Lesbók Morgunblaðsins - 09.04.2005, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 09.04.2005, Blaðsíða 16
16 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 9. apríl 2005 U ndanfarna áratugi hefur þótt fínt að hafa litl- ar mætur á ríkisvaldinu. Það er ekki út af neinu því á tuttugustu öld var afli ríkisins oft beitt gegn þegnunum í stórum stíl. Þýskaland nasismans og Rússland komm- únismans eru augljósustu dæmin. Sú kyn- slóð sem komst til vits og ára á sjöunda og áttunda áratug aldarinnar og nú er við völd víðast hvar í heimi var því búin að sjá í gegnum drauma um hið fullkomna ríki sem fyrr- nefndar stefnur boðuðu. En þrátt fyrir almenna höfnun þess- arar kynslóðar á alræðisstefnum, hverjar svo sem þær nefndust, var hún líka vantrúuð á ríkisvaldið í borgaralegum lýðræðissamfélögum eins og það hafði þróast víða um lönd frá því á 18. og 19. öld. Átti þetta ýmsar rætur, bæði í ný- lendustríðum eftirstríðsáranna þar sem vestræn lýðræðisríki herjuðu á fyrrum þegna sína, og í hugmyndabaráttu kalda stríðsins þar sem vinstri öfl ólu á tortryggni í garð borg- aralegs lýðræðis, en þar sem óttinn við kommúnismann og ógnir hans var einnig stundum notaður af valdhöfum til að takmarka frelsi borgaranna. Vantrú á ríkinu Svo einkennilega vill til að vantrúar þessarar á ríkinu gætti bæði meðal vinstri- og hægrimanna þótt hún byggðist á ólíkum forsendum. Vinstrimenn eins og hinn áhrifamikli franski heimspekingur Jean-Paul Sartre sem hafði verið bandamaður kommúnista frá því á árum seinni heimsstyrj- aldar sögðu skilið við stefnu þeirra þegar sýnt var að ógn- arstjórn þeirra austan járntjalds ætti sér engar málsbætur. Í staðinn aðhylltist Sartre róttækan sósíalisma með anarkísku ívafi. Margir ungir vinstri menn gengu svo langt að líta á ríkið sem óvin sinn og sumir leiddust út á braut hryðjuverka, einkum á Ítalíu og í Þýskalandi á áttunda og níunda áratug- unum. Á Vesturlöndum varð tortryggni í garð ríkisins þó áhrifa- mest hjá þeim stjórnmálamönnum, oftast á hægra væng stjórnmálanna, sem sóttu innblástur í hugmyndir frjáls- hyggjunnar um athafnafrelsi í efnahagsmálum. Sú hagræna frjálshyggja sem menn eins og Milton Friedman boðuðu byggðist á þeirri grunnforsendu að ríkið ætti að skipta sér sem allra minnst af efnahagslífinu og leyfa „leyndu hönd markaðarins“ að stýra því. Líklega náði þessi stefna slíku flugi vegna þess að það þurfti með einhverjum hætti að bregðast við kreppunni sem veikti efnahag flestra vestrænna ríkja á áttunda áratugnum. Sú leið var víðast hvar farin að draga úr umsvifum ríkisins á sviði efnahagslífsins með einka- væðingu ríkisfyrirtækja og enn fremur að minnka heldur út- gjöld þess til félagsmála, en hvorttveggja hafði vaxið mikið á áratugunum eftir seinni heimsstyrjöld. Þessu hefur fylgt heldur niðrandi umræða um ríkið. Til- hneiging er til að líta svo á að allt sem gert er á vegum þess gangi hægt, og ekki síst verr, því ekki njóti aðhalds frá markaðsöflunum. Ríkisstarfsmenn þykja búa við of mikið ör- yggi og stundum er um þá sagt að þeir séu „áskrifendur að launum sínum“. Þrátt fyrir þessi neikvæðu viðhorf heldur ríkið áfram að vaxa, því þótt umsvif þess minnki e.t.v. eitt- hvað í efnahagslífinu bætast sífellt ný verkefni við á öðrum sviðum, t.d. heilsugæslu, menntun, umhverfisvernd og, síðast en ekki síst, við að tryggja rétt borgaranna og öryggi þeirra. Ástæðan fyrir þessu er líklega sú að þrátt fyrir allt er rík- ið býsna gagnlegt fyrirbæri