Morgunblaðið - 03.03.1981, Blaðsíða 35

Morgunblaðið - 03.03.1981, Blaðsíða 35
1 knattspyrnumanna, sem hann ávallt sýndi okkur. Eins og áður greinir var Valtýr mikill áhugamaður um knatt- spyrnu og þá sérstaklega um gengi félags síns. Hann fylgdist nær undantekningalaust með öllum leikjum meistaraflokks félagsins, bæði í mótum og í æfingaleikjum. Það var sama hvort það var í Reykjavík eða á öðrum stöðum á landinu. Þá fylgdist hann eigi ósjaldan með leikjum yngri flokka félagsins og það eitt sýnir best áhuga hans á félaginu og íþrótt- inni, en allt of fáir af eldri kynslóðinni gera það. íþróttavellir landsins voru því oft vettvangur hans, einkum ef knattspyrna átti í hlut, og þar átti hann sér marga vini. Þeir verða víst margir sem sakna þess í vor að einn kunningj- anna er fallinn, langt fyrir aldur fram. Okkur yngri mönnum í knatt- spyrnudeildinni var sérstaklega hlýtt til Valtýs, og þótti gaman að spjalla við hann, enda voru þær ófáar stundirnar sem við áttum með honum í Framheimilinu. Hann var hreinskilinn og sagði sína meiningu umbúðalaust, orðin ef eða kannski heyrðust sjaldan af vörum hans. Traustur, úrræðagóð- ur og hjálpsamur var hann okkur í hvívetna, og ekki ófá málin leyst- um við á „prívat“-fundum með honum. Þá kom líka oft margt spaugilegt fram. Margar setn- ingar, hafðar eftir Valtý, geymast á vörum okkar, og verður ekki gleymt í bráð. í félagsskap við fólk naut hann sín vel, og var þá oft í essinu sínu. Eitt í fari Valtýs verður ekki komist undan að drepa á hér, en það er hversu vel honum tókst að umgangast sér yngri menn og ósjálfrátt urðu þeir góðir vinir hans. Það var hans sérgáfa að geta umgengist fólk á öllum aldri og öllum þjóðfélags- stigum, og hið svokallaða kynslóðabil þekkti hann ekki. Fyrir hans augum stóðu allir menn jafnt að vígi. Það eru víst ekki ófáir sem vildu hafa þá hæfileika sem að framan greinir. Þar sem hann var, var ávallt hlátur og gleði, sem oftast nær stafaði frá skemmtilegum per- sónuleika hans. Þrátt fyrir að Valtýr hafi lagt mikið að mörkum fyrir Fram þá var fjölskylda hans ávallt í fyrir- rúmi. En það vildi svo vel til að börnin hans fylgdu honum mikið að málum, og hans áhugamál voru þeirra og öfugt. Tilviljun, nei aldeilis ekki. Það má því með sanni segja að fjölskylda Valtýs Guðmundssonar sé sannkölluð Framfjölskylda. Fáa feður hefur maður hitt sem voru svo góðir og þægilegir við börn sín, og oft á tíðum var eins og Valtýr væri fjórða systkinið. Það má líka segja að Valtýr hafi verið heppinn, börnin hans voru honum mjög góð og kunni hann vel að meta það þó lítið bæri á. „Allt er í heiminum hverfult", stendur einhvers staðar skrifað, og svo sannarlega á það við um hið sviplega fráfall Valtýs Guð- mundssonar. Að morgni laugar- dagsins 21. febrúar kom hann eins og ávallt á laugardagsmorgnum upp í Framheimili hress og kátur. Fyrir okkur félaganna sem þar vorum, rann ekki í grun að þessi frjálslegi og hressi maður skyldi að kvöldi allur verða. Við eigum því ekki að venjast að vinur sem við hittum að morgni sé látinn að kveldi. Það sem styrkir okkur mest við fráfall þessa drengs, er að um ókomin ár mun félag okkar fá hlýhuga hugskeyti handan móðunnar miklu frá honum. Að lokum viljum við fyrir hönd knattspyrnudeildar Fram þakka Valtý fyrir hans framlag til upp- byggingar félagsins um leið og við vottum eiginkonu hans, Birnu, og börnunum, Valtý, Heienu og Völu, okkar