Heimskringla


Heimskringla - 30.05.1934, Qupperneq 6

Heimskringla - 30.05.1934, Qupperneq 6
6. SIÐA HEIMSKRINGLA WINNIPEG, 30. MAÍ, 1934 Jane Eyre eftir CHARLOTTE BRONTE Kristján Sigurðsson, þýddi Þessu' hélt eg fram allan reynslu tímann, og heppnaðist mæta vel. Satt er það, að hann var oft hastur og hryssingslegur, en eg sá líka, að honum þótti gaman að, yfirleitt; ef eg hefði. verið auðmjúk og undirgefin líkt og lamb, eða bráð til blíðu líkt og kurrandi dúfa, þá hefði einræði hans þrútnað, en síður hefði það háttalag átt við dómvit hans, heil- brigða skynsemi og jafnvel smekk. Þegar aðrir voru viðstaddir var eg, sem fyr, hæglát og holl í viðmóti, því að þá gerðist ekki þörf að hafa annað við, en á eintali við hann á kvöldvökunum hélt eg uppteknum hætti. Hann gerði altaf boð eftir mér einni stundu eftir náttmál (kl. sjö), en nú var kom- ið annað hljóð í kveðjuna, “elska” og “yndi” ekki nefnt á nafn, en kölluð var eg, í þess stað, “áreitin brúða”, “illúðug álfamær”, “aftur- ganga”, umskiftingur” o. s. frv., fyrir blíðulæti komu grettur, í stað þýðasta handabands fekk eg það, að vera klipin í handlegginn, fyrir koss á kinn kom það, að klipið var í og snúið upp á eyrna snepilinn minn. Þetta lét eg mér vel líka, eg undi þessari harðleikni miklu betur, í þann tíma, heldur en mjúklæti. Eg varð vör við að Mrs. Fairfax líkaði vel við mig, hún hætti að kvíða um mig, og þar af fekk eg vissu mína, að eg væri á réttri leið. En Mr. Ro- chester kendi mér um að hann væri að renna, ekkert væri orðið eftir af honum nema skinn og bein, og hótaði. hryllilegum hefndum (sem hann tiltók þó ekki) fyrir framferði mitt, áður en langt væri um liðið. Eg kímdi með sjálfri mér, að hótunum hans. “Eg hefi komist á lagið, að halda þér í skefjum,” hugsaði eg með mér, “og skal gera það eftirleiðis, og ef eitt ráðið bregzt, þá skal annað upp taka.” Eigi að síður, þetta var alt annað en hægur vandi; oft var það, að mig langaði meira til að vera blíð við hann heldur en stríð. Mannsefnið mitt var að verða öll mín veröld, og meira en veröldin — von mín um himnaríki, fast að því. Hann kom milli mín og allra guðstrúarhugsana, eins og myrkvi milli manns og sólar. Eg mátti ekki, á þeim dög- um, sjá Skaparann fyrir skepnu hans, er eg gerði mér skurögoð af. XXV. Kapítuli. Tilhugalífs tíminn var á enda runninn. Hin- um komandi degi varð ekki skotið á frest, enda var öllum viðurbúnaði lokið áður en hann bar að. Eg hafði ekki meira að gera. Kistur mínar stóðu í röð fulltroðnar, lokaðar og strengjum reyrðar, meðfram vegg stofunn- ar sem eg bjó í, á morgun stóð til að þær væru á leið til London og eg líka (E. G. L.), eða réttara sagt: ekki eg, heldur Jane nokkur Rochester, en þeirri manneskju var eg ókunn- ug ennþá. Miðarnir með nafninu voru ófestir á, en fjórir þeirra lágu ofan í borðskúffu, árit- aðir með Mr. Rochesters eigin hendi: “Mrs. Rochester ------ Hotel, London”; eg fekk mig ekki til að festa þá á, eða láta aðra gera það. Mrs. Rochester! Hún var ekki til, myndi ekki fæðast í þennan heim fyr en á morgun, stundu fyrir dagmál, og eg vildi bíða við og vita vissu mína, að