því það sinnir einmitt þeim verk- efnum sem hér hafa verið talin upp. E.t.v. er tími kominn til að hætta að líta á það neikvæðum augum og skoða það sem jákvæða uppfinningu mannsandans, eitthvað sem er í senn hugtak, stofnun, safn hefða og aðferða til að gera hlutina, og sem oftar en ekki nær tilgangi sínum. Þess gætir í al- þjóðlegri umræðu fræðimanna að þessi viðhorfsbreyting hef- ur náð til þeirra. T.d. hefur bandaríski stjórnmálafræðing- urinn Francis Fukuyama nýlega gefið út bók sem heitir State Building, þar sem hann lýsir því hversu ríkið er mik- ilvæg umgjörð um lýðræðið, og heldur því fram að tími þjóð- ríkjanna sé síður en svo liðinn undir lok. Í þessu samhengi eru verk Blandine Kriegel afar athygl- isverð. Hún fer í smiðju lærimeistara síns Michel Foucault, sem skýrði flókin fyrirbæri eins og hugmyndir okkar um geðveiki, glæpamenn og kynlíf með því að grafast fyrir um rætur þeirra í sögunni. Foucault gerði sér sérstaklega far um að draga það fram hvernig þessar hugmyndir tengjast valdi og valdbeitingu í samfélaginu. Enn fremur sýndi hann hversu þekking okkar á þessum fyrirbærum er mótuð af téðri valdbeitingu. Foucault kallaði rannsóknir sínar sifja- fræði (eins konar ættfræði) og var fyrirmynd þeirra skrif Nietzsches um sifjafræði siðferðisins. Sifjafræði ríkisins Blandine Kriegel hefur varið stórum hluta ævi sinnar í að fjalla um það hvernig fyrirbærið sem við köllum einu nafni ríkið, en er í raun afar samsett og flókið, hefur orðið til og þróast í gegnum aldirnar. Hún rekur þessa margslungnu sögu í bók sinni „Ríkið og þrælarnir“ (L’état et les esclaves) sem kom út á ensku undir heitinu The State and the Rule of Law, eða „Ríkið og veldi laganna“. Hvor titill fyrir sig segir sitthvað um hvernig Kriegel lýsir uppruna- og þróunarsögu hins vestræna lýðræðisríkis. Til dæmis bendir hún á þá sérstöðu landanna í Vestur-Evrópu að þar er þrælahald að mestu leyti úr sögunni um árið 1000. Ánauðarbændur, sem taka á vissan hátt við af þrælum, eru hlutfallslega færri þar en austar í álfunni. Um fram allt hafa þeir að mestu leyti horfið þegar kemur fram á 18. öld. Hvernig skyldi standa á því? Skýringarnar eru að sjálfsögðu flóknar en meginástæðuna sér Kriegel í þróun ríkisvaldsins í þessum löndum frá léns- skipulagi miðalda, þar sem konungar réðu litlu, til þess kon- unglega einveldis sem víðast hvar var við lýði á 17. og 18. öld. Lykilatriðið í þessu ferli er þýðingarmikið hlutverk laga í samfélögum Vestur-Evrópu allt frá því á miðöldum. Það þarf ekki að segja okkur Íslendingum hversu mikilvæg lög voru í hugarheimi miðaldamanna. Nóg er að lesa Njálu og margar aðrar fornsögur til að sannfærast um það. En þetta gildir einnig um þau lönd sem voru leiðandi í þróuninni í átt að einveldinu, einkum England og Frakkland. Því eru skrif lögspekinga helsta heimild Kriegel í rannsókn sinni á þessari sögu, en hún hnýtir í kollega sína úr röðum stjórnmálaheim- spekinga fyrir að hafa gefið lögum of lítinn gaum hingað til. Leið úr ánauðinni? Án of mikillar einföldunar má segja að vestræn lagahefð á síðmiðöldum og nýöld sæki í þrjár hefðir. Í fyrsta lagi fluttu þær þjóðir sem flæddu yfir Vestur-Evrópu í byrjun miðalda með sér lagahefð sem enn sér stað í elstu lagasöfnum frá miðöldum, t.d. í Grágás. Í öðru lagi leiddi fornmenntastefna 12. aldar til þess að forn-rómversk lög voru rifjuð upp og mótuðu mjög lög og lagasetningu frá og með þeim tíma, ekki síst lög kirkjunnar, eða kanónísk lög