝ Vagn Krist-jánsson fæddist á Minni-Ökrum í Skaga- firði 4. nóvember 1921. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 20. janúar 2011. Foreldrar hans voru Kristján Ragnar Gíslason, f. 27. apríl 1887, d. 14. mars 1958, bóndi á Minni- Ökrum, og Aðalbjörg Vagnsdóttir, f. 14. feb. 1893, d. 16. ágúst 1951, frá Miðhúsum og Djúpadal í Blönduhlíð. Systkini Vagns eru Gísli Sigurjón, f. 4. maí 1913, d. 17. maí 1976, Þrúður Jónína, f. 15. mars 1915, d. 30. júní 1915, Geirþrúður, f. 23. okt. 1916, d. 13. feb. 1933, Stefán, f. 28. jan. 1932, d. 19. nóv. 2000. Geir- þrúður Kristín, f. 16. nóv. 1933. Vagn kvæntist 1945 eftirlifandi eiginkonu sinni Svönu H. Björns- dóttur, f. 8. mars 1923. Foreldrar hennar voru Björn E. Geirmundsson, f. 25. maí 1891, d. 7. feb. 1965, og Guðrún Þorfinnsdóttir, f. 9. nóv. 1895, d. 1. des. 1994. Synir Vagns og Svönu eru: 1) Kristján, f. 1946, kvæntur Hólmfríði Ingvarsdóttur, f. 1950. Þeirra börn eru: Álfheiður Svana, Rannveig, Vagn og Inga Jóna. 2) Björn, f. 1949. 3) Stefán, f. 1951, kvæntur Guðveigu S. Búadóttur, f. 1952, þeirra börn eru: Davíð, Árdís Hulda, Stefán Veigar og Búi. 4) Hreinn, f. 1953, kvæntur Guðrúnu Sverrisdóttur, f. 1955, þeirra börn eru: Halldór Vagn, Íris Ösp, Svana Björk og Hermann Elí. 5) Birgir, f. 1959, kvæntur Kristínu Krist- insdóttur, f. 1959, þeirra börn eru: Linda Rós, Birgir Örn og Harpa Dögg. 6) Gunnar, f. 1963, kvæntur Elísabetu H. Sigurbjörnsdóttur, f. 1962, þeirra börn eru: Erna Guðrún, Sigurbjörn Eðvald og Hreinn Fann- ar. Barnabarnabörnin eru orðin nítján talsins. Vagn ólst upp á Minni-Ökrum í Blöndu- hlíð og flutti með for- eldrum sínum til Sauð- árkróks þegar þau hættu búskap. Hefð- bundin skólaganga fór fram á Króknum og síðan var hann tvo vet- ur á Bændaskólanum á Hólum í Hjaltadal. Vagn vann ungur að árum í verslun Har- aldar Júlíussonar, þar til hann tvítugur að aldri flutti til Reykjavíkur. Þar starf- aði hann við ýmislegt, en sneri sér fljótlega að akstrinum sem varð hans ævistarf. Vagn var einn af stofn- endum Hreyfils og vann þar við leiguakstur svo lengi sem heilsa leyfði. Vagn tók virkan þátt í fé- lagsstarfi Hreyfils, hvort sem var fót- bolti, brids eða skák, sem hann stundaði alla tíð, og var margfaldur meistari innan Hreyfils og vann til fjölda verðlauna á Norðurlandamót- um atvinnubílstjóra og keppti fyrir Íslands hönd í landskeppni í skák við Færeyinga 1976 og kom taplaus úr þeirri ferð. Formaður og stjórn- armaður í Taflfélagi Hreyfils var hann til fjölda ára. Hann stofnaði og rak flutningafyrirtæki ásamt Bryn- leifi Sigurjónssyni, sem sá um flutn- inga til Akureyrar og Ísafjarðar á framleiðsluvörum Ölgerðar Egils Skallagrímssonar, ásamt því að vera með umboðsskrifstofu á Akureyri. Vagn var einstaklega ljóðelskur maður og kunni ógrynni af ljóðum og vísum sem hann hafði gjarnan á tak- teinum. Vagn og Svana stofnuðu heimili á Langholtsvegi 5 og bjuggu þar uns þau fluttu í Fellsmúla 14 þar sem þau bjuggu í nær 45 ár. Síðasta ár hafa þau átt heimili í Boðaþingi 7. Útför Vagns fer fram frá Grens- áskirkju í dag, 28. janúar 2011, og hefst athöfnin kl. 11. Vagn Kristjánsson, elskulegur tengdafaðir minn, er farinn í sína hinstu för. Hann var ein af hetjum þessarar merku kynslóðar