hún kæmi lifandi í heiminn, áðúr en eg eignaði henni alt þetta góss. Nóg var samt; í klæðaskápnum þarna, gagnvart þvottaborði mínu, hafði fatnaður, henni ánafnaður, út- rýmt svarta kjólnum mínum frá Lowood, og stráhattinum líka, því að ekki var eg eigandi að þessum giftingarskrúða, perlugráum kjól og þoku líkri slæðu. Eg lét aftur skápinn til að fela þann undarlega, vofu líka skrúða, því að því líkast blikaði á hann í rökrinu, við kertaljósin. “Eg ætla að láta þig einan, hvíti draumúr,” sagði eg. “Mér er órótt, vindurinn þýtur, eg ætla út að firina til hans. “Það var fleira en tilhugsunin um æfibrigðin þau, að eg átti að byrja nýtt líf á morgun, sem gerðu mér órótt. Mr. Rochester var að heiman í erindagerð- úm við landseta sína, æði lang^t í burtu, er hann varð að lúka, áður en hann færi í lang- ferðina. Eg beið komu hans, fyrst í aldingarð- inum, þar hröklaðist eg í skýli undan vindin- úm, er blés stöðugt af suðri og óx þegar á leið; trén svignúðu öll á eina leið og réttust ekki, lengi vel, svo stöðugt blés stormurinn í klukku- stund eða meir. Skýin rak með miklu fari norður á við; allan þann júlí dag hafði ekki sést í heiðan himinn. Mér hægðist við að láta berast á hlaupum undan hinum trylta ómælisstraumi er fór dunandi gegnum loftið; honum fól eg æsingu hugar míns. Fyrir neð- an lárviðargöngin blasti við mér hið súndraða kastaníu tré, bolurinn var klofinn eftir miðju, niður undir jörð, eri þo rætumar væru heilar, var sameiginlegu lífi lokið, hver hluti fyrir sig myndir missa safans og visna og næstu vetrar byljir fella aðra greinina eða báðar. Enn mátti segja að báðar til samans væm eitt tré — en aðeins rúst af tré eða draugur. “Rétt gerðuð þið, að loða saman”, sagði eg, svo sem þessar tröllslegu kræklúr væru lifandi og skildu mælt mál. “Þó kumlaðar sé uð og sviðnar og brendar, þá hugsa eg að enn kennið þið lífs, vegna þess að þið loðið saman við trúar rætur og traustar. Aldrei munuð þið skrýðast grænu laufi framar, aldrei munu fuglar hópast til söngs í greinum ykkar, færi til gamans og ástar eru ykkur horfin, en eruð ekkj huggunarlaus með öllu, hver ykkar hefir félaga til samfylgdar í visnuninni.” — Máninn skein litla stund gegnum klofann, blóðrauður og skýjum hulinn til hálfs, virtist líta á mig dapurlega og flóttalega, steypa sér svo í skýjabólstra. Vindi slotaði litla stund umhverfis Thornfield, en hvaðanæfa dunaði þytur hans langar leiðir yfir vötn og viðu, tryldur og dapur og hvínandi. Eg gat ekki staðið kyr og hlustgð á þann dapurlega klið, heldur gekk aftur til aldingarðs og tók að tína saman epli, er lágu þykt í grasinu undir trján- um, las sundur þroskuð og óþroskuð, bar þau inn og kom þeim fyrir í vistabúri. Þar næst gáði eg að arineldi í bókastofu; þó sumar væri, vissi eg að Mr. Rochester mundi líka að koma að glöðum eldi utan úr rosanúm. Eg færði bríkastól hans að eldinum og borð, kipti, niður gluggatjöldum og lét flytja inn kerti, svo þau væru til taks. Að þessu loknu sótti mig enn eirðarleysi, svo að eg mátti. ekki kyr vera; lítil klukka í stofunni og stóra klukkan í forsalnurj slóu báðar tíu, eg hugsaði mér, að