Heimskringla - 08.10.1941, Qupperneq 6
HEIMSKRINGLA
6. SIÐA
Sónur Öræfanna
Það varð kalt. Næturnar í Alaska eru
kaldar og hráslagalegar, jafnvel á sumrin, og
kuldinn nísti hann gegn um merg og bein.
Hann vafði sig enn betur inn í feldinn.
Hann reyndi að liggja grafkyr. Hann
þorði ekki að hreyfa legg né lið. Hann var
eins og villudýrið, sem liggur í bæli sínu.
Loks sigraði svefninn hann. Hjá þvi varð
ekki komist. Hann varð óttanum yfirsterk-
ari. Hann hvíldi von bráðara í miskunsöm-
um faðmi hvíldarinnar.
2. Kapítuli.
Næsta morguh fékk hann nýja grátkviðu.
“Mamma! mamma!” hrópaði hann út í auðn-
ina. Og vindurinn greip orðin og flutti þau
inn yfir mýrarflákana. En hreinarnir heyrðu
það kannske, lyftu höfðunum og hlustuðu. En
ekkert rauf einveruna annað en þetta óp og
kyrðin hjúpaði landið á ný.
“Hversvegna kemur hún ekki?” spurði
hann sjálfan sig. “Hvert gat hún hafa farið?
Hversvegna fór hún frá mér? Hann spurði
þessar spurningar og bar þær fram í orðum
og upphátt. En orðin létu einkennilega í
landi þagnarinnar, sem gaf honum ekkert
svar.
Hann var nú orðinn vondaufur að finna
hana, en samt skreið hann út úr loðkápunni
til þess að sjá hvort mamma sín hefði komið
um nóttina. En ströndin var auð og mann-
laus. Hann fann því ekki mömmu sína þar,
en hann fann annað. Hann sá sólina, sem
braust í gegn um fjarlæga skýbólstra og
skein yfir fjöllin.
Snjóbreiðurnar voru baðaðar í ljósrauð-
um lit, og gladdi það hjarta barnsins, svo að
hann gleymdi einstæðingsskapnum um
stund. Sú gleði stafaði ekki af ást á því sem
fagurt var, miklu fremur af meðfæddri eðlis-
hvöt. Tindarnir voru rauðir! Þeir voru hlý-
ir og bjartir, það var eins og þeir stæðu í ljós-
um loga, þeir voru eins og bjartur arineldur,
sem hann þráði inst í huga sínum. Þetta var
ekki dauðinn, heldur lífið. Sólin — sólin, sem
var farin að skína. Hann brosti einkennilegu
brosi, sem var einkeninlegt fyrir hann. Þetta
var fyrsta brosið sem hafði ljómað á andliti
hans, síðan hann kom í land auðnarinnar.
Sam litli hvarf fljótt til baka — aftur til
frumástands mannanna og ástarinnar til sól-
arinnar, sem ekki var nema eðlilegt. Seinna
um daginn, þegar hinir björtu geislar brut-
ust á ný gegn um skýin, hætti hann að leika
sér. Hann deplaði augunum og horfði á sól-
ina, og fann til þess sannleika, að þetta var
sá guðdómur, sem skóp daginn, að þetta var
sá eldur, sem rak hið hræðilega myrkur á
flótta.
Sólin minti hann einhvernveginn á móður
hans, þegar hún hafði vafið handleggjunum
utan um hann, þá var hann öruggur og hon-
um var hlýtt. Sólin gerði hið sama fyrir
hann, er hún skein á hann. Hann gleymdi
um augnablik einstæðingstilfinningunni og
hræðslunni. Hann breiddi út faðminn í eins-
konar tilbeiðslu.
En sólin hvarf brátt að skýjabaki. Hún
skín sjaldan lengi í landi auðnarinnar. Hin
reiðu rögn, er stjórna þar með aga og ótta
eru ekki sólskins elsk. Þegar sólin skin brjót-
ast allir þegnarnir undan oki þeirra. Hreinn-
inn lyftir höfðinu og hjarta öræfanna slæst
örar af gleði, en landvættimir þola enga
gleði. Þeir vilja hafa alt hjúpað myrkri, for- j
dæming, auðn og kulda.