sem með dugnaði og eljusemi neitaði að gefast upp þó að stundum blési á móti. Vagn var skarpgreindur og vel les- inn maður sem unni ljóðum gömlu meistaranna og kunni líka ógrynni af smellnum vísum og sögurnar í kring- um þær. Oft var kátt á hjalla og hlegið dátt við eldhúsborðið í Fellsmúlanum og síðan séð um að þaðan færi enginn án þess að þiggja veitingar. Glaðværð og félagslyndi einkenndu Vagn sem naut sín vel í góðra vina hópi. Hann var líka mikill keppnismaður að eðl- isfari. Síðustu árin hallaði hann sér einungis að skákinni og naut þess að tefla við strákana sína og barnabörn- in sem oftast lutu í lægra haldi. Ef ungdómurinn sigraði ellina var hann verðlaunaður, oft með kennslubók í skák með árituðum vinningsdegi. Ófá kvöld var setið við spil í Fells- múlanum eða í sumarbústað okkar hjóna. Vagn og Svana nutu þess að ferðast og ekki síst um landið sitt. Eftir að ævistarfi Vagns lauk fjár- festu þau hjón í gömlum húsbíl sem veitti þeim ómælda gleði. Hátt til fjalla, lágt til stranda var haldið og oftar en ekki nokkrir synir og þeirra fjölskyldur með í för. Það voru ekki margir staðir á Íslandi sem þau hjón- in náðu ekki að skoða en átthaga- böndin voru sterk hjá Vagni sem ekk- ert leit fegurra en Skagafjörðinn. Vagn talaði oft um hversu lánsam- ur hann hefði alla tíð verið bæði í starfi og einkalífi. Hann var stoltur af stóru fjölskyldunni sinni og gladdi af einlægni með bæði stórum og smáum gjöfum er vel gekk. Fyrir tíu árum tók heilsa Vagns að bila. Dugur, já- kvæðni og æðruleysi hjálpaði honum mikið í veikindunum og hafði hann oft sigur í alvarlegum aðstæðum. Tengdafaðir minn lifði með reisn og þannig kvaddi hann líka. Síðasta árið bjó Vagn ásamt Svönu konu sinni í Boðaþingi 5 þar sem fór einstaklega vel um þau og hrósaði Vagn starfs- fólki og öllum aðbúnaði mikið. Sorg og söknuður fyllir huga minn í dag en kærleikur, virðing og þakklæti mun fylgja minningunni um tengdapabba. Þegar orðin erum ein ungar burtu flognir, ellin kemur með sín mein mildast hugur, meyrna bein mestu lífsins vefir eru ofnir. Ég vil sjá við sólarrönd sátt með frið og vinarhönd, trausta ást og tryggðabönd trú sem nærir líf og önd. Þá mun öðlast innri ró og einskis eftir sakna, auðnu sigla öldu sjó ungur að morgni vakna. Áfram kný því knörrinn minn svo kjölrak gárur myndar. Keyri ég hann í kapp við þinn er krappir blása vindar. Þegar sólin sest mér hjá sál mín öðlast nýja sýn ég er ekki fallinn frá fyrr en gleymist minning mín. (GS) Guð geymi þig. Guðrún Sverrisdóttir. Okkur langar að minnast afa okk- ar. Ég trúi því varla að tími sé kominn til að skrifa minningagrein um elsku- legan afa okkar. Við systkinin grín- uðumst oft með að hann væri eins og kötturinn með níu líf og samkvæmt okkar útreikningum þá átti hann eitt- hvað af þeim eftir. Þess vegna trúðum við því og vonuðum að þegar hann væri búinn að hvíla sig nóg þá kæmi hann aftur til okkar. En svona er lífið og við huggum okkur við það að vita að hann var hvíldinni feginn. Það sem mér fannst einna aðdáun- arverðast er að af öllum þessum fjölda barnabarna þá lét hann okkur alltaf líða eins og við værum í uppá- haldi og að hann væri að springa af stolti af okkur. Alveg sama hversu litlum eða stórum árangri við