Lögberg - 15.01.1959, Blaðsíða 6

Lögberg - 15.01.1959, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 15. JANÚAR 1959 GUÐRÚN FRA LUNDI: ÞAR SEM BRIMALDAN BROTNAR Svo kom þessi sami bóndi aftur til að sækja kistuna, en þá kom ekki litli hundurinn með honum, börnunum til mikilla leiðinda. — Kistan var borin út á hlaðið og látin á sleðann. Hann kom ekki nær bænum en áður. En tveim dögum seinna voru báðar litlu systurnar orðnar veikar. Enginn gat ímyndað sér, hvernig veikin hefði getað borizt á heimilið, nema ef litli hvolpurinn hefði getað borið hana. Þá var ekki ólíklegt, að Gunnar hefði smitazt, sem rogaðist með hann í fanginu alla leið út á hlað. En hann staulaðist úti og sakaði ekkert, en systurnar dóu með sólar- hrings millibili. Sú eldri níu ára en hin fimm. Gunnar var þá sjö ára. Hann óskaði eftir að mega fara sem fyrst vestur að Hvanná, en nú var ekki um það að tala, því að enginn maður mátti fara út af heimilinu, vegna þessarar hræðilegu veiki. Þórey klæddi sig ekki í nokkra daga eftir að litlu systurnar yfirgáfu hjónahúsið, og enginn kom inn til hennar, nema móðir hennar og eigin- maður, sem gekk nú um úti og inni eins og viðutan og sjónlaus, skipti sér ekki af neinu, en smíðaði utan um dætur sínar. Gunnar talaði fátt um þá breytingu, sem orðin var inni hjá foreldrum sín- um, en í huga hans vaknaði þá ofurlítil von um að hann fengi að sofa í litla rúminu, sem nú var orðið autt. Kannske yrði þá talað eins hlýlega til hans og systranna: „Ætlarðu ekki að fara að hátta, elskan? Ertu búinn að lesa bænirnar þínar, góði minn?“ og margt fleira, sem hlyti að ylja upp huga hans. „Heldurðu að mamma gréti nokkuð, þó að ég yrði borinn fram í stofuna?“ spurði hann ömmu sína einu sinni. „Talaðu ekki svona, góði minn, auðvitað gráta allir foreldrar, þegar börnin þeirra deyja“, sagði hún dapurlega. „Varla pabbi minn. Ég veit, að hann kann ekki að gráta, en Þorvaldur á Hvanná kann það áreið- anlega; hann er svo góður“, sagði hann. Og svo sagði hann aftur eftir nokkra umhugsun: „Hvað heldurðu að verði langt þangað til ég veikist og verð borinn fram í stofuna?" ,JÉg veit það ekki, góði minn. Það veit enginn, nema guð einn“, svaraði gamla konan. Drengurinn hélt áfram eftir nokkra þögn: „Valdimar segir, að guð hafi kallað á þær Hönnu og Ingu, og nú séu þær orðnar englar hjá honum. Þar heldur hann, að systkinin sín séu líka. Ég ætla ekki að gegna, þó að hann kalli á mig. En kannske vill hann ekki nema þau börn, sem eru góð og falleg. Þá lætur hann mig í friði“. Ingveldur strauk eftir kinn hans og bað hann að vera alltaf góðan og þægan, svo að guði og mönnum þætti vænt um hann. Drengurinn braut heilann um það, hvort það myndi borga sig að vera góður. Ekki var ólíklegt, að litlu systurnar væru óánægðar yfir því að fara frá pabba og mömmu, sem höfðu verið svo góð við þær. Svo datt honum allt í einu í hug að spyrja föður sinn, hvað yrði um ærnar, sem þær höfðu átt. Hann rambaði fram í skálann. Þar stóð faðir hans við hefilbekkinn, heflaði í ákafa og leit ekki við, þótt drengurinn gengi um. — Drengurinn stóð stundar- korn kyrr fram við dyrnar og horfði á, hvernig spænirnir hrúguðust í háan kúf upp úr auganu á hefilbekknum. Svo hremmdi þessi stóra hendi föður hans þá og kastaði þeim á gólfið, byrjaði svo aftur að fægja fjölina. Honum heyrðist hefill- inn segja: „Hviss, hviss“. Hann færði sig alveg inn að hefilbekknum. Hann sá, að faðir hans leit til hans út undan sér. Honum var það ekkert nýtt að vera litinn hornauga. Samt fann hann til undan þeim. „Má ég ekki eiga kindurnar þeirra, fyrst þær eru komnar til guðs? Ekki geta þær haft gaman af þeim lengur“. Ekkert svar. Hann endurtók spurninguna hálf- hikandi, en fékk ekkert svar. Þá var hún borin upp í þriðja sinn. En þá stappaði faðir hans fætinum í gólfið og sagði honum að hafa sig