Lögberg - 26.08.1954, Side 6

Lögberg - 26.08.1954, Side 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 26. ÁGÚST 1954 -----_-- ----—V GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DALALÍF ........... .............. r En það fór eins og það fór. Hún kaus sér annað en hann hafði verið búinn að hugsa sér. Það dugði ekki að ætla sér að skammta henni úr hnefa eða ætla henni hálfan hvalinn. Hún var stórlát kona, sem varð að fá allt eða ekkert. „Allt eða ekkert“, sagði hann hálfhátt við myrkrið í kringum sig. Hún hafði einu sinni sagt við hann: „Bara að þú verðir ekki þreyttur á hennar elskulegu keipum!“ Það hafði honum fundizt fjarstæða, en nú var það komið á daginn. Hann var orðinn þreyttur á sambúðinni við hána, þessa góðu konu, sem allir dáðust að og þótti vænt um. Hann fann það, að hann ætlaði að fara að sofna, þótt honum væri ónotalegt. Hann fann eldspýtur í vasa sínum og kveikti. Vegglampinn, sem venjulega hékk yfir borðinU, var þar nú ekki. Hann varð að reyna að finna Borghildi. Hún hlaut að vera með lampann frammi. Hann fálmaði fyrir sér fram úr eldhúsinu, eftir niðdimmum, köldum göngunum og inn í gamla eldhúsið.'Þar voru stúlkurnar í slátri. Þórður og Siggi sátu á kössum á gólfinu. Þar var starfað og hlegið. Hann kastaði kveðju á fólkið. „Nei, ertu kominn?“ sagði Þórður. „Hvar er Fálki?“ „Hann er kominn inn í hesthús. Ég þóttist finna, að þú hefðir gefið honum eins og vant er. Hann var líka þreyttur. Færðin var afleit. Það væri gott, af þú vildir fara með vatn til hans“. Þórður tók vatnsfötu og fór út með hana. „Svo langar mig til að fá eitthvað að borða, Borga mín. Konan er háttuð, og frá af höfuðverk, segir Ketilríður". „Ég er nú ekki tilkippileg, á kafi í blóðtroginu“, sagði Borg- hildur. „Lína mín, þú ert svo hrein. Taktu til matinn handa honum; súpan er volg á vélinni, og hérna er heit lifrarpylsa“. Lína tók vegglampann, sem tilheyrði eldhúsinu, og fór inn með húsbónda sínum. Borghildur varð að notast við týruljósið. Lína hengdi lampann á þilið og fór að athuga hvort súpan væri nógu heit. Hún bætti á eldinn, tók disk og hnífapör og lagði á borðið. Hún tók þá eftir því, að hann varþreytulegur á svipinn. „Ertu eitthvað lasinn?“ spurði hún. „Nei, ég er aldrei lasinn, Ég er bara þreyttur og hálfónota- legur. Stelpuvesalingurinn þarna hjá lækninum fann hvergi utan- yfirsokkana mína, svo að ég varð að leggja upp í einum sokkum, og snjóinn tróðst ofan í skóna, því að ég varð að ganga til þess að halda á mér hita, og svo hef ég ekki sofnað síðan í fyrrinótt“. „Ekki sofnað síðan í fyrrinótt?“ spurði hún alveg hissa. „Hvernig stendur á þessu?“ „Auðvitað var verið að drekka, spila og rússa í alla nótt“, sagði Jón. „Sízt er að furða, þó að þú sért þreyttur. Blessaður, farðu að hafa þig úr bleytunni. Ég skal ná í sokka og skó. Hún hljóp inn í baðstofuna og kom fljótlega fram aftur með sokka og inniskó. Hann var ekki kominn úr plöggunum, hafði aðeins náð öðrum skónum. „Nei, þetta gengur ekki. Ég get ekki leyst þvengina. Það er kominn á þá rembihnútur“. Hún var fljót að leysa rembihnútinn og draga af honum sokkana. Svo þurrkaði hún honum um fæturna og klæddi hann í þurra sokka. En hvað hún var fljót að þessu, og hvað henni var hlýtt á höndunum, þegar hún tók á köldum fótum hans. „Þú ert bara farin að stjana við mig,'Lína. Þú verður góð kona; gaman fyrir þann, sem fær þig“. „Auðvitað ætla ég að verða það“, sagði hún og tók lampann af þilinu, fór með hann inn í búrið og sneiddi niður rúgbrauð og slátur. Hún hafði sneiðarnar þunnar og raðaði þeim fínlega. Hann gekk um gólf frammi í myrkrinu til þess að fá hita í fæturna. Hún bar diskana