Svo lítill hver spratt upp úr klöpp eitt-
hvað hundrað fet frá litla læknum, sem rann
hjá bátnum. Hverir eru mjög margir á þess-
um slóðum. Yfir hernum þyrlaðist grár gufu-
strókur. Eins og aðrir hverir á vesturveg-
um, var hann furðulegt fyrirbrigði. Vatnið
í honum var ekki nema fáeinar merkur, sjóð-
andi heitt, lygnt á yfirborðinu og gráblátt á
litinn, sem senriilega stafaði af einhverjum
efnum, sem það var blandað. í kring um
hverinn var blá hraunhella, sem heitt vatnið
streymdi yfir sí og æ. Fyrst í stað horfði
barnið á furðuverk þetta úr fjarlægð. En
smátt og smátt gerðist hann djarfari, nálg-
aðist hverinn og stakk fingrinum ofan í bláa
leirinn á klöppinni.
Þetta var ekkert heitt. Rétt þægilega
hlýtt. Leirinn var mjúkur að ofan, en neðan
grjótharður. Hann varð sennilega mjúkur
vegna áhrifa súrefnisins í loftinu. Sam fór að
teikna myndir i leirinn og fann brátt að þetta
var ágætis efni til að leika sér að. Til þess
að reyna hann betur skrifaði hann með litla
vísifingrinum sínum nafnið sitt í leirinn.
Var hann ekki sjö ára gamall, næstum
því fullorðinn maður! Hafði ekki móðir hans
kent hounm að skrifa og stafa nafnið sitt
rétt? Stuttu síðar stóð það þarna með skýru
letri: “Sam Moreland.”
Hver sem vildi gat fengið að sjá það
þarna. Þeir máttu það fyrir honum. Hann
var upp með sér yfir nafninu.
En brátt gleymdi hann þessu frægðar-
verki sínu og hugsaði aldrei framar um það.
Hann uppgötvaði samt að hverinn var mesta
þarfa þing. Er hann sat á klettinum fyrir
neðan hann lagði dálítinn hita á hann svo að
honum var ekki eins kalt. Hlýjan var bless-
un í þessu kalda landi og þessvegna sat hann
þarna lengi og notaði sér hana. Hann var
eins og svolítill konungur, í afskektu ríki og
á afskektu hásæti.
En Sam var ekki lengi einn. Seinna um
daginn kom lítill gestur gangandi á grönnum
fótum eftir mýrinni niður að ströndinni.
Gesturinn kom svo gætilega og hávaðalaust,
að hann var ekki nema fimtíu fet frá bátnum
þegar Sam varð hans var. Hann sat grafkyr
eftir að hafa borðað harð brauðið og grænu
blöðin, sem hann tíndi við lækinn. Hann var
að hugsa um sólina og það bar mjög lítið á
honum í hvítum sandinum. Annars hefði
gesturinn ekki farið svona djarflega, því að
þótt hann eftirtektasamur væri, sá hann ekki
mjög vel, er um dauða hluti var að ræða —
þannig eru flestir íbúar eyðimerkurinnar. En
nú stansaði hann alt í einu, lyfti einum fæt-
inum, og þeir horfðust í augu.
Sennilega komust báðir að rangri raun
um hverjir það væru, sem þarna höfðu fund-
ist. Sam hélt að gestur sinn væri hundur.
Hann var svipaður hundi, rauðbrúnn á litinn,
ferfættur, loðinn með langt og fallegt skott.
Sam hélt að þetta væri lítill hundur, eins og
litlu hundarnir, sem hann hafði svo oft leikið
sér við. En það er ómögulegt að segja hvað
gesturinn hélt um Sam. Sennilefa hélt hann
að hann væri bjarnarhúnn. Hann þekti svo
lítið birni, en menn alls ekki neitt. Sam hafði
sitið en nú reis hann á fætur og stóð á tveim-
ur fótum. Þetta gátu birnirnir líka gert.
