Lögberg - 20.09.1956, Page 6

Lögberg - 20.09.1956, Page 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 20. SEPTEMBER 1956 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF „Guð, hvað þetta voru leiðinlegar fréttir", sagði Anna. Hún fann nú ekki til þeirrar ánægju, sem burtför prestsins hefði veitt, ef öðruvísi hefði staðið á. „Er hann kominn á fætur?“ „Hann bíður ferðbúinn. Það hefur staðið á hrossunum. Þau fundust ekki strax vegna þok- unnar. Hann er alveg eyðilagður, vesalings maður- inn. Það gleymist nú allt missætti, þegar dauðinn ber að dyrum“. Anna fór að klæða sig. Hún fann til titrings fyrir hjartanu við þessar fréttir. Það er alltaf geigvænlegt að heyra dauðann nefndan, einkan- lega þá, sem hann hefir hrifsað jafnmarga ástvini frá og henni. „Hann hefir elzt um tíu ár á einni nóttu“, datt henni í hug, þegar presturinn kom inn nokkru síðar og bauð henni góðan daginn. Þvílíkur munur að sjá hann nú eða kvöldið áður, þegar hann var að segja þeim frá ferðalaginu út að Múla og heim aftur. „Þetta er sorglegt að heyra, séra Hall- grímur“, sagði hún samúðarfull. „Já, þetta er ekki lengi til að vilja. Maður er alltaf óviðbúinn, þó að maður viti að hún er alltaf að nálgast, þessi kalda hönd dauðans. Þó vonar maður, að það sé langt þangað til hún hremmir mann og að það sé óhætt að láta geðofsann ráða orðum og athöfnum, særa þá, sem manni eru ná- tengdastir“. Hann gekk um gólfið fram og aftur, meðan hann talaði, eins og hann þyldi ekki að standa kyrr. Hún sá að það var óstyrkur á hönd- unum og röddin titraði, þegar hann hélt áfram: „Alltaf í allan morgun klingja fyrir eyrum mínum síðustu orðahnippingarnar okkar hjónanna, morg- uninn sem ég kvaddi heimilið. Guð veit, hvort mér auðnast að sjá það aftur. Hún sagði við mig: „Er það alvara þín að fara að flækjast norður 1 land og setjast upp hjá bráðókunnugu fólki því til armæðu?" Hún hefði nú, blessuð konan, getað talað notalegar til mín. En svona er það, þegar kærleikann vantar í sambúðina. Og ekki var þá svarið hlýrra frá mér: „Það ætla ég að gera og vona, að vandalausir kvelji mig ekki eins og þú hefur gert og gerir enn. Vonandi fara tækifærin að fækka, sem þér gefast til þess“. Svona talar maður, þegar skynsemin víkur fyrir geðofsanum. Finnst þér það ekki hræðilegt, að jafnvel þó að frelsar- inn stæði við hlið manns og byði manni að slíðra sverðið, þá gerði maður það ekki? Og nú er hún kannske dáin“. „Við skulum vona, að þú eigir eftir að sjá konuna þína lifandi og sættast við hana“, sagði Anna. * ; í „Töluð orð verða ekki aftur tekin. En ef ég kæmi nógu snemma, skyldi ég reyna að fá þau fyrirgefin. Og ef hún yrði frísk aftur, skyldi ég tala öðru vísi til hennar. Ég skal minnast þess, hvernig hreppstjórinn á Nautaflötum talar til konunnar sinnar. Guð gefi að svo verði. Þá hefði ég ekki farið erindisleysu hingað norður, ef ég gæti breytzt eitthvað til batnaðar. Og nú, barnið gott, ætla ég að gefa þér heilræði, sem ég hef al- drei getað haldið. Réttu fram höndina til sátta, meðan það er ekki um seinan. Þú ert góð og guð- hrædd kona. Búðu ekki saman við þinn góða mann í kulda og kæruleysi. Minnztu þeirra launa, sem þeim eru heitin, sem friðinn semja. — Og nú er ekki annað eftir en að kveðja — kveðja dalinn í þriðja og síðasta sinn. Ég hef alltaf verið gestur í þessum fagra dal, en ætíð þráð að festa hér rætur. Líklega fæ ég ekki þá ósk mína uppfyllta frekar en aðrar, að hvíla hér í kirkjugarðinum“. Hann gekk út að glugganum og horfði út. „1 gær var ég glaður og dáðist að hvað heimurinn væri fagur. Nú er syrt að. Ég er hryggur og kvíðandi, en úti er niðdimm þoka. Samt bjarmar af sól gegnum þokumökkinn. Allt talar-þetta sínu máli. Þetta er spegilmynd framtíðarinnar. Ef það