Helgarpósturinn - 12.12.1996, Blaðsíða 18

Helgarpósturinn - 12.12.1996, Blaðsíða 18
18 FIMMTUDAGUR12. DESEMBER1996 'JSWKÍ Hvaöa leið liggur til landsins í hafinu, til eyjarinnar köldu og hrjóstrugu þar sem varla sést dagsins Ijós í þrjá mánuði áður en við tekur tími hvíldarlausrar birtu í aðra þrjá? spurði Margrét Elísabet Ólafsdóttir í bréfi frá Caen í síðasta tölublaði HP. í þessari grein er spurningunni svarað um leið og greint er frá því hvernig fór á með íslenskum og frönskum rithöfundum á Norðurljósahátíðinni í Frakklandi. íslenskir rithöfundar og franskir mætast Potturinn og pannan á bakvið Boré- als de Normandie, Norðurljós í Normandí, heitir Eric Eydoux. Eins og svo margir aðrir norrænufræðingar í Frakkiandi er hann gamall nemandi Régis Boyer en hefur nú um árabil verið prófessor við háskólann í Caen og forstöðumaður Stofnunar fransk- norskra samskipta og samvinnu, í daglegu taldi OFNEC, sem starfar í beinum tengslum við háskólann. Eydoux á norska móður, talar lýta- lausa norsku og hefur eins og margir kennarar við norrænudeildina fengist við að þýða bókmenntir Norðurland- anna á frönsku. Margar bókanna eru gefnar út af bókaútgáfu háskólans, PUC, sem býr við þann munað að þurfa ekki að hafa áhyggjur af hagn- aði. í framhaldi af útgáfustarfinu kviknaði hugmyndin að sjálfri hátíð- inni. Eydoux og samstarfsmenn hans langaði til að koma verkum núlifandi höfunda þessara landa á framfæri í Frakklandi, en ein ágæt leið til þess er að halda hátíð. Framtakið hefur ekki tekist verr en svo að stærri bókaút- gefendur, sem gjarnan veigra sér við að taka áhættu með höfunda frá litl- um menningarsvæðum, fylgjast orðið grannt með því hverjir koma fram á Boréals. Vinsældir finnskra, danskra og norskra höfunda sem komið hafa fram skemma áreiðanlega ekki fyrir Guðbergi Bergssyni, Steinunni Sig- urðardóttur og Thor Vilhjálmssyni, en bækur þeirra eru gefnar út hjá virt- um útgáfufyrirtækjum, Gallimard, Flammarion og Acte Sud. Bækur Kristjönu Gunnars eru hins vegar gefnar út af kanadísku útgáfunni Leméac og bækur Álfrúnar Gunn- laugsdóttur og Vigdísar Grímsdóttur hjá PUC. Lítil þjóð, mikil menning Caen er meðalstór borg á franskan mælikvarða, en íbúarnir eru jafn- margir og allir íslendingar. Það vekur því athygli íbúanna, reyndar ekki í fyrsta skipti, að á íslandi skuli leynast jafnmargir hæfir listamenn og rithöf- undar og raun ber vitni. Mest var um að vera á hátíðinni helgina 22.-24. nóvember. Dagskráin hófst þó öllu fyrr með opnun sýninga ýmiss konar, myndir Friðriks Þórs hafa verið á dagskrá eins kvikmynda- húss borgarinnar og teikningar Muggs af Dimmalimm í borgarbóka- safninu. í háskólanum var tveggja daga ráðstefna þar sem haldnir voru fyrirlestrar um íslenska sögu og menningu með þátttöku Friðriks Rafnssonar, Sveins Einarssonar og Torfa Túliníus frá íslandi, Jean Renaud, Régis Boyer og Fran^ois- Xavier Dillmann frá Frakklandi að ógleymdri Steinunni Le Breton, ís- lendingnum í Caen og kennara við norrænudeild háskólans. Síðla á föstudag var svo opnuð sýning á graf- íkverkum Valgerðar Hauksdóttur í anddyri