Þjóðviljinn - 18.11.1987, Síða 4
LEIÐARI
Framsókn má ekki drepa kaupfélögin
íslensk samvinnuhreyfing er á tímamótum.
Því miður er ekki lengur fréttnæmt að kaupfélög
leggi upp laupana. Nú hefur verið óskað eftir að
Kaupfélag Vestur-Barðstrendinga verði tekið til
gjaldþrotaskipta. Ekki er ýkja langt síðan
kaupfélagið á Svalbarðseyri hlaut sömu örlög.
Margt bendir til að þau séu fleiri, litlu kaupfé-
lögin, sem hætta starfsemi næstu árin. Kaupfé-
lög, sem nú virðist einna síst hætt við alvar-
legum skakkaföllum, eru annars vegar stórir
risar með verslanir í vaxandi þéttbýli, eins og
t.d. Kaupfélag Eyfirðinga og Kaupfélag Árnes-
inga og hins vegar hrein neytendakaupfélög á
borð við KRON.
Flest kaupfélaganna voru stofnuð til að ann-
ast verslun við bændur. Bæði til að útvega ým-
iss konar varning, sem búin þurftu á að halda,
og ekki síðurtil að selja búsafurðirnar. Sá þáttur
í rekstrinum að annast sölu og dreifingu á fram-
leiðsluvörum félagsmanna skiptir stöðugt
minna máli. Sala á matvöru og almennum
neysluvarningi verður hlutfallslega meiri með
hverju árinu svo og þátttaka í ýmiss konar at-
vinnurekstri sem er þá oftar en ekki alls
óskyldur landbúnaði, eins og t.d. útgerð og iðn-
aður. Þetta er bein afleiðing af fækkun bænda.
Innan við 6% vinnuafls á Islandi er bundið við
landbúnað.
Það aðstoðar- og fyrirgreiðslukerfi, sem á
þessari öld hefur verið byggt upp sem bjarg-
hringur fyrir íslenskan landbúnað, hefur lengst
af lotið forystu Framsóknarflokksins. Mörgum
hefur því þótt sjálfgefið, og þá ekki síst fram-
sóknarmönnum, að kaupfélögin væru einnig í
forsjá þess flokks. Annarra flokka menn þykjast
oft hafa verið útilokaðir frá að gegna trúnaðar-
störfum fyrir kaupfélög vegna þess eins að þeir
voru ekki framsóknarmenn. Hafa sumir viljað
ganga svo langt að telja félagsskírteini í Fram-
sóknarflokknum haldbesta veganestið ef menn
hafa sóst eftir starfi hjá sumum kaupfélaganna.
Vonandi er hér fulldjúpt í árinni tekið en víst er
að í vitund almennings eru mjög sterk tengsl
milli Framsóknarflokksins og samvinnu-
hreyfingarinnar. Færa má rök að því að þessi
tengsl séu að verða samvinnuhreyfingunni al-
varlegur fjötur um fót, ekki síst á þeim örlagatím-
um í sögu hennar jsegar klukkan glymur fjöl-
mörgum kaupfélögum vítt og breitt um landið.
Á upphafsárum samvinnuhreyfingará íslandi
naut við forystumanna sem gerðu sér grein fyrir
því að samtakamáttur almennings var afl sem
unnt var að nýta, ekki bara til að ná góðum
kjörum við kaup og sölu. Þeir álitu að í honum
væri sá kraftur sem með auknu lýðræði og fé-
lagsanda þokaði samfélaginu öllu í átt til meiri
jafnaðar og réttlætis. Frumkvöðlar samvinnu-
hreyfingarinnar töldu það ekki nóg að kaupfé-
lögin gætu rekið verslun betur en kaupmenn
höfðu áður gert. Þeir gerðu kröfu um að sam-
vinnuhreyfingin væri hvati til aukinna áhrifa al-
mennings á sem flestum sviðum þjóðlífsins. í
ræðum þeirra og riti kom fram sá byltingarneisti
sem unir ekki ríkjandi ástandi og heimtar nýtt og
betra þjóðfélag.
Kaupfélögin búa við lög sem eiga að tryggja
að stjórnendur þeirra séu lýðræðislega kjörnir.
Að vísu er langt á milli hins almenna félags-
manns í kaupfélagi og æðstu stjórnenda SÍS því
að þarna blómstrar margfalt fulltrúalýðræði og
stundum er magn viðskipta látið ráða afli at-
kvæða. En engu að síður er um lýðræði að
ræða og möguleika fyrir hinn almenna félaga til
að láta rödd sína heyrast og það sem meira er,
að hafa einhver áhrif.
Þennan lýðræðislega þátt þarf samvinnu-
hreyfingin að efla, ekki bara með fögrum orðum
í tímamótaræðum forystumanna heldur í öllu
daglegu starfi. Þegar fjölmennustu kaupfélögin
eru neytendakaupfélög í þéttbýli og lítil kaupfé-
lög í dreifbýli falla hvert af öðru, (oá er kominn
tími til að samvinnumenn athugi sinn gang. Þá
þarf samvinnuhreyfingin á að halda liðsinni sem
flestra félagslegra þenkjandi manna, hvaða
pólitísku fylkingu sem þeirtilheyra. Þá liggur lífið
á að má út samasem-merkið sem menn telja
vera milli Framsóknar og samvinnuhreyfingar.