eins og þau kallast. Hér var það einkum aðferðafræði Rómverja við að setja fram lög, túlka þau og skera úr ágreiningsmálum sem var þýðing- armest. Í þriðja lagi – og þessu hafa fræðimenn allt of oft gleymt, ekki síst undanfarna öld eða svo – er það kristnin og það sem hún er með í farangrinum. Nú á dögum er mönnum e.t.v. ekki tamt að líta til trúarinnar sem uppsprettu laga en lög eru mjög mikilvægur þáttur kristninnar og á það rætur að rekja til uppruna hennar í trúarbrögðum gyðinga. Móse fékk boðorðin tíu frá Guði á Sinaí fjalli og hann setti þjóð sinni lög sem komin voru frá Guði. Þessi lög er enn að finna í hinni kristnu Biblíu. Það var þýðingarmikil fyrirmynd kristinna þjóða að fyrir Ísraelsþjóð voru lög þessi leiðin úr ánauðinni. Þau flýðu þrældóminn í Egyptalandi, héldu út í eyðimörkina og tóku sér lög í stað Faraós, lög sem Guð hafði gefið þeim. Kriegel finnur þessari sögu stað í hugsun lögspekinga nýaldar og er hún notuð bæði til að halda því fram að ánauð sé andstæð Guðs vilja en líka til að halda á lofti mikilvægi laganna og því að pólitískt vald væri undirskipað þeim. Þetta tvinnaðist saman við kristnar hugmyndir um náð Drottins og að hver einstaklingur geti vænst sálarheillar. Því hlutu lögin að gilda fyrir alla og hæpið annað en að ríkið og holdgervingur þess, konungurinn, tryggði með lögum frelsi og öryggi allra. Hugsunar þessarar gætir hjá mikilvægum stjórn- málaheimspekingum nýaldar, hjá Bretum eins og Hobbes og Locke, en einnig hjá frönskum hugsuðum á 17. og 18. öld sem Kriegel hefur grafið úr gleymsku. Þeir höfðu jákvæða afstöðu til konungsríkisins og voru því fremur litnir horn- auga eftir frönsku byltinguna og gleymdir og grafnir. Nið- urstaða Kriegel er að stjórnspekilegur grundvöllur einveld- isins hafi verið mun flóknari og margslungnari en menn hafa talið. Fræg orð Lúðvíks 14.: „Ríkið, það er ég“ þýða því ekki að ríkið sé framlenging á hans sjálfi, heldur að sjálf hans er undirskipað ríkinu. Ríkið hefur holdgerst í honum og hann er þjónn þess. Á dögum hans, þ.e. á síðari hluta 17. aldar, var ríkið í raun orðið að sjálfstæðri hugarsmíð, en þurfti raunar enn á holdgervingu að halda. Þetta var nauðsynlegur undanfari þess ástands sem við þekkjum í dag þar sem ríkið þarf ekki að holdgerast í einstaklingi á sama hátt, heldur býr í hugmyndum, stofnunum, hefðum, en um fram allt í lög- unum. Hér er komin skýring á ensku heiti bókar Kriegel, „Ríkið og veldi laganna“. Lykillinn að velgengni vestrænna lýðræð- isríkja er að áður en lýðræði var komið á í þessum löndum var hlutverk ríkisins að halda uppi lögum sem tryggðu ör- yggi, rétt og frelsi borgaranna. Ríkið er því ekki leiðin til ánauðar, a.m.k. ekki réttarríkið eins og það þróaðist á Vest- urlöndum. Þvert á móti er það leiðin úr ánauðinni og því ber að verja það og láta það þróast áfram til að það þjóni enn betur þessu hlutverki sínu. Trúin á ekki erindi í skólum Franska ríkið er því ekki, frekar en önnur vestræn lýðræð- isríki, aðeins afurð Upplýsingarinnar og þess sem gerðist eftir hana, þ.e. byltingarumrót 19. aldar, heldur eiga þau sér mun lengri sögu. Þessa sögu ætlar Kriegel að nota til að varpa ljósi á eitt af mestu hitamálum síðustu ára í Frakk- landi, lög þau sem sett voru nýlega og banna börnum að ganga með áberandi trúartákn í skólum ríkisins. Lög þessi voru sett fyrir fáum misserum til að leysa ára- langar deilur sem staðið höfðu vegna þess að sumir skóla- stjórnendur vildu banna stúlkum úr