kennaraháskólans. Valgerður hafði fyrr í vikunni haldið fyrirlestur í skólanum og tekið nemendur í tíma. Sýningin í skólanum var þó aðeins „aukasýning", því daginn áður var opnuð önnur sýning á verkum Val- gerðar í galleríinu Mémoranda, sem jafnframt er bókabúð, í gamla mið- bænum. Um kvöldið setti Bjöm Bjarnason menntamálaráðherra hátíðina form- lega í hliðarsal Abbaye-des-Dames- klaustursins að viðstöddum formann- inum Éric Eydoux og René Garrec, héraðsstjóra Basse-Normandie-hér- aðs og þingmanni Calvados-sýslu, en héraðsráð er einn helsti styrktaraðili hátíðarinnar. Boréals hefur því notið góðs af vilja franskra stjórnvalda, sem á undanförnum árum hafa lagt áherslu á að draga úr miðstýringu og fært valdið til héraðsráða og borgar- stjórna, sem um leið hafa öðlast aukið frelsi til að ráðstafa skattpeningum heimamanna og halda uppi pólitík um málefni héraðsins án afskipta frá Par- ís. Héraðsráð Basse-Normandie hefur notað þetta aukna svigrúm til að styrkja tengsl íbúanna við söguna, sem héraðið á að nokkru leyti sameig- inlega með Norðurlöndunum. Björn Bjarnason og René Garrec lögðu báð- ir áherslu á þessa sameiginlegu arf- leifð íslands og Normandíhéraðs í ræðum sínum við setninguna. Eftir að sagan þafði verið stuttlega rifjuð upp hreif Áshildur Haraldsdóttir flautu- leikari viðstadda aftur til nútímans með því að flytja verk eftir Árna Bjömsson og Atla Ingólfsson. Þá var dreypt á kampavíni áður en haldið var út í kirkju klaustursins þar sem at- höfninnni lauk með tónleikum strengjasveitar héraðsins og Ingveld- ar Ýrar Jónsdóttur mezzósópran- söngkonu. Höfundar mætast Á laugardagsmorguninn var opnuð sögu- og arkitektúrsýning í Taflborðs- sal hertogans af Normandí, en sögu- sýningin er framlag íslenska mennta- málaráðuneytisins til hátíðarinnar. Eftir hádegið hófst „lestrarmót" rit- höfundanna, sem flestir biðu spenntir eftir. Rithöfundarnir höfðu allir verið látnir lesa bók eða bækur eftir tiltek- inn franskan höfund, sem á móti hafði lesið bók íslenska höfundarins. Reynt var að velja saman höfunda sem skipuleggjendur töldu að ættu eitt- hvað sameiginlegt. Þeir ræddu síðan hver um annars bækur í sófum uppi á sviði fyrirlestrasalar listasafnsins með aðstoð milliliðar, rithöfundar eða bókmenntafræðings, sem sá um að kynna verk þeirra fyrir áheyrend- um og stjórna umræðunni. Óhætt er að segja að ótrúlega vel hafi tekist að velja saman höfunda þótt skyldleik- inn hafi ekki alltaf legið í augum uppi. Það hefði eflaust líka verið hægt að víxla valinu, sem sannar aðeins að viðfangsefni skáldskaparins eru margslungin um leið og þau hafa al- menna skírskotun. Pierre Bergonieux, sem lesið hafði bók Kristjönu Gunnars, La Maraude (The Prowler á frummálinu), sagðist hafa orðið undrandi og glaður að upp- götva að Kristjana hafði upplifað samskonar hluti og tilfinningar uppi á íslandi um miðjan sjötta áratuginn og hann sjálfur í einangraðri sveit inni á miðhálendi Frakklands. Sjálf var Kristjana yfir sig hrifin af Bergonioux, bæði manninum og höfundinum, en hún hafði átt í nokkrum erfiðleikum með að lesa bækurnar hans á frönsku, máli