fram á borðið. Nú var bara eftir að láta súpuna á diskinn. Hún ætlaði að sækja lampann og fara með hann fram fyrir. En þá var hann allt í einu kominn inn í búrið, fast að hlið hennar, og sagði um leið og hann blés ofan í glasið: „Þetta er orðið ágætt, Lína mín, og svo kyssirðu mig nokkra kossa til sælgætis“. Hann tók undir hökuna á henni með annarri hendinni, en hinum handleggnum vafði hann utan um hana. Hún saup hveljur af undrun. „Láttu ekki heyrast í þér. Kerlingarfjandinn er á vakki“, hvíslaði hann milli kossanna. Og hann taldi: „Einn, tveir, þrír“. En þeir urðu miklu fleiri, mjúkir, vínlyktandi kossar. Þau heyrðu, að einhver kom inn í eldhúsið. Lína hélt niðri í sér andanum og þorði ekki að hreyfa sig. Þetta var Þórður. Hann fór að leysa af sér skóna og kastaði þeim á blikkplötuna fyrir framan eldavélina. Svo fór hann úr utanyfirfötunum og hengdi þau á nagla nálægt vélinni. Hann gat vel gert þetta í myrkrinu, en samt tautaði hann eitthvað um þetta þremilins myrkur. Þá datt eitthvað úr fötunum á gólfið. Helzt var hægt að hugsa sér að það væri brýni eða hnífur, það var svo þungt. Hann þreifaði eftir gólfinu, en fann víst ekki það, sem hann hafði misst. Þá tók hann eldspýtustokk og kveikti. Eldspýtan logaði eina sekúndu, rétt fyrir framan búrdyrnar, datt svo á gólfið, og myrkrið varð jafn- dimmt og áður. Fótatak hans fjarlægðist og hvarf inn í bað- stofuna. Stundu seinna kom Borghildur inn í eldhúsið og spurði eftir Línu. Jón sat við borðið og nú var glaðaljós. „Hún hefur víst farið inn í baðstofuna, býst ég við“, svaraði hann. „Var súpan orðin köld?“ spurði hún. „Nei, hún var ágæt“. „Lína hefur víst haldið á rýjupokunum með sér inn“, sagði hún og svipaðist um. „Nú, þarna liggja þeir þá“. Hún tók þá af vélinni. Svo beygði hún sig niður og tók hvítskeftan sjálfskeiðung upp af gólfinu og lagði hann á borðið. „Þarna er hnífurinn hans Þórðar", sagði hún. En Lína hafði ekki farið inn í baðstofuna. Hún stóð inni í ljóslausu búrinu og skalf af kvíða fyrir einhverju, sem ennþá var hulið í framtíðinni. TRÚLOFUNARSAGA Lína átti að vaka yfir sláturpottinum og aðgæta að syði í honum. Síðan átti hún að færa keppina upp úr, þegar soðið væri. Hún var eins og á nálum og hélt sig frammi í hlóðaeldhúsinu. Henni fannst eins og hún væri sek um eitthvað, sem allir hlytu að sjá, ef hún færi inn í baðstofuna. Þó hafði hún ekkert gert. Ekki gat hún gert að þessari vitleysu, sem húsbóndanum hafði dottið í hug. Hún gat varla hugsað sér, að það hefði verið annað én draumur. En því var nú ver, að það var veruleiki. Hún var svo lánsöm, að hún var búin að búa um rúmin inni, svo að hún gat setið óáreitt yfir pottinum. Hún var búin að ná sér í sögubók til að lesa í, áður en þessi ósköp dundu yfir. En nú gat hún ekki lesið eina einustu línu. Hugurinn hafði annað að starfa. Eldspýtan, sem logaði við búrdyrnar, varð að fyrirferðarmiklum viðburði. Skyldi Þórður hafa litið inn í búrið. Á því valt mikið, mpira en hún gat ímyndað sér. Kannske öll hennar framtíð. Það var hálft annað ár síðan þau Þórður höfðu trúlofazt. Það voru því engin undur, þó að hún væri óróleg og kvíðin yfir því, ef hann hefði litið inn í búrið. En hún vonaði, að svo hefði ekki verið. Hugurinn hljóp aftur í tímann og rifjaði upp trúlofunar- sögu þeirra. Hún var ósköp algeng og látlaus, eins og venjulegt er í sveitinni. Það var indælt góðviðriskvöld, þegar allt heimilis- fólkið var á heimleið frá Seli. Þar hafði það verið að taka upp mó allan daginn, því að mótakið var miklu betra þar en á Nautaflötum. Selsáin var í vexti. Þórður bauðst til að bera fólkið yfir hana, svo að það þyrfti ekki að bleyta sig í