Lesbók Morgunblaðsins - 18.11.1973, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 18.11.1973, Blaðsíða 5
• • Eftir Matthías Johannessen . •'V Það var einkennilegt að hlusta á frásögn hennar. Ég hafði haldið, að hún væri milli sextugs og sjö- tugs, en hún sagðist vera fædd 1896, sem sagt: 77 ára gömul. Hún er gráhærð, breiðleit með lítil hlý- leg augu, sem geta skotið neist- um, þegar henni er mikið niðri fyrir. Hún er ótrúlega ungleg, samt þjáist hún af hjartasjúk- dómi og verður að hafa nítro- glysserin-töflur við höndina, ef með þarf. Við bjuggum um tveggja mánaða skeið i sama húsi og þessi þýzka kona. Fyrst vakti hún at- hygli mína vegna þess hve góð og nærgætin hún var við ungan son okkar. En síðan tók hún að spjalla við okkur á förnum vegi og þá fundum við, hvað hún var skemmtileg og ræðin. Hún er ekki aðeins ungleg í útliti, heldur einnig og ekki síður ung í anda, eins og sagt er. Mér fannst hún alltaf vera reiðubúin að veita okk- ur af hlýju hjarta síns, og hún brosti, þegar þvi varð við komið. Það var óvenjulega auðvelt að tala við hana og vera eðlilegur í návist hennar. Mér hefur sjaldan veitzt eins auðvelt að umgangast útiending. En hún hafði hlotið mikla sól um ævina þrátt fyrir marga erfiða og dimma daga og nú varpar húnsjálf birtu inn í lif annarra. Eg gerði mér í fyrstu ekki ljóst, hvaðan þessi birta kom, en skildi það þeim mun betur síðar, þegar hún dag einn sagði við mig þessar setningar: „Maður er hálf einmana. Unglingarnir eru ekki alltaf nærgætnir. Þegar maðurinn minn dó, slokknaði á sólinni. Hann flutti birtu ogyl inn i lif mitt. Hjónaband okkar var óvenju gott. Hann var alltaf í góðu skapi, hann var bjartsýnn maður. Hann var sólarmanneskja. Við vorum gift í 43 ár og fórum aldrei hvort frá öðru. Ég elska fjöllin, hann vildi helzt vera í námunda við sjó. Ég sé eftir að hafa aldrei farið með honum til Spánar. En hann lét alltaf eftir mér að fara í sumarfrí til Bæjern." Slík eftirmæli hafði ég aldrei áður heyrt, en þessi orð vörpuðu ljósi á margt, sem ég skildi ekki áður. Nú var hún að endurgjalda þessa sól, meðanlffið entisthenni. Þannig varð þessi kona ávöxtur sólríks sumars. En hún hafði einnig orðið að þola næturfrost, eða hvað á ég að segja: að maður- inn hafi verið sumarið í lífi henn- ar; að styrjöldin hafi verið élið sem birti upp um síðir; að dauði manns hennar hafi verið haustið; að hún hafi sjálf verið endurskin þessa sumars og þessarar sólar f lífi hennar? Kannski er þó betra að segja ekkert slfkt og lýsa henni aðeins með þessari setningu hennar sjálfrar: „Ég þoli ekki, þegar hann er hryggur og græt- ur,“ sagði hún eitt sinn um son okkar, þegar frú í næsta nágrenni hafði slegið hann utan undir. Þá hafði henni ekki likað. Hún er stolt fyrir hönd lands síns og þjóð- ar, en finnst nú flestu fara aftur. Eg spurði hana eitt sinn um Pól- land. „Mér hefur aldrei geðjast að Pólverjum," svaraði hún. En svo bætti hún við (og engu líkara en hún áttaði sig við nánari umhugs- un); „En maður getur aldrei sagt að manni líki ekki við heila þjóð. Engin þjóð er slæm. En þeir tóku borgina, Danzig, sem við bjuggum f.“ Hún sagði að Þjóðverjar og Norðurlandabúar væru líkir. Og það þótti henni meðmæli með Norðurlandabúum. Eitt sinn töl- uðum við um Ruhr-hérað og minntumst á litla námuborg: „Það er ljót borg,“ sagði hún, „en gamli hlutinn í Dtisseldorf er fal- legur." Og þegar ég spurði hana um Worms sagði hún: „Það er gömul borg.