röðum múslíma að bera slæðu sem hylur hár þeirra. Þau vöktu neikvæð viðbrögð víða, þ. á m. í mörgum löndum múslíma, ekki bara hjá þeim sem harðastir eru í trúnni, heldur líka hjá frjálslyndum bar- áttukonum fyrir mannréttindum í ríkjum múslímum, konum á borð við friðarverðlaunahafa Nóbels, Sírin Ebadí. Hún tal- aði gegn lögunum á sínum tíma á þeim forsendum að með þeim væri vegið að trúfrelsi og að þau myndu auka spennuna milli múslíma og annarra hópa í Frakklandi. Staðreyndin er sú að lögin hafa virkað vel og ekki er annað að sjá en að frið- ur ríki um þau nú. Ástæðunnar fyrir þessu er að leita í hinu illþýðanlega franska hugtaki „laïcité“ (e. „secularity“). Með því er átt við að til sé eitthvert opinbert rými, sem allir eiga jafnan aðgang að og sama rétt. Rými þetta liggur utan við trúna og þangað á trúin ekki erindi. Þetta á t.d. við um skóla. Franska ríkið er „laïc“, þ.e. að það gerir sér far um að tengja sig ekki við neina trú, enda sé hún einkamál hvers og eins. Þó nokkur sátt virðist vera um þetta í Frakklandi enda á það rætur að rekja aftur til trúarbragðastyrjalda 17. aldar og hvernig leyst var úr þeim. Blandine Kriegel mun skýra þetta hugtak, rekja sögu þess og ræða hvernig það virkar í frönsku samfélagi samtímans, en einnig hvernig það getur skírskotað til annarra sam- félaga. Enginn sem áhuga hefur á sambúð fólks af ólíkum menningaruppruna en einnig á sambúð ríkis og trúfélaga má láta fyrirlestur Blandine Kriegel nk. fimmtudag fara framhjá sér. Ríkið tryggir frelsi! Um Blandine Kriegel og hugmyndir hennar um ríkisvald og frelsi einstaklinga Einn af aðalfyrirlesurum á þingi sem haldið verður frú Vig- dísi Finnbogadóttur til heiðurs dagana 14. og 15. apríl nk. verður franskur stjórnmálaheimspekingur, Blandine Kriegel. Í ritum sínum hefur hún m.a. sett fram mikilvægar hug- myndir um sögu og hlutverk ríkisvaldsins, m.a. í bókunum Ríkið og þrælarnir og Heimspeki lýðveldisins. Síðustu ár hef- ur hún einnig starfað sem sérstakur ráðgjafi Jacques Chirac Frakklandsforseta í málefnum innflytjenda og er formaður Haut conseil de l’intégration, ráðgjafanefndar frönsku rík- isstjórnarinnar um aðlögun fólks af erlendum uppruna að frönsku samfélagi. Fimmtudaginn 14. apríl kl. 17.15 mun hún flytja fyrirlestur í hátíðarsal Háskóla Íslands um stefnu Frakka í trúmálum og koma m.a. inn á stöðu trúfélaga í frönsku samfélagi og hvernig tekið hefur verið á málum eins og hvort múslímskar stúlkur eigi að hafa leyfi til að bera slæðu í skólum landsins. Sama kvöld, kl. 20.30, heldur hún annan fyrirlestur um Michel Foucault í húsakynnum Alliance française við Tryggvagötu. Báðir fyrirlestrarnir verða á frönsku en enskri þýðingu verður dreift til áheyrenda, auk þess sem spurningar og umræður verða túlkaðar jafnóðum á íslensku. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir. Blandine Kriegel Hún á að baki merkan fræðimannsferil, var m.a. nemandi og um langt árabil einn helsti samstarfsmaður Michels Foucault. Eftir Torfa H. Tulinius tht@hi.is Höfundur er prófessor í frönsku og miðaldafræðum við Háskóla Íslands. ’Hún fer í smiðju lærimeistarasíns Michel Foucault, sem skýrði flókin fyrirbæri eins og hug- myndir okkar um geðveiki, glæpamenn og kynlíf með því að grafast fyrir um rætur þeirra í sögunni. Foucault gerði sér sér- staklega far um að draga það fram hvernig þessar hugmyndir tengjast valdi og valdbeitingu í samfélaginu. ‘

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.