burtu og hætta öllum vitleysisspurningum. Sonurinn labbaði út og klagaði það ’fyrir ömmu sinni, að karlvargurinn anzaði sér ekki, ef hann talaði við hann. „Vertu ekki að ónáða hann, vesalinginn“, sagði tengdamóðirin. „Það er þá auðséð, að mannlegar tilfinningar hefur hann. Hann getur gugnað eins og þeir, sem veikbyggðari eru“, bætti hún við í hálfum hljóðum. En Gunnar fór hiklaust fram í skálann aftur og hamaðist við að bera hverja tréspónavizkina eftir aðra inn í eldhúsið og troða henni undir súpupott- inn og láta logana leika allt í kringum hann. „Nú logar glatt“, sagði hann við eldabuskuna, sem sat döpur á svip fyrir framan hlóðirnar. Allir voru daprir á þessu heimili, nema Gunnar litli. „Þú mátt ekki láta svona stórar viskar í einu undir pottinn“, sagði amma hans, „það getur kviknað í bænum“. „Það gerir ekkert til“, anzaði hann. )rÉg get hlaupið út, og það geta allir“, bætti hann við. Svo gerði hann nýja tilraun til að fá föður sinn til að anza sér. Hann spurði, hvort hann ætlaði ekki að smíða kistu handa sér líka. Hún þyrfti ekki að vera eins stór og kistan hennar Hönnu. — Þá tók faðir hans svo fast um handlegginn á honum, að hann kenndi til, og ýtti honum fram úr skálanum og hallaði hurðinni að stöfum, því að hann vildi vera einn með sorg sína. En Gunnar fór inn í eldhúsið, sem nú var mannlaust. Hann náði í dálítinn eldköggul, sem hann bar fram á fýsifjölinni. Hann ýtti skálahurðinni opinni með öxlinni, en forðaðist að gera hávaða. Svo lét hann fjölina á gólfið rétt fyrir innan dyrnar og hallaði hurðinni hljóðlega aftur, og beið fram í bæjar- dyrum, þangað til þéttur, hvítur reykur gaus upp. Þá hentist hann út úr bænum, ekki laus við hræðslu, og hljóp út í f jóstóft til Valdimars gamla, sem var að leysa í kýrmeisana. „Hvaða óskapa hlaup eru þetta, Gunnar minn?“ spurði gamli maðurinn. Drengurinn hélt niðri í sér andanum eins og hann væri að hlusta eftir, hvort einhver kæmi á eftir sér, en svo þegar ekkert heyrðist, fór hann að segja frá því, hvað hann hefði verið að gera. „Það er sjálfsagt farið að loga inni í skálanum hjá pabba“, sagði hann. „Ég lét eldköggul undir tréspónahrúguna. Þeir loga vel, spænirnir". „Því gerðurðu þetta, góði minn. Viltu láta bæ- inn brenna og kannske fólkið líka“, sagði gamli maðurinn klökkur. „Það brennur ekki nema skálinn. Mér er sama um það, sem í honum er. Hann vill ekki gefa mér kistu eins og stelpurnar eiga að fá og þá mega þær víst brenna“, sagði Gunnar. „Veiztu þá ekki, að það á að láta litlu systurnar þínar í þessum kistum ofan í jörðina. Langar þig til að deyja eins og þær“, kjökraði gamalmennið. „Það er víst ekki mikið verra en að lifa“, sagði drengurinn. „En ég ætla að geyma hitt og þetta dót í minni kistu, en ekki láta hana ofan í jörðina“. Þórey hafði komið innan göngin, þegar sonur hennar þaut út úr bænum. Nú hafði hann verið að vinna eitthvað, sem hann mátti ekki. Henni fannst það helzt stytta stundirnar að rangla úti við eða fara fram til manns síns og hlusta á hug- hreystingarorð hans, sem því miður hrifu þó lítið. Hún kom í skáladyrnar einmitt, þegar fyrstu logatungurnar teygðu sig eftir tréspónaslæðingn- um á gólfinu. Hún hljóðaði hástöfum. Þá leit Jóhann upp frá smíðunum. Hann þreif nokkra poka, sem lágu þar í skálahorninu og kastaði yfir logana, sem voru kraftlitlir, og slökkti þá. „Gunnar hefur verið að hamast í spónunum í allan dag, en hvar hann hefur náð í eldspýtur, veit ég ekki. Það er nú meiri mæðan“. Hann þagnaði. — Náttúrlega hefur hann ætlað að segja, að hann skyldi hverfa, hugsaði konan. Hún færði sig til hans og grúfði andlitið að brjósti hans og grét átakanlega sárt og lengi. Hann klappaði grann- vöxnum líkama hennar með stórum og hrjúfum höndum sínum. Henni fannst þær hlýjar og mjúkar. „Ég er alveg hissa, að guð skuli leggja þetta á okkur“, sagði hún, þegar