hlaúpa nið- ur að hliðum, og sjá til hans koma, ef þykni drægi frá tungli. Hann væri víst á leiðinni og stytta mundi það biðina um nokkrar mínútur, ef eg skyldi mæta honum. Vindurinn dunaði hátt í hinum miklu trjám er vaxið höfðu hjá hliðunum, og hvergi sá til elskhúgans. Mér varð svo um, að eg tárfeldi, en þótti strax miður, að eg skyldi ekki reynast þolnari og þurkaði tárin. Eg beið, tunglið lukti að sér og sveipaðist reflum þykkra skýja, það dimdi að og svo fór að rigna. “Eg vildi óska að hann færi að koma! Eg vildi hann færi að koma!” veinaði eg, full af hugsjúkum kvíða. Eg átti von á honum fyrir kveldverð og nú var farið að dimma af nótt, hvað gat tafið hann? Ætli eitthvað hafi orðið að honum? Það sem fyrir mig hafði borið kveldinu áður, þótti, mér nú vera fyrirboði óhappa. Eg varð hrædd um, að vonir mínar væru of bjartar til að geta ræzt og eg hafði notið svo mikils unaðar að undanförnu, að nú setti að mér kvíða; gæfa mín væri svo mikil, að héðan af hlyti hún að réna. “Heim get eg ekki farið,” húgsaði eg, “eg get ekki setið við eld meðan hann er úti í óveðri, skárra er að þreyta limi mína en of- reyna hjartað; eg skal halda lengra og mæta honum.’ Eg lagði af stað, gekk hratt en ekki lengi; eftir hálfa bæjarleið eða svo heyrði eg hófaskelli, maður kom ríðandi á harðastökki og rakki með honum. Burt með ill hugboð! Hér var hann kominn, hann varð mín var og veifaði hattinum, en eg hljóp á móti honum. “Svona nú”, mælti hann og beygði sig niður með makkanum, “án mín geturðu ekki verið, nú er það auðséð. Stígðu á fótinn á mér og réttu mér báðar hendur: upp!” Eg gerði sem hann sagði. mér, létt og liðug af því að svo vel lá á mér. Fagnað var mér með rembings kossúm og kraumandi gorti, sem eg lét ekki á mig fá. Hann stöðvaði kæti- málin og spurði: “En er nokkuð að, Janet? fyrst þú kemur á móti mér svona seint? Hefir nokkuð komið fyrir?” “Nei, en eg hélt þú ætlaðir aldrei að koma. Eg gat ekki beðið innan dyra eftir þér, sízt í þessu óveðri.” “Og þú ert öll vot eins og hafmey; hérna, komdu undir yfirhöfnina mína. Eg held þú hafir hitasótt, Jane, þér er funheitt á höndum og framan í. Segðu mér, er nokkuð að?” “Ekkert að framar, hér er eg hvorki hrædd né vansæl.” “Hefirðu þá verið hvortveggja?” “Já, fremur það. Það skal eg segja þér alt saman seinna, og eg þori að segja, að þú gerir ekki annað en hlægja að mér.” “Eg skal hlægja dátt að þér, þegar morg- undagurinn er liðinn, eg þori það ekki fyr en eg er viss um sigurinn ^g sigúrlaunin. Þar ertu sjálf, og þú hefir verið hál eins og áll undan- farinn mánuð og þyrnum sett sem þyrnirós! Ef eg studdi fingri niður einhversstaðar, þá var dg stunginn, en nú virðist svo sem eg hafi munaðariaust lamb í fanginu. Þú reikaðir úr kvíunum til þess að leita að þínum hirði, er ekki svo, Jane?” “Vertu ekki svona montinn. Mig vantaði þig. Nú erum vi.