Hann líktist birni í raun og veru í öllum
hreyfingum sínum, en þar sem vindurinn blés
af gestinum til drengsins varð ekkert sagt
um þetta með vissu.
En Sam var samt sem áður ekki neinn
björn, og gesturinn enginn hundur. Þetta
var rauður refur, sem hafði komið niður að
sjónum til að ná sér i miðdegisverð.
Sam gekk ósjálfrátt eitt skref í áttina til
dýrsins og það tók auðvitað til fótanna. Hann
kallaði, og það stansaði, en skakkaði svo á-
fram í ró og næði. Það var hljómur í rödd-
inni, sem hafði sefað ótta þess. Það langaði
ekkert til að koma nálægt drengnum, en inst
í huga sér fann það samt að ekkert var að
óttast af þessu litla dýri með hvíta andlitið.
Það hætti því að flýja og fór að leita sér að
fæðu. Barnið kallaði á það árangurslaust.
Eins og af ósjálfráðri eðlishvöt settist
drengurinn niður og var grafkyr. Þetta féll
refnum vel í geð. Hann var þarna í eina
klukkustund eða meira rétt hjá honum. Ref-
urinn komst brátt á þá skoðun að þetta væri
kjötæta eins og hann, og því óvinur, en ekki
hættulegur og brátt gleymdi hann Sam, leit-
aði sér að rpat og skokkaði svo leiðar sinnar.
Aftur seig myrkrið yfir jörðina og með
því kom hræðslan. Næsti dagur leið eins
og dagurinn áður. Sam át harða brauðið og
laufin, þegar hann var svangur, drakk úr
læknum þegar hann var þyrstur, svaf eða
skreið inn í feldinn þegar hann var syfjaður
eða kaldur. Refurinn kom aftur þennan dag,
og langt í burtu sá Sam hóp af skepnum,
sem hann hélt að væru kýr. Þau hlupu eftir
mýrarflákunum frámunalega yndislega. En
þetta voru ekki nautgripir, heldur hreindýr,
hin frjálsu börn heimskauta auðnanna.
Þessi dagur leið og svo hver dagurinn af
öðrum.
Hann lifði. Hann dró ekki fram lífið.
Hann horaðist ekki. Hann lifði í besta gengi,
en hvernig fór hann að því? Smábarn á
eyðiströnd þessari. Það var af þeirri ein-
földu ástæðu að enginn hafði svift hann líf-
inu. Menn deyja ekki úr einveru, jafnvel þótt
það séu börn. Efnablöndun sú og starfsemi,
sem lífið byggist á eða viðhald þess, halda
áfram hvíldarlaust á meðan ekkert hindrar.
Honum var heitt á nóttunum, árstíðin var
honum hagstæð, og fæðan sem var brauð og
kál dugði honum vel.
Sam eyddi tímanum á ýmsan hátt, lék
sér að einföldum leikjum eins og börn gera.
Lék sér við ímyndaða leikfélaga á ströndinni,
bjó sér til báta til að fljóta á læknum og at-
hugaði félaga sína, sem komu utan af öræf-
unum. Hann þvoði sér auðvitað aldrei, en
óhreinindi verða börnum ekki að bana. Hann
þráði alt af mömmu sína, var sú þrá sár og
sorgleg, og hann grét við og við, en hann kall-
aði ekki eins oft á hana eins og áður, og
vandist brátt á að vera án hennar. Hún lifði
ætíð í draumum hans, en á daginn hugsaði
hann frekar til hennar sem hugsjónar eða
symbóls en lifandi veru. Hún varð í hugsun
hans ímynd alls, sem var blítt og kærleiks-
rikt, alls sem var hamingjusamt og eftir-
sóknarvert. Hann sat stundum grafkyr og
ímyndaði sér að hún héldi sér í faðminum, en
hún kom ekki og einst í hjarta sér var hann
viss um að hún kæmi aldrei framar.
