Lögberg - 13.12.1956, Blaðsíða 6

Lögberg - 13.12.1956, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 13. DESEMBER 1956 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF Þetta ætlaði að ganga ákjósanlega. í eldhúsinu var funheitt ennþá og ákjósanlegur staður að öllu leyti, nema ef einhver kynni að hafa heyrt til hennar og færi að grennslast um ferðir hennar. Hún var fljót að finna eldspýtur og kveikja — Þær voru alltaf á sama stað hjá Borghildi eins og allt annað. Hún opnaði veskið með titrandi fingr- um. Það var troðfullt af sendibréfum — Ameríku- bréfum. Hvernig gat staðið á þessu? Hún hafði oft séð hann fá þessi bréf í póstinum. Jón sagði að þau væru frá pilti, sem hefði flutzt vestur frá Ásólfsstöðum, þegar þeir voru unglingar. Hann hafði heitið Ólafur. Hvað svo sem gat henni komið það við, hvað hann var að skrifa Jóni? Hann hafði mikið við þessi bréf að geyma þau í læstu veski. Nú hafði hún hlaupið laglega á sig, en samt ætlaði hún að líta á eitt þeirra. Það hlyti að vera eitthvað merkilégt í þeim fyrst þau voru svona vandlega geymd. Hún tók eitt þeirra — það var efst og leit út fyrir að það væri nýlegt. Hún tók það úr umslaginu og leit á upphafið. Hvað var þetta? Þarna stóð: Elsku pabbi minn! Hafði hann látið bréfið frá Jakobi þarna? var það fyrsta, sem henni datt í hug. En sú fjarstæða! Þetta var ekki skriftin hans. Var hann þá faðir annars sonar? Reyndar vissi hún ekki ennþá, hvort það var sonur. Það gat alveg eins verið dóttir. Hún gætti að undirskriftinni. Hjalti stóð þar. Nú byrjaði hún að lesa. Þetta var ákaflega elskulegt bréf frá barni til föðurs. Þar var þakkað fyrir sendingu. Ójá, það var svo sem ekki verið að skera við neglurnar á sér við þennan lausaleikskróga, þó það væri nú. Stolið frá hennar barni, sem átti þetta allt með réttu. Svívirðilegt athæfi! Og hann var í skóla og lét vel yfir því að sér gengi vel. Þótt hann gæti lært eitthvað, var það sízt þakkarvert, fannst henni. Hún tók alla bréfahrúguna úr veskinu og byrjaði á elztu bréfunum, sem voru illa skrifuð og stutt. í sama umslaginu var langt bréf frá Fanneyju Helgadóttur, móðursystur Jóns. Hún gumaði af því að sonur hans væri duglegur að læra og yfirleitt mjög elskulegur drengur. Nú fór hún að skilja. Þetta var fallegi fóstursonurinn hennar, sem hún hafði sent Lísibetu systur sinni myndina af, sem alltaf hékk frammi í stofunni. Hún hafði sjálf dáðst svo oft að þessum dreng og fundizt hann líkjast Jakobi, sízt var að furða. Hún grúskaði í bréfunum, en lét þau samt ekki ruglast. Skriftin varð læsilegri eftir því, sem þau urðu fleiri. Og þarna kom mynd. En hvað dreng- urinn var fallegur. Hún varð að játa, að hann var ekki síður fallegur en hennar eigin sonur. í öllum bréfunum var kveðja frá Fanneyju mömmu, en- hvergi var minnzt á hans raunverulegu móður. Hver skyldi hún vera? Hún leit yfir hvert einasta bréf og loksins fann hún eftirfarandi: „Ég hef verið hjá mömmu minni um tíma. Hún á heima langt í burtu. Maðurinn hennar er kaupmaður. Þau eiga eina dóttur, svo að ég á bæði bróður og systur, þó að langt sé á milli þeirra. Mamma sagði mér margt um dalinn hennar fallega heima á ís- landi, og svo sagði hún að þú hefðir átt svo fallega hesta. Ég ætla að koma, þegar ég er orðinn fullorðinn, og sjá þig og dalinn. Þá sé ég líka Jakob bróður minn. Ég hlakka mikið til“. hafði alltaf verið leikinn skollaleikur í kringum hana, erf hún hafði ekkert séð út yfir barma gler- skálarinnar. „Ef hún skyldi nú einhvern tíma brotna, skálarskömmin“, hafði hún sagt, „þá sérðu margt“. Já, hvað sagði hún Hildur á Ásólfsstöðum? Þarna kom ráðning gátunnar. Hjalti var auðvitað föðurnafnið hennar. Mikið var þetta allt and- styggilegt! Hún fór að letjast á að lesa þessi bréf. Þarna var mynd af honum í fermingarfötunum. Þrátt