ð komin heim, sleptu mér nú.” Eg hoppaði ofan á stéttina, John tók við hestinum en Mr. Rochester fylgdi mér inn, bauð mér að fara upp og fara í þurt, hverfa svo aftur til sín í bókastofu; þegar eg var komin að stiganum stöðvaði hann mig og fekk mig til að lofa því, að vera ekki lengi. Eg • kom niður aftur, eftir litla stund, þá sat hann að kveldverðar borði. “Fáðu þér sæti, og hressingu mér til sam- lætis, Jane. Ef guð lofar verður þetta næst seinasta máltíðin sem þú borðar í Thornfield Hall í langan tíma.” Eg settist hjá honum og sagðist ekki hafa lyst á mat. “Er það af ferðahug, Jane?’ “Eg veit varla hug minn í kveld, herra. Alt virðist vera á reiki.” “Nema eg. Stöðugúr er eg og verulegur — taktu á mér.” “Þú ert óverulegastur af öllu og líkastur sýnimynd; þú ert ekkert nema draúmur.” Hann rétti út hendina og sagði hlægjandi: “Er þetta draumur?” Höndin var þrekleg og kraftaleg og handleggurinn langur og sterkur. “Já, þó eg geti tekið á henni, þá er hún samt draumur,” svaraði eg, tók um hönd hans, sem hann hélt fyrir augunúm á mér, og lagði hana niður. Eg hringdi bjöllu og lét bera af borðinu, skaraði í eldinn, settist svo á skör við hné húsbónda míns. “Nú er komið að miðnætti,” sagði eg. “Já, manstu Jane, að þú lofaðist til að vaka með mér nóttina fyrir giftingar daginn?” “Svo gerði eg. Það heit skal eg efna, tvær stundir að minsta kosti, eða þrjár; mig langar alls ekki í háttinn.” “Ertu alveg búin að taka þig til?” “Já alveg, herra.” “Eg líka,” ansaði hann, “eg er búinn að ljúka öllu af, sem eg ætlaði mér; við förum af stað í fyrra málið ,undir eins og við komum úr kirkjunni. En hvað er að sjá þig, Jane, með rjóða bletti í kinnum og glampandi aug- um. Þú átt ekki vanda til þess, er nokkuð að?” “Ekki held eg.” “Heldurðu! Hvað gengur að þér? Segðu mér hvað þér finst.” “Ekki get eg það, herra; orðum er ekki hægt að koma að því, sem mér finst. Eg vildi að þessi stund líði aldrei; hver veit hvað sú næsta muni færa?” “Þetta er hugsýki, Jane. Þú hefir gengið fram af þér og orðið æst um of.” “Er þér rótt, herra, og sæll að öllu leyti?” “Rótt? Nei, en sæll er eg í instu hjarta rót.” Eg leit framan í hann, til að lesa þar merki sælu hans; hann var rjóður, með ákaf- lega fjörlegum svip. “Segðu mér eins og er, Jane,” mælti hann, “léttu á huga þínúm, ef einhver þungi liggur á honum, með því að láta mig vita. Hvað ótt- astu? — að eg reynist ekki góður eiginmað- ur?” “Það dettur mér sízt af öllu í hug.” “Kvíðirðu fyrir nýju stöðunni og ókunnu æfistarfi, sem þú átt í vændum?” “Nei”. “Þú gerir mér óvissu, Jane, þú talar í döprum ofdirfsku tón og svipur þinn segir til hins sama. Eg vil að þú segir skýrt til hugar þíns.” “Hlýddu þá til herra, þú varst að heiman í nótt leið?” “Veit eg það, og þú ympraðir á því áður, að eitthvað hafi komið fyrir á meðan eg var butu, ekkert stórkostlegt, vænti eg, en þó eitthvað, sem þér þótti miður. Lof mér að heyra það. Kannske Mrs. Fairfax hafi sagt eitthvað? eða þú hafir heyrt eitthvað til vinnu- fólksins? sem særði þína næmu virðingu fyrir sjálfri þér.” “Nei, herra”. Nú kom að miðnætti. Eg beið þangað til inniklukkan var búin að slá með silfurskærum tón og klukkan í forsalnum með djúpum, hásum gný, þá segi eg:— “Allan daginn í gær var eg sístarfandi og leið mæta vel eins og vant er, þegar eg hefi mikið að iðja; því að ekki ber eg neinn kvið- boga fyrir því sem í vændúm