Hann var að mörgu leyti sami hægláti
og alvarlegi drengurinn og áður, en hvíta
andlitið hans var útitekið og augu hans höfðu
einkennilegan svip. Þótt hann þjáðist ekki í
raun og veru, var hann samt ekki eina stund
hamingjusamur, nema þegar hann var búinn
að vefja sig inn í loðkápuna. En hann var
I myrkfælinn á nóttunni, óttasleginn og óró-
legur á daginn og leið vegna einverunnar og
löngunarinnar eftir mömmu sinni.
En hann var ekki lengur eins og villu-
ráfandi. Hann mundi eftir strandinu, sigl-
ingu sinni í bátnum og hvernig hann komst
í land eins og menn muna óljósan draum,
en ekki eins og þætti hins raunverulega lífs,
en alt, sem áður hafði drifið á daga hans var
eins og þurkað út úr minni hans. Það var
eins og hinir hræðilegu viðburðir, sem komið
höfðu fyrir hann, hefðu að sumu leyti gert
'hann minnislausan, en ný tilvera, einkenni-
leg, daufleg og tilbreytingarlaus væri nú að
byrja. Þessi gleymska stafaði kannske af
því að hann hugsaði sama sem ekkert um
liðna æfi sína. Hugsun hans var alt af önn-
um kafin við hinn yfirstandandi tíma, sem
sýndi honum svo margt nýtt og einkennilegt.
Þar sem enginn var til að nefna seinna nafnið
hans, hvarf það smám saman úr minni hans.
Það var langt orð og fremur þýðingarlaust.
En hann mundi samt altaf muna að fyrra
nafnið hans var Sam.
Þegar kalt var eða rakt hélt hann sig
stöðugt hjá heita hvernum, vegna þess að
það var notalegra, en þegar rigndi skreið
hann inn undir bátinn og hjúfraði sig inn í
hina ástkæru loðkápu. Þegar stormurinn
æddi yfir ströndina var hann daufur í dálk-
inn, en hann var aldrei hræddur við hafið,
því að hversu sem hvast var gengu öldurnar
aldrei upp að bátnum. Litla lónið fyrir
framan hann hafði smátt og smátt fylst með
sandi og var það eins og flóðgarður fyrir
framan hann.
Hann gleymdi mörgu. Fjölskyldu sinni,
heimili og vinum — en í staðinn lærði hann
margt um frumatriði lífsins, það var alt satt,
en umfram alt lærði hann að elska sólina.
Sólin, sólin! Það er nafn sem hægt er að
flétta inn í mál bænarinnar. Það er ekkert
undarlegt að þetta nafn fer eins og hörpu-
hljómur gegn um alla Ijóðagerð norrænna
manna. Á norðurvegum er sólin öllum mönn-
um heilög. Sam vissi ekki að sólin er lind
lífsins, en ósjálfrátt skildist honum, að án
hennar hlyti hann að deyja.
Hann vissi að þegar sólin skein var hon-
um heitt, létt í skapi og að hann var öruggur.
En lang oftast sást hún ekki, og þá var hon-
um kalt og hann var hræddur. Landið var
yndislegt þegar gulu geislarnir böðuðu það.
Þá voru glóbjartir tindamir fögur sjón. Inst
í sái hans greru fræ að raunverulegum trúar-
brögðum, sem náðu þeim mun sterkara taki á
honum, vegna þess að þau voru eðlileg. Það
var einkennilegt að þessi litli einstæðingur
skyldi verða sóldýrkandi, en það varð hann
næstum því. Hjarta hans fyltist fögnuði í
hvert sinn og hann sá hinn mikla eldhnött,
og eitt skifti þegar sólin braust fram úr regn-
skýjunum, þá breiddi hann ósjálfrátt út faðm-
inn móti henni. Og í öðru sinni, þegar hún
skein á hann, þá bað hann hana í fullri al-
vöru að færa sér hana mömmu sina aftur.
Hann gleymdi smám saman lifnaðarhátt-
um mannanna, en í þess stað kyntist hann til
fullnustu lifnaðarháttum dýranna í kring um
sig. Villudýrin komu nú fleiri og fleiri niður
að ströndinni hans. Þau voru fljót að átta
sig á því, að þau þurftu ekki að óttast litla
einstæðinginn, sem sat í sandinum, og þau
fundu það líka að hann var ekki hræddur
við þau.
Hann reyndi aldrei að elta þau eða drepa
þau, en sat grafkyr og horfði á þau, og þótt
þau gætu eigi felt sig við lyktina af honum,
vöndust þau henni smám saman. En hin
gæfustu þeirra leyfðu honum samt aldrei að
koma nálægt sér.
Þessi kunningsskapur hans við dýrin var
ekkert yfirnáttúrlegt fyrirbrigði, heldur eðli-
leg afleiðing af sambúð hans við þau. Eng-
inn getur sitið hreyfingarlaus eina stund úti
í skógi, án þess að eitthvert vilt dýr sjái hann,
og drengurinn var þarna lengur en í klukku-
stund, var þar dögum og vikum saman. Hann
var ekki fullorðinn maður, heldur barn. —
Hvort dýrin fundu þetta eða ekki, verður
ekki sagt með neinni vissu, en margt ólík-
legra kemur fyrir í frásögum manna úr skóg-
unum.
í kring um bústað hans fanst engin
reykjarlykt og aldrei sást þar eldur, sem öll
dýr óttast. Hann var alveg eins og þau að
þessu leyti. Hann veiddi þau ekki né sveikst
að þeim úr launsátri til að svifta þau frelsinu.
Þau horfðu á hann dag eftir dag, og kvöld
eftir kvöld sáu þau hann skríða inn í þetta
einkennilega skjól sitt, og þannig vöndust
þau honum. Þeim varð sama um nærveru
WINNIPEG, 8. OKT. 1941
hans, en samtt féll þeim illa að hann horfði
beint á þau, og þess vegna vandist hann að
láta sem hann sæi þau ekki. Þegar ókunn-
ugt dýr kom niður að ströndinni, dýr sem
hann hafði aldrei séð áður, reyndist honum
best að sitja grafkyr, annars kom það ekki
nær honum. Brátt komst hann að raun um að
vindstaðan hafði áhrif á spekt dýranna. Hann
vissi auðvitað ekkert um mannaþefinn, sem
vindurinn ber til dýranna, en eftirtekt hans
var næm — eins og flestra barna, og hann
tók eftir því, að þegar vindurinn blés á móti
honum, en ekki frá honum, virtustu þau þora
að koma nær honum .
Refur kom næstum daglega og kom með
maka sinn með sér. Það voru vingjarnleg,
lítil dýr og fjörleg. Stundum hlupu þau hlið
við hlið eftir sandinum og léku sér — aðeins
fáein fet frá honum. Þau þutu um og geltu
af gleði er sólin skein á þau. Þau léku sér
frámunalega liðlega og fallega. Einu sinni
snemma morguns sá hann þau dansa hinn
ógleymanlega skugga dans. Það er sjón sem
hver dýravinur mundi gefa ár af æfi sinni
til að sjá.
Sæfuglarnir hvíldu sig á ströndinni hans,
og hann lærði að greina þá að. Máfarnir
voru þar algengastir. Þeir görguðu og flug-
ust á, og eftir stuttan tíma var þeim alveg
sama um hann. Þeir skemtu honum með
hinu fimlega flugi sínu, og fegurðargleðin var
vakin j hjarta hans. Síðar komu strandgæs-
irnar, sem allra fugla eru styggastar og urðu
aldavinir hans. Þær virtust vera frámuna-
lega heimskar, með langa hálsinn, sem var
teygður áfram, en í raun og veru voru þær
dásamlega skynsamar; og þegar þær höfðu
kynst honum, leyfðu þær honum að ganga
inn í hóp sinn og"þær átu brauðmolana, sem
hann gaf þeim. Hann sat langar stundir og
hlustaði á þvaðrið í þeim, og hló að þeim
þegar þær vöppuðu um með sínu hlægilega,
hátignarfulla látbragði. Honum þótti ekki
nærri eins vænt um örn, sem hafði bygt sér
hreiður þar nálægt. Hinn stóri fugl gargaði,
er hann sá hann og hnitaði hringa í loftinu
yfir honum á mjög ískyggilegan hátt.
Hann þekti sædúfurnar og andirnar, ritj-
ur og kríur, en honum þótti vænst um rjúp-
urnar af öllum landfuglum. Þær voru altaf
tvær og tvær saman, haninn var allur marg-
litur en hún grábrún. “Farðu burtu! Farðu
burtu!” æptu þau til hans, og honum fanst
það fögur sjón að sjá þau smjúga gegn um
loftið á fleygiferð og sitjast á snjófönnina í
fjallinu. Hann heyrði oft raunalegt og aum-
ingjalegt væl eins og það væri hvíslað gegn
um loftið. Honum fanst að þetta væri rödd
auðnarinnar sjálfrar, og það leið á löngu áður
en hann fann það út, að þetta hljóð stafaði
frá spörfugli einum, brúnum að lit með gylt
höfuð. Það var eins og rödd hans segði:
“Skammastu þín, skammastu þín!”
Stóru, gráu hérarnir, sem áttu heima
langt uppi í landinu, komu oft niður í fjöruna;
en þótt þeim félli vel við Sam litla var þeim
illa við refina. Þegar hinir rauðu bræður
dönsuðu í sandinum héldu þeir sig í burtu.
Einu sinni heimsótti broddgöltur hann,
en það var og daufgert og heimskt til að
skifta sér af honum. Sam vissi ekki hvað
það hét, en hann kallaði það “nálarnar” og
ekki að ástæðulausu. Annað dýr, sem var
dálítið stærra en “nálarnar” var ennþá ófé-
lagslyndara. Það var ljót og loðin skepna,
sem hentist áfram á klunnalegu stökki. Það
hafði lítil og íllúðleg augu, sem loguðu af
hatri til allra lifandi skepna. Þegar barnið
mætti því í fjörunni hvæsti það og fitjaði
upp á trýnið svo að sást í hvassar tennurnar.
Þeir horfðust í augu um stund. Dýrið
virtist vera fjandsamlegt, en Sam virtist að
loftið kólna í kring um sig. Iskaldur hrollur
fór um hann, og.hárin risu á höfði hans. Það
var eitthvað skelfilegt og óhemjulegt í svip
dýrsins. Það var ekki eins og aðrir viltir
vinir hans, en æðisgengið og heiftúðugt.
Hann opnaði munninn til að æpa og hreyfði
sig til þess að flýja og fela sig í loðkápunni.
Þessi dimmi eldur í augum dýrsins var hræði-
lega íllúðlegur. Hann elskaði sólarljósið, en
þetta voru geislar dauðans.
Það var ekki vegna þess að hann fyndi
ekki til hættunar að hann stóð kyr, ekki var
það heldur vegna hugrekkis. Hann óskaði
einskis frekar en að flýja og fela sig, eitt-
hvað sem hann vissi ekki hvað var hélt hon-
um rígföstum.
Hann var ekki máttlaus af skelfingu, en
gripinn af tilfinningu, sem var mikið rót-
grónari og dásamlegri. Það var hin með-
fædda eðlishvöt. Hann hafði þessa fyrstu
vikur lifað og^breytt eftir henni, sem er eðli-
barna að gera: þegar þau fá að ráða. Rödd
hennar varð skýrari með hverjum deginum.
Hann hafði eigi neina þroskaða reynslu eða
vitsmuni til þess, hann fór eftir eðlisávísun.
Hún sagði honum nú, að eina lífsvon hans
væri ekki sú að flýja. Hann var maður og
varð að treysta á meðfædda yfirburði manns-
ins yfir dýrum merkurinnar og fuglum him-
insins.