“ Þau meðmæli nægðu. Einn daginn bauð hún okkur I kaffi. Hún býr i fallegri íbúð og mjög vistlegri. Það er heimilislegt hjá henni. í borðstofunni er stórt málverk af Staffelsee i Bæjern. „Þetta getur ekki verið eftir neinn þekktan málara," sagði SWari sagan birtist f mesta blaðí. hún. „Það getur ekki verið neins virði.“ 1 borðstofunni eru vegg- skildir, en ekki mikið af gömlum munum, og í setustofunni sjón- varp og lítill bókaskápur. Þar eru bækur eftir Hamsun, sem hún hefur lesið spjaldanna milli og segir, að hann sé góður höfundur. Það er eins og timinn hafi numið staðar i bókaskápnum hennar. „Við urðum að flýja frá öllu og skilja það eftir í Danzig," sagði hún án beizkju eða ásökunar. „Ein Danzig var yndisleg borg,“ bætti hún við. „Nú er hún í Póllandi eins og margt annað." Hún sýndi okkur myndir af f jöl- skyidu sinni. „Þetta er maðurinn minn,“ sagði hún og benti á mynd af gráhærðum manni, sem virtist eitthvað veikur af myndinni að dæma, enda var hún fljót að bæta við: „Þetta er ekki góð mynd af honum," sagði hún afsakandi, „ég ætla að ná í aðra.“ Hún fór inn í svefnherbergið og sótti góða mynd af manninum sínum. Það var litmynd. Hún sýndi okkur mynd af börnunum í fjölskyld- unni: „Hann er ágætur, en hann hefur of hátt kaup, 1800 mörk á mánuði, og samt er hann enn í skóla,“ sagði hún um einn frænda sinn. „Ég vona bara hann haldi áfram að læra,“ bætti hún við. „Þetta er stjúpsonur minn og kona hans og börn þeirra og barnabörn. Ég er langamma." Og hún hló eins og með sjálf ri sér. „Þetta er móðir mín, mjög gömul mynd. Ég varð að skilja allt eftir í Danzig, einnig myndir ... Og þetta er mynd af föður okkar. (Mynd af glæsilegum manni á miðjum aldri með yfirskegg og stóran vindil.) Frændfólk okkar gaf mér þessar myndir, því ég átti engar.“ Hún benti brosandi á mynd af ungum pilti og sagði: „Hann er allur í okkar ætt. Hann er uppá- haldið mitt. Og þessi þriggja ára telpa er dóttir bróðursonar míns. Hún er bara of eigingjörn.“ Og Ioks: „Þetta er bróðir minn. Hann var í nazistaflokknum, eins og flestir aðrir i þá daga“ — en hún tók skýrt fram, að enginn í fjölskyldu hennar hefði verið í SS-sveitunum, eins og það væri sáluhjálparatriði. „Honum tókst að flýja frá Danzig einsog okkur hinum. En þegar hann var kom- inn til ThUringen, tóku Banda- ríkjamenn hann höndum og fluttu í fangabúðir. Sonur hans sá ungur föður sinn fluttan fanga i burtu á vöruflutningabíl, en þorði ekki að kalla á hann. Hélt hann yrði einnig fluttur burt, ef hann ávarpaði föður sinn. Þeir fóru mjög illa með fangana, alveg hræðilega. Og þegar bróður mfn- um var sleppt úr haldi eftir 3 ár var hann orðinn hjartveikur. Rúmum 10 árum síðar lá konan hans banaleguna, hún var með lungnakrabba. Hann þurfti að fara til Frankfurt: „Ég ætla að leggja af stað snemma í fyrramál- ið,“ sagði hann. En hann fór ekki lengra. Hann komst í skyrtuna sfna og gat hneppt hnappinum á erminni, svo hneig hann niður örendur. Hjartaslag. Nei, Banda- ríkjamenn voru ekki betri en aðrir í stríðinu." Og hún hristi höfuðið til áherzlu. „Þeir fóru illa að ráði sínu fyrst eftir stríð. Fólk reyndi að koma pökkum með sígarettum og matvælum til fang- anna. Pakkarnir voru skildir eftir sem næst fangabúðagirðingunum, svo að þeir gætu teygt sig f þá. En þegar fangaverðirnirtóku eftir að þeir voru að læðast