Lögberg - 13.09.1956, Blaðsíða 6

Lögberg - 13.09.1956, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 13. SEPTEMBER 1956 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF „Þetta er fallega sagt, Borghildur“, sagði presturinn og klappaði mjúklega á það herða- blaðið, sem að honum sneri. „Þakka þér fyrir þessi orð“. Þá hnykkti Borghildur til höfðinu og sagði: „Ef þér dettur í hug að ég segi þetta til þess að geðjast þér, þá er það misskilningur. Þetta er bara mín hjartans fullvissa“. Svo reigsaði hún fram úr húsinu. Presturinn hristi höfuðið. „En sá kuldi og gikksháttur, sem hún temur sér. Þó hefur hún hlýju til. Því hef ég tekið eftir, þegar hún er að tala við börnin — ekki einungis Jakob, heldur þau vandalausu. Svona, góða mín, nú skulum við syngja: „Þá eik í stormi hrynur háa“. Það á vel við. Eflaust hafa hnjúkarnir hérna í dalnum látið eitthvað til sín heyra, þegar hún féll frá, hún Lísibet heitin". Hún söng og spilaði, en hann tók undir. „Þetta er ekki orðinn nokkur söngur“, sagði hann áfsakandi. „Sú var tíð, að ég hafði falleg hljóð“. „Þú hefur skemmt röddina með drykkju- skapnum. Það gera allir. Heldurðu ekki að þú gengir í stúku, ef hún yrði stofnuð hérna? Ég er alltaf að vona, að svo verði, og þá vona ég líka, að Jón geri það fyrir Jakob og mig að ganga í hana. Ég hugsa að þú hefðir orðið meiri láns- maður, ef þú hefðir ekki drukkið“, sagði Anna einlæglega. „Vel líklegt, barnið mitt“, sagði hann hlýlega. „En nú er ég búinn að slá út flestum trompunum, og það eina, sem kemur mér í verulega gott skap, er vínið. Ég vona, að undir áhrifum þess fái ég að sofna út af“. Svo vék hann talinu að öðru: „Ósköp er fallegt hárið á þér, góða mín. Hafði hún móðir þín svona fallegt hár?“ „Já, hún hafði víst mikið hár. Ég man það náttúrlega ekki vel, því að hún vafði það upp á höfuðið og gekk á kjólbúningi". „Það hefði verið óviðeigandi að hafa ekki svona fallegt hár fléttað". „Fóstra mín hefði víst ekki orðið ánægð, ef ég hefði ekki verið á íslenzkum búningi“. „Hvað varstu gömul, þegar þú misstir for- eldrana?“ „Tíu ára“. „Og þá sótti Lísibet þig og Jón gaf þér for- eldrana með sér. Var það ekki fallega gert?“ „Jú, óneitanlega var það“, svaraði hún, „því að betri foreldra var ekki hægt að kjósa. En þá komst ég líka að í þakkarskuld, sem aldrei hefur verið goldin. Og þú þekkir það kannske, séra Hallgrímur, að það er álitið, að skuldu- nautunum megi bjóða allt“. „Þetta máttu ekki segja, væna mín. Þú hefur sjálf sagt mér, að enginn hafi minnzt á allsleysi þitt, þegar þú komst hingað. Nú áttu indælan mann og indælt barn og hefur góða stöðu. Því getur konan aldrei verið ánægð? Þú þyrftir að hafa rýmri sjóndeildarhring — sjá kjör annarra kvenna, sjá austur að Gunnarsstöðum, þegar hús- móðirin þar er að leysa heysáturnar, bera saman í sætin og hvað eina. Mig svíður sárt, þegar ég hugsa til þess hlutskiptis, sem hún hefur hlotið, og ber það saman við það, sem ég sé á þessu heimili og víða hér í sveitinni, þar sem efnahag- urinn er góður. Og nú skulum við taka eitthvað fjörugt lag til þess að hressa okkur upp, eins og til dæmis „Ég berst á fáki fráum“, því að nú verður ekki langt þangað til ihaður sezt á hestbak“. Anna hikaði við að spila, en samt gerði hún það. Henni var það ógeðfellt að hugsa til þess, að allur þessi hlýleiki og glaðværð væri sprottið af tilhlökkuninni um að komast í kaupstaðinn og drekka sig fullan. En meira undraðist hún yfir því, að hann skyldi geta minnzt á það, að hann hefði verið svona fátækur og þurft að bjóða kon- unni annað eins og hann hafði gert. „Ef ég væri svona vesöl, skyldi ég ekki minnast á það við nokkurn, sízt þá, sem ekkert þekktu til“, hugsaði Anna. Presturinn þakkaði henni fyrir skémmtunina og fór fram. Nokkru seinna kom hann inn uppá- búinn, nýrakaður og hafði greitt snyrtilega það litla, sem eftir var af hári hans. Hann brosti hýr- lega til Jakobs um leið og hann settist nálægt honum. „Finnst þér karlinn ekki vera dálítið líkur pabba, þegar hann er búinn að laga sig til?