Litli Bergþór - 01.12.2012, Blaðsíða 20

Litli Bergþór - 01.12.2012, Blaðsíða 20
20 Litli-Bergþór Hveradala Höyer og kona hans Hér verður fjallað um hjón, sitt af hvoru þjóðerni, sem skolaði hér á land í umróti millistríðsáranna. Þau voru ólík sem dagur og nótt en undu sér samt vel saman og voru hér til dauðadags, með hléum þó. Þau höfðu bæði reynt ýmislegt áður en þau settust að á Íslandi og hér fóru þau heldur ekki troðnar slóðir. Sérstakt var að þau virtust sækjast eftir að búa á hrjóstrugum jaðarsvæðum, þó þau væru engar mannafælur. Þvert á móti. Þau tóku gjarnan á móti ferðamönnum og voru vel liðin af þeim sem höfðu við þau samskipti. Þau komu á sinn hátt að tveimur starfsgreinum, sem voru að hasla sér völl þegar þau voru á manndómsárum, ylrækt og svo farþegaflugi innanlands, þar sem þau voru um- sjónarmenn á flugvelli. Það gætu því þess vegna hangið myndir af þeim bæði á Flugminjasafninu og á tilvonandi Garðyrkjusafni. „Var hún ekki rússnesk prinsessa?“ Þannig spurði fullorðinn Akureyringur þegar ég nefndi við hann hvort að hann myndi eftir Ericu Höyer og þeim hjónum fyrir norðan. Já, það var ekki laust við að nokkur ævintýrabragur þætti á þeim og margt höfðu þau brallað á langri ævi. Það var fyrst að frétta af Anders C. Höyer hér á landi að hann kom sem vinnu- maður í Bræðratungu í Biskupstungum í maí 1926. Þar var hann í fjóra mánuði, en eigandi jarðarinnar þá var hinn danski ritstjóri Berlinske Tidende, Svend Paulsen. Höyer kynnti sig hér sem garðyrkjumann og var það sjálfsagt, en síðar kom á daginn að hann hafði starfað sem blaðamaður í Danmörku og því ekki ólíklegt að hann hafi þekkt til Sveins bónda, enda höfðingjadjarfur og ófeiminn að koma sér í kynni við mann og annan. Um haustið fór hann ekki heim til Danmerkur heldur réði sig að Lágafelli í Mosfells- sveit og var þar til vors. Hann sagði seinna (1953) í grein í Garðyrkjuritinu, að hann hefði strax heyrt um „vitlausa“ Danann, sem vildi byggja gróðurhús og lifa af ylrækt. Því miður ruglar Höyer aðeins saman gróðurhúsi sem byggt var á Reykjum í Mosfellssveit 1924, að vísu í umsjón Danans Jóhannesar Boeskov, en í eigu máganna á Reykjum, Bjarna Ásgeirssonar og Guðmundar skipstjóra, og svo aftur gróðurhúsi sem Boeskov byggði á nýbýlinu Blómvangi 1926 og telst fyrsta garðyrkjubýli á Íslandi þar sem eingöngu var treyst á ylrækt. Höyer og Boeskov urðu vinir og Höyer hjálpaði honum við byggingu gróðurhússins í Blómvangi og vildi svo fara sjálfur út í ræktun. Um sumarið var hann í Reykjavík og þá kom til hans hingað til lands unnustan Erica, fædd Hartmann, en hún var fimmtán árum yngri, aðeins 27 ára, en Höyer 42. Erica var frá Lettlandi, þeim hluta sem kallast Kúrland, og hafði ratað í ótrúlegustu hörm- ungar í fyrra stríði og sagði frá því í skáldsöguformi seinna. Það var bókin Anna Íwanowna, sem kom út í Danmörku haustið 1939, um þann mund sem seinna stríðið skall á og fékk góða dóma. Skáldævisaga Kúrlendings Bókin er svokölluð „skáldævisaga“ og segir sögu fjölskyldu Ericu frá því að fyrri heimstyrjöld skell- ur á, þegar Erica var fjórtan ára, og þangað til þau snúa heim úr útlegð í Rússlandi og koma að öllu í rúst í sveitinni sinni í Lettlandi í stríðslok. Rússar og Þjóðverjar völtuðu til skiptis yfir þetta smáríki og það stóð varla steinn yfir steini er yfir lauk. Þau upplifðu stríðsátök, flótta, borgarastríð og rússnesku byltinguna, svo það var engin furða að henni þætti friðsamlegt á Íslandi þegar hún rifjaði upp ævi sína á efri árum. Texti: Ólafur Stefánsson, Syðri-Reykjum Erica og Anders Carl Höyer Johannesson fyrir framan húsið í Hveradölum. Mynd í eigu Mjólkursamsölunnar á Selfossi

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.