KLIPPT OG SKORIÐ
Af slettum
Það hefur aldrei verið talinn
góður siður að sletta glósum úr
eriendum málum í blöðum. Það
er að vísu fyrirgefanlegt stöku
sinnum þegar mikið liggur við og
menn sýna þá kurteisi að útskýra
spekina, formælingarnar eða
kjarnyrðin á íslensku. Hitt er
verra þegar menn sulla slettum út
um allt í meiningarleysi eins og
þegar einn af dálkahöfundum
Tímans kvartar yfir mengun í
blaði sínu um helgina og hnykkir
á með þessu hér: „Sannast þar
hið fornkveðna: „We are all in
the same shit“.“
Það er meira en óþarft að grípa
til ensku til að segja jafn hvunn-
dagslegan hlut og að allir sitjum
við í sama skítnum (sömu súp-
unni). Hitt er svo enn verra að
greinarhöfundur telur bersýni-
lega sjálfsagt að gera ráð fyrir því
að allir kunni ensku. Enda heldur
hann áfram; þegar hann hefur
fjasað nokkuð um nýja söluvöru
sem radarvari heitir lætur hann
heilaga reiði sína yfir neyslu-
þjóðfélaginu í ljós á þennan hátt
hér:
,,„It‘s a mad world“ var ein-
hverntíma sagt í gagnmerkri bíó-
mynd, við það má bæta: „It‘s a
mad, mad world“.“
Og maður spyr: Til hvers að
vitna í gamla amríska bíómynd
þegar borin er fram ofur hvunn-
dagsleg staðhæfing um heim sem
er af göflum genginn, eða eins og
hagyrðingurinn kvað:
Það er erfitt þetta líf
og þetta er vondur heimur.
Þar að auki er rangt með farið.
Kvikmyndin hét reyndar „It‘s a
mad, mad, mad world“ eða
„Þetta er kolbrjálaður heimur“.
Eins gott að troða tilvitnunum
varlega um tær. Annars geta
menn misstigið sig illilega eins og
dagskrármaðurinn á dögunum,
sem var svo glaður yfir því að
vera kominn í stórt útvarpshús að
hann hóf þátt sinn á þessum orð-
um hér:
„f húsi mínu eru mörg her-
bergi, var einhverntíma sagt“
Það er nú svo. Jóhannesarguð-
spjall, fjórtán tveir: „I húsi föður
míns eru mörg híbýli“...
Pingmanns raunir
í nýútkomnu „Þjóðlífi er viðtal
við Pétur Sigurðsson, sem hér
áður sat á þingi fyrir Sjálfstæðis-
flokkinn og þótti til þess fallinn
að minna á þá óskmynd flokksins
að hann væri hreyfing allra stétta.
Pétur sjómaður, eins og hann var
einatt nefndur, minnir þar á þá
staðreynd að sjóðir ýmissa fyrir-
tækja standi á bak við rándýra
prófkjörsbaráttu þingmannsefna
Sjálfstæðisflokksins, og hafi þessi
þróun ráðið miklu um það að
hann afréð að hætta þing-
mennsku. Um þetta segir Pétur
meðal annars:
„Okkur, þessum „vesalingum“
úr verklýðshreyfingunni hefur
vegnað frekar illa í prófkjöri
innan Sjálfstæðisflokksins.
Kostnaðurinn hefur mikið að
segja, því að félagar verklýðs-
hreyfingarinnar hafa ekki ráð á
þessu. Þeir hafa enga sjóði að
ganga í til að reka kostnaðarsama
prófkjörsbaráttu. Hins vegar
hafa ýmis fyrirtæki sem standa
straum af kostnaði annarra fram-
bjóðenda miklu betri tækifæri til
þess.“
Pétur Sigurðsson kemur hér að
merkilegum staðreyndum.
Þegar umræðan hófst um próf-
kjör, sem helst áttu að vera opin,
var látið sem hér væri fundin ágæt
leið til að draga úr miðstjórnar-
valdi flokkseigenda og gefa „hin-
um almenna manni“ kost á að
hafa áhrif á það hverjir sætu á
þingi fyrír tiltekinn flokk. Próf-
kjör áttu að vera frelsisaukandi
og valddreifandi. Og þvf verður
ekki neitað að þau hafa viss áhrif í
þessa átt. Hitt er svo miklu lak-
ara, að prófkjörsslagurinn hefur
fyrst og fremst fært okkur nær
bandarísku pólitísku mynstri en
við áður stóðum. Og þá með
þeim hætti, eins og einmitt sann-
ast af dæmi Péturs sjómanns og
Sjálfstæðisflokksins, að frelsið
verður frelsi peningamanna.
Enginn á möguleika á því að ná
árangri nema hann geti safnað
saman digrum sjóðum til að kosta
auglýsingar og kosningaapparat.
Formlegt frelsi margra til að láta
að sér kveða í pólitík snýst upp í
raunverulegt frelsi fyrirtækja til
að gera út „sinn“ frambjóðanda.