“ spurði hann hreykinn og strauk yfir hár hans. Jakob brosti: „Ég veit ekki. Hendurnar á þér eru eins og á pabba“. „Og augun og nefið alveg eins“, vældi Dísa. „Ja, sko hana, litla skinnið, svona er hún skarpskyggn, þó að flónsk sé“, sagði presturinn. „Nú þarftu ekki að ná í klárinn minn í dag“, bætti hann við. „Jón kemur með hann“. „Það er nú gott“, sagði Dísa. Þá varð Borghildur svo hláleg að leggja orð til: „Það er tæplega hægt að segja, að það sjáist ættarmót með ykkur Jóni“. • Þá fokreiddist presturinn á svipstundu: „Allt- af ert þú eins í minn garð, Borghildur“, sagði hann. „Það er ekki hægt að nefna það öðru nafni en ótuktarhátt“. „Hvað hef ég nú gert af mér?“ spurði hún hissa. „Hvað — hvað? Hvað var það, sem þú meintir? Þú áttir við, að það væri skömm fyrir Jón að vera líkur mér, vegna þess að ég er ekki lengur ungur eins og hann“. „Ég hef aldrei sagt það. Þú snýrð bara út úr því, sem ég sagði“. „Það var það, sem þú meintir. Ég sá það á augunum í þér. Þú getur ekki hugsað til þess að ég líkist Jóni, af því að þér þykir vænt um hann, enda er hann þér góður eins og öllum öðrum“. Jakob var staðinn upp og ætlaði að fara út. „Þú gerir Jakob hræddan, Hallgrímur“, sagði Anna. „Hann er óvanur því að heyra orða- sennur“. „En þær kreddur. Hvað svo sem skyldi verða úr þessum unglingi, þegar hann kemur út í lífið, úr því svona er hlúð og dekrað við hann í æsk- unni? Hann þolir víst ekki mikið af þeim kulda, sem heimurinn hefur upp á að bjóða. Seztu, góði minn, ég ætla hvorki að bíta hana eða rífa, þessa frú, þó að hún kasti til mín hnútum og þeim ókroppuðum“. En þá snaraðist Borghildur fram. „Það er líklega bezt að það verði ég, sem fer, fyrst prest- urinn þarf að taka þetta svona, sem ég sagði“, sagði hún um leið og hún fór. Dísa skríkti af hlátri. „Þetta skemmtir henni, litlu ókindinni. Það er ekki gott upplag í þessum krakka. Það muntu reyna seinna“. „Hún er þæg við mig, anginn litli“, sagði Anna hógvær. Hún ætlaði að reyna að forðast orðakast, ef hægt væri. Prestinupi rann líka reiðin fljótlega og fór að tala við Jakob: „Ætlarðu aldrei að gera það fyrir mig, vinur minn, að kalla mig afa? Það er svo miklu skemmtilegra en að segja frændi“. „Ég veit ekki“, sagði Jakob lágt. „Kannske einhvern tíma“. Honum fannst presturinn svo ólíkur sögunum, sem honum höfðu verið sagðar af Jakobi afa. Leiðinlegast af öllu var þó, að hann skyldi taka í nefið. „Hann hefur aldrei lært að segja „afi“, bless- aður drengurinn minn“, sagði móðir hans. „Það var nú meiri mæðan, hvað þeirra naut stutt við, pabba og mömmu“. „Já-já“, samsinnti presturinn. „Þetta voru dyggða- og sómamanneskjur". „Svona talar hann núna“, hugsaði Anna. Presturinn fór nú að ganga út og inn, óþolin- móður eins og unglingur, sem.á að fá að fara á skemmtun. „Mér þykir Jón minn koma seint. Því- lík Vinnukergja að taka ekki allan daginn til að skemmta sér“, tautaði hann. Loksins kom sá lang- þráði með hestinn prestsins í taumi. Þá lyftist brúnin á gamla manninum. Nokkru seinna riðu þeir úr hlaði. „Svona á þetta að ganga um hverja helgi, eftir því sem presturinn sagði. Er það ekki hræði- legt?