fyrir gremjuna, sem fyllti huga hennar, gat hún ekki annað en dáðst að því, hvað hann var fallegur og hvað bréfin voru hlý og góð. JafnVel Jakob hefði ekki getað skrifað elskulegri bréf. Hún raðaði þeim í veskið sem líkast því, sem þau höfðu verið. Það var þó nokkuð merki- legt að uppgötva þetta eftir öll þessi ár. En eitt var víst og það var, að heimilisánægjan og hjóna- bandssælan, sem ríkt hafði hér nú í hálft þriðja ár, færi sjálfsagt út um þúfur. Engin manneskja gat liðið annað eins og þetta. Hún skyldi ekki verða vægari í viðskiptunum en í fyrra skiptið. Það fyrsta, sem hún skyldi gera honum til leið- inda, var að brenna öll þessi ástríku bréf og myndirnar upp til agna. Bara að hann gæti horft á bálförina. Það væri svalandi hefnd. Hún tók ketilinn af eldinum. Glóðin var orðin að grárri ösku, en það var hægt að brenna bréfin fyrir því. Ef hún hellti í þau steinolíu, myndi loga upp í rjáfur — kannske kvikna í bænum. Það væri víst ekki illa viðeigandi að kveikja í bænum með þess- um æskusyndum hans. En hvaða álit og dóma myndi hún hljóta af heimilisfólkinu og allri sveitinni, ef hún kveikti í bænum og léti það þjóta klæðlaust út um hánótt og missa aleigu sína, og hún sjálf missti allt, sem henni hafði þótt vænt um. Náttúrlega gat það líka komið fyrir, að ekki yrði þægilegt að komast út, ef kviknaði í eld- húsinu. — Hræðilegar hugsanir voru þetta, sem ásóttu hana. Líklega brjálsemiskennd. Hvað skyldi Jakob fóstri hennar hafa sagt, ef einhverjum hefði dottið í hug annað eins og þetta? Hún gat brennt bréfin í smáviskum í vélinni og látið ketil- inn yfir hólfið á meðan logaði. En hvar var nú olíudunkurinn? Hún leitaði alls staðar að honum inn í búrinu, en fann hvergi. Líklega var hann fram í gamla eldhúsinu. Þangað varð að fara í gegnum koldimm, ísköld göngin. Nei, það gat hún ekki gert. Og nú heyrðist henni einhver um- gangur fyrir framan hurðina. Hún fékk megnan hjartslátt. Hér var hún alein og enginn nærri. Hún læsti veskinu og þreif lampann, en þorði ekki að slökkva. — Almáttugur! Nú var baðstofuhurðin opnuð og Borghildur birtist í dyrunum á nátt- treyjunni og millipilsinu. „Hvað er að þér góða, mín — er þér illt?“ spurði hún. „Því situr þú hér ein frammi?“ „Ég var bara að fá mér vatn. Mér leið svo illa“, svaraði Anna, sárfegin nærveru hennar, þó að hún sæi að Borghildur athugaði það, sem hún var með í hendinni. „Hvað ertu að gera með þetta?“ spurðu augu hennar. Anna blés ofan í lampaglasið, svo að hún sæi ekki meira en hún var búin að sjá. „Ó“, hvíslaði Anna rétt við vangann á Borghildi, „mér heyrðist einhver vera að koma framan göngin og ég varð svo hrædd. Það var svo líkt og þegar hún mamma sáluga var að ganga“, „Guð komi til“, sagði Borghildur. „Hvaða vit- leysa er í þér, þetta hafa bara verið hundarnir. Ég skil ekkert í þér að sitja hér eein frammi. Því gaztu ekki gert við vestið inni?“ Koma heim í dalinn — það yrði saga til næsta bæjar. En hver var móðir hans? Gat hann ekki nefnt hana á nafn? En úr dalnum hlaut hún að vera. Skyldi það geta verið Lilja frá Seli? Hún hafði látið ógert að kveðja á Nautaflötum áður en hún fór vestur um haf. Voru þá allar mann- eskjur undirförular og svikular fyrst Lilja, góða æskuvinkonan, gat verið svona? Sjálfsagt hafði Lísibet fóstra hennar vitað þetta allt saman, en auðvitað hafði fóstri hennar verið leyndur því eins og hún. Það var satt, sem Ketilríður hafði sagt — hún hafði verið geymd í glerskál og það Svo hún hafði þá tekið eftir að hún hafði vestið meðferðis. „Það var bara einhver sérvizka. Ég hélt að Jón vaknaði, ef ég væri með ljós inni“, sagði hún. Borghildur tók undir handlegg henni. „Svei mér ef þú titrar ekki, manneskja. Við skulum hafa okkur inn,1 þó að mér finnist hreint ekki kalt hérna frammi“. „Mér er ekki kalt — ég varð bara svo óróleg“, sagði Anna. „Viltu ekki kveikja ljós?