er: Mér finst það vera dýrðleg tilhugsun að mega dvelja með þér, af því að eg elska þig. Nei, láttu ekki vel að mér núna, lof mér að tala í næði. I gær trúði eg forsjóninni vel og treysti því, að alt færi vel, sem okkur áhrærði. Veðrið var gott og bjart og ekkert tilefni til að vera hrædd um að nokkuð yrði að þér. Eg gekk fram og aftur um stéttamar og hugsaði um þig, og eg sá þig í huganum svo nærri mér, að eg saknaði þess varla, að þú varst í burtu frá mér. Eg hugsaði um lífið sem framundan mér var — þína æfi herra, — æfiskeið miklú rýmra og fjörugra heldur en mitt: þar á svo mikill munur, sem sjórinn er dýpri en lækurinn, sem rennur í hann eftir beinum farveg. Eg furðaði mig af hverju siðamenn kalla þessa veröld eymdar dal og auðn, því að við mér blasti hún blómleg og fögur. Þessu næst komu brúðar klæðin og Sophie kallaði á mig upp, til að reyna þau, og undir þeim fann eg í stokknum slæðuna, sem þú lézt senda frá Lundúnúm; eg hugsa, að sú konunglega rausn þín hafi stafað af því, að þú vildir refja mig til að taka við því sem dýrt var eins og gimsteinar, úr því að eg hafnaði þeim. Eg rakti sundur slæðuna, brosandi, og hugsaði mér að stríða þér á þeirri ofrausn og þeirri viðleitni að fela alþýðu stúlku í brúðar- gerfi hefðarkvenna. Eg hugsaði mér líka, að bera ofan til þín þá höfuðgerfi, sem eg hafði búið til sjálf, á minn ættsmáa koll og spyrja þig, hvort sú hæfði ekki stúlku, sem hefði hvorki ríkidæmi, fríðleik né ættgöfgi, að færa mannsefninu. Eg sá glöggt hvemig þú mund- ir taka því og heyrði þín snöggu höfðingja | svör: að þú þættist ekki þurfa að auka auð- I legð þína né hækka stöðu þína, með því að I giftast digurri þyngju eða höfúðspöng.” “það er naumast, að þú kant að lesa í i huga mér, þú fjölkunnuga snót,” mælti Mr. Rochester, “en hvað fanstu í slæðunni, fyrir utan ísaumið? Eitur kannske eða rýting, | fyrst þú ert svona hrygg á svip?” “Nei, nei, herra; fyrir útan skrúðvirki og i dýrt efni fann eg ekki nema þótta og metnað I Fairfax Rochesters, en ekki hræddist eg það, I eg er vön við að horfast í augu við endemið. j En þegar dimdi, herra, í gærkveldi, fór að hvessa, en sá vindur var með öðru móti en nú blæs, ekki hátt og hrikalega, heldur með þrálátum, veinandi hvin, miklu ægilegri. Eg óskaði að þú værir heima. Eg kom hingað í þessa stofu, sá stól þinn auðan og hlóðin köld og hrökk út aftur, döpur í huga. Eftir að eg var háttuð, gat eg ekki farið að sofa, af ein- hvers konar æstum kvíða; veðrið óx og mér þótti sem eg heyra væl þjóta í storminum, hvort úti var eða inni, kunni eg ekki að greina, en hvenær sem vindi. slotaði milli hviða, heyrðist það ógerla en þó næsta ömur- legt. Á endanúm komst eg að þeirri niður- stöðu, að þetta væri hundur að spangóla ein- hvers staðar langt í butu, og var fegin þegar það hætti. Eftir að eg blundaði þótti mér enn vera hvast og dimt, líka að mig langaði að vera með þér og þótti sem einhver ókend fyrir- staða héldi okkur sundur. Eg þóttist vera á ferð eftir hringlagðri braut, í myrkri var eg og í rigningu og bar barn, vesalings barnunga, sem skalf í mínum kalda faðmi og veinaði í eyra