dýpstu samúð og megi algóður guð styrkja þau á þessari erfiðu stundu svo og í framtíð. Knattspyrnudeild Fram. Árgangurinn ’43 frá Mennta- skólanum á Akureyri var stríðs- kynslóð, sem sleit barnsskónum á MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 3. MARZ 1981 39 kreppuárunum og lenti svo á unglingsárunum í sviptingum og upplausn í þjóðlifinu. Los á hugs- unarhætti fylgdi hernáminu og hlaut að koma mishart niður á ungum sálum — alls staðar steðj- aði að fár af völdum „ástandsins", sem i mörgum tilfellum var sannkallað hættuástand. Árgangur ’43 úr MA eða stúd- entabekksögnin sú fór ekki var- hluta af áhrifum striðsáranna, sem sköpuðu ákveðna hegðunar- hætti meðal bekkjarsystkinanna, ýmist til verri vegar eða til góðs eða beggja blands. Það var mál allra, sem til þekktu, að á vissan hátt hafi bekksögnin, einkum og sér í lagi máladeildin, verið með sérstaka lyndiseinkunn, sem gat birst í ungæðislegri léttúð, jaðr- andi við algert kæruleysi á stund- um og braut í bága við einkunnar- orðin úr söng gamla skólans, Undir skólans menntamerki. Svo mikið er víst, að við brautskráningu veitti Sigurður heitinn skólameistari þessum stúdentahóp vítur, sem frægt er orðið, því að ’43-módelið var eina framleiðslan úr MA í tíð skóla- meistara, sem honum þótti vert að hirta á kveðjustund, e.t.v. sumpart fyrir þá sök, að hans yngsta barn var einn úr hjörðinni og trúlega ekki barnanna beztur í bekkjar- hópnum. Brottskráningar ’43 höfðu dúsað saman, flestir sex vetur, allar götur frá því í fyrsta bekk haustið ’37. í þá tíð var gagnfræðadeild við lærða skóla á Isiandi, sem þótti kostur. Dúsað saman, já mikið rétt, deilt saman geði og gleði og stundum pínulitl- um sorgum meira að segja. Margs er að minnast frá þessum sex árum, allt frá stuttbuxnaskeiði og krúnurökun þess, sem þetta skrif- ar, í busabekk, hefðbundinni toll- eringu af völdum stóru strákanna í efri bekkjunum, stórhríðarferð- um í skíðaskálann Útgarð, laun- blótum í göróttu öli, sem nefndist Jukki, í myrkri kompu niðri á Oddeyri, fyrstu ástríðureykingum í tyrkneskum De Reszke-sígarett- um heima hjá einum bekkjar- bræðranna, sem nú er kominn til feðranna, barðastóru hattatízk- unni a la Americaine, brylcream- smurningu í hári, svo að það gljáði sem mest; allt frá ofangreindu til þess, þegar góða veizlu gera skyldi á gamla Hótel Gullfossi (sem brann í stríðinu) — stundum þar og stundum á Hótel Goðafossi og oft á Gildaskála Hótel KEA — þar fengust stærstu og beztu vindlarn- ir. Og ekki má gleyma fimmta bekkjar ferðinni á Snæfellsnes vorið ’42 með Steindór náttúru- fræðikennara sem fararstjóra, en síðan það gerðist, hafa bekkjar- systkinin ferðazt saman, bæði á tíu og tuttugu og tuttugu og fimm ára stúdentsafmæli. Stúdentar vorið ’43 úr MA voru 37 talsins og af þeim eru sex fallnir fyrir ætternisstapann. Fyrstur var fullhuginn í bekknum og dúxinn í máladeild, Þorsteinn heitinn Halldórsson frá Brekku í Svarfaðardal. Hann dó um sumar- ið ’43, hné niður örendur á Hjalt- eyri að íþróttaleikjum, vaskur maður og að honum harmdauði. Þá deyði síra Hermann Gunnars- son frá Fossvöllum í Jökuldal (náfrændi doktors Frosta Sigur- jónssonar læknis), þjónandi prest- ur á Skútustöðum. Gerðist það með váveifilegum hætti á prests- setrinu. Hann var ljóðrænn og skáldmæltur og mikill heimsmað- ur á skólaárum og stór í lund. Hann átti margt eftir ósagt. Og svo var með stuttu millibili