fæturna, þýí að grafirnar voru vatnslausar. Ketilríður hafði sýnt dugnað sinn eins og fyrri og klætt sig úr sokkunum og vaðið yfir fyrst af öllum. Lína varð seinust. Hana sundlaði, þegar hún leit ofan í kolmórautt vatnið, og hélt sér utan um hálsinn á Þórði. Hitt fólkið hélt áfram. Þau urðu ein eftir. Áður en hann sleppti henni á bakkanum hinum megin kysti hann hana einn koss og sagði: „Minna finnst mér það ekki mega vera en að þú kyssir mig fyrir að koma þér yfir ána, fyrst þú ert svona hrædd við hana“. Svo settist hann niður og klæddi sig úr breytunni og vatt sokkana. Hún hellti vatninu úr skónum og vatt leppana. Þá bar hann þessa þýðingarmiklu spurningu upp svona alveg formála- laust: „Viltu verða konan mín, Lína? Ekki strax. Þú ert svo ung ennþá. En svona einhvern tíma. Þú þarft ekki að svara mér núna; þú mátt hugsa þig um lengi“. Þetta var líkt Þórði. Hann var svo stilltur og rólegur. Hún varð svo hissa, að hún gat ekki sagt neitt nema: „Ja, ég veit ekki. Ég er svo alveg hissa“. „Já, það er auðvitað“, sagði hann. „En þú mátt hugsa þig um“. Svo gengu þau heim á eftir hinu fólkinu. Og hún hugsaði mikið um það næstu daga, hverju hún ætti að svara honum. Það er mikill vandi fyrir unga stúlku á nítjánda ári að svara bónorði manns, sem hún hefur eiginlega ekkert út á að setja og er álitlegt mannsefni. Þar að auki hafði henni alltaf fallið sérlega vel við hann. En samt hikaði hún. Óneitanlega var hann miklu eldri en hún, líklega svona ellefu til tólf árum. Hana langaði svo mikið til að spyrja einhvern ráða. Foreldrar hennar voru langt úti á Strönd. Hún gat ekki beðið um hest og tíma til að heimsækja þau, því að hún hafði fengið hest um hvítasunnuna og skeiðriðið út eftir, og svo stóð ullarþvotturinn fyrir dyrum. Henni þótti það ekki ólíklegt, að þau vildu láta hana trúlofast. Hún hafði heyrt þau telja það lán, ef fátæk stúlka giftist manni, sem átti eitthvað til að búa við. Það var ekki nema eðlilegt, að fátækir foreldrar vildu láta dætur sínar giftast sem fyrst, svo að þær yrðu ekki heimilinu til þyngsla, ef þær yrðu heilsulausar eða ættu krakka í lausaleik. Hún vissi, að þau hugsuðu svona. Hún hafði svo oft heyrt á tal þeirra, þegar hún var að koma heim. Seinast í vor hafði henni heyrzt á föður sínum, að honum fyndist hún vera orðin nógu gömul til þess að fara að líta eftir þeim þarna frammi í dalnum. Hún hafði náttúrlega hlegið að honum. Ekkert var fjær henni en að hugsa svoleiðis. Samt þóttist hún vita það, að hún myndi einhverntíma giftast eins og flestar aðrar stúlkur. Og Þórður hafði alltaf verið ákaflega hlýlegur við hana og aldrei strítt henni eða hrekkt hana eins og Siggi. Þó var Siggi langt frá því að vera slæmur, og henni var frekar vel við hann. Stundum datt henni í hug að ráðfæra sig við húsmóðurina, en hvarf frá því jafnharðan. Hún var alltaf svo ráðalaus sjálf, að það var ólíklegt að hún gæti hjálpað öðrum. Svo gat það líka verið, að hún segði manni sínum það, og þá kannske stríddi hann henni á því eða segði Þórði það. Þeir voru svo miklir vinir. Seinast afréð hún að tala við Borghildi, þegar þær voru að þurrka ullina. Samt sagði hún henni ekki, hvernig á stóð, heldur spurði: „Heldurðu að hann Þórður verði efeki góður við konna sína?“ „Ég held nú svo sem ekkert um það, sem ég veit“, svaraði Borghildur. „Það verða allir menn góðir við konuna sína, sem hafa verið góðir við hana mömmu sína, og það var hann. Við höfum nú verið hérna hlið við hlið allan hans aldur, svo að ég þekki hann vel. Hann er gæðapiltur. En hvers vegna spyrðu svona, Lína mín? Er það eitthvað sérstakt, sem kemur þér til þess?