syrtir meira að, býst ég ekki við góðum fréttum að heiman. — Og nú verð ég að fara, barnið mitt. Þakka þér fyrir, hvað mér hefur liðið vel hérna hjá þér“. „Ég kem út á hlaðið“, sagði Anna. Borghildur kepptist við að útbúa nesti í tösk- una gestsins, þegar þau komu fram. „Ekki er það uppnefni, þó að þú sért kölluð „sú umhyggjusama“ hérna í sveitinni“, sagði presturinn, þegar hann sá, hvað hún starfaði. „Þvílík alúð“. „Hún er alveg eins og mamma“, sagði Anna. „Þeir fara varla að gefa sér tíma til að stanza víða, en matarlystin er heldur lítil, sýnist mér“, sagði Borghildur. Presturinn tók í hönd Borghildar og þrýsti hana innilega: „Vertu sæl og þakka þér fyrir allt gott mér auðsýnt“. Svo bætti hann við: „Ég vona, að allar þessar orðahnippingar, sem voru náttúr- lega meinlitlar, séu gleymdar“. „Áreiðanlega“, sagði hún og bætti við óskum um góða ferð. Jón stóð ferðbúinn á hlaðinu, þegar kona hans kom út í dyrnar. Svo að hann ætlaði þá með prestinum. Það hefði hún nú líka mátt vita, að hann léti ekki gamla manninn fara einan, svona aumlegan útlits. „Svo að þú ferð með honum og kannske alla leið austur á land?“ sagði hún, þegar hann hafði boðið henni góðan daginn. „Ef ég fæ ekki góðan fylgdarmann með honum einhvers staðar á leiðinni, geri ég það. Þú skalt ekki undrast yfir því, þótt ég verði lengi“, svaraði hann. „Og ætlið þið með alla þessa hesta?“ „Ekki veitir af því — leiðin er löng“. „Hann gerir það ekki' endasleppt, blessaður drengurinn hann Jakob“, sagði presturinn við Önnu, „hann er búinn að leggja hnakkinn minn á Bleik sinn, svo að mínir hestar geti hlaupið lausir. Þetta verður indæll maður, eins og foreldrarnir“. Önnu fannst átakanlegt, hvað gamli maðurinn var viðkvæmur, þegar hann kvaddi Jakob. Svo kvaddi hann hana með þessum orðum: „Vertu sæl, kona góð! Þakka þér fyrir þennan stutta samverutíma. Líklega eigum við ekki eftir að sjást aftur í þessu lífi“. „Enginn getur sagt, hvað fram undan er, séra Hallgrímur“, sagði Anna. Hún fann, að það var kurteisisskylda að þakka honum samveruna, en hún vildi ekki heita hræsnari og þess vegna lét hún það ósagt, en óskaði honum góðrar ferðar. Svo stigu ferðamennirnir á bak. Presturinn tók ofan hattinn áður en hann reið úr hlaði og bað guð að blessa heimilið. Anna horfði á eftir þeim með augun vot af tárum, þangað til þeir hurfu inn í þokuna. Þá andvarpaði hún mæðulega: „Guð minn! Hvað þetta var sorglegt, að hann fór svona hryggur". Jakob stóð þétt upp við hana. „Hann sagði pabba, að hann kæmi aftur, ef konan hans yrði dáin, þegar hann kaemi austur“, hvíslaði hann. ,.Ég vildi að hún yrði ekki dáin, en hann kæmi samt. Hann var góður við mig“. Þá kom Borghildur út^úr dyrunum. Þar hafði hún staðið og horft á eftir frændunum. „Það má segja, að það er sorglegt, þegar óreglan gerir vel gefna menn að þessum auðnuleysingjum. Þetta þótti þó efnilegur maður hér á árunum“, sagði hún. En Dísa var reið yfir því, að presturinn hafði aðeins klappað henni á kollinn, en kysst Jakob þessi ósköp. „Pabbi þurfti vísjt ekkert að fara með honum — og Jakob þurfti ekki að lána honum Bleik“, rausaði hún. „Ég vildi að hann kæmi aldrei aftur, svo að ég þyrfti ekki sífellt að vera að sækja klárana hans“. Nú greiddist þokan sundur og sólin skein dauft gegnum úðann. Þarna sást til ferðamann- anna á eyrunum fyrir neðan Hvamm. Svo hurfu þeir aftur.