höggv- ið skarð á nýjan leik í raðir bekkjarsystkinanna. Einar Bersi frá Skarði í Höfðahverfi, athafna- samur verkfræðingur í USA og hugvitsmaður, glæsimenni, tölu- vert líkur Hollywoodleikaranum nýlátna, Steve McQueen, var snöggiega numinn á brott á bezta aldri. Og þá Jóhann Finnsson tannlæknir að vestan, frá Hvilft í Önundarfirði, lífsteitastur allra, fjörkálfur og gleðigjafi, sem dó af slysförum. Jóhann hafði heitt og gott hjarta, svo heitt að það mátti brenna sig á því. Og svo fyrir fáum árum var burtkvaddur Hall- dór Helgason, aðstoðarbanka- stjóri á Akureyri. Að þessum félögum öllum var mannskaði. Og svo skall á enn eitt áfall fyrir bekksögnina ’43. Valtýr Guð- mundsson, fyrrum sýslumaður og bæjarfógeti á Eskifirði, var allur síðustu helgi. Féll niður örendur í hófi sveitunga. Fregnin um það barst fljótlega til bekkjarsystkina hans. Þar fór mesta hreystimenni bekkjarins, þrekmaður, góðum íþróttum búinn. Fyrir örfáum vikum höfðu fjórir bekkjarfélagar komið saman og slegið í spil að vanda, bridge. Vaitýr var einn þeirra og lék á als oddi, var hress yfir því að vera fluttur suður; undi sér vel í nýja starfinu og í húsinu, sem hann hafði keypt handa sér og fjöl- skyldu sinni í Kópavogi. Hann sinnti áhugamálum sínum af krafti eins og knattspyrnunni, var háttsettur í stjórn Fram, en hann lék árum saman á námsárunum í meistaraflokki, bæði fyrir norðan og sunnan og þótti ekkert lamb að leika sér við á þeim orrustuvelli. Þetta var stutt spilamennska, en skemmtileg og brugðið á leik og margt upp rifjað og fitjað upp á ýmsu. Greinarhöf. fékk far með Valtý í bíl hans. Það var orðið þungfært á götunum, sem rifjaði upp erfiðar ferðir Valtýs sýslu- manns á Austfjörðum í alls konar veðrum, þegar hann var að sinna embættiástörfum sínum sem yfir- vald. Það er mál þeirra, sem til þekkja, að oft hafi Valtýr þurft að leggja hart að sér í þeim ferðum, en ekki verið að víla fyrir sér erfiðið, enda ókvartsár. Svo var það nokkru seinna, að talazt hafði til að ná aftur í Valtý í bridgespilamennsku í sama húsi og áður. Það var tæpri viku fyrir andlát hans. Hann kvaðst því miður ekki geta mætt og bar fyrir sig gilda ástæðu, ófærðina i Kópa- vogi. Það var náð í annan mann, ekki bekkjarbróður að vísu, en þrír fulltrúar af árgangnum ’43 voru þó mættir. Svo liðu fáir dagar og harmafregnin barst. Þegar þessar línur eru skrifað- ar, skýtur upp í hugann minning i’rá haustinu 1960, þegar Austfirð- ir voru lagðir undir bílhjól, hver einasti fjörður þræddur plús Hér- að og hálendin og að enduðum löngum ströngum keyrsludegi á gamla Morris Oxford í fylgd með séra Bolla í Laufási og Flosa magister úr Stöðvarfirði í eins konar safari-svaðilför um eina bröttustu fjallvegi á íslandi, t.a.m. Oddsskarð, var ákveðið að ganga eða öllu heldur að aka á vit sýslufulltrúans, sem þá var, þ.e. Valtýs, bekkjarbróður og vinar. Farþegarnir voru glaðir á góðri stundu og voru orðnir uppiskroppa með hressingu. Sjofförinn var alls löglegur. Valtýr rifjaði upp þessa sögu í kaffihléinu i bridgeboðinu, sem áður var getið. Hann hefði verið staddur á þvottaplaninu við bensínstöðina á Eskifirði, verið að þvo bílinn sinn, þegar hann heyrir allt í einu þyt mikinn og eins konar Þórdrunur, sem hlutu þó að koma úr bifreið og síðan skerandi ískur og ærandi hemlahljóð, og þá hefði sér verið litið um öxl og þar alveg fast við hann hefði verið eiturgrænn bíll, vel rykugur og