“ „Ónei, nei“, sagði Lína og fór hjá sér. „Mér datt þetta svona í hug, af því að ég sá hann þarna úti við stekkinn”. Borhildur brosti bara og sagði: „Þú skalt ekki hugsa þig tvisvar um, ef hann fer þess á leit við þig að verða hans“. Svo var það ekki meira. Borghildur talaði ekki um það aftur. Hún hafði sjálfsagt litið á þetta eins og hverja aðra markleysu. En Lína hugsaði sér að segja „já“, ef hann talaði um það aftur. Það var þó óneitanlega þægileg tilhugsun, að eiga góðan og duglegan mann til að styðjast við allt lífið út í gegn. Hann var þar að auki vel efnaður. En það leið svo einn dagurinn eftir annan, að hann minntist ekki á þetta við hana. Hún bjóst við, að hann hefði sagt þetta að gamni sínu. Ullin var orðin þurr og búið að láta hana í stóra poka, sem höfðu verið bornir heim að neðsta fjárhúsinu í túninu. Daginn, sem átti að flytja hana, var Lína að sauma fyrir opin á pokunum, og hugsa um það, hvað Þórður væri undarlegur, að fara að spyrja hana að þessu, sem hann hafði ekki meint neitt með. Þá kom hann allt í einu heiman frá bænum með stóra kippu af band- beizlum á handleggnum, sem hann ætlaði með ofan á stekk, þar sem hann hafði verið að raka af hrossunum og járna þau. Jakob og Dísa voru að leika sér að því að stökfeva ofan af fjárhúsveggnum. Dísa var busaleg og hafði sig sjaldan langt. En Jakob hentist langt út fyrir alla pokana. Hann hló að Dísu, sem flatmagaði á pokunum, þegar Þórður kom til þeirra. „Dísa kemst aldrei yfir pokana. Hún er svo rög og hikandi“, sagði hann við Þórð. „Þú ættir að fara ofan á stekkinn og sjá folaldið hennar Glóu. Það er bleikur hestur. Þú átt að fá hann fyrir reiðhest“. Er hann fallegur?“ spurði drengurinn áhugalítið. „Á ég líka að fá reiðhest?“ spurði Dísa. „Ekki heyrði ég talað um það“. Krakkarnir hlupu af stað ofan túnið, en Þórður settist á hús- vegginn, rétt hjá Línu, og spurði: „Hefurðu nokkuð hugsað um það”, sem ég talaði um við þig um daginn, þarna hjá Selánni?“ „Já, ég hef hugsað mikið um það“, sagði hún og kafroðnaði. „En ég var farin að halda, að þú hefðir verið að segja það bara svona að gamni þínu“. „Ég er ekkert bráðlátur maður“, sagði hann. „Hvað heldurðu að þú segir svo, loksins þegar ég er kominn til að hlusta á þig- Ætlarðu að hryggbrjóta mig?“ „Nei, ég ætla ekki að gera það“, sagði hún. Þá tók hann hana í faðm sinn og kyssti hana marga kossa. Svo hljóp hann af stað með beizlin á handleggnum. Síðan var liðið hálft annað ár, og enginn, nema Ketilríður, hafði veitt þvi eftirtekt, að neitt væri öðruvísi en það hafði verið áður með þeim. Hún sá allt, sú manneskja, eða svo fannst Línu. En fólkið tók ekkert mark á því, sem hún sagði. Oft hafði Þórður gefið Línu ýmislegt glingur úr kaupstað, sem hún faldi allt niðri í koffortinu sínu, nema ein ósköp falleg skæri með gulllituðum augum. Þau hafði hún uppi við. „Þetta eru stássleg skæri, þau hafa víst verið dýr. Mig langar til að fá mér svona skæri“, sagði Borghildur, þegar hún sá þau í fyrsta sinn hjá henni. „Ég veit ekki hvað þau hafa verið dýr. Pilturinn minn gaf mér þau“, sagði Lína og roðnaði af feimni yfir því að hún skyldi tala svona opinbert. „Ja, hvað er nú að heyra? Fór hann nú að gefa þér skæri. Hann hefur víst ekki heyrt hvað það boðar?“ „Boðar það nokkuð sérstakt?