náðum, hann ljómaði alltaf af gleði og stolti. Þegar við systkinin settumst niður og byrjuðum að ræða um hvaða minn- ingar tengdu okkur mest við hann þá var mín sú þegar hann dró fram litlu glerkirkjuna í hvert skipti sem ég kom í heimsókn í desember og ljóm- aði upp um leið og hann kveikti á kerti, stillti henni upp og sagði hvað honum þætti vænt um hana. Ég veit ekki hvernig ég á að komast í jólaskap án þessa. Aftur á móti var það taflið sem bróðir minn Birgir Örn tengir mest við hann. Þegar hann tók brosandi á móti honum og leiddi hann síðan að taflborðinu í hvert sinn sem hann kom í heimsókn. Harpa Dögg systir mín valdi minningarnar um hvað hann kenndi henni mikið. Mikil viska einkenndi hann og fjöldinn allur af ljóðum og vísum kenndi hann henni auk ýmissa spila enda var hann rosa- lega duglegur að spila við hana strax frá því að hún var lítil. Elsku afi, þakka þér fyrir allt og guð blessi þig og geymi. Minning þín lifir ávallt hjá okkur. Sorg og söknuður einkenna mig, sárt er um þessar mundir, margar minningar ég á um þig, og muna skal okkar bestu stundir. (Linda Rós Birgisdóttir) Linda Rós, Birgir Örn og Harpa Dögg. Þær eru margar og kærar minn- ingarnar sem koma upp í huga okkar systkina, nú þegar elsku afi Vaggi er allur, rétt undir níræðu. Skín við sólu Skagafjörður. Skákin, vísurnar og sögurnar. Soðbrauðið, rúllupylsan og reykta síldin. Ljósmyndasafnið af öll- um kirkjum landsins, sögurnar frá Sauðárkróki og fjölmargar minning- ar til viðbótar. Sú mynd af afa Vagga sem hvað oftast skýtur upp kollinum er við fal- lega, útskorna og ævintýralega tafl- borðið sitt þar sem hann situr, ein- beittur á svipinn, rétt við það að máta mótherja sinn. Við þetta taflborð lærðum við systkinin mannganginn og gerðum margar heiðarlegar til- raunir til að hafa betur í viðureignum við afa. Þótt ekki munum við eftir mörgum sigrum við þetta taflborð gleymum við aldrei glampanum í aug- um hans og lúmsku glottinu þegar skemmtileg skák fór fram. Hann hafði gaman af því að kenna börnun- um inn á töfraheim skákarinnar, en þegar til kastanna kom gaf hann ekk- ert eftir. Önnur augnablik eru okkur systk- inum ómetanleg. Afi hafði mikið dá- læti á kveðskap og fengum við ósjald- an að heyra spurninguna: „Hefurðu heyrt hana þessa?“ Í kjölfarið fylgdi ein af ótal vísum sem afi hafði heyrt og lagt á minnið um ævina. Og hann lét sér ekki nægja að fara með sjálfa vísuna heldur fylgdi undantekningar- laust frásögn um tilurð vísunnar og þann sem kveðið hafði. Í svona upp- rifjun ljómaði afi Vaggi, því hann var hafsjór af sögum og vísum, en þegar þess var farið á leit við hann fyrir nokkrum árum að lesa fróðleikinn inn á upptöku var áhuginn ekki fyrir hendi. Hann vildi ekki trana sér fram og leit á þekkingu sína sem sjálfsagð- an hlut, á meðan við barnabörnin lit- um á þessa hverfandi munnlegu geymd hans sem sérstakan hæfileika. Það var alltaf gott að koma í Fells- múlann. Þegar mest lét gegndi heim- ili ömmu Svönu og afa Vagga hlut- verki félagsmiðstöðvar, enda afkomendur bræðranna margir og fjörugir og fjölskyldutengslin sterk. Börnin okkar fóru ekki varhluta af því og koma til með að minnast lang- afa síns með gleði í hjarta. Ekki var síðra að koma í Boðaþingið eftir að þau fluttu