aurugur, en út úr honum hefði stigið stgr, afar kurteis í bragði og hlýlegur og heilsað sér með virkt- um, en bent svo aftur í bílinn á farþegana og sagt eins og ekkert væri: „Heyrðu mig, minn kæri Valtýr, getur þú ekki sagt mér hvar hægt sé að kaupa hér á staðnum hressingu — þú veizt hvers konar — handa þeim þarna?" Hann sagðist aldrei gleyma þessu. Geta ber þess, að þegar þetta gerðist, var Valtýr settur sýslumaður og fór með vald í viðkvæmum málum eins og þessum, eftirlit með „hressingar- sölu“. Já, svona gat léttúðin verið milli gamalla félaga. Um kvöldið var farið á dansleik og sjeriffinn slóst með í förina til að halda uppi skikk og hann útvegaði öllum gistingu og góðan beina. Sú var tíðin. Svo liðu nokkur ár. Og eitt sinn að sumarlagi fyrir norðan á Akur- eyri urðu endurfundir. Þá var Valtýr kominn með stóra fjöl- skyldu, orðinn sýslumaður þeirra Sunnmýlinga, hafði gengið að eiga glæsilega konu og eignazt með henni myndarleg börn eins og vera bar. Hann var að eyða sumarleyfi sínu þar á gömlum grónum götum og var hamingjusamur að sjá. Valtýr var félagslyndur maður; átti til stríðni að bera, en hún var græskulaus og aldrei heyrðist hann leggja illt til manna í raun og með sanni. Hins vegar var hann laus við tepruhátt og tilgerð, og í mannlegum samskiptum kom hann til dyranna eins og hann var klæddur. Okkur í bekknum er minnis- stætt, þegar hann veiktist af skarlatssótt — það var sennilega í fimmta bekk, einhvern tímann seint á útmánuðum eða undir vorið ’42. Þá var hann settur i sóttkví, sem var mikil prísund fyrir fjörmikinn ungan mann eins og Valtý, sem alltaf þurfti að vera að fá útrás. Hann var eitthvað slakur í latneskunni að mati Þórarins heitins Björnssonar, sem kenndi okkur þessa fornu tungu. Og því var það að ráði hans og Sigurðar skólameistara, að Valtýr læsi latínu allan tímann í sótt- kvínni. Valtýr tók því ljúflega og las og las latínuna. Og fór svo, að hann skilaði einna beztum árangri í latínu af öllum í bekknum fyrir bragðið og hlaut sæmd fyrir. Valtýr var ekki akademísk manngerð að upplagi —vhann var of mikið náttúrubarn til slíks — hann var frumstæður í eðli sínu, eins og forfeður hans — eins og afi hans Sæmundur, sem er talinn fyrirmynd að Sturlu í Vogum. Hann hafði skemmtilegt keppn- isskap, sem e.t.v. bitnaði meira á honum sjálfum en öðrum; hann var hollur okkur félögum sínum, dæmigerður „unglingur í skógin- um“, af árgangi ’43, meiri alvöru- maður í lífinu en hann virtist í orði og skilaði miklu lífsstarfi: Þrjátíu ára embættisferli. Fyrst sem fulltrúi sýslumannsins í Suður-Múlasýslu frá því 1951 til ársins 1966, en það ár var hann skipaður sýslumaður í S-Múl.; jafnframt skipaður bæjarfógeti á Eskifirði frá apríl '74. Vann Val- týr að alls konar lögfræðistörfum samhliða embættisstörfum allan tímann sem hann dvaldist þar eystra, varð héraðsdómslögmaður ’57. Hann fluttist suður snemma árs ’76, og var þá skipaður borg- arfógeti í skattheimtumálum (lögtaksúrskurðum o.fl.) hjá Gjaldheimtunni í Reykjavík, og vann við það embætti til dauða- dags. Gegn maður, sem vann með Valtý hálft fjórða ár hjá Gjald- heimtunni sagði, þegar hann var inntur eftir kynnum sínum af Valtý borgarfógeta: „Mér leizt strax vel á þennan mann og okkur varð fljótt vel til vina. Það var eins og við hefðum þekkzt óra lengi. Ef til vill hefur því valdið gamall menningararfur frá Suð- ur-Þingeyjarsýslu, enda þótt fjöll og dalir væru á milli okkar á uppvaxtarárum okkar.