Prófkjarabyltingin étur börnin
sín og uppi standa Naflajónar
auðsins.
Ást á
Steingrími
Dagblaðið Tíminn er eins og
Jón karlinn Hreggviðsson: elskar
og virðir sinn arfakóng - það er
að segja Steingrím Hermannss-
son. Helgarleiðari blaðsins ber
þessari ást fagurt vitni, en þar
segir meðal annars:
„Það er ekki tilviljun að menn
gleyma því að Steingrímur Her-
mannsson er ekki lengur forsætis-
ráðherra. Aðrir ráðherrar vilja
falla í skuggann, þegar
Steingrímur er annarsvegar“
Ekki vitum við það, en svo
mikið er víst að bæði Morgun-
blaðið og Alþýðublaðið láta
þetta skuggatal fara í taugarnar á
sér og eru afbrýðisöm vegna
sinna manna. En Tíminn gerir
meira en að segja að aðrir ráð-
herrar standi í skugga Steingríms.
Hann útskýrir yfirburði hans með
þessu hér:
„Steingrímur er ævinlega
hreinskilinn og hefur lag á að
koma fram af einlægni og heiðar-
leika“.
Einhver mundi nú segja að hér
flói lofið út úr, en það er ekki víst.
í þessari setningu er útsmogin læ-
vísi: þar segir að ráðherrann besti
hafi „lag á að koma fram“. Og
það er vitanlega það sem mestu
skiptir. Breskt blað lýsti því fyrir
síðustu kosningar þar í landi,
hvemig stjórnmálamenn ættu að
koma fram í sjónvarpi til að
krækja sér í lýðhylli. Þar sagði á
þá leið, að þeir skyldu j áta mistök
og að þeir ættu eftir að gera mis-
tök - og um leið lauma því að að
einmitt þess vegna væri þeim
treystandi til að leysa mál. Þeir
skyldu aldrei alvitrir þykjast gæta
þess um leið að láta flókin mál
sýnast næsta einföld. Þeir áttu
ekki að ráðast hart gegn andstæð-
ingum (amk ekki í sjónvarpi)
heldur koma fram eins og þeir
væru ögn yfir hanaslag hafnir:
Allir vilja vel, en ég er bestur.
Allt þetta kann Steingrímur
Hermannsson prýðilega vel og
því vegnar honum vel. Einlægnin
og heiðarleikinn koma þessu máli
aðeins lauslega við: það er fram-
koma sem vísar á slíka og þvílíka
eiginleika sem skiptir sköpum á
sjónvarpstímum. áb
þlÖÐVILllNN
Málgagn sósíalisma, þjóöfrelsis
og verkalýöshreyfingar
Útgefandl: Útgáfufélag Þjóöviljans.
Framkvœmdaatjórl: Hallur Páll Jónsson.
Rltatjórar: Árni Bergmann, össurSkarphéðinsson.
Fréttastjóri: Lúðvík Geirsson.
Blaðamenn: Elísabet K. Jökulsdóttir, Guðmundur RúnarHeiðarsson,
Hrafn Jökulsson, HjörleifurSveinbjömsson, Kristín Ólafsdóttir,
Kristófer Svavarsson, Logi Bergmann Eiðsson (íþróttir), MagnúsH.
Gíslason, MörðurÁrnason, ólafurGislason, RagnarKarlsson,
Sigurður Á. Friðþjófsson, Vilborg Davíðsdóttir.
Handrlta- og prófarkalestur: Elías Mar, Hildur Finnsdóttir.
Ljósmyndarar: Einar Ólason, Sigurður Mar Halldórsson.
Útlltateiknarar: Sævar Guðbjörnsson, Garðar Sigvaldason, Margrét
Magnúsdóttir.
Skrlfatofustjóri: Jóhannes Harðarson.
Skiifstofa: Guðrún Guðvarðardóttir, Kristín Pétursdóttir.
Auglýslngastjórl: Siariður Hanna Sigurbjörnsdóttir.
Auglýsingar: Unnur Ágústsdóttir, Olga Clausen, Guðmunda Krist-
insdóttir.
Sfmavarsla: Hanna Ólafsdóttir, Sigriður Kristjánsdóttir.
Bílstjórl: Jóna Sigurdórsdóttir.
relðslu- og afgreiðslustjóri: HöfðurOddfríðarson.
reiðsla: G. MargrétÓskarsdóttir.
reiðsla- Halla Pálsdóttir, HrefnaMagnúsdóttir.
>eimtumenn: Brynjólfur Vilhjálmsson, ÓlafurBjörnsson.
avrsla, afgrelðala, rltstjórn.
jmúla 6, Reykjavík,8íml 681333.
ilýaingar: Slðumúla 6, símar 681331 og 681310.
rírotoa setnlng: Prentsmlðja Þjóðvlljanshf.
Verð í lausaaölu: 55 kr.
Holgarblöð: 65 kr.
Áskrfftarverð á mónuði: 600 kr.
4 SfÐA - ÞJÓÐVILJINN Miðvikudagur 18. nóvember 1987