sem hún hefur lítið vald á. Guðbergur Bergsson áti hins vegar ekki í nokkrum vandræðum með að lesa bækur Paule Constant þótt hann neitaði að tala frönsku á fundinum og kysi að njóta aðstoðar þýðanda síns, Catherine Eyjólfsson, sem túlkaði fyr- ir hann. „Mér fannst það móðgun að tala barnamál,“ sagði hann. Guðberg- ur var alls ekki viss um að bækur þeirra, Svanurinn og Dóttir nýlendu- stjórans, ættu neitt sameiginlegt ann- að en að þær segja báðar sögu af stækkandi stelpum. Constant hélt því hins vegar fram að þau ættu fleira sameiginlegt en Guðbergur vildi við- urkenna! Þau náðu því ekki saman þarna á sviðinu og fengu stutta stund til að tala saman á eftir, því Constant hafði aðeins þriggja klukkustunda viðdvöl í Caen, en komust þá að því að Guðbergur þekkti tengdason henn- ar. Fundum þeirra lauk með því að Guðbergur fékk heimboð til Áix-en- Provence. Ást við fyrsta lestur Samtal Álfrúnar Gunnlaugsdóttur og ungverskættaða rithöfundarins Agotu Kristof byrjaði heldur ekki allt- of vel. Þær sögðust hvor um sig hafa átt í mesta basli með bók hinnar og höfðu misskilið eitt og annað, þótt á endanum kæmi í ljós að misskilning- urinn var minni en leit út fyrir í fyrstu. Sameiginlegt eiga þær að skrifa stíl sem gefur meira í skyn en látið er uppi. Álfrúnu þótti miður að hafa ekki fengið tækifæri til að hitta skáldsyst- ur sína áður en þær mættust á svið- inu, en þær bættu sér það upp með löngum samræðum seinna um kvöld- ið á kaffiteríu iistasafnsins. Stefnumót Steinunnar og Emmanu- ele Bemheim fór á allt annan veg. Það var ást við fyrstu sýn eða öllu heldur fyrsta lestur, því þær féllu kylliflatar fyrir bókum hvor annarrar. Þó er stíllinn ólíkur að öðru leyti en því að þær forðast báðar að lýsa ná- kvæmlega sálarlífi persóna sinna, en báðar fjalla um ástfangnar nútíma- konur sem fá meiri tíma til dag- drauma en þær geta eytt með ást- manni sínum. Lestrarmótinu, og um leið þessu helgarmaraþoni, lauk með fundi Thors Vilhjálmssonar og Edouards Glissand, karabískum rithöfundi og landa Patricks Cahmoiseau, sem komið hefur til íslands. Fundar þeirra var beðið með óþreyju, enda eru þeir elstir höfundanna og þekktastir hvor í sínu landi. Þeir höfðu fengið tækifæri til að hittast og ræða saman daginn fyrir fundinn og voru því greinilega orðnir mestu mátar, þótt ólíkir séu í mörgu öðru en hörundslitnum. Thor var líkur sjálfum sér og skorti ekki lýs- ingarorðin á frönsku fremur en á ís- lensku. Hann hældi Glissand í hástert, sem svaraði með því að setja bækur Thors í samhengi við íslendingasög- urnar, sem hann greinilega þekkir mætavel. Þeir gátu síðan mæst í Faulkner, sem Glissand hefur nýlega skrifað um ritgerð í formi bókar, en hann er ekki síður merkilegur fræði- maður en rithöfundur, sem vert er að veita nánari athygli, ekki aðeins þegar farið er til Caen heldur einnig uppi á Islandi. Og við sem vorum viðstödd höfum látið sannfærast um að á leið að landinu, hvaða landi sem er, er vissara að hafa viðkomu í bókum.

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/286

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.