“ (Þess ber að geta, svo að það fari ekki á milli mála, að Valtýr heitinn var frá Lómatjörn í Höfðahverfi, en heimildarmaður er upprunninn frá Skjálfandabotni). Sögumaður hélt áfram: „Valtýr kom alltaf drengilega fram eins og góðum embættismanni sæmir. Hann var gæddur mannlegum skiiningi í samskiptum við fólk, sýndi af sér samningalipurð, en jafnframt festu, ef þörf krafði, og gaf þá ekki eftir. Hins vegar gat hann liðkað til fyrir fólki, þegar það sýndi vilja til að standa sig, því að hann var þannig gerður, að hann vildi hvers manns vandræði leysa. Svo vár annað, sem tengdi okkur saman: Hann hafði gaman af gömlum og nýjum stökum, ef þær voru vel gerðar — ég tel hann hafa haft gott brageyra. Hann var greindur maður." I sama streng tók kollegi Valtýs hjá fógeta- embættinu, sem þekkti hann ára- tugum saman, bæði í starfi og í íþróttum (knattspyrnunni). Valtýr Guðmundsson fæddist 28. febrúar 1920 að Lómatjörn í Höfðahverfi. Foreldrar hans voru Guðmundur bóndi Sæmundsson og kona hans Valgerður bónda að Þöglabakka Jónssonar. Valtýr kvæntist 1960, gekk að eiga Birnu Björnsdóttur sjómanns á Eski- firði, Jónassonar og konu hans, Kristínar Ásmundsdóttur. Þau eignuðust þrjú börn: Helenu, f. 7. ág. 1959, stundar nám í Kennara- háskóla íslands; Völu, f. 27. nóv. ’61, lýkur stúdentsprófi í vor frá MR; Valtý Björn, f. 22. maí ’63, nema. Áður hafði Valtýr eignazt son með Bryndísi Jónsdóttur, Jón Ólaf, f. 25. nóv. ’50. Fjölskylda Valtýs á nú um sárt að binda eftir óvænt fráfall hans. Megi sá, sem öllu ræður, veita eiginkonu hans og börnum styrk og huggun. Þrátt fyrir breyskleikaorðið, sem fór af bekksögn '43 úr MA, hafa flestir náð miði og markmiði í lífinu, og gamli skólinn á Akur- eyri má teljast fullsæmdur af þessu klaki sínu, sem eitt sinn var talið orka svo tvímælis. Bikar lífsins hefur verið bergður í gleði og sorg á langri leið, en án eftirsjár, þó ekki alltaf án iðrunar. Og þegar vinir mætast og kætast, þá hefur yfirleitt ekki séð högg á vatni hjá stríðskynslóðinni, ár- gangi ’43. En saknaö er vina í stað. Dauðinn er ávinningur, stendur í Biblíunni, og lífið heldur áfram og við lifum í afkomendum vorum. Minnugir þessa er Valtýr kvaddur. Requiescat in pace. stgr Birna Magnúsdótt- ir — Minningarorð Fædd 21. desember 1941 Dáin 23. febrúar 1981 í dag kveðjum við vinkonu okkar, Birnu Magnúsdóttur, Álf- hólsvegi 45, Kópavogi. Við skiljum þetta ekki, hvers vegna hún Bidda er horfin okkur, ung kona í blóma lífsins, frá eiginmanni og börnum. Við stöndum eftir hljóð. Birna var sannur vinur vina sinna og vorum við heppin að fá að vera í hennar vinahópi. Árið 1970 tók sig saman lítill hópur vinnufélaga ásamt eigin- konum sínum og fór í helgarferð. Þetta var upphafið að litlum ferðaklúbb sem eftir þetta fór saman í Þórsmörk á hverju sumri ogKittist síðan oftar eftir því sem árin liðu og vinaböndin treystust. Birna og eiginmaður hennar, Sævar Björnsson, voru sjálfkjörn- ir foringjar þessa hóps. Upphaf að hverri ferð og hverju móti þessa hóps hófst yfir kaffibolla á heimili þeirra. í kringum þau var alltaf líf og fjör og þar leið okkur alltaf vel. Við eigum ógleymanlegar minn- ingar um þessar stundir og þökk- um henni allt og allt. Við biðjum góðan guð að styrkja Sævar og börnin í þeirra miklu sorg. Vinir úr Litla ferðaklúbbnum

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.