“ spurði Borghildur. Henni var órótt út af háttalagi Önnu. „Nei, nei, þá vaknaði fólkið í baðstofunni. Það er ekki svo dimmt, að ég komist ekki inn“. Þær fylgdust að inn í baðstofuna. Anna kom veskinu fyrir niðri í skúffunni, en læsti henni ekki. Það ætlaði hún að gera daginn eftir. Nú var eftir að koma vestinu undir koddann. Það yrði þrautin þyngri. Reyndar gerði það nú ekki mikið til, þó að það lægi ekki alveg á sama stað og áður, því að líklega yrði eitthvað minnzt á það næstu daga. En einhvernveginn kom hún því undir koddann, sjálfsagt öllu í bþgglingi. Henni var það alveg sama. Anna lagðist loks út af, en sofnað gat hún ekki. Hún hugsaði um það aftur og fram, hvort þetta gæti verið vaka eða hvort hana hefði dreymt þetta allt saman. Bara að það væri draumur, óskaði hún. Hvernig skyldi Borghildi hafa orðið 'við, ef hún hefði verið búin að kveikja í bréfunum, þegar hún kom fram? Hvað skyldi svo sem verða úr þessu? Hún bylti sér og hlustaði á rólegan andardrátt manns síns. Það var einkennilegt, að maður, sem hafði annað eins á samvizkunni og hann skyldi geta sofið svona rólega eins og sak- laust barn. Það var nú náttúrlega orðið svo langt síðan þetta kom fyrir. Kannske hafði hann verið órólegur þá, þó að hún tæki ekki eftir því. En hvernig skyldi honum verða við, þegar hún segði honum frá því, hvað hún hefði verið að gera meðan hann steinsvaf? Hvernig átti hún að byrja? Opna skúffuna og segja: „Þarna í veskinu eru bréfin frá honum syni þínum, sem þú átt í Ame- ríku. Ég er búin að lesa þau flest“ — og svo að hlæja beint framan í hann. Hvernig skyldi honum verða við? Nei, hún ætlaði ekki að gera það, heldur að fara burtu af heimilinu. Hún gæti ekki búið saman við annan eins mann lengur. Erlendur hafði sagt, að skip væri á Ósnum. Það væri á suðurleið. Sjálfsagt væri að drífa sig með því án þess að tala um það við nokkra manneskju nema Borghildi. Jón færi út á Strönd í dag. Það var ákjósanlegt. Þá þurfti hún ekki að segja honum neitt um ferðaáætlunina, sem var sú að fara vestur á land til frú Matthildar, vinkonu sinnar. Hún var búin að gleyma því að mestu leyti, hvernig henni hafði liðið hjá henni, þegar hún flýði á hennar náðir fyrir nokkrum árum. Þessi ráða- gerð gerði hana rólegri. Það gerði ekki mikið til, þó að manni hennar yrði dálítið hverft við, þegar hann kæmi heim næsta kvöld. Kannske svæfi hann ekki alveg eins rólega þá og núna, en þá skyldi hún sofa vært. Svo fór hún að hugsa um vísu, sem Sigga gamla hafði oft kveðið, þegar illa lá á henni: Ég vildi ég væri komin hvurt? Kannske eitthvað langt í burt. Vantaði hvorki vott né þurrt. Væri aldrei til mín spurt. Og nú ætlaði hún að breyta eftir þessari ósk og hverfa. En hún vonaði að sér gengi betur en konunni, sem setti saman vísuna, því að auðvitað kunni Sigga ævintýri viðvíkjandi öllu, sem hún fór með. Og konan hvarf í burtu og sá engan mann, þar sem hún var, en hafði nóg að borða og drekka. En hún^undi því lífi illa, sem von var, og fór að óska sér heim aftur. Það sagði Sigga að hún hefði komizt vegna þess að hún átti óska- stein. En að vera að rifja þessa vitleysu upp núna. Það þurfti víst engan óskastein til að komast í burtu, en gjarnan vildi hún óska að vera horfin vestur á Breiðasand, en svo hét verzlunarstaður- inn, þar sem frú Matthildur átti nú heima. Maður hennar var þar kaupfélagsstjóri. En hvað hún yrði hissa að sjá hana komna alla þessa leið. Varla myndi hún óska sér heim aftur. Hún ætlaði að fá sér leigðar stofur þar og Jakob kæmi svo til hennar með vorinu. Hér endaði ráðagerðin —■ hún gat ekki hugsað meira. Það yrði allt erfitt, en vestur skyldi hún fara. Næstu nótt yrði hún út á hafi.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.