Lesbók Morgunblaðsins

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

Lesbók Morgunblaðsins - 15.06.2002, Qupperneq 10

Lesbók Morgunblaðsins - 15.06.2002, Qupperneq 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 15. JÚNÍ 2002 Á FORSÍÐU þjóðhátíðar- blaðs Morgunblaðsins 1954 var grein eftir Bjarna Benediktsson dóms- og menntamálaráð- herra í tilefni af tíu ára afmæli lýðveldisins. Framhald greinarinnar var á annarri síðu og þar var í ramma ljóð Margrétar Jónsdóttur, Ísland er land þitt, þrjú erindi, hvert um sig átta línur. Ofan við nafn ljóðsins var dagsetningin, 17. júní 1954, sem gæti bent til þess að ljóðið hefði verið samið til birtingar á þessum afmælisdegi ís- lenska lýðveldisins. Kennari og ritstjóri Margrét Jónsdóttir fæddist 20. ágúst 1893 í Árbæ í Holtum í Rangárvallasýslu og var því sextug þegar ljóðið birtist. Í föðurætt var hún náskyld Vilhjálmi Stefánssyni landkönn- uði og Stephani G. Stephanssyni skáldi. Hún hafði einnig kynni af skáldum því að sumarið sem hún var tólf ára passaði hún börn á heimili Einars Benediktssonar skálds. Fyrsta kvæði Margrétar sem birtist á prenti kom í tímaritinu 19. júní árið 1920. Ljóðabækur hennar urðu sex, smásagnasöfn- in fimm, hún samdi sex barnabækur um Toddu og Geira glókoll og þrjú leikrit. Þá þýddi hún nokkrar bækur. Margrét fékkst við kennslu í áratugi og var ritstjóri barnablaðsins Æskunnar frá 1928 til 1942, en undir hennar stjórn varð það útbreiddasta barnablaðið hér á landi. Þegar Margrét var orðin 66 ára festi hún ráð sitt og giftist Magnúsi Péturssyni kenn- ara. „Annars höfum við þekkst í mörg ár, vorum saman í kaupavinnu sem ungt fólk,“ sagði hún í viðtali við Vísi nokkrum árum eft- ir giftinguna. Fyrir ljóðelsk börn Fyrsta ljóðabók Margrétar, Við fjöll og sæ, kom út síðla árs 1933. Þá sagði Alþýðublaðið að Margrét væri einkum þekkt fyrir „barna- kvæði sem þegar eru orðin kunn og hvar- vetna sungin“ og sagt að sum þeirra væru „með þeim ágætum að þau munu lifa margar kynslóðir“. Í blaðinu var látin í ljós sú ósk að Margrét mundi halda áfram á sömu braut því að „börnin verða aldrei ljóðelskir menn ef þau læra ekki í æsku að hafa yndi af góðum ljóðum, sem kveðin eru til þeirra og fyrir þau“. Meðal þekktra barnakvæða Margrétar er Krakkar út kátir hoppa. Hlý og geðþekk ljóð Síðasta ljóðabók Margrétar, Ný ljóð, kom út árið 1970. Barnablaðið Æskan, sem Mar- grét hafði tengst sterkum böndum, gaf bók- ina út. Hún var í litlu broti, 72 síður, en ljóð- in voru sextíu. Ísland er land þitt var næstfremst í bókinni. Margrét sagði í for- málsorðum að flest ljóðin hefðu verið ort eft- ir að síðasta bók hennar, Í vökulok, kom út sex árum áður. Síðan sagði Margrét: „Þá eru í kverinu þrjú kvæði sem eru frá eldri tímum og eitt þeirra, kvæðið Ísland er land þitt, hefur birst áður í dagblaði. Bið ég svo lesendur vel að njóta, þá sem ennþá kunna að hafa einhverja ánægju af alþýðlegum, rímuðum, einföldum vísum og kvæðum.“ Richard Beck rithöfundur birti ritdóm um Ný ljóð í Tímanum. Hann sagði að ljóðin væru hlý og geðþekk, bundin stuðlum og rími. Um Ísland er land þitt sagði Richard að það væri „tilfinningarík lofgerð til ættjarð- arinnar fögru og kæru og eggjan til sona hennar og dætra um trúnað við hana í lífi og starfi“. Eiríkur Sigurðsson skólastjóri sagði í barnablaðinu Vorinu: „Þessi ljóð bera sama blæ og fyrri ljóð hennar – þau eru fögur og hlýleg.“ Sálmaskáld Margrét lést 9. desember 1971, rúmu ári eftir að síðasta ljóðabókin kom út. Í minning- argrein í Morgunblaðinu sagði Ingimar H. Jóhannesson kennari: „Það er löngu viður- kennt að Margrét var gáfuð og vel menntuð kona sem lét öll menningarmál til sín taka, kvaddi sér hljóðs með þeirri djörfung að hugsandi menn veittu máli hennar jafnan eft- irtekt. Margrét ritaði fallegt mál og hafði næman skilning á eðli og blæbrigðum ís- lenskrar tungu. Stíll hennar er léttur og skemmtilegur. Það andar hlýju frá öllu sem hún hefur látið frá sér fara.