þangað í fyrra, því þótt lengi hafi amma og afi haldið í heimili sitt í Fellsmúlanum og helst ekki vilj- að flytja þaðan var staðreyndin sú að þau voru alsæl með breytinguna þeg- ar hún var um garð gengin. Starfs- fólki Boðaþings kunnum við bestu þakkir fyrir að hugsa vel um ömmu okkar og afa. Hugur okkar er hjá ömmu Svönu þessa dagana. Missir hennar er mest- ur allra eftir áratuga samveru með eiginmanni sínum. Við systkinin hugsum með þakklæti og hlýhug til afa okkar og alls þess sem hann gaf okkur og kenndi. Kveð ég fagra fjörðinn Skaga, farðu vel um alla daga; blessuð sé þín byggð og saga, bæir, kot og höfuðból! (Matthías Jochumsson.) Davíð, Árdís Hulda, Stefán Veigar og Búi. Gleðilegt sumar minn góði, þér gjarnan vil senda í ljóði, allt sem þú óskar af hjarta, að öðlast með sumrinu bjarta. En mamma hún mun þér ei gleyma, þín minnist á kvöldin hér heima og biður Guð braut þína að ryðja og blessaðan Vagn að styðja. Þessi erindi sendi móðir okkar Vagns syni sínum eftir að hann flutti suður í atvinnuleit fyrir tæpum sjötíu árum. Vagn er í dag borinn til grafar tæplega níræður að aldri. Þegar ég minnist hans bróður míns er mér efst í huga hans einstaka hlýja, ljúflyndi og góðvild. Mér er nær að halda að hann hafi engan óvildarmann átt. Ég hitti eitt sinn mér áður óþekktan mann sem sagði þegar hann vissi um skyldleika okkar Vagns. „Já, ég óska þér til hamingju með að vera systir hans.“ Vagn stundaði ýmis störf hér fyrir sunnan. Hann var einn af stofn- endum leigubílastöðvarinnar Hreyf- ils. Einnig stofnaði hann og rak vöru- flutningafyrirtæki ásamt Brynjólfi Sigurjónssyni um margra ára skeið, uns Kristján elsti sonur Vagns tók við. Svana eiginkona Vagns var einstök kona. Fáar konur hefðu staðið í henn- ar sporum, jafngreiðvikinn og hann bróðir minn var. Oft kom hann með sjúklinga utan af landi sem leituðu sér læknis og dvöldust á þeirra barn- marga heimili oft svo vikum skipti. Þar var þessi ljóðlína í fullu gildi: „Hvað hægri höndin gerði hin vinstri vissi ei hót.“ Svana og Vagn fluttu af Langholtsvegi þar sem þau höfðu bú- ið um árabil, í stóra og fallega íbúð í Fellsmúlanum. Þar bjuggu þau uns þau fluttu í Boðaþing við Elliðavatn fyrir u.þ.b. ári. Þar sáu þau fram á gott ævikvöld en Vagn andaðist hinn 20. þessa mánaðar eftir löng veikindi. Langri ævi lýst í fáum orðum. En Svana og Vagn stóðu ekki ein. Þau komu sér upp sínu gullliði sem á það nafn svo sannarlega skilið. Ekki nóg með það, heldur völdu synirnir sér konur sem standa þeim ekki að baki. Allar fjölskyldurnar ásamt barna- börnunum hafa annast þau hjónin af þvílíkri umhyggju að einstakt má telja. En þau voru svo sannarlega bú- in að leggja inn fyrir því. Vagn tefldi mikið og sótti skákmót bæði innan- lands og utan og státaði af fjölmörg- um verðlaunagripum. Hann kenndi öllum sonum sínum, barnabörnum og þeim elstu af barnabarnabörnunum að tefla. Vagn var ljóðelskur og kunni býsn af ljóðum og lausavísum sem hann hafði á takteinum. Við undruðumst oft minni hans, því fram á síðustu stund gat hann komið með stökur sem við höfðum ekki heyrt áður. Og nú þegar komið er að kveðjustund er hugur minn fullur af þakklæti til þín elsku Vaggi minn. Við Ólafur þökkum þína sífelldu umhyggju og vináttu sem