mitt. Mér þótti sem þú, herra, værir langt á undan mér á þessari sömu braut og eg herti mig sem mest eg gat, að ná þér og reyndi hvað eftir annað að kalla til þín, en r komst varla úr stað og hljóðunúm kom eg ekki upp, en þig dró undan, æ meir og meir, fanst mér.” “Og þessir draumórar valda því, að illa liggur á þér Jane, þó að eg sé hjá þér? Sleptu ímyndunar volæði og hugsaðu aðeins um sælú sem er veruleg! Þú segist elska mig, Janet, já — eg skal ekki gleyma því, og þú getur ekki borið á móti því. Eg heyrði þau orð, skír og ljúf, ívið hátíðleg ef til vill, en sæt eins og söngur:—‘Mér finst það vera dýrðleg tilhugs- un, að mega dvelja með þér Edward, af því að eg elska þig.’ Elskar þú mig, Jane, segðu það aftur.” “Já, herra, af öllu hjarta.” Hann þagði við nokkra stund, segir svo: “Þó undarlegt sé, þá hafa þessi orð skotið mér trega í brjóst. Af hverju? Eg held helzt af því að þú sagðir þaú svo alvarlega, líkt og með trúar megni, og af því að þú horfir nú upp til mín með trygð, einlægni og ást í augum: j það er of líkt því, að andi sé mér riálægur. Settu upp óguðlegan svip, Jane — sem þ kant svo vel að gera, feimni bros, ótemjulegt og egnandi, segðu að þú hatir mig, stríddu mér, áreittu mig, gerðu hvað þú vilt, nema vekja mér trega; eg vil heldúr vera egndur til gremju en hrygðar.” “Eg skal stríða þér og erta þig eins mikið og þú vilt, þegar eg hefi lokið sögu minni.” “Eg hélt að sögu þinni væri lokið. Eg hélt eg hefði fundið upptök hugsýki þinnar í draumi.” Eg hristi höfuðið. “Hvað? er hún lengri? En eg skal ekki trúa, að hún sé merkileg. Eg vara þig við fyrirfram, að eg er vantrúaður. Haltu áfram.” Honum var nú brugðið, líkt og honum væri ekki vel rótt og væri snöggur í bragði af því hann væri smeikur. Eg varð hissa á þessu, en hélt áfram frásögninni. “Annan draum dreymdi mig, herra: að Thornfield Hall væri í rústúm, og uglur og leðurblökur hefðust þar við. Af hinum reisu- lega hlaðstafni þótti mér ekkert vera eftir, nema skel, afar há og brothættuleg. Innifyrir þótti mér gras gróa upp yfir marmara hlóð og niðurfallið veggja skraut. Enn bar eg bamið í sjali, ekki þekti eg það en þó fanst mér eg ómögulega mega leggja það frá mér, hvað þreytt sem eg varð í handleggjunum og hversu mikið sem það tafði ferð mína. Eg þóttist heyra hófaskelli í fjarska og vissi að það varst þú að leggja upp í margra ára ferðalag til framandi lands. Eg klifraði veggskelina óð og uppvæg, til þess að geta séð til þín, steinar losnuðu og hröpuðu, hríslur létu undan, þegar eg greip í þær, bamið hékk um háls mér, dauðhrætt, svo eg náði varla andanum. Loks náði eg upp á brún. Þá sá eg hvar þú fórst eftir hvítri braut og minkaðir óðum. Blástur- inn var svo mikill, að eg gat varla ráðið mér, eg settist á eggina og róaði barninu í fanginu; þú fórst í hvarf, eg teygði mig til að sjá til þín, veggurinn hrundi, eg tók viðbragð, barnið hrökk úr keltu minni og við það, að eg var að hrapa, vaknaði eg.

x

Heimskringla

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heimskringla
https://timarit.is/publication/129

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.