“ Þess má geta að í Sálmabók íslensku kirkj- unnar eru tveir sálmar eftir Margréti, annar frumsaminn (Þótt kveðji vinur einn og einn), hinn þýddur (Lát mig starfa, lát mig vaka). Á sínum tíma var hún eina þálifandi konan sem átti sálma í bókinni. Tuttugu ára plata Haustið 1982 gaf Geimsteinn út hljómplötu með tíu lögum eftir Magnús Þór Sigmunds- son tónlistarmann við ljóð Margrétar Jóns- dóttur úr bókinni Ný ljóð. Platan nefndist Draumur aldamótabarnsins, eftir einu ljóð- inu. Titillag plötunnar var Ísland er land þitt, flutt af Pálma Gunnarssyni og Magnúsi Þór. Árni Johnsen blaðamaður skrifaði dóm um plötuna í Morgunblaðið og sagði að hún væri eins konar vítamín fyrir íslenska sál. „Málið snýst um Ísland.“ Andrea Jónsdóttir útvarpskona sagði í dómi í Þjóðviljanum að lögin væru þrælgóð og platan brú milli kynslóða. Henni fannst Ísland er land þitt jaðra við þjóðrembu og vildi benda kórstjórnendum á það fyrir sína menn. Platan seldist upp og var endurútgefin sumarið eftir í samvinnu við Ungmennafélag Íslands og fleiri samtök. Einstök lög af plöt- unni hafa komið út á ný. Ísland er land þitt er meðal annars þekkt í flutningi Egils Ólafs- sonar og Bubba Morthens og það er til á plötum með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Karlakórnum Fóstbræðrum. Fyrir nokkrum árum voru háværar raddir um að taka Ísland er land þitt upp sem nýjan þjóðsöng Íslendinga, að minnsta kosti til hversdagsnota. Umræðan fjaraði út en lagið hefur haldið vinsældum sínum. Breyttist í tónmyndir Magnús Þór Sigmundsson tónlistarmaður, sem fæddur er 1948, hefur sagt frá því að þegar hann dvaldi um skeið á Englandi hafi hugurinn stundum leitað heim. Þá gluggaði Magnús í ljóðabækur sem hann hafði með- ferðis, meðal annars Ný ljóð Margrétar Jóns- dóttur, en honum var gefin sú bók árið 1978. Þegar Magnús kom heim á ný leitaði bókin á hugann á sérstökum augnablikum „og breyttist í tónmyndir sem ég lagði á minnið“, eins og hann orðaði það í viðtali við Morg- unblaðið. „Ég var rúmt ár að semja lögin,“ sagði hann í samtali við Æskuna vorið eftir að platan kom út. „Því oftar sem ég las ljóðin því betur skildi ég þau. Margrét Jónsdóttir var sannarlega á undan sinni samtíð. Hún var heimspekingur! Ljóð hennar einkennast af bjartsýni, von og trú.“ Í samtali við Æskuna árið 1989 sagði Magnús Þór að ljóð Margrétar hefðu gripið sig sterku taki, sérstaklega Ísland er land þitt. „Það var eitthvað hljómþýtt við það sem gerði mér létt að semja lag sem mér fannst hæfa því.“ Magnús sagði síðan: „Kvæði henn- ar lýsir kenndum sem hrærast í brjóstum allra góðra manna. Þessum kenndum lýsir hún á einlægan og opinskáan hátt. Boðskap- urinn er skýr: Hann er þakklæti, tryggð við föðurlandið og von um bjarta framtíð.“ „Það tók lagið tvö ár að ná eyrum fólks. Síðan hefur það notið ótrúlegra vinsælda,“ sagði höfundur lagsins Ísland er land þitt. Íslensk þjóð og tunga Þegar Margrét lét af störfum sem ritstjóri Æskunnar lýsti hún afstöðu sinni til landsins á svipaðan hátt og í ljóðinu þekkta: „Fylkið ykkur jafnan undir merki þeirra er vilja vernda og efla íslenskt þjóðerni og íslenska tungu og reynið ávallt að fylgja málstað þeirra sem berjast fyrir því sem er rétt, gott og fagurt.“ ÍSLAND ER LAND ÞITT Ljóðið þekkta á blaðsíðu tvö í Morgunblaðinu fimmtudaginn 17. júní 1954. Það var í þjóðhátíðarblaði Morgunblaðsins árið 1954 sem Ísland er land þitt kom fyrst fyrir sjónir al- mennings. JÓNAS RAGNARSSON kynnti sér sögu ljóðsins og lagsins, sem gefið var út fyrir 20 árum. Margrét Jónsdóttir skáldkona var fædd að Árbæ í Holtum í Rangárvallasýslu árið 1893 og var 78 ára þegar hún lést. Hún var sextug þegar Ísland er land þitt birtist fyrst á prenti. Magnús Þór Sigmundsson úr Keflavík var rúm- lega þrítugur þegar hann samdi lög við ljóð úr síðustu bók Margrétar Jónsdóttur. Höfundur hefur tekið saman efni í Daga Íslands og fleiri bækur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.