aldrei verður metin til fulls. Elsku Svana mín ég bið góðan Guð að blessa þig og allan hópinn þinn sem stendur svo þétt við hlið þér og þakka þér fyrir allt. Ég kveð þig bróðir með ljóðlínum eftir frænda okkar um annan úrvals- mann, sem ortar voru fyrir tæpum 100 árum og eiga svo einstaklega vel við þig. Því glaðværð þín og ljúfmennska leystu sérhver bönd, er lögðu á okkur kröggurnar og raunin. Er beðinn varstu hjálpar var ætíð útrétt hönd, og aldrei spurt hver verða mundu launin. Þetta litla smáblóm ég legg á legstað þinn, af litlum föngum var hjá mér að taka. Þó grafarmyrkrið hylji þig, góði vinur minn, þú gleymist ei, því minningarnar vaka. (Stefán Vagnsson) Geirþrúður Kristín Kristjánsdóttir. „Mikið ertu heppin að eiga svona frábæra ömmu og afa,“ sögðu vinir okkar eftir heimsókn í Fellsmúlann. Það eru orð að sönnu. Í Fellsmúlan- um sofnaði maður í sófanum af ein- stakri ró sem einkenndi þennan griðastað okkar og þá alltaf södd og sæl eftir ískalda kókómjólk og „vöppl- ur“ sem afi steikti eða jólakökuna hennar ömmu og smurt brauð. Mikil samheldni, bros og hlátur einkenndu heimsóknirnar til afa, ömmu og Bjössa og var Fellsmúlinn samkomustaður stórfjölskyldunnar. Þarna komu þeir við daglega og oft á dag elskulegu frændurnir okkar sem hugsa um foreldra sína af ein- stakri alúð og dásamlegu (tengda) dæturnar sem hafa gefið þeim alla sína ást og umhyggju. Hjá afa, ömmu og Bjössa var þetta einfalt, þú varst bara alltaf velkom- inn. Gestrisnin var mikil og gáfu þau sér góðan tíma til að eyða með okkur krökkunum við spjall, tafl og spil. Þau sýndu störfum okkar og áhugamálum alltaf mikinn áhuga. Afi var mikill taflmaður og ferðaðist til útlanda til að keppa og urðu þær ferðir upp- spretta skemmtilegra frásagna. Sög- ur frá ferðunum sem farnar voru í flutningunum og uppvaxtarárunum á Sauðárkróki sem hans kæru vinir Bjarni Har., Brynleifur og Jónas spiluðu stóra rullu í, eru ógleyman- legar. Á síðasta ári fluttu afi og amma á dvalarheimilið í Boðaþingi, þangað var ekkert öðruvísi að koma en í Fellsmúlann, bros, glens og gestrisni í hávegum höfð. Elsku amma okkar, bræðurnir sex og fjölskyldur. Það er með eftirsjá og tárum sem við kveðjum afa okkar í dag en eftir lifa góðar minningar um einn hjartbesta mann sem um getur. Ég sendi þér kæra kveðju nú komin er lífsins nótt, þig umvefji blessun og bænir ég bið að þú sofir rótt. Þó svíði sorg mitt hjarta þá sælt er að vita af því, þú laus ert úr veikinda viðjum þín veröld er björt á ný. Ég þakka þau ár sem ég átti þá auðnu að hafa þig hér, og það er svo margs að minnast svo margt sem um hug minn fer, þó þú sért horfinn úr heimi ég hitti þig ekki um hríð, þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sigurðardóttir) Álfheiður Svana, Rannveig, Vagn og Inga Jóna. Vagn Kristjánsson  Fleiri minningargreinar um Vagn Kristjánsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. ✝ Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma og lang- amma, BRYNHILDUR JÓNSDÓTTIR fyrrv. deildarstjóri í utanríkisráðuneytinu, lést á Hrafnistu Reykjavík miðvikudaginn 26. janúar. Jón Svavar Úlfljótsson, S. Fanney Úlfljótsdóttir, Björn Magnús Björgvinsson, Björg Jóhannsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.