------- Heimilið var hljóðlátt þennan dag. Anna gat ekki hugsað um annað en það, sem komið hafði fyrir um morguninn. Hún myndi aldrei gleyma gamla manninum og því, sem hann talaði við hana inni í hjónahúsinu. Vegna hvers hafði hann þurft að berast inn á heimilið og dvelja þar þrjár vikur henni til talsverðrar armæðu? Reyndar hafði hann oft verið skemmtilegur, ekki var annað hægt að segja, en samt hefði hún viljað gefa mikið til þess, að hann hefði aldrei komið þangað. Hún hafði verið óþolinmóð, það fann hún vel, og óskað þess oftlega, að hann færi, en nú fannst henni það samt svo átakanlega sárt að sjá hann fara svona beygð- an og kvíðandi hverfa út í þokuna, eftir að hann var búinn að biðja drottinn að blessa heimilið, sem henni fannst hafa veitt honum kalda gest- risni. En kannske hafði honum ekki fundizt það sjálfum. En það var Jón, sem gat verið rólegur. Hann hafði hreint og beint leikið við gamla mann- inn. Og þó að hún hefði litið það dálæti hornauga, varð hún að játa það fyrir sjálfri sér, að hann hefði eins og svo oft áður verið stórtækari á út- hlutun mannkærleikans en hún sjálf. Það liðu þrír langir dagar, þangað til Jón hreppstjóri kom heim. Hann sagði þær fréttir, að presturinn hefði frétt gegnum símann að konunni liði betur. „Við þá frétt fór hann að hressast, svo að hann treysti sér fylgdarlaust, það sem eftir var“. En Anna fann það, að manni hennar var brugðið. Hann var fátalaður og gerði sjaldan að gamni sínu, meðan setið var yfir kvöldmatar- borðinu, sem var eina máltíðin, sem borðuð var heima. Og eiginlega sá hún hann aldrei allan dag- inn nema þá og svo þegar bindingsdagar voru. Gott var, að nú leið senn að sláttulokum. Þa myndi lifna yfir heimilinu, þegar fólkið færi að borða heima. Hún hlakkaði til þess að heyra glað- væru málæðissuðuna í Gróu og hlátrasköllin 1 Steina. Hvenær skyldi maðurinn hennar verða glaður og spaugsamur, eins og hann hafði alltaf verið áður en hún missti heilsuna var bezt að orða það? Hún spurði hann að því einu sinni, þegar hann var að hátta, hvort hann væri eitt- hvað lasinn. „Nei, ég er stálhraustur, eins og ég hef alltaf verið. Þakka þér fyrir umhyggjuna“, svaraði hann alveg eins og það væri alókunnug manneskja,. sem hefði spurt um líðan hans. Einu sinni spurði hún Borghildi, hvort hún gæti ímyndað sér að Jón saknaði prestsins af heimilinu. „Það þykir mér ólíklegt“, svaraði Borghildur. „Annars get ég ekki um það dæmt, en hann er ákaflega óglaður síðan hann kom heim“. „Mér finnst nú, Borghildur, að við höfum verið helzt til kuldalegar við gamla manninn stundum. En það gerði vínið. Mér fannst það óþol- andi að hann væri að hafa Jón með sér um hverja helgi til þess að drekka“. „Það er ekki gott að vera hlýleg við þá, sem eru jafnþreytandi og hann var. Það verða víst allir leiðir á þeim manni“, sagði Borghildur. „Ekki þó Jón“, svaraði Anna mæðulega- „Honum þótti víst áreiðanlega vænt um hann‘ • „Hann var orðinn þreyttur á honum fyrir löngu, þó að hann léti það aldrei í ljósi. Það var nú ekkert skemmtilegt fyrir Jón að sækja hann a aðra bæi, þegar hann kom heim þreyttur af engjunum“, sagði Borghildur. „En maður getur ekki losnað við umhugsunina um það, hvað svona menn eru miklir einstæðingar í lífinu“. LÁT SÉRA HALLGRÍMS Það var komið fram undir veturnætur. Haustið hafði verið framúrskarandi votviðrasamt og vmdanfarna þrjá daga hafði rignt. Birtan var stutt, en næturnar langar. Anna húsfreyja sat ein inni í hjónahúsinu að kvöldi til. Jakob var sofnað- ur. Hún var farin að eiga bágt með svefn og þunglyndið sótti að henni á ný. Síðasti fjárreksturinn hafði verið rekinn til islátrunar þennan morgun, en nú var liðið nð háttatíma og þeir ókomnir heim, maður hennar og Steini. Þórður hafði þurft að leita kinda — þesS vegna var hann heima. Borghildur opnaði hurðina og sagði: „Viltn ekki koma fram fyrir til okkar, góða? Við erum hér með aukasopa“. „Ég er eitthvað svo hrædd og kvíðandi og var að hugsa um að fara að hátta, þó að ég búist ekki við að geta sofnað“, sagði hún, en kom þó fram 1 baðstofuna.

x

Lögberg

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.