hún mátti mæla. „Taka þær, en skilja hann eftir, svona baldinn“. Henni datt í hug að óska þess, að hann hefði horfið líka, en fyrirvarð sig fyrir það. „Hann á sjálfsagt eftir að lagast, strákurinn", sagði hann. „Þetta er hálfgerður óviti ennþá“. Gunnar var hæglátur þetta kvöld, sat lengst af hjá ömmu sinni og óskaði eftir að hún segði sér sögur, en hún var víst búin að gleyma öllum sögum. Það var allt gleymt, nema sorgin og sökn- urinn eftir litlu systurnar, sem fyrir svo ótrúlega stuttu síðan höfðu hlustað á sögur hennar. Hún var líka hálfhrædd um, að drengurinn væri að veikjast, því að hann var svo óvanalega stilltur. En sá, sem var kominn út á undan öllum öðrum á bænum, var Gunnar, þegar hún losaði svefninn. Hún var sífellt að biðja hann að vera gott barn við foreldra sína, þar sem þau ættu ekkert annað en hann. Hann hugsaði sér líka að vera það, því að auðvitað þráði hann ást og hlýju eins og önnur börn. Föður sinn þorði hann ekki að nálgast, enda bjóst hann við litlu úr þeirri átt. En hann þrýsti sér oft fast upp að mjöðminni á móður sinni og fannst svuntan hennar mjúk og hlý. En það var eins og hún vissi ekki af nálægð hans fyrr en móðir hennar sagði: „Hann er nú að vonast eftir, að þú verðir góð við hann, anginn litli. Mundu, að þú ert móðir hans ekki síður en litlu systranna". Þá strauk móðirin einu sinni eða tvisvar yfir kollinn á honum, sneri sér síðan undan og þurrk- aði tárvot augun. Drengnum fannst hún hefði getað strokið um kinnina á sér eða jafnvel kysst sig á kinnina. Það höfðu systur hans fengið dags daglega. Hann hafði gætur á því, sem fram fór í skálanum. Nú voru kisturnar orðnar svartar. Svo kom Pétur í Seli með böggul einn daginn, sem hann lagði á fiskasteininn, því enginn mátti koma inn. í honum voru fínir, hvítir kjólar, sem Hall- dóra í Seli hafði saumað handa þeim systrum hans. Amma hans sagði, að þær yrðu klæddar í þá, þegar þær yrðu látnar í kisturnar. Ekki var hann látinn sjá þær í þeim. Hann sá bara, að kisturnar voru horfnar úr skálanum einn daginn. Amma sagði, að þær væru komnar yfir í stofuna, þar væru litlu systurnar í þeim. Hann gægðist inn um skráargatið, því hurðin var læst. Það var komið eitthvað svo ákaflega fallegt á lokið, sem gaman hefði verið að leika sér að, en hann mátti náttúrlega ekki skoða neitt, sem þær áttu. Það hefði víst mátt gefa honum svona fallegt. Svo var farið að búast til ferðar einn fagran morgun. Móðir hans vildi, að Þorbjörn á Stekkn- um yrði beðinn að fara með þeim inn eftir. En Jóhann sagði, að það kæmi ekki til mála, að hann færi að biðja hann né aðra að koma á sýkt heimil- ið. Svo klæddu hjónin sig í sparifötin og litlu kisturnar voru látnar á lítinn sleða og hann dreg- inn niður á víkurbakkann. Þar var fjögra manna farið á floti í víkinni. Út í það voru kisturnar bornar og móðirin þar á eftir. Ingveldur og Gunnar litli stóðu eftir í fjörunni. Þórey kyssti þau með tárin í augunum. Það var hún næstum á hverjum degi. „Vertu nú góður drengur við ömmu meðan við erum í burtu“, sagði hún við son sinn. „Hann verður það, anginn litlí“, sagði Ingveldur. Jóhann ýtti bátnum frá landi og réri fram vík- ina. Hann kastaði ekki kveðju á þau tvö, sem eftir stóðu. Mágaástirnar milli hans og Ingveldar voru orðnar helzt til kaldar í seinni tíð. Mest var það út af Gunnari litla. Gamla konan kenndi þeim um það, hvað drengurinn var trylltur. Það var vegna þess að þau höfðu hann útundan. Drengurinn tók hvern steininn af öðrum úr fjörunni og kastaði út á víkina. „Hættu þessu, góði minn“, bað amma hans. „Það er ljótt að henda á eftir fólki“. „Ég er ekki að henda á eftir þeim, heldur er ég að reyna að hitta karlskrattann, sem er í sjónum. Ætli hann taki ekki kisturnar af þeim og dragi þær til sín ofan í sjóinn“, anzaði hann.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.