í pakkana, skutu þeir fangana eins og héra“ — og hún lagði áherzlu á sfðustu orðin. Það var einkennilegt að heyra þessa konu komast svo að orði. Ekkert sýndi mér betur inn í hug- skot hennar en þessi setning. Ég sagði henni frá myndum, sem ég hafði séð á járnbrautar- stöðvum, lögreglustöðvum og í ráðhúsinu í litla bænum hennar: þær voru á spjöldum með rauða- kross merki og undir hverri mynd var sagt frá örlögum viðkomandi persónu. Myndirnar voru af ungu fólki, sem vissi hvorki um ætt sína né uppruna, en reyndi að komast í samband við einhvern úr fjölskyldunni sinni, aldarfjórð- ungi eftir lok styrjaldarinnar. Þessar myndir og textinn voru hastarleg áminning um hörmuleg örlög stríðskynslóðarinnar. Hún hlustaði á frásögn mfna og gerði athugasemdir, sagði t.a.m. að þetta eða hitt væri ekki einsdæmi, að svona dæmi væru fiölmörg. að þessi styrjaldarsár væru ýmist ógróin eða hryllileg ör. Ég sagði henni frá ungri stúlku, „sem að sögn heitir Doris Heine, fædd 1. 8. ’42. Augun ljós, hár brúnt. Hún man að hún var á skipi, hún er e.t.v. frá Danzig eða Austur-Prúss landi. Annað dæmi: Mynd af ungum pilti, ekki vitað um nafn hans, en fornafnið er Willi. „Kom 1945—’46 með flóttamönnum frá Austur-Prússlandi eða Pommern. Hann man eftir systrum sínum, Gunther og Elisabeth og einnig eftir nöfnunum Tonelly og Gruschinsky.” Einn eitt dæmi: Mynd af ungri stúlku. „Nafn óþekkt. Fornafn e.t.v. Larissa. Augu dökk, hár dökkbrúnt. Var sett f fóstur hjá Ostromow-fjölskyldunni í Wilna tveggja ára. Faðir hennar sagður eðlisfræðiprófessor þar I borg og móðirin líklega á vegum þýzka hersins.” Og enn rifjaði ég upp nokkur dæmi: ... nafn óþekkt... fannst í Schöneicke við Berlín, á barna- heimili þar ... nafn óþekkt ... Stolp ... í Fbmmern ... gráblá augu ... líklega fædd ’42 ... man eftir að hún skildist við móður sína og systur i Bronberg, Vestur- Prússlandi ... hún hefur líklega verið tekin af hermönnum ... augu ... hár ... man að iiann var á flótta í hestvagni með móður sinni og ömmu ... man eftir „Systur” og barnahópi... Þessi upprifjun vakti minning- ar með gömlu konunni. Hún sagði mér margt úr striðinu og auð- heyrt að henni fannst ekki ástæða til að það lægi f þagnargildi fyrst einhver hefði tíma til að hlusta. En eftirminnilegust þótti mérfrá- sögn hennar af þvf, hvernig um- horfs var í Danzig síðustu dagana, áður en þau hjón flýðu til Berlín- ar: Pólverjar skutu af sjó og Þjóð- verjar af landi — eða var það öfugt, ég man það ekki — og báðir úr lofti. Ungir drengir innan við tvitugt voru hengdir í næstu trjám og látnir hanga þar öðrum til viðvörunar vegna þess þeir höfðu svikið foringjann og föður landið, neitað að taka þátt í bar- dögum og reynt að flýja, eins og stóð á einhvers konar áróðurs- spjöldum við trén. „Okkur tókst að flýja með flugvél, sem fór yfir Bornholm til Berlínar, en þaðan komumst við hingað. Við tókum tengdadóttur okkar með og 6 mánaða gamlan sonarson. Það var gott að tengdadóttir okkar komst undan. Hún var 26 ára gömul, þegar Rússar komu nokkru siðar. Þá sagði einn þeirra við föður hennar: „Við viljum vodka.” „En ég á ekkert vodka til,“ sagði faðir hennar. Þá skutu þeir hann til bana að konu hans og börnum ásjáandi...” Hún þagnaði, bætti svo við: „Ég ætla að skreppa fram og sækja meira kaffi. Og má ekki bjóða yður dálítið sherry?” ©

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.