Litli Bergþór - 01.12.2015, Blaðsíða 21

Litli Bergþór - 01.12.2015, Blaðsíða 21
Litli-Bergþór 21 Í hvítri og friðsamri sæng Ungur Norðmaður verður úti Páll M. Skúlason: Árið 1938 kom ungur Norðmaður, Olav Sanden (f. 29.11. 1918), til landsins og hóf störf á Syðri-Reykjum hjá Stefáni Árnasyni (1911-2002) og Áslaugu Ólafsdóttur (1909- 1996). Þau áttu tvö börn á þeim tíma sem hér er fjallað um: Ingveldi Björgu (3) og Ólaf (2). Það sem hér fer á eftir eru færslur úr dagbók (með skyggðu letri) Skúla Magnússonar, síðar garðyrkjubónda í Hveratúni (1918-2014) frá árinu 1940. Þessar færslur fjalla um aðstæður þegar Olav varð úti á leið sinni frá Efstadal til Syðri-Reykja, 19. febrúar, 1940. Veður var ágætt vikuna 11.- 17. febrúar 1940. Framan af var hæg austan átt og hiti um og yfir frostmarki. Um miðja vikuna fór að kólna með norðaustan golu. Lífið á Syðri Reykjum gekk sinn vana gang og unnið að undirbúningi fyrir vorið: rör voru fægð og lökkuð, stungið upp og byrjað að planta út tómötum. Til þess að fara frá S.-Reykjum upp í Efstadal, var farið á bát yfir Brúará. Erindi Olavs í Efstadal var að hitta þar jafnaldra sína, en einhverjir þeirra voru í íhlaupavinnu á Syðri-Reykjum á þessum tíma. Þá bjuggu í Efstadal II hjónin Jórunn Ásmundsdóttir (59) og Sigurður Sigurðsson (60). Börn þeirra sem þá voru heima voru: Steinunn (22), Magnús (21), Ingvar (20), Björn (19) og Magnhildur (17). Á hinum bænum í Efstadal bjuggu hjónin Sigþrúður Guðnadóttir (43) og Karl Jónsson (35), síðar í Gýgjarhólskoti, ásamt börnum sínum Helgu (11) Jóni (10), Guðrúnu (8), Ingimar (7), Guðna (6), Arnóri (4), Margréti (3) og Gunnari (á fyrsta ári) og bróður Karls, Grími (29). Laugardagurinn 17. Norðaustan kaldi bjart veður 10 gráðu frost. Olav fór upp að Efstadal. Sunnudagurinn 18. Norðan og norðaustan gola 2 gráðu frost mikil snjókoma með morgninum. Olav var ókominn frá Efstadal. Mánudagurinn 19. Norðaustan strekkingur, mikil snjókoma og fjúk er á daginn leið, en var slydda um morguninn og fremur stillt veður. Þegar við höfðum borðað morgunverð lögðum við fjórir af stað, Stefán, Jón Guðmundsson, Bergur og ég til að líta eftir Olav, því að veður tók heldur að versna, snjókoma og vindurinn jókst. Við vonuðum að hann hefði aldrei lagt af stað frá Efstadal, en þorðum samt ekki annað en grennslast eftir því. Þegar vorum komnir norður fyrir Brúará var kl. 9:50. Við reyndum að hraða ferð okkar sem mest, en það var ekki auðvelt því að snjórinn var mjög mikill, stöðugt kafald í mitt læri og mitti og jafnvel enn þá meira sumstaðar. Okkur sóttist seint sem vonlegt var. Þegar við höfðum gengið æði spöl áleiðis til Efstadals mættum við pilti þaðan, sem fræddi okkur á því að Olav hefði farið þaðan kl. 8 um morguninn og kvaðst ekki hafa þorað annað en fara á eftir honum er hann varð þess var hversu veðrið var ískyggilegt. Nú leist okkur ekki á blikuna og vissum sem sagt ekki hvað gera skyldi. Snjókoman jókst enn meir jafnframt því sem hvessti. Loks tókum við þá ákvörðun að fara vestur að Böðmóðsstöðum, því að okkur þótti líklegt að hann hefði leitað þangað, þar eð þetta var næsti bær. Eftir hér um bil tvær klukkustundir komumst við þangað (þegar sæmilegt er umferðar er þessi vegalengd farin á 20 mín til hálftíma) og vorum flestir þurfendur hvíldar. Eftir að við höfðum hresst okkur þar og fengið þau klæði sem okkur vanhagaði um, við höfðum ekki búið okkur nægilega vel er við lögðum af stað að heiman, lögðum við af stað sömu leið ásamt Guðmundi bónda. Ferðin heim gekk slysalaust og vorum við komnir um kl. 5. Jón fer með Guðmundi til baka aftur því að varhugavert þótti að láta einn mann vera á ferð í þessu veðri. Þreyttir og áhyggjufullir lögðumst við til hvíldar. Olav Sanden á Syðri-Reykjum í byrjun árs 1940. Skúli Magnússon stuttu eftir 1940.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.