“ andvarpaði Anna við Borghildi. „Ég skil nú varla, að hann eigi langt eftir, karlinn“, sagði Borghildur kæruleysislega. „Þetta er orðið skjálfandi skar“. „Hamingjan góða, ef hann ætti nú það erindi hingað — að deyja“, sagði Anna kvíðandi. „Hann sagðist hafa komið til þess. En við skulum engu kvíða. Allt fer þetta einhvern veg- inn“, sagði Borghildur. PRESTURINN KVEÐUR DALINN Jón kom heim á sunnudagskvöldið, en prest- urinn hafði farið út á Strönd. „Hann tollir aldrei heima“, sagði Anna raunamædd. „Honum leiðist fámennið, og svo eiga þau illa lund saman, Borghildur og hann. Þetta lagast þegar slátturinn er úti og fólkið fer að verða meira við heimilið“. Nú liðu tveir dagar. Borghildur og Anna voru ánægðar yfir því, að presturinn var fjarverandi. Seinni daginn kom drengur neðan úr kaupstað með símaboð til prestsins. „Það er þarna að austan, þar sem hann á heima“, sagði pilturinn. „En nú er hann ekki heima. Hann fór út á Strönd. Sjálfsagt kemur hann við á Ósnum, þegar hann kemur utan að“, sagði Borghildur. Drengurinn fór fljótlega aftur. Seint um kvöldið kom presturinn. Hann var innilega glaður og heilsaði konunum með mestu virktum. „Bærilega gekk nú þessi túrinn“, sagði hann. „Það er nú meiri gestrisnin í þessari sveit. Hann tók mér vel, hann Vagn karlinn í Múla. Við vorum góðkunningjar hér á yngri árunum. Svo gisti ég á Kárastöðum hjá prestinum síðast- liðna nótt. Og seinast stanzaði ég í slægjunni hjá nágrannahjónunum hérna fyrir utan. Þau voru þarna rétt við veginn. Sú þykir mér geta tekið á hrífunni, konan sú. En hún hefur tekið niður fyrir sig með hjónabandið. Þetta er myndarkona, en hann er hálfkauðalegur, en sjálfsagt duglegur. Það er gott með góðu og illt með illu“. Svona var ferðasagan hjá prestinum, „Hvenær skyldi það nú geta talizt illt að vera duglegur?“ spurði Borghildur. „Ja, jú-jú, það getur orðið of mikið. Það er oft anzi mikill gustur af þessu duglega fólki. Það hefur það til að setja olnbogana í þá, sem fara hægar“. Hann leit ertnislega til Borghildar. „Fljótlega ætlaði hann að byrja“, hugsaði Anna. Hún flýtti sér að koma í veg fyrir meiri samræður. „Komstu við í kaupstaðnum á heim- leiðinni, séra Hallgrímur?" spurði hún. „Nei, ég fékk ágæta samfylgd hérna fram að Hjalla“. „Það kom piltur með símaboð til þín. Hann hélt að það væri að austan“. „Hana nú, hvað svo sem skyldi það vilja mér annað en að jagast um einhverja skuldina. Gott að vera svo langt frá því, að það nær ekki til mín. Ég fer þá líklega ofan eftir á morgun“. 1 Næsta morgun, þegar Anna vaknaði, var sól- skinslaust og dimmt upp yfir. Hún leit út um gluggann. Það var niðdimm þoka heim á tún, og út úr þokuveggnum komu þau Jakob og Dísa með hrossahóp á undan sér. Hvað átti að fara að gera — binda? Nei, það gat ekki verið. Það var orðið svo framorðið, að fyrsta ferðin hefði verið komin heim. Það var eitthvað annað. Borghildur opnaði hurðina og kom inn: „Jæja> þú ert þá vöknuð. Ég ætlaði að fara að vekja þig- Presturinn er að fara — hann langar til að kveðja þig“. „Er hann að fara?“ spurði Anna. „Hvað hefur eiginlega komið fyrir?“ „Það kom hingað maður með símaboðið i morgun, þegar ég var nýlega komin á fætúr. Það var búið að leita að honum út á Strönd. Konan hans liggur fyrir dáuðanum". „Guð komi til! Liggur hún fyrir dauðanum og vill hún sjá hann áður en hún deyr?“ „Það þykir nú viðkunnanlegra að láta hann vita það, ef hann gæti komizt heim áður en hún dæi“.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.