“ „Þau klippa í sundur tryggðartaugarnar, skæra-skammirnar“, sagði Borghildur og hló að þessari gömlu hjátrú. „Þær eru nú sterkari en svo, að þær verði klipptar í sundur“, sagði Lína. Hún vissi, að Borghildur tæki þetta eins og hvert annað gaman. Hún var ekki eins og flest annað kvenfólk. Hún var ekki að ímynda sér, að fólk væri í sífelldu ástamakki. Sjálf hafði hún aldrei verið við karlmann kennd, og þó var hún myndarleg í sjón og reynd, og þar að auki ágætismanneskja; eins bjóst hún við að aðrir gætu komizt af í lífinu. Þau gátu sjaldan verið ein út af fyrir sig að sumrinu til; en það þykir öllu trúlofuðu fólki svo æskilegt. En það er ekki þægi- legt á margmennu heimili. En að vetrinum til var fólkið færra. Þá sat hún oft í fangi hans frammi i. eldhúsinu, þegar aðrir sváfu i rökkrinu, og hlustaði um ráðagerðir hans um búskapinn. Hann langaði helzt til að búa í Selinu. Þar var svo fallegt, og þar var alltaf hægt að hafa nýjan silung og hita kaffið við hrís frammi á hlóðum, eins og mamma hans hafði gert. Og hún fylgdist með þessu öllu saman. Hún ætlaði að verða sparsöm húsmóðir, en láta þó allt líta svo hreinlega út í litla bænum sínum. Hún var oft búin að hita morgunkaffi við hrís a hlóðunum og hella.á könnuna, fara út og kalla til hans, þar sem hann var einhvers staðar við vinnu sína. Og hann sagði svo, þegar hann kom heim og bauð henni „góðan dag“ með kossi: „En hvað lyktin er góð af reyknum hjá þér, góða mín. Alveg eins og hja mömmu“. Bústofninn var ekkert mjög lítill. Hann átti margar kindur og ein sjö hross. Hún gat lagt til sex ær og eitt hross, sem ennþá var ótamið. Anna Friðriksdóttir hafði gefið henni nýkastað folald fyrir það, að hún var svo heppin að finna giftingarhringin» hennar einu sinni þegar hún hafði mist hann í þvottavatn og hellt honum út. — Þetta voru miklu fleiri skepnur heldur en foreldrar hennar bjuggu við, og gátu þau þó framfleytt sjö manna fjöl- skyldu. Svona lagaðar ráðagerðir hafa verið hugþekkt umræðu- efni milli karls og konu, sem ætla að lifa saman alla ævina í ást og eindrægni og aldrei að skilja, fyrr en dauðinn kæmi og sliti i sundur þessi viðkvæmu kærleiksbönd. Á jólunum áttu hringarnir að koma. Það var ekki nema einn mánuður þangað til. Það var ómögulegt, að nokkuð gæti komið fyrir, sem breytti þeirri ákvörðun, ekki einu sinni það, þó Þórður hefði litið inn í búrið meðan eldspýtan logaði. Honum þótti svo vænt um hana, að hann hlyti að láta sem ekkert hefði komið fyrir. En samt var henni órótt. Hún mundi eftir því allt i 1 einu, að þegar hún ætlaði í fyrsta sinn til spurninganna fram a® Kárastöðum, var hún kvíðin yfir því, að hún yrði sér líklega til skammar á kirkjugólfinu, en það þótti heldur ómyndarlegt. f f c%lí „Bara að eg vissi, hvort eg kann spurningarnar a morgun. hafði hún sagt við spunakonuna, sem þeytti rokkinn inn á rúminu hennar. „Spurðu tilviljunina", sagði hún. „Hvernig er það?“ hafði Lína spurt. „Taktu eldspýtustokkinn þarna og farðu út ok kveiktu a spýtu. Ef hún brennur út upp að fingrinum á þér, þá segir hun „já“, en ef hún slokknar strax, þá segir hún „nei“. Lína lét ekki segja sér það oft, heldur hljóp út og kveikti a spýfu í skjóli við bæinn, og eldspýtan brann upp að fingrunum a henni. Eítir það varð hún rólegri, og spurningarnar kunni hun daginn eftir. Síðan trúði hún á það, að spyrja „tilviljunina“. Það var víst ekki svo skakkt, að gera það núna, kveikja a eldspýtu úti, fyrst öll hennar framtíð valt á einni eldspýtu. Hun tók lampann og bar hann fram í göngin, þau voru svo geigvsen- lega dimm. Þar setti hún hann á meðan hún var að opna bæinn- Lokan var svo köld, að hún brann til brunaverkja í fingrunum- Úti var logn, en kuldi, sem læsti sig gegnum fötin, svo að henni la við skjálfta. En samt kveikti hún á eldspýtunni. Ljósið logaði sV° sem eina sekúndu, svo dó það. Hún kveikti aftur, og í þriðja. sinn- Það var eins og frostharkan hrifsaði burtu þetta litla líf, um lel og það varð